Hoppa yfir valmynd

1173/2024. Úrskurður frá 21. febrúar 2024

Hinn 21. febrúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1173/2024 í máli ÚNU 24010023.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Hinn 24. janúar 2024 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A. Í kærunni, dags. 21. janúar sama ár, er því lýst að kærandi hafi beðið Sýslumanninn í Vestmannaeyjum um aðgang að nánar tilgreindum þinglýstum lóðarleigusamningi. Embættið hafi kveðið að samningurinn lægi ekki fyrir en bent kæranda á að beina erindi sínu til landeiganda, sem væri Vestmannaeyjabær. Af þessu til­efni hafi kærandi sett sig í samband við dómsmálaráðuneyti og beðið um athugun á því hvers vegna þing­lýsingar finnist ekki hjá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum og hvort það væru eðlileg vinnu­brögð að beina skyldi beiðni um þinglýst gögn til Vestmannaeyjabæjar. Ráðuneytið hefði hins vegar ekki svar­að erindi kæranda.
 
Kæru fylgdi ekki afrit af erindi til dómsmálaráðuneytis og fór úrskurðarnefndin því þess á leit við kær­anda að hann léti það nefndinni í té. Kærandi brást ekki við þeirri beiðni kæranda. Úrskurðar­nefnd­in kynnti þá kæruna fyrir ráðuneytinu, dags. 29. janúar 2024. Í erindi nefndarinnar var óskað eftir upplýsingum um hvort erindið hefði borist ráðuneytinu og ef svo er, hvort það hefði verið afgreitt.
 
Í svari ráðuneytisins, dags. 12. febrúar 2024, kom fram að erindi þess efnis sem kærandi tilgreindi væri ekki að finna í málaskrá ráðuneytisins og virtist því sem það hefði ekki borist ráðuneytinu. Ráðuneytið hefði gert kæranda viðvart um þetta.
 

Niðurstaða

Af 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, leiðir að heimilt er að kæra til úrskurðarnefndar um upp­lýsingamál óhæfilegan drátt á afgreiðslu beiðni samkvæmt upplýs­inga­lögum. Þá er samkvæmt 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, heim­ilt að vísa máli til úrskurðarnefndarinnar ef beiðni um aðgang að gögnum hefur ekki verið af­greidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar. Af kæru er ljóst að kærandi telur óhæfilegan drátt hafa orðið á afgreiðslu erindis síns til dómsmálaráðuneytis. Ráðu­neytið vísar til þess að erindið finnist ekki í málaskrá þess og að það virðist ekki hafa borist ráðu­neytinu. Ráðuneytið hefur gert kæranda viðvart um þetta. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga þá staðhæfingu í efa.
 
Í gögnum máls­ins liggur ekki fyrir hvenær erindi kæranda á að hafa verið sent ráðuneytinu, þannig að óljóst er hvort kæruheimild til nefndarinnar byggist á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga eða 3. mgr. 17. gr. upp­lýsingalaga. Þar sem byggja verður á því að erindi kæranda hafi ekki borist ráðuneytinu er ekki hægt að líta svo á að óhæfilegur dráttur hafi orðið á af­greiðslu á erindis hans. Samkvæmt framangreindu verður kærunni vís­að frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 21. janúar 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum