Hoppa yfir valmynd

1194/2024. Úrskurður frá 5. júní 2024

Hinn 5. júní 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1194/2024 í máli ÚNU 24040011.
 

Kæra og málsatvik

Þann 15. apríl 2024 sendi […] erindi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem hann óskaði aðstoðar úrskurðarnefndar um upplýsinga­mál við að fá svar frá dómsmálaráðuneytinu við erindi sem hann hafði sent 19. október 2023 og ítrekað tvisvar sinnum.
 
Með hliðsjón af 17. gr. og 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga ber úrskurðarnefndinni að taka erindi […] fyrir sem stjórnsýslukæru.
 
Atvik málsins eru þau að í maí 2022 benti kærandi ráðuneytinu á að á fjölskyldusviði hjá sýslumanni, þar sem sáttameðferðum væri sinnt, ynnu starfsmenn sem jafnframt sinntu slíkri þjón­ustu í einka­fyrir­tækj­um í eigin eigu samhliða starfi hjá sýslumanni. Ráðuneytið svaraði kæranda í desember 2022 og kvaðst mundu taka erindið til skoðunar á grundvelli yfirstjórnar- og eftirlitsheimilda. Kærandi sendi þá nýtt erindi til dómsmálaráðuneytisins, dags. 19. október 2023, þar sem hann upplýsti ráðuneytið um að í september 2021 hefði Sýslumanninum á höfuð­borgarsvæðinu verið send kvörtun vegna sjálfstæðs at­vinnureksturs sáttamanna sem einnig væru laun­þegar hjá sýslumanni. Kærandi spurði hvort það þætti eðlilegt í ráðuneytinu að sýslumaður upplýsti ráðuneytið ekki um kvörtunina. Þá spurði kærandi hvort ráðuneytið hefði, eftir að það tjáði kæranda í desember 2022 að málið yrði tekið til nánari skoð­un­ar, verið upplýst um kvörtunina. Erindið frá 19. október ítrekaði kærandi 13. og 22. nóvember 2023.
 

Niðurstaða

Kæra í máli þessu lýtur að því að dómsmálaráðuneyti hafi ekki svarað erindi kæranda frá 19. október 2023, sem varðar kvörtun til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 2021 vegna sjálfstæðs at­vinnu­rekst­urs starfsmanna sem sinna sáttameðferð hjá stofnuninni.
 
Upplýsingaréttur almennings tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, til aðgangs að fyrir­liggj­andi gögnum sem varða tiltekið mál og aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Þegar aðili sem heyrir undir gildis­svið laganna tekur á móti erindi sem ber með sér að vera beiðni um aðgang að gögn­um á hann að athuga hvort fyrir liggi annaðhvort þau gögn sem beinlínis er óskað eftir eða gögn sem innihalda þær upplýsingar sem tilgreindar eru í beiðninni, og taka ákvörðun um hvort aðgangur að gögn­un­um á grundvelli upplýsingalaga verði veittur.
 
Af upplýsingalögum verður ekki leidd sambærileg skylda til að svara erindum sem bera ekki með sér að vera beiðnir um að­gang að gögnum. Ekki er útilokað að skylt kunni að vera að bregðast við slíkum erind­um, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og óskráða leið­beiningar­reglu þess efnis að stjórn­völd­um sé skylt að veita þeim sem til þeirra leita nauð­synlega aðstoð og leið­beiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Hins vegar er það ekki hlutverk úrskurðarnefndar um upp­lýs­inga­­mál að skera úr um rétt beiðanda til að fá svar við slíku erindi, sbr. 3. mgr. 17. gr. upp­lýs­inga­laga, sbr. og 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, eða ágrein­ing um það hvort erindinu hafi verið svarað með full­nægjandi hætti, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga, enda byggja framangreindar kæruheimildir á því að beð­ið hafi verið um aðgang að gögnum.
 
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir erindi kæranda til dómsmálaráðuneytis og telur erindið ekki bera með sér að vera beiðni um gögn í skilningi upplýsingalaga, heldur beiðni um viðbrögð ráðuneytisins við erindi kæranda sem varðar tiltekna kvörtun til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Kærunni verður því vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 

Úrskurðarorð

Kæru […], dags. 15. apríl 2024, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum