Hoppa yfir valmynd

1181/2024. Úrskurður frá 30. apríl 2024

Hinn 30. apríl 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1181/2024 í máli ÚNU 23100005.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 9. október 2023, kærði A lögmaður, f.h. Ísorku ehf., synjun Vest­­mannaeyjabæjar á beiðni kæranda um aðgang að samningi sveitarfélagsins við Orku nátt­úr­unn­ar ohf. vegna reksturs og þjónustu við hleðslustöðvar og aðgang að sam­skiptum sveitarfélagsins við Orku náttúrunnar í tengslum við verkefnið.
 
Með erindi, dags. 11. september 2023, óskaði kærandi eftir upplýsingum um yfirtöku Orku náttúr­unn­ar á rekstri hleðslustöðva og afriti af samningi sveitarfélagsins við Orku náttúrunnar um reksturinn. Í svari Vest­manna­­eyja­bæjar, dags. 12. september 2023, kom fram að það sem kærandi vísaði til í beiðni væri til­rauna­starf­semi sem Orka náttúrunnar hefði átt frumkvæðið að og falist hefði í að Orka náttúrunnar setti upp nýja hleðslustöð og hrað­­hleðslustöð. Kærandi óskaði ítarlegri upplýsinga um verkefnið sama dag. Sveitarfélagið svaraði dag­inn eftir og kvað tilraunastarfið aðallega felast í því að Orka náttúrunnar kæmi sínum búnaði fyrir og sæi um rekst­ur hans.
 
Með erindi, dags. 13. september 2023, óskaði kærandi meðal annars eftir afriti af samskiptum sveit­ar­fél­agsins við Orku náttúrunnar vegna verkefnisins og samningi um verkefnið. Í svari Vestmannaeyja­bæjar til kær­anda, dags. 26. september 2023, kom fram að ákvörðun sveitarfélagsins að leyfa tilrauna­verk­efni Orku náttúrunnar teld­ist vera stjórn­valdsákvörðun. Því bæri að fara eftir stjórnsýslulögum við málsmeð­ferð­ina en ekki upp­­lýs­inga­lög­um. Afstaða sveitarfélagsins var áréttuð við kæranda hinn 5. ok­tó­ber 2023.
 
Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kæran snúi að samningi Vestmannaeyjabæjar við Orku nátt­úrunnar vegna reksturs og þjónustu við hleðslustöðvar og samskiptum sveitarfélagsins við félagið vegna verkefnisins. Kærandi og Orka náttúrunnar séu í beinni samkeppni um uppsetningu og rekstur á hleðslu­­­stöðv­um fyrir rafbíla. Vestmannaeyjabær og Orka náttúrunnar séu opinberir aðilar og samn­ing­ur þeirra um rekstur á hleðslu­stöðv­um varði ráðstöfun opinberra hagsmuna.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með erindi, dags. 16. október 2023, og sveitarfélaginu veittur kost­ur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að sveitarfélagið léti úr­skurð­ar­nefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
 
Umsögn Vestmannaeyjabæjar barst úrskurðarnefndinni hinn 6. nóvember 2023. Í umsögninni er rakið að Orka náttúrunnar hafi óskað eftir því við Vestmannaeyjabæ að farið yrði í tilraunaverkefni, þar sem fél­agið kæmi fyrir hleðslustöðvum og sæi um rekstur þeirra. Sveitarfélagið leggist ekki gegn því að þau fyrir­liggjandi gögn sem sveitarfélagið telur að heyri undir beiðni kæranda verði afhent, en þar sem Orka náttúrunnar leggist gegn afhendingunni telji sveitarfélagið sér óheimilt að afhenda þau. Umsögninni fylgdu tvö fylgi­skjöl. Fyrra fylgiskjalið eru þau gögn sem sveitarfélagið telur að kæran lúti að. Þau samanstanda af tölvupóstssamskiptum milli sveitarfélagsins og Orku náttúrunnar um upp­setn­ingu hleðslu­stöðvanna. Vestmannaeyjabær kveður ekki frekari skrifleg samskipti liggja fyrir. Þá liggi ekki fyrir samningur milli sveitar­fél­ags­ins og Orku náttúrunnar, hvorki endanlegur samningur né drög að slíkum samn­­ingi. Síðara fylgiskjalið inniheldur samskipti Vestmannaeyjabæjar og Orku náttúrunnar sem áttu sér stað eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðar­nefndinni.
 
Umsögn Vestmannaeyjabæjar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 10. nóvember 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum í ljósi umsagnarinnar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
 
Með bréfi, dags. 17. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu Orku nátt­úr­unnar til af­hendingar þeirra gagna sem sveitarfélagið afmarkaði beiðni kæranda við. Í svari Orku nátt­úr­unnar, dags. 6. de­sem­ber 2023, er lagst gegn því að gögnin verði afhent kæranda. Óþarft er að rekja frek­ar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úr­skurð­arnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum sem varða rekstur og þjónustu Orku nátt­úr­unnar við hleðslustöðvar í Vestmannaeyjabæ. Sveitarfélagið vísar til þess að ekki liggi fyrir samn­ingur við Orku náttúrunnar um verkefnið. Önnur gögn sem heyri undir beiðni kæranda sé sveitarfélaginu óheim­ilt að af­henda með vísan til hagsmuna Orku náttúrunnar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að draga í efa þá staðhæfingu Vestmannaeyjabæjar að ekki liggi fyrir eiginlegur samn­ingur um verk­efnið. Verður ákvörðun sveitarfélagsins að því leyti staðfest, þar sem ekki telst um að ræða synjun beiðni um aðgang að gögnum sem kæranleg er til nefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. upplýsinga­laga, nr. 140/2012.
 
Um rétt kæranda til aðgangs að öðrum gögnum sem sveitarfélagið Vestmanneyjabær hefur afmarkað beiðni kæranda við fer eftir 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Í svari Vest­mann­eyjabæjar til kæranda, dags. 26. september 2023, vísaði sveitarfélagið til þess að ósk kæranda lyti að gögnum úr stjórnsýslumáli og því bæri að fara að ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, við máls­með­ferðina en ekki ákvæðum upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin tekur af þessu tilefni fram að í máli þessu gerist þess ekki þörf að nefndin leysi úr því hvort Vestmanneyjabær hafi tekið ­ákvörð­un um rétt eða skyldu Orku náttúrunnar í skilningi stjórnsýslulaga og hvort gögn málsins tengist slíkri ákvörðun, enda myndi kærandi ekki teljast aðili að þeirri ákvörðun eða því máli sem hún tengdist. Um rétt hans til aðgangs að umbeðnum gögnum fer því, hvað sem öðru líður, eftir ákvæðum upplýs­inga­laga en ekki stjórn­sýslulaga. Kæru málsins er því réttilega beint til úrskurðarnefndar um upp­lýs­inga­mál. 
 
Gögnin sem um ræðir saman­standa af tölvu­pósts­samskiptum milli Vestmannaeyjabæjar og Orku nátt­úr­unnar frá tímabilinu júní til júlí 2023. Úr­skurðarnefndinni voru einnig afhent samskipti milli sömu aðila sem til urðu eftir að kæra í máli þessu barst nefndinni. Er í úrskurðinum ekki tekin afstaða til réttar kær­anda til aðgangs að þeim.
 
Í ákvörð­un Vestmannaeyjabæjar og umsögn til úrskurðarnefndarinnar er ekki vísað til þess hvaða tak­mörk­unarákvæði í upplýsingalögum geti átt við um gögnin, heldur látið við sitja að vísa til þess að kær­andi og Orka náttúrunnar séu samkeppnisaðilar.
 
Orka náttúrunnar ohf. er opinbert hlutafélag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur – Eigna ohf., sem alfarið er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Samkvæmt 1. gr. laga um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 136/2013, er fyrir­tæk­ið í eigu Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borg­arbyggðar. Þar sem Orka náttúrunnar er sam­kvæmt þessu í óbeinni en þó fullri eigu sveitarfélaga kemur ekki til álita hvort samkeppnislegir hags­mun­ir fyrirtækisins njóti verndar samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga sem einkahagmunir. Þessi í stað kem­ur til skoðunar ákvæði 4. tölul. 10. gr. laganna um takmarkanir á upplýsingarétti vegna sam­keppnis­­hagsmuna aðila í opinberri eigu, þ.e. hvort Vestmannaeyjabæ hafi verið heimilt að takmarka aðgang að umbeðnum gögnum á grundvelli slíkra hagsmuna Orku náttúrunnar.
 
Samkvæmt 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikil­vægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Ákvæðið verndar við­skiptahagsmuni opinberra aðila, þar með talið einkaréttarlegra fyrirtækja sem eru í opinberri eigu. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir eftirfarandi:
 

Mark­miðið með þessu frumvarpi er m.a. að gefa almenningi og fjölmiðlum tækifæri á að fá vitneskju um það hvernig opinberum fjármunum er varið. Óheftur réttur til upplýsinga getur á hinn bóginn skaðað samkeppnis- og rekstrarstöðu opinberra stofnana og fyrirtækja í þeim tilvikum þegar hið opin­bera þarf að keppa á markaði við einkaaðila sem ekki eru skyldugir til að gefa upplýsingar um stöðu sína. Af þessum sökum er lagt til að takmarkaður verði að­gangur að upplýsingum um viðskipti hins opin­bera þegar svona háttar til.

 
Í athugasemdunum kemur síðan fram að meginsjónarmiðið að baki ákvæðinu sé að opinber aðili eigi að standa jafnfætis öðrum samkeppnisaðilum í viðskiptum, hvorki betur né verr, og að ákvæðið sé ein­skorð­að við þá stöðu þegar opinberir aðilar eru í samkeppni við aðra aðila.
 
Ákvæðið felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að gögnum og ber því að skýra það þröngri lögskýringu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur talið að til að unnt sé að byggja takmörkun á aðgangsrétti á 4. tölul. 10. gr. upplýsingalaga þurfi að minnsta kosti þremur skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsinga­beiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi skal sú afstaða hafa verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það veru­leg­ir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings samkvæmt 5. gr. upp­lýs­inga­laga til aðgangs að umbeðnum upplýsingum.
 
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir samskipti Vestmannaeyjabæjar og Orku náttúrunnar um rekstur og þjónustu við hleðslu­stöðvar í sveitarfélaginu. Hvorki Vestmannaeyjabær né Orka náttúrunnar hafa rök­stutt sérstaklega hvernig þær upplýsingar sem þar koma fram geti orðið Orku náttúrunnar skað­leg­ar, verði þær gerðar opinberar. Með hliðsjón af inntaki sam­skiptanna verður ekki talið að samkeppnis­hags­mun­ir fyrirtækisins af því að halda upp­lýs­ingunum leynd­um séu svo ríkir, í skilningi 4. tölul. 10. gr. upp­lýsingalaga, að þeir réttlæti undanþágu frá meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almenn­ings til aðgangs að gögnum í fórum stjórnvalda og ann­arra aðila sem bundnir eru af ákvæðum upp­lýs­inga­laga.
 
Þá er til þess að líta að ekki verður annað séð en að umbeðin gögn lúti að samskiptum Vestmanna­eyja­bæjar við Orku náttúrunnar um að síðarnefnda fyrirtækið taki að sér rekstur tiltekinna hraðhleðslu­stöðva fyrir bifreiðar í bæjarfélaginu. Almenningur hefur hagsmuni af því að geta kynnt sér hvernig sveitarfélagið stendur að slíkum ákvörðunum og að um stjórnsýslu sveitarfélagsins að þessu leyti ríki gagnsæi. Þá þurfa lögaðilar sem eiga í viðskiptum við hið opinbera hverju sinni að vera búnir undir það að upp­lýsingar um þeirra starfsemi verði gerðar opinberar, innan þeirra marka sem upplýsingalög setja, þótt það kunni að valda þeim einhverju óhagræði.
 
Samkvæmt framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að 4. tölul. 10. gr. upplýs­inga­laga standi ekki í vegi fyrir því að kærandi fái afhent þau gögn sem sveitarfélagið hefur afmarkað beiðni hans við. Þá telur nefndin að önnur takmörkunarákvæði upplýsingalaga eigi ekki við um gögnin. Verður því lagt fyrir Vestmannaeyjabæ að veita kæranda aðgang afriti af samskiptunum.
 

Úrskurðarorð

Vestmannaeyjabæ er skylt að afhenda A lögmanni, f.h. Ísorku ehf., tölvu­pósts­samskipti sveitarfélagsins við Orku náttúrunnar ohf. í tengslum við rekstur og þjónustu við hleðslu­stöðvar í sveitarfélaginu, dags. 28. júní til 6. júlí 2023. Ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, dags. 5. ok­tóber 2023, er að öðru leyti staðfest.
 
 

Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum