Hoppa yfir valmynd

1175/2024. Úrskurður frá 29. febrúar 2024

Hinn 29. febrúar 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1175/2024 í máli ÚNU 23110017.
 

Kæra og málsatvik

Hinn 22. nóvember 2023 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A vegna synjunar Reykjavíkurborgar á beiðni um upplýsingar um hvort skólastjóri […]skóla hefði sætt viðurlögum.
 
Með erindi til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 3. maí 2023, lýsti kærandi því að nokkrum mánuðum fyrr hefði hann farið ásamt syni sínum á fund skólastjóra […]skóla til að ræða van­líðan sonarins í skólanum. Til að ná athygli sonar kæranda hefði skólastjórinn ítrekað tekið um höku hans og sagt honum að horfa í augun á sér. Óskaði kærandi eftir því við skóla- og frístunda­svið að atvikið yrði rannsakað af óvilhöllum aðila sem skæri jafnframt úr um hvort skoða bæri atferli skóla­stjór­ans sem ofbeldi.
 
Með vísan til framangreinds erindis óskaði kærandi hinn 14. september 2023 eftir upplýsingum um hvort skólastjórinn hefði sætt viðurlögum í kjölfar erindis kæranda. Með svari Reykjavíkurborgar, dags. 22. september 2023, var beiðni kæranda hafnað með vísan til 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Reykjavíkurborg með erindi, dags. 29. nóvember 2023, og sveitarfélaginu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál yrðu látin í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að. Með erindi Reykjavíkurborgar, dags. 22. desember 2023, var upplýst að erindi úrskurðarnefndarinnar hefði misfarist þar sem það hefði ekki verið áframsent á viðeigandi aðila frá almennu netfangi Reykjavíkurborgar. Nefndin sam­þykkti beiðni um viðbótarfrest til að skila umsögn um kæruna til 17. janúar 2024.
 
Umsögn Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni hinn 17. janúar 2024. Í henni kemur fram að Reykjavíkurborg túlki beiðni kæranda á þann veg að óskað sé upplýsinga um hvort skólastjórinn hafi sætt viðurlögum í starfi. Mat sveitarfélagsins sé að beiðni kæranda hafi verið afgreidd í samræmi við upplýsingalög.
 
Umsögn Reykjavíkurborgar var kynnt kæranda með erindi, dags. 19. janúar 2024, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 2. febrúar 2024. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurð­arnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 

Niðurstaða

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál að liðnum þeim 30 daga fresti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Hins vegar var kæranda hvorki leiðbeint um kæru­heimild til úrskurðarnefndarinnar né kærufrest í hinni kærðu ákvörðun. Verður kærunni því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum að kærufresturinn sé liðinn.
 
Um rétt kæranda til aðgangs að þeim upplýsingum sem hann hefur óskað eftir fer samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings, með þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í 6.–10. gr. laganna. Sú takmörkun sem kemur til skoðunar í málinu birtist í 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. lag­anna, þar sem fram kemur að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfs­manna sem starfa hjá aðilum sem lögin taka til samkvæmt 2. gr. taki ekki til gagna í málum sem varða um­sóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum segir:
 

Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti […] er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.

 
Í beiðni til Reykjavíkurborgar og kæru til úrskurðarnefndarinnar tiltekur kærandi að hann vilji vita hvort skólastjóri […]skóla hafi sætt viðurlögum í kjölfar erindis kæranda til Reykjavíkurborgar, dags. 3. maí 2023. Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kæruefnið að ekki sé átt við refsiábyrgð vegna brots í opinberu starfi, sbr. t.d. ákvæði XIV. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, heldur stjórnsýsluviðurlög að starfsmannarétti, svo sem ákvörðun um áminningu. Úrskurðarnefndin telur að gögn í málum um beitingu slíkra við­urlaga teljist varða starfssamband viðkomandi starfsmanns að öðru leyti í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga og að upplýsingaréttur almennings nái af þeim sökum ekki til þeirra gagna. Verður ákvörðun Reykjavíkurborgar því staðfest.
 
Í 3. mgr. 7. gr. upplýsingalaga kemur fram að heimilt sé að veita upplýsingar um viðurlög í starfi sem æðstu stjórnendur hafa sætt, þar á meðal vegna áminninga og brottvísana, enda séu ekki liðin meira en fjögur ár frá þeirri ákvörðun sem um ræðir. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niður­stöðu í úrskurði nr. 749/2018 að skólastjóri grunnskóla á vegum Reykjavíkurborgar teldist ekki til æðstu stjórnenda í skilningi ákvæðisins. Með vísan til þess er óþarft að taka afstöðu til þess hvort Reykja­víkurborg hefði verið heimilt að veita upplýsingar um viðurlög í starfi sem skólastjóri […]skóla kynni að hafa sætt síðastliðin fjögur ár frá þeim degi sem beiðni kæranda var lögð fram.
 
Í hinni kærðu ákvörðun var ekki tekin afstaða til þess hvort kærandi ætti rétt til að­gangs að gögnum í ríkari mæli en skylt er samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 4. tölul. 6. gr. laganna, sbr. 7. gr. sömu laga, sbr. jafnframt 2. mgr. 11. og 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Þá var í ákvörð­un­inni ekki heldur að finna leið­beiningar um rétt til kæru til úrskurðarnefndar um upp­lýsingamál sam­kvæmt 20. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Var ákvörðun Reykjavíkur­borgar að þessu leyti ekki í samræmi við ákvæði upp­lýsingalaga.
 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 22. september 2023, að synja A um upplýsingar um það hvort skólastjóri […]skóla hafi sætt viðurlögum.
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum