Hoppa yfir valmynd

1164/2023. Úrskurður frá 8. desember 2023

Hinn 8. desember 2023 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1164/2023 í máli ÚNU 22110005.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 7. nóvember 2022, kærði A synjun embættis ríkislögreglu­stjóra á beiðni um gögn.

Með símtali til Neyðarlínunnar hinn […] klukkan 16:36 var óskað eftir aðstoð lögreglu og mun fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hafa tekið við símtalinu stuttu seinna. Í svonefndri dagbók lengri frá lögreglustjóranum á […] vegna málsins er skráð að klukkan 16:40 umræddan dag hafi verið óskað eftir aðstoð vegna kæranda sem hafi verið mættur óvelkominn í jarðarför. Af dagbókinni verður ráðið að lögreglumenn hafi rætt við kæranda og aðra hlutaðeigandi aðila og úr hafi orðið að kærandi hafi ekki verið viðstaddur at­höfnina sem um ræddi.

Með tölvupósti til lögreglustjórans á […], dags. 21. júlí 2022, óskaði kærandi eftir afriti af sam­tali tilkynnanda við lögregluna og skýrslu lögreglumannanna sem hefðu komið á vett­vang. Starfsmaður lögreglunnar svaraði póstinum 27. júlí sama ár og tók fram að ekki hefði verið gerð eiginleg skýrsla heldur einungis stutt bókun um verkefnið. Væru upptökur af samtölum til staðar væru þær ekki af­hent­ar málsaðilum. Hinn 16. ágúst 2022 afhenti lögreglustjórinn kæranda útprentun af dagbókar­færsl­um lögreglu í málinu þar sem felldar höfðu verið á brott persónugreinanlegar upp­lýs­ing­ar um aðra ein­staklinga en hann sjálfan. Beiðni um afhendingu samtals tilkynnanda við lögreglu var framsend ríkis­lögreglustjóra.

Með tölvupósti til ríkislögreglustjóra, dags. 26. ágúst 2022, óskaði kærandi eftir að fá ná­kvæmt afrit eða upptöku af beiðni þess aðila sem óskað hefði eftir íhlutun lögreglunnar á […] gagn­vart honum. Kærandi ítrekaði beiðni sína þó nokkrum sinnum en var loks synjað um aðgang að tilkynn­ing­unni hinn 3. nóvember 2022. Í svarinu kom fram að aflað hefði verið afstöðu tilkynnanda og að hann legðist gegn afhendingu gagnanna.

Í kæru kemur fram að kærandi telji mikilvægt að hann fái afrit af sím­talinu, annars vegar þar sem hann telji sig eiga skilyrðislausan rétt á því, enda hafi afskipti lögreglu falið í sér inngrip í líf hans með afger­andi hætti, og hins vegar til að leggja mat á það hvers vegna lögreglan hafi orðið við erindi tilkynnanda og komið nánast eins og skot eftir að innhringing hafi átt sér stað til að koma í veg fyrir þátttöku kær­anda í athöfninni. Fyrir liggi hver sé til­kynnandi og því sé ekki um að ræða að koma þurfi í vegi fyrir að það upplýsist.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ríkislögreglustjóra með erindi, dags. 7. nóvember 2022, og embættinu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að embætti ríkislögreglustjóra léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Umsögn ríkislögreglu­stjóra barst úrskurðarnefndinni hinn 15. nóvember 2022 og meðfylgjandi henni voru þau gögn sem embættið taldi að kæran lyti að.

Í umsögn ríkislögreglustjóra kemur fram að gagnabeiðni kæranda lúti að því að fá afhent afrit, hljóðrit og endurrit, símtals tilkynnanda til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Ríkislögreglustjóri telji að um beiðni kæranda fari samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, þar sem kær­andi hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum, enda upplýsingar í til­kynningu sem varði hann sérstaklega. Á hinn bóginn standi einkahagsmunir tilkynnanda í vegi fyrir afhendingu gagnanna, sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, en þeir séu mun ríkari en hagsmunir kæranda. Afstaða ríkislög­reglu­stjóra sé sú að hagsmunir tilkynnanda og hinnar látnu vegi þyngra en þeir hagsmunir sem kærandi hafi af því að hlusta á og fá afrit af símtalinu.

Umsögn embættis ríkislögreglustjóra var kynnt kæranda með bréfi, dags. 15. nóvember 2022, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 22. nóvember sama ár.  

Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að hljóðriti og endurriti símtals tilkynnanda til fjar­skipta­miðstöðvar ríkislögreglustjóra. Af gögnum málsins verður ráðið að tilkynnandi hafi hringt í neyðar­númerið 112 þann […] klukkan 16:36 og að fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hafi tekið við símtalinu stuttu seinna. Með símtalinu óskaði tilkynnandi eftir aðstoð lögreglu í tengslum kveðju­athöfn móður sinnar. Lögreglan mætti á vettvang og í kjölfar samskipta við hlutaðeigandi aðila varð úr að kærandi var ekki viðstaddur kveðjuathöfnina. Í samræmi við málatilbúnað kæranda beinist úrskurður þessi að símtali því sem fór á milli tilkynnanda og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri byggði afgreiðslu málsins á 14. gr. upplýsingalaga. Þar sem símtalið sem óskað er afrits af fór á milli tilkynnanda og fjar­skipta­miðstöðvar ríkislögreglustjóra, sem tók við símtalinu af vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar, eiga lög nr. 40/2008, um samræmda neyðarsvörun, og reglu­gerð nr. 570/1996, um framkvæmd samræmdrar neyðarsvörunar, ekki við um þau samskipti sem óskað er aðgangs að í mál­inu. Þá er hvorki í lögreglulögum, nr. 90/1996, né reglugerð um fjar­skipta­mið­stöð ríkislögreglu­stjóra, nr. 335/2005, sem sett er með stoð í lögunum, að finna ákvæði um að trún­aður skuli ríkja um efni sam­skipta tilkynnanda við fjarskiptamiðstöðina. Þá liggur fyrir að engir eftir­málar urðu af aðgerð­um lögreglunnar og varða gögnin því ekki rannsókn saka­máls eða saksókn sam­kvæmt 1. mgr. 4. gr. upp­lýsingalaga, nr. 140/2012. Að þessu og öðru framangreindu gættu fer um rétt kæranda til aðgangs að gögn­un­um eftir ákvæðum upplýsingalaga.

2.

Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir greinina falli ekki einvörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögn­um með upplýsingum um sig sjálfan, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér bæði endurrit og hljóðrit símtals tilkynnanda til fjar­skiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Að mati nefndarinnar er ljóst að símtalið varðar kæranda sjálfan enda er tilefni símtalsins að óska aðstoðar lögreglu vegna hans og er kærandi þar sérstaklega nafn­greindur. Því fer um rétt kæranda til aðgangs að gögnunum samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga.

Ríkislögreglustjóri styður synjun á beiðni kæranda um aðgang að gögnunum við 3. mgr. 14. gr. upp­lýs­ingalaga. Í ákvæðinu segir að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir sem mæla með því að upp­lýs­ingunum sé haldið leyndum þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Hefur ríkis­lögreglustjóri vísað til þess að símtölin hafi að geyma upplýsingar um einkamálefni tilkynnanda og hinnar látnu sem vegi þyngra en hagsmunir kæranda.

Í athugasemdum við 3. mgr. 14. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga kemur fram að í aðstæðum líkt og þeim sem uppi eru í máli þessu sé líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upp­lýs­inga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni reglunnar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hagsmunirnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggi að baki 9. gr. upplýsingalaga. Þá segir í athugasemdunum.

Aðgangur að gögnum verður því aðeins takmarkaður ef talin er hætta á því að einka­hags­munir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingum. Aðila verður því ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upp­lýs­inga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni, heldur verður að leggja mat á að­stæður í hverju máli fyrir sig. Regla 3. mgr. byggist á því að við hagsmunamatið sé ljóst hverjir verndarhagsmunirnir eru. Oft verður því að leita álits þess sem á andstæðra hags­muna að gæta, en yfirlýsing hans um að hann vilji ekki að upplýsingarnar séu veittar er þó ein og sér ekki nægjanleg ástæða til að synja beiðni um upplýsingar.

Fyrir liggur að ríkislögreglustjóri leitaði eftir afstöðu tilkynnanda sem lagðist gegn því að umbeðin gögn yrðu afhent kæranda en líkt og kemur fram í fyrrgreindum athugasemdum er þetta þó ekki ein og sér nægjanleg ástæða til að synja kæranda um aðgang að gögnunum. Aðgangur kæranda að sím­talinu verður því aðeins takmarkaður ef einkahagsmunir annarra, af því að efni símtalsins fari leynt, vega þyngra en hagsmunir hans af því að geta kynnt sér efni þess.

3.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni símtals til­kynnanda til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Að mati nefndarinnar má fallast á með ríkis­lög­reglustjóra að símtalið hafi að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra í skilningi 3. mgr. 14. gr. upp­lýsingalaga. Í þessu samhengi ber þess að geta að sú vernd sem ein­staklingar njóta til friðhelgi einkalífs nær einnig til þeirra sem látnir eru, sbr. t.d. úrskurði úr­skurð­ar­nefndarinnar nr. 648/2016, 703/2017 og 1071/2022. Á móti framan­greindu er til þess að líta að símtalið tengist vilja kæranda til þátttöku í kveðjuathöfn vegna einstaklings sem hann tengdist fjölskylduböndum annars vegar og hins vegar að sím­­talið varð kveikjan að því að lögreglan hafði af­skipti af kæranda. Telja verður að kærandi hafi hagsmuni af því að fá heildstæða mynd af tildrögum og ástæðum þess að lögreglan var kölluð til. Loks liggur fyrir að kærandi hefur frá upphafi vitað hver til­kynnandi var. Að framangreindu gættu og með hliðsjón af efni símtalsins er það mat úrskurðar­nefndar um upp­lýsingamál að hagsmunir kæranda að aðgangi að símtali tilkynnanda til fjarskipta­mið­stöðvar ríkis­lög­reglustjóra vegi þyngra en þeir andstæðu einkahagsmunir sem eru undir í málinu. Verður því fallist á rétt kæranda til aðgangs að endurriti af umbeðnu símtali.

Úrskurðarorð

Embætti ríkislögreglustjóra er skylt að veita kæranda, A, aðgang að afriti símtals til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra sem kæranda varðar og fram fór […].

Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum