Hoppa yfir valmynd

1160/2023. Úrskurður frá 16. nóvember 2023

Hinn 16. nóvember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1160/2023 í máli ÚNU 22100006.

Málsatvik

Á fundi úrskurðarnefndar um upplýsingamál hinn 5. október 2022 ákvað nefndin að taka upp að nýju mál sem lauk með úrskurðum nr. 935/2020, 1009/2021 og 1020/2021. Í málunum komst nefnd­in m.a. að þeirri niðurstöðu að ríkisskattstjóra væri ekki heimilt að afhenda upplýsingar um upp­hæðir hluta­­fjármiða úr gögnum sem tengjast skráningu raunverulegra eigenda, sbr. lög um skrán­ingu raun­veru­legra eigenda, nr. 82/2019. 

Í máli sem lauk með úrskurði nr. 935/2020 var deilt um rétt kæranda, sem er fjölmiðill, til aðgangs að öllum gögnum í vörslum fyrirtækjaskrár sem tengjast skráningu á raunverulegu eignarhaldi til­tek­inna fyrirtækja, frá upphafi slíkrar skráningar. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að gögnin væru undan­þegin upplýsingarétti með vísan til laga um skráningu raunverulega eigenda, eða þagn­ar­skyldu­ákvæðis í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Var því leyst úr rétti kæranda til aðgangs að gögn­un­um á grundvelli upplýsingalaga. Niðurstaða nefndarinnar var sú að ríkisskattstjóra var gert skylt að veita kæranda, Ríkis­útvarpinu ohf., aðgang að gögnum fyrirtækjaskrár um raunverulegt eignarhald félag­anna 365 hf., Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., ION Finance ehf., Lyfja og heilsu hf., PCC Bakki­Sili­con hf. og Rhea ehf. á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga en með vísan til á 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna, skyldi þó afmá upplýsingar um upphæðir á hlutafjármiðum. Nánar tiltekið var það afstaða úrskurðar­nefnd­ar­innar að í þeim fælust upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni ein­stak­linga sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu.

Á sama grundvelli komst nefndin að þeirri niður­stöðu að ríkisskattstjóra væri óheimilt að veita kær­anda aðgang að bréfi A lögmanns til B lögmanns, dags. 17. apríl 2014. Þá taldi úrskurðarnefndin óheim­ilt, með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, að veita kær­anda aðgang að upplýsingum um vega­bréfs­númer sem fram kæmi í tilkynningu um raunverulega eig­endur félagsins PCC BakkiSilicon hf., dags. 3. mars 2020, og afriti af vegabréfi sem fylgdi sömu til­kynningu, en þær upplýsingar vörðuðu einka­hags­muni einstaklinga sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færu í skilningi 9. gr. upplýsingalaga.

Í máli sem lauk með úrskurði nr. 1009/2021 var deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum sem afmáðar voru úr gögnum varðandi raunverulegt eignarhald félagsins Langisjór ehf. Nánar tiltekið var um að ræða nafnverð hlutafjár á hlutafjármiðum og númer vegabréfa sem fram koma á vottorði úr fyrir­tækjaskrá Möltu. Synjun ríkisskattstjóra var reist á því að samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar upp­lýsingamál í máli nr. 935/2020 væri embættinu skylt að afmá upplýsingar um fjárhæðir sem fram koma á hlutafjármiðum einstaklinga sem og númer vegabréfa. Með vísan til úrskurðar nr. 935/2020 stað­festi nefndin niðurstöðu ríkisskattstjóra. Þá vísaði nefndin öðrum þætti kærunnar frá með vísan til þess að ekki hafi legið fyrir synjun um beiðni gagnanna. Jafnframt vísaði nefndin frá þeim þætti kær­unnar er sneri að upplýsingum í tengslum við gjaldþrot annars félaganna þar sem upplýsingarnar féllu undir sérstakt þagnarskylduákvæði laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda, nr. 150/2019. Loks taldi úrskurðarnefndin ríkis­skatt­stjóra skylt að verða við beiðni kæranda um afhendingu umbeð­inna gagna á því formi sem þau væru varð­veitt hjá embættinu í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin lagði fyrir ríkisskattstjóra að afhenda umbeðin gögn á raf­rænu formi.

Í máli sem lauk með úrskurði nefndarinnar nr. 1020/2021 var deilt um rétt kæranda til aðgangs að upp­lýsingum um hlutafjáreign hvers og eins hluthafa sem afmáðar voru úr gögnum varðandi raun­veru­legt eignarhald félaganna Samherja ehf., Samherja Holding ehf. og K&B ehf. Synjun ríkis­skatt­stjóra var reist á því að samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar upplýsingamál í máli nr. 935/2020 væri embættinu skylt að afmá upplýsingar um fjárhæðir sem fram koma á hlutafjármiðum einstaklinga, þar á meðal um nafnverð hlutafjárins. Nefndin taldi ljóst að upplýsingar um nafnverð hlutafjár í eigu einstak­linga sem afmáðar voru úr þeim upplýsingum, sem kærandi fékk afhentar, væru hluti af þeim fjár­hæð­um sem fram koma á hlutafjármiðum. Með hliðsjón af framangreindu taldi úrskurðarnefndin ótví­rætt að um væri að ræða upplýsingar sem óheimilt er að veita aðgang að með vísan til 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. m.a. framangreindan úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 935/2020. Með hlið­sjón af framangreindu staðfesti nefndin ákvörðun ríkisskattstjóra að þessu leyti.

Þá taldi úr­skurð­­ar­nefndin að ríkisskattstjóra væri skylt að verða við beiðni um afhendingu um­beð­inna gagna á því formi sem þau væru varðveitt hjá embættinu í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 18. gr. upp­­lýs­inga­laga og lagði fyrir embættið að afhenda umbeðin gögn á rafrænu formi. Þá felldi nefndin ákvörð­un ríkis­­skatt­stjóra um að strika yfir upplýsingar um nafnverð hlutafjár í eigu lögaðila úr gildi og vísaði til nýrrar meðferðar.

Málsmeðferð

Sú ákvörðun nefndarinnar að taka upp að nýju málin sem lauk með úrskurðum nr. 935/2020, 1009/2021 og 1020/2021 var með bréfum, dags. 6. október 2022, kynnt Skatt­inum og A. Skattinum og A var veittur kostur á að koma á framfæri frekari athuga­semdum vegna málsins til 20. október 2022. Þá óskaði nefndin jafn­framt eftir því að Skatturinn léti nefndinni í té eftirfarandi gögn, þar sem ekki væri séð að þau lægju fyrir í framangreindum málum:

  1. Þau gögn sem Skatturinn afhenti A í kjölfar úrskurðar nefndarinnar nr. 935/2020, þ.e. með þeim útstrikunum sem tilgreindar voru í úrskurðarorðinu.
  2. Gögn félagsins K&B ehf., sem skilað var til Skattsins vegna skráningar raunverulegra eigenda, án útstrikana. 

Í umsögn Skattsins, dags. 27. október 2022, kemur fram að í málum nr. 935/2020, 1009/2021 og 1020/2021 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að Skattinum væri óheimilt að veita nánar til­tekn­ar upp­lýsingar úr gögnum sem tengjast skráningu raunverulegra eigenda, sbr. lög nr. 82/2019. Skatt­­ur­inn vísar til þess að samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga skuli veita almenningi að­gang að fyrir­liggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, svo og tilteknum fyrirliggjandi gögnum, með þeim tak­mörkunum sem greinir í lögunum sjálfum. Á meðal þeirra takmarkana sé bann 9. gr. laganna við að almenn­ingi sé veittur aðgangur að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sann­­gjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut eigi.

Þá áréttar Skatturinn að samkvæmt athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga þá þurfi afhending upplýsinga um fjárhagsmálefni einstaklinga að byggjast á lagaheimild. Eftir því sem birting eða afhending nær til fleiri einstaklinga og eftir því sem hún helgast síður af sérstökum aðstæðum eða hagsmunum verði að gera ríkar kröfur til lagagrundvallarins. Skatturinn vísar til þess að á meðan ekki hvíli afdráttarlaus skylda á Skattinum að birta gögn samkvæmt lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, verði að telja óvarlegt að skylda Skattinn til að afhenda umbeðin gögn. Samhliða umsögn voru nefnd­inni afhent umbeðin gögn.

Í umsögn A, dags. 28. október 2022, kemur fram að með úrskurði nr. 935/2020 hafi í meginatriðum verið staðfestur réttur fjölmiðla og almennings til að rýna stjórnsýslu í kring­­um skráningu raunverulegra eigenda fyrirtækja. Meginniðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafi verið mikil­væg og góð, því hún hafi tryggt aukið gagnsæi um eignarhald íslenskra fyrirtækja og mögu­leika almenn­ings til að fylgja því eftir að upplýsingagjöf um eignarhaldið sé reist á traustum gögnum og réttri skráningu. Þau frumgögn sem úrskurðurinn tryggir aðgang að séu þó oft á tíðum gagnslítil þegar búið sé að afmá úr þeim upplýsingar um hlutafjáreign hvers og eins hluthafa. Án þeirra upp­lýs­inga sé einfaldlega ekki hægt að staðfesta að skráning raunverulegra eigenda sé í samræmi við inn­send gögn.

Þá kemur fram að yfirlýst markmið laga um skráningu raunverulegra eigenda sé að tryggja að ávallt séu til staðar réttar og áreiðanlegar upplýsingar um raunverulega eigendur fyrirtækja, svo að unnt sé að greina og koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Því sé ljóst að miklir al­manna­­hags­munir séu fyrir því að fullt gagnsæi ríki um bæði raunverulegt eignarhald skráningar­skyldra aðila samkvæmt lögunum og um alla stjórnsýslu sem tengist skráningunni og eftirliti með henni.

Jafnframt kemur fram í umsögninni að hagsmunir almennings af því að fá nákvæmar upplýsingar um hluta­fjáreign raunverulegra eigenda, og geta þannig meðal annars kynnt sér hvernig fyrirtækjaskrá rækir lögbundið hlutverk sitt, hljóti að teljast miklir og vega mun þyngra en hagsmunir hluthafa fyrir­tækjanna af því að halda upplýsingunum leyndum, enda hafi sjónarmið um gagnsæi í viðskiptum verið talin vega það þungt að upplýsingar um hlutafjáreign eigi að vera aðgengilegar í opinberum gögn­um.

A vísar til þess að þegar ársreikningalögum var breytt með lögum nr. 14/2013, og ákvæði um að birta skuli upplýsingar um hlutafjáreign allra hluthafa bætt inn í lögin, kom til að mynda fram í máli framsögumanns meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar, þegar hann gerði grein fyrir breyt­ingar­tillögu nefndarinnar þessa efnis, að þetta væri gert „til að stuðla að auknu gagnsæi.“ Því væri  ljóst að löggjafinn liti alls ekki á upplýsingar um hlutafjáreign einstaklings í tilteknu félagi sem við­kvæm­ar upplýsingar. Þvert á móti hafi verið talið nauðsynlegt að þessar upplýsingar væru opinberar til að gagnsæi gæti ríkt um eignarhald íslenskra fyrirtækja.

Vísar A til þess að það geti ekki talist sann­gjarnt og eðlilegt, í skilningi 9. gr. upplýsingalaga, að upplýsingar um upphæðir á umræddum hluta­fjár­miðum fari leynt. Hvað þá að samkvæmt almennum sjónarmiðum séu upplýsingarnar „svo við­kvæm­ar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna,“ og vísar hann þar til athugasemda við frum­varpið sem varð að gildandi upplýsingalögum. Upp­lýs­ing­ar­nar veiti ekki slíka innsýn í fjár­hags­málefni viðkomandi einstaklinga að birting þeirra gangi gegn frið­helgi einkalífs þeirra eða valdi þeim tjóni.

A telur rétt að geta þess að sums staðar í þeim gögnum sem hér er fjallað um séu upplýsingar um fjárhæðir arðgreiðslna. Hann telur þær upplýsingar geti ekki heldur fallið undir 9. gr. upp­lýsinga­laga, enda ætti hver sem er með einföldum hætti að geta reiknað hversu mikinn arð tiltekinn hluthafi fékk greiddan á árinu út frá upplýsingum í ársreikningum. Í ársreikningi sjáist hversu mikinn arð félagið greiddi hluthöfum það árið. Með því að skoða hlutafjáreign tiltekins hluthafa ætti því með ein­földum hlutfallsreikningi að fást sú fjárhæð sem hluthafinn fékk greidda í arð á árinu.

Þá vísar hann til þess að hagsmunir almennings af gagnsæi um stjórnsýslu fyrirtækjaskrár séu þeim mun ríkari þar sem Ísland hafi sætt alþjóðlegum þrýstingi fyrir lélegar varnir gegn peningaþvætti. Árið 2019 gerði alþjóðlegur framkvæmdahópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðju­verka (FATF) alvarlegar athugasemdir við innleiðingu tilmæla hópsins á Íslandi og setti Ísland tíma­bundið á lista yfir ríki sem teljast hafa ófullnægjandi varnir.

A vísar til þess að fjallað er um aðkomu almennings og fjölmiðla að því að upplýsa um ólög­mæta viðskiptahætti í inngangskafla tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/843 frá 30. maí 2018, um breytingu á tilskipun (ESB) 2015/849 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðjuverka og um breytingu á tilskipunum 2009/138/EB og  2013/36/ESB. Þar segi:

Aðgangur almennings að upplýsingum um raunverulegt eignarhald gerir hinu borgaralega sam­félagi kleift að grannskoða upplýsingarnar betur, þ.m.t. fréttamiðlum eða borgara­leg­um samtökum, og stuðlar að viðhaldi trausts á heilindum í viðskiptum og á fjár­mála­kerf­inu. Þetta getur verið framlag í baráttunni gegn misnotkun á fyrirtækjum og öðrum lög­aðil­um og lagalegu fyrirkomulagi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka, bæði með því að hjálpa til við rannsóknir og vegna orðsporsáhrifa, að því gefnu að hver sá sem á í viðskiptum viti deili á raunverulegum eigendum. Einnig auðveldar þetta fjár­mála­stofn­un­um sem og yfirvöldum tímanlegt og skilvirkt aðgengi að upplýsingum, þ.m.t. yfir­völd­um í þriðju löndum sem taka þátt í baráttunni gegn slíkum brotum. Aðgengið að slíkum upp­lýsingum mun einnig hjálpa til við rannsóknir á peningaþvætti, tengdum frumbrotum og fjármögnun hryðjuverka.

Þá vísar A til þess að til að skráning raunverulegra eigenda nýtist sem skyldi verði al­menn­ing­ur að geta treyst því að skráningin sé rétt og að góðir stjórnsýsluhættir séu viðhafðir við skráning­una og við eftirlit með henni. Þess vegna sé mikilvægt að gagnsæi ríki um stjórnsýsluna og að tryggt sé að fjölmiðlar og almenningur geti rýnt hana. Í því sambandi vísar hann til þess að yfirlýst markmið upp­lýsingalaga sé að tryggja gagnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, m.a. í þeim til­gangi að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings með opinberum aðilum. Til að þetta sé hægt sé lykil­atriði að upplýsingar um hlutafjáreign hvers og eins hluthafa séu aðgengilegar, enda hefur hluta­fjár­eign hvers einstaklings áhrif á hvort viðkomandi telst vera raunverulegur eigandi, sbr. skil­grein­ingu á raun­verulegum eiganda í 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peninga­þvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka, nr. 140/2018.

A vísar til þess að það sé sérstaklega mikilvægt að fjölmiðlar geti rýnt hagsmunatengsl þeirra sem fara með opinbert vald. Meðal þátttakenda í viðskiptalífinu geti verið háttsettir embættismenn, dóm­arar, þingmenn og sveitarstjórnarmenn, sem og makar þeirra, foreldrar, börn og aðrir ættingjar. Að­gengi að upplýsingum um hlutafjáreign einstaklinga auðveldi fjölmiðlum einnig að upplýsa um tilvist, eðli og umfang slíkra hagsmunatengsla. Tengsla sem geti skipt almenning verulegu máli.

Niðurstaða

1.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ákvað að endurupptaka mál sem lokið var með úrskurðum nr. 935/2020, 1009/2021 og 1020/2021, í þeim tilgangi að kanna hvort úrskurðirnir væru haldnir efnis­ann­mörkum og hvort fram hefðu komið gögn eða upplýsingar sem gætu haft áhrif á niðurstöður úr­skurð­anna. Við endurupptökuna er höfð hliðsjón af 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, auk ólög­festra réttarreglna stjórnsýsluréttar um endurupptöku og horft til þess að ákvörðun um að endur­upp­taka málin er ívilnandi fyrir kæranda.  

Í málunum þremur komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu að ríkisskattstjóra væri ekki heimilt að af­henda upplýsingar um upphæðir hlutafjármiða úr gögnum sem tengjast skráningu raunverulegra eig­enda, sbr. lög nr. 82/2019. Úrskurðarnefndin taldi ótvírætt að um væri að ræða upplýsingar sem óheim­ilt er að veita aðgang að með vísan til 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Endurupptaka málanna þriggja lýtur að þessum þætti málanna en ekki öðrum atriðum sem nefndin tók einnig afstöðu til í úr­skurð­um sínum. Nefndin þarf því við endurupptöku að leggja mat á það hvort að þær upplýsingar sem um ræðir hafi ranglega verið felldar undir undanþáguheimild 9. gr. upplýsingalaga. 

Nefndin telur ekki forsendur til að rekja í löngu máli kæru, málsatvik, málsmeðferð og niðurstöður málanna þriggja umfram það sem fram kemur í málsatvikakafla hér að framan en vísar almennt til þeirra. Nefndin fjallar þó um tiltekin atriði hér að aftan til viðbótar við það sem fram kemur í úrskurðum.

Nefndin hefur yfirfarið þau gögn sem hún óskaði eftir frá Skattinum þ.e. annars vegar þau gögn sem Skatt­urinn afhenti A í kjölfar úrskurðar nefndarinnar nr. 935/2020, þ.e. með þeim útstrik­un­um sem tilgreindar voru í úrskurðarorðinu og hins vegar þau gögn félagsins K&B ehf. sem skilað var til Skattsins vegna skráningar raunverulegra eigenda, án útstrikana. Nefndin fær ekki betur séð en að gagnabeiðnir hafi verið afgreiddar í samræmi við niðurstöður úrskurðanna.

2.

A hefur vísað til þess að upplýsingar um hlutafjáreign fólks teljist ekki viðkvæmar. Um þetta vitni skýr vilji löggjafans sem hafi á síðustu árum markað þá stefnu að sem mest gagnsæi eigi að vera um eignarhald í íslensku viðskiptalífi. A vísar til þess að upplýsingarnar sem hann hafi óskaði eftir séu líka aðgengilegar almenningi í öðrum opinberum gögnum. Hann telur niðurstöður nefnd­arinnar í mál­unum byggðar á rangri túlkun á 9. gr. upplýsingalaga þar sem kveðið er á um tak­markanir á upp­lýs­ingarétti almenn­ings vegna einkahagsmuna.

Úrskurðarnefndin tekur fram að í málunum var leyst úr rétti kæranda til aðgangs að gögnum á grund­velli upplýsingalaga og féllst nefndin ekki á það að gögnin væru undanþegin upplýsingarétti með vísan til laga um skráningu raunverulega eigenda, nr. 82/2019, eða þagnarskylduákvæðis laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Í niðurstöðukafla í máli úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 935/2020 er fjallað með ítarlegum hætti um ákvæði laga nr. 82/2019 auk þess sem þar er umfjöllun um ákvæði tilskipunar (ESB) 2015/849 eins og henni var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843. Fram kemur í úrskurðinum:

Samkvæmt 7. gr. laga um skráningu raunverulegra eigenda skulu tilteknar upplýsingar vera aðgengilegar í skrá um raun­verulega eigendur. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsinga­mál er ekki tækt að gagnálykta frá ákvæð­inu svo að óheimilt sé að veita almenningi aðrar upp­lýsingar en þar eru upp taldar. Er það í sam­ræmi við þann skilning sem leggja má í ákvæði 5. mgr. 30. gr. tilskipunar (ESB), eins og því var breytt með tilskipun (ESB) 2018/843 en þar segir að almenningur skuli „að minnsta kosti“ hafa að­gang að þeim upp­lýs­ingum sem þar eru upp taldar. Jafnframt verður að hafa í huga að í 15. lið að­farar­orða til­skipunarinnar er með beinum hætti gert ráð fyrir því að aðildarríkin geti leyft meiri að­gang en þann sem er veittur samkvæmt tilskipuninni.

Að auki verður að orða undanþágur frá upplýsingarétti með skýrum hætti en í lögum nr. 82/2019 kemur hvergi fram að sérstök þagnarskylda skuli ríkja um aðrar upplýsingar sem þar eru nefndar. Þar af leiðandi er ekki hægt að líta svo á að með ákvæði 4. mgr. 7. gr. sé kveðið á um að óheimilt sé að veita aðgang að öðrum upplýsingum um raunverulega eig­endur en þeim sem gera skal aðgengilegar í skrá. Verður því synjun ríkisskattstjóra ekki byggð á ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga um skráningu raun­veru­legra eigenda.

Í ljósi framangreinds, og þess að þau gögn og þær upplýsingar sem um ræddi yrðu ekki felldar undir þagnar­skylduákvæði 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, var leyst úr rétti kæranda um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga. Í því sambandi horfði nefndin til reglu 1. mgr. 5. gr. um að sé þess óskað er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að til­teknum fyrirliggjandi gögnum og ákvæðis 9. gr. upplýsingalaga þar sem fram kemur að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Áréttaði nefnd­in að ákvæðið fæli í sér undantekningu frá upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upp­lýsingalaga og bæri því að túlka það þröngri lögskýringu.

Í niðurstöðu nefndarinnar kemur fram:

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir um­beð­in gögn, sem ríkisskattstjóri afhenti nefndinni í trúnaði. Hvað varðar gögn um raunverulega eig­endur félaganna 365 hf. og Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. verður til þess að líta að umræddir lögaðilar teljast til fjöl­miðlaveitu í skilningi 15. tölul. 2. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, samkvæmt e-lið 21. gr. sömu laga skal birta upplýsingar um eignarhald á fjölmiðlaveitu á heimasíðu fjöl­miðla­nefndar. Var ákvæði þetta sett til þess að tryggja gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum.

Gengið er út frá því í lögum nr. 38/2011 að almenningur hafi ríka hagsmuni af því að geta kynnt sér upp­lýsingar um raunverulega eigendur fjölmiðlafyrirtækja. Þá er það mat úr­skurðarnefndarinnar að upp­lýs­ingarnar sem um ræðir í þessu máli veiti ekki slíka innsýn inn í fjárhagsmálefni viðkomandi eig­enda að birting þeirra gangi gegn friðhelgi einkalífs þeirra eða valdi tjóni. Er við það mat óhjá­kvæmi­legt að horfa til þess að ákvæði laga nr. 38/2011 gera ráð fyrir að upplýst sé um eignarhald á fjöl­miðlaveitu óháð því hversu stór eða lítill eignarhlutur viðkomandi einstaklings eða lögaðila er. Þar af leiðandi er ekki heim­ilt að undanþiggja upplýsingar um eignarhald félaganna upplýsingarétti á grund­velli 9. gr. upp­lýsingalaga. Þetta á þó ekki við upphæð hlutafjármiða sem afhentir voru fyrir­tækja­skrá en úrskurðarnefndin telur þær upplýsingar falla undir 9. gr. upplýsingalaga. Verður því ríkis­­skattstjóra gert að afmá þær upplýsingar, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Að auki telur nefndin rétt að undanþiggja bréf A lögmanns til B lögmanns, dags. 17. apríl 2014 á sama grundvelli.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur einnig yfirfarið gögn um raunverulega eigendur félaganna ION Finance ehf., Lyfja og heilsu hf., PCC BakkiSilicon hf. og Rhea ehf. Að mati nefndarinnar geta þær upplýsingar um eignarhald félaga sem fyrir liggja í málinu ekki talist til viðkvæmra upplýsinga um einka­hagi einstaklinga né mikilvæga virka viðskipta- eða fjárhagshagsmuni lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upp­lýs­ingalaga. Hins vegar ber ríkisskattstjóra að afmá upplýsingar um upphæðir hluta­fjár­miða á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Þá telur úr­skurð­ar­nefnd­in óheim­ilt, með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, að veita kæranda aðgang að upplýs­ing­­um um vega­bréfs­númer sem fram kemur í tilkynningu um raunverulega eigendur fél­ags­ins PCC Bakki­Silicon hf., dags. 3. mars 2020, og afriti af vegabréfi sem fylgdi sömu til­kynn­ingu, en þær upp­lýs­ingar varða einkahagsmuni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðli­legt að leynt fari í skilningi 9. gr. upp­lýsingalaga.

Í úrskurðum í málum nr. 1009/2021 og 1020/2021 koma í öllum atriðum sem hér skipta máli fram sam­bærilegar forsendur.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að upplýsingar um upphæðir hlutarfjármiða séu að­gengi­legar almenningi með sambærilegum hætti á öðrum vettvangi.

3.

Nefndin telur rétt að árétta að lög um skráningu raunverulegra eigenda fela í sér inn­leið­ingu á ákvæð­um 30. og 31. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/849 frá 20. maí 2015 um ráð­staf­anir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis eða til fjármögnunar hryðju­verka­starf­semi, um breyt­ingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012, og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB og tilskipun ráðsins og fram­kvæmda­stjórnar­inn­ar 2006/70/EB. Þá fela lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðju­verka, nr. 140/2018, í sér innleiðingu á sömu tilskipun.

Í tengslum við lög um skráningu raunverulegra eigenda telur nefndin rétt að taka fram að Evrópu­dómstólinn komst að því hinn 22. nóvember 2022, með sameiginlegri niðurstöðu í málum WM og Sovim SA gegn Luxembourg Business Registers (C-37/20 og C-601/20), að 30. gr. tilskip­unar (ESB) 2015/849, með síðari breytingum, fæli í sér brot á þeim grundvallarréttindum sem tryggð væru í 7. og 8. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi (réttindaskráin). Ákvæði 7. gr. rétt­inda­skrárinnar felur í sér reglur um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og ákvæði 8. gr. inniheldur reglur um vernd persónuupplýsinga. Á grundvelli tilskipunarinnar var aðildarríkjunum gert skylt að inn­leiða lands­löggjöf þar sem þess væri krafist að aðilar, sem falla undir gildissviðið, geymdu upp­lýs­ing­ar um raun­verulegan eiganda eða raunverulega eigendur og kæmu á fót miðlægri skrá þar sem þessar upp­lýs­ing­ar væru aðgengilegar öllum sem hefðu lögmæta hagsmuni af því að fá vitneskju um upplýsingarnar.

Með tilskipun 2018/843 var tilskipun 2015/849 breytt þannig að reglur um aðgang voru útvíkkaðar sem gerði öllum almenningi kleift að nálgast upplýsingarnar. Dómstóllinn taldi að aðgangur að fram­an­­­greindum upplýsingum fæli í sér alvarlegt inngrip í grundvallarréttindi til friðhelgi einkalífs og vernd­ar persónuupplýsinga. Með því að heimila almenningi aðgang að skrám af þessu tagi væri brotið gegn 7. og 8. gr. réttindaskrárinnar. Í dómsorði kemur fram að ákvæði tilskipunarinnar sem skyld­ar aðild­ar­ríki til þess að gera upplýsingar um raunverulega eigendur aðgengilegar almenningi í öll­um til­vik­um sé ógilt.

4.

Úrskurðarnefndin hefur, við endurupptöku málanna, tekið til sérstakrar skoðunar hvort fyrri úr­skurð­ir hafi ranglega fellt upplýsingar undir undanþáguákvæði 9. gr. upplýsingalaga. Þar er um að ræða upp­lýs­ingar um upphæðir hlutafjármiða, þ.e. um hlutafjáreign tiltekinna einstaklinga og eftir atvik­um lög­aðila í tilteknum félögum. Ákvæði 9. gr. upplýsingalaga hefur verið túlkað svo að það taki til upplýsinga í vörslum stjórnvalda um fjárhagsleg lögskipti eða viðskipti einstaklinga við aðra einka­aðila og stjórn­völd­um sé þar með óheimilt að veita aðgang að þeim á grundvelli 5. gr. upp­lýs­inga­laga. Sem dæmi um þessa túlkun má m.a. vísa til úrskurða nefndarinnar í A-94/2000 (upp­lýs­ingar um netaveiði einstaklinga í Hvítá/Ölfusá), A-45/2002 (upplýsingar um ráðstöfun greiðslu­marks eftir sölu á ríkisjörð), A-222/2005 (upplýsingar um aðilaskipti að greiðslumarki milli einstakra lögbýla) og A-222/2005 (upp­lýs­ingar um hverjir hafa staðið að viðskiptum um aflamark í þorski).

Hvað varðar þær upplýsingar sem hér um ræðir má hafa hliðsjón af umfjöllun Evrópudómstólsins í því máli sem áður var nefnt. Þar fjallaði dómstóllinn um opinbera skrá um raunverulega eigendur þar sem fram komu að lágmarki nafn, fæðingarár og -mánuður, búseturíki, ríkisfang og eðli og umfang eign­­ar­hluta raunverulegs eiganda. Í dómi Evrópudómstólsins segir að upplýsingarnar séu þess eðlis að unnt sé að kortleggja verðmæti eigna og eðli fjárfestinga tiltekins einstaklings (mgr. 41 í dóm­inum). Þá bendir dómstóllinn á að slíkar upplýsingar kunni að vera notaðar af ýmsum aðilum án tengsla við hinn eiginlega tilgang reglnanna sem dómurinn fjallaði um, sem var að sporna við peninga­þvætti og hryðju­verkum (mgr. 42). Taldi dómstóllinn að birting upplýsinganna fæli í sér alvar­legt inngrip í þau réttindi sem mælt er fyrir um í 7. og  8. gr. réttindaskrár ESB (mgr. 44). Í kjöl­farið fjallar dómstóllinn um hvort inngripið teljist réttlætanlegt með vísan til meðalhófsreglu og ann­arra viðeigandi skilyrða sem leidd verða af ákvæðum réttindaskrárinnar. Niðurstaða þess mats er að svo hafi ekki verið og rétt­indin hafi því verið brotin.

Dómstóllinn telur að upplýsingar um eignarhlut einstaklinga í tilteknum félögum falli undir vernd einka­lífs og persónuupplýsinga. Bendir dómstóllinn, samkvæmt framangreindu, á að slíkar upplýsing­ar eru það viðkvæmar að birting þeirra til almennings telst ekki aðeins inngrip í umrædd réttindi held­ur alvarlegt inngrip. Þessi umfjöllun dómstólsins er almenns eðlis í þeim skilningi að dómstóllinn legg­ur mat á eðli upplýsinganna sem slíkra og notkunarmöguleika þeirra.

Dómar Evrópudómstólsins hafa ekki réttaráhrif að íslenskum rétti. Þau ákvæði réttindaskrárinnar sem dómstóllinn beitir í framangreindu máli eiga sér nokkra hliðstæðu í 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þegar þagnarskylduákvæði eins og 9. gr. upp­lýs­inga­laga um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga eru skýrð verður að hafa í huga að markmið ákvæð­anna er að tryggja einn af þeim þáttum sem felst í einkalífsvernd 71. gr. stjórn­ar­skrárinnar að því leyti sem heimilt er að setja tjáningarfrelsi skorður samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórn­arskrárinnar.

Við túlkun á inntaki 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár er höfð hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttamála Evrópu og dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu hvað ákvæðið varðar. Mannréttinda­dóm­stólinn hefur í dómum sínum haft hliðsjón af ákvæðum réttindaskrárinnar að því marki sem ákvæði þar eru samrýmanleg ákvæðum mannréttindasáttmálans. Dómur Evrópudómstólsins í málum WM og Sovim SA gegn Luxembourg Business Registers þar sem dómstólinn komst að þeirri niður­stöðu að 30. gr. tilskipunar (ESB) 2015/849, með síðari breytingum, fæli í sér brot á þeim grund­vallar réttindum sem tryggð eru í 7. og 8. gr. sáttmáli Evrópusambandsins um grund­vallar­rétt­indi kynni því að hafa áhrif, a.m.k. með óbeinum hætti, á túlkun réttindaákvæða þeirra sem nefnd hafa verið. Ljóst er að í dómframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið höfð hliðsjón af fyrrnefndum dómi Evrópu­dómstólsins við túlkun 8. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. dóm yfirdeildar dómstólsins í máli nr. 36345/16, L.B. gegn Ungverjalandi (53. mgr.).

Við túlkun sína á ákvæði 9. gr. upplýsingalaga telur úrskurðarnefndin rétt að taka mið af framangreindri dóma­framkvæmd um túlkun 8. gr. mannréttindasáttmálans. Lítur nefndin þá meðal annars til þess að ákvæði 8. gr. mannréttindasáttmálans fela í sér alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins um lág­marks­vernd mannréttinda. Þar sem ekki er að finna í gildandi lögum bein ákvæði um birtingu þeirra upp­lýsinga sem beiðnir kæranda lúta að verður að ganga út frá því við túlkun 9. gr. að löggjafinn hafi ekki ætlað að ganga í berhögg við alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda. Við túlkun 9. gr. er jafnframt rétt að benda á að mat Evrópudómstólsins á eðli upplýsinga um hlutafjáreign, og vísað er til í dómi yfirdeildar mannréttindadómstólsins, er í samræmi við túlkun úrskurðarnefndarinnar í hinum þremur endur­uppteknu úrskurðum, þótt lagagrundvöllurinn sé annar. Það er að segja, upplýsingarnar varða fjár­hagsleg einkamálefni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

Með vísan til framangreinds og þess sem fram kemur í úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 935/2020, 1009/2021 og 1020/2021 telur nefndin ekki forsendur til að endurskoða það sem fram kemur í úrskurðarorðum framangreindra úrskurða heldur staðfestir þær efnislegu niðurstöður að við­bættum þeim rökstuðningi sem fram kemur í niðurstöðum þessa úrskurðar.

Úrskurðarorð

Úrskurðir úrskurðarnefndar um upplýsingamál í málum nr. 935/2020, 1009/2021 og 1020/2021 eru staðfestir.

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Kjartan Bjarni Björgvinsson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum