Hoppa yfir valmynd

1163/2023. Úrskurður frá 8. desember 2023

Hinn 8. desember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1163/2023 í máli ÚNU 22110003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 4. nóvember 2022, kærði A synjun […]bæjar á beiðni hans um aðgang að gögnum. Með erindi, dags. 18. október 2022, óskaði kærandi eftir gögn­um sem kynnt voru á fundi hjá […]bæ hinn 6. október sama ár. Efni fundarins var bygg­ing […]mannvirkis […] og fundinn sátu oddvitar meiri­hluta bæjarstjórnar, bæj­arstjóri, bygging­ar- og mann­virkjafulltrúi, verkfræðingur […] og arkitekt […].

Bæjarstjóri […]bæjar svaraði erindinu samdægurs og afhenti kæranda fundargerð af fundinum. Sú fundargerð var lögð fram á fundi bæjarráðs hinn 20. október 2022. Í umræðum á fundinum óskaði kærandi að nýju eftir þeim gögnum sem kynnt hefðu verið. Hinn 27. október 2022 óskaði kærandi enn eftir sömu gögnum en fékk það svar frá bæjarstjóra […]bæjar samdægurs að engin frekari gögn lægju fyrir í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Sama dag óskaði kærandi eftir gögnunum frá […]. Í svari […], dags. sama dag, kom fram að öll dreifing gagna væri á ábyrgð bæjarstjóra. Svarinu fylgdu engin gögn.

Á fundi bæjarráðs, dags. 3. nóvember 2022, lagði kærandi fram fyrirspurn og óskaði enn eftir gögnum sem kynnt hefðu verið á fundinum hinn 6. október sama ár. Fulltrúar meirihluta bæjarráðs lögðu þá fram bókun þess efnis að tillögur hefðu verið kynntar á fundinum en engin gögn lögð fram.

Kærandi telur að sem bæjarfulltrúi í bæjarstjórn […]bæjar eigi hann rétt til aðgangs að þessum gögnum með vísan til samþykkta um stjórn bæjarins auk sveitarstjórnarlaga.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt […]bæ með erindi, dags. 7. nóvember 2022, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að sveitarfélagið léti úrskurðar­nefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn […]bæjar barst úrskurðarnefndinni hinn 21. nóvember 2022. Í umsögninni kemur fram að á fundinum hinn 6. október 2022 hafi aðeins verið gerð grein fyrir þeim gögnum sem tilgreind væru í fundargerðinni en gögnin ekki afhent sveitarfélaginu þar sem þau væru enn í vinnslu hjá […]. Til stæði að […]bær fengi gögnin afhent þegar þau væru tilbúin. Gögnin teljist því ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá leiki vafi á því hvort úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi úrskurðarvald varðandi rétt sveitarstjórnarmanna til aðgangs að gögnum samkvæmt sveitar­stjórn­ar­lögum, þar sem innviðaráðuneytinu sé ætlað að skera úr um rétt eða skyldu þeirra sem lúta eftirliti þess samkvæmt lögunum.

Umsögn […]bæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 22. nóvember 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki. Óþarft er að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úr­skurð­ar­nefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem kynnt voru á fundi hjá […]­bæ hinn 6. október 2022 í tilefni af byggingu […]mannvirkis. […]bær kveður gögnin ekki hafa legið fyrir þegar kær­andi óskaði eftir þeim, þar sem þau hefðu aðeins verið kynnt á fundinum en ekki afhent sveit­ar­fél­aginu. Kærandi telur að gögnin hljóti að hafa legið fyrir og vísar til þess að sem sveit­arstjórnarfulltrúi hjá […]bæ eigi hann rétt til aðgangs að gögnum hjá sveitarfélaginu sam­kvæmt samþykktum um stjórn […]bæjar og sveitarstjórnarlögum.

Í 28. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, er mælt fyrir um rétt til aðgangs að gögnum og þagnarskyldu:

Vegna starfa sinna í sveitarstjórn á sérhver sveitarstjórnarmaður rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem fyrir liggja í stjórnsýslu sveitarfélags og varða málefni sem komið geta til umfjöllunar í sveitarstjórn.
Sveitarstjórnarmaður skal eiga eðlilegan aðgang að skrifstofu og stofnunum sveitar­félags­ins í þeim tilgangi að kynna sér starfsemi sveitarfélagsins og rekstur.
Sveitarstjórn skal í samþykkt um stjórn sveitarfélags mæla nánar fyrir um rétt sveitar­stjórn­armanna til að fá afhent afrit gagna sem falla undir 1. mgr. og um fyrirkomulag og fram­kvæmd aðgangs að skrifstofu og stofnunum sveitarfélags skv. 2. mgr.
Sveitarstjórnarmenn skulu gæta trúnaðar um það sem þeir verða áskynja í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt ákvæðum X. kafla stjórnsýslulaga.

[…]bær hefur útfært rétt sveitarstjórnarmanna til aðgangs að gögnum í 20. gr. samþykktar um stjórn sveit­arfélagsins. Er þar meðal annars í 2. mgr. kveðið á um málsmeð­ferð þegar beiðni er lögð fram og í 3. mgr. segir að séu gögn undanþegin upplýsingarétti almennings sé óheimilt að taka af þeim afrit og fara með þau af skrifstofu, sbr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga, nema að höfðu samráði við bæjar­stjóra eða við­komandi yfirmann.

Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga hefur ráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyld­­um sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. lag­anna er aðila máls heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftir­­­­­liti þess samkvæmt 109. gr. laganna.

Kærandi er sveitarstjórnarfulltrúi í sveitarstjórn […]bæjar. Ákvæði 28. gr. sveitarstjórnarlaga veita honum rýmri rétt en hann hefur samkvæmt ákvæð­um upplýsingalaga til aðgangs að gögnum og upp­lýs­ingum sem fyrir liggja í stjórnsýslu […]­bæjar og varða málefni sem komið geta til umfjöllunar í sveit­arstjórn. Það er mat úrskurðar­nefnd­arinnar að ákvæðið beri að skoða í þessu sam­hengi sem sér­ákvæði gagnvart almennum ákvæðum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Af því leiðir að ákvörð­un […]bæjar gagnvart kæranda verður ekki kærð til úrskurðar­nefndar um upplýsingamál heldur til þess ráðherra sem fer með málefni sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 111. gr. laganna. Verð­ur því að vísa kæru þessari frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 4. nóvember 2022, er vísað frá úrskurðarnefnd um upp­lýsinga­mál.

Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum