Hoppa yfir valmynd

1214/2024. Úrskurður frá 9. september 2024

Hinn 9. september 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1214/2024 í máli ÚNU 24060008.
 

Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dags. 9. júní 2024, óskaði […] eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál tæki upp að nýju mál sem lyktaði með úrskurði nefndarinnar nr. 1195/2024, frá 5. júní 2024. Í úrskurðinum var það niðurstaða nefndarinnar að hafna endurupptöku tveggja mála sem lyktaði með úrskurðum nr. 910/2020 og 1108/2022.
 
Í erindi beiðanda er vísað til þess að í því skyni að gæta jafnræðis hafi úrskurðar­nefnd­inni verið rétt að taka framangreind tvö mál upp, vegna þess að með úrskurði nr. 1164/2023 hafi nefnd­in gert stjórn­valdi að afhenda gögn af svipuðum meiði og nefndin taldi með úrskurðum í málum beiðanda að hann ætti ekki rétt á að fá afhent.
 
Beiðandi vísar til þess að þagnarskylduákvæði 2. mgr. 83. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, standi ekki sjálfstætt eitt og sér, heldur sé það útfært eftir ákvæð­um X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. […]
 

Niðurstaða

Í máli þessu hefur verið óskað eftir endurupptöku máls sem lauk með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1195/2024, frá 5. júní 2024. Að virtu erindi beiðanda og þeim röksemdum sem í því eru færðar fram lítur nefndin svo á að í reynd sé að nýju óskað endurupptöku þeirra tveggja mála sem lauk með úrskurðum nr. 910/2020 og 1108/2022, og tekur eftirfarandi niðurstaða mið af því.
 
Í 24. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um endurupptöku stjórnsýslumáls:
 

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa veru­lega frá því að ákvörðun var tekin.

 
Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörð­un skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

 
Með 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga er vísað til upplýsinga um málsatvik sem til staðar voru þegar ákvörðun var tekin en stjórnvaldið hafði ekki undir höndum, eða stjórnvaldið hafði bein­línis rangar upplýsingar undir höndum, ef til vill án þess að gera sér grein fyrir því. Upplýsing­ar um að úrskurðarnefndin hafi, eftir að úrskurðir í málum kæranda voru kveðnir upp, afgreitt mál sem beiðandi telur sambærilegt sínum með öðrum hætti en mál beiðanda, falla ekki undir ákvæðið. Atvik máls hafa ekki breyst og reynir því ekki á hvort skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna séu uppfyllt í málum kær­anda. Samkvæmt framangreindu eru ekki uppfyllt skilyrði fyrir endurupp­töku samkvæmt 24. gr. stjórn­sýslulaga.
 
Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir atvikum að vera rétt og heimilt að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir kemur það að mati nefndarinnar til álita ef rökstuddar vísbendingar eru um að á úrskurðum hennar séu veru­legir annmarkar að lögum. Úrskurðarnefndin telur að slíkar vísbendingar séu ekki til staðar. Svo sem beiðandi bendir á eru starfsmenn Vinnueftirlitsins bundnir þagnarskyldu samkvæmt X. kafla stjórnsýslulaga, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 83. gr. laga nr. 46/1980. Hins vegar er í 2. málsl. sama ákvæðis aukið við inntak þagnarskyldunnar og tilgreint að hún nái til allra upplýsinga sem varða umkvartanir til stofn­un­arinnar, þ.m.t. nafns þess sem beinir umkvörtun til stofnunarinnar, og er það sá málsliður sem litið hefur verið á að innihaldi sérstaka þagnarskyldu sem gangi framar ákvæð­um upplýsingalaga. Í úrskurði þeim sem beiðandi vísar í til rökstuðnings beiðni sinni reynir á aðrar lagareglur um trúnað upplýsinga en gerði í kærumáli hans.
 
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hafnað beiðni um endurupptöku mála ÚNU 20010009 og ÚNU 22030008 sem lauk með úrskurð­um úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 910/2020, frá 11. júní 2020, og 1108/2022, frá 16. nóvember 2022.
 

Úrskurðarorð

Beiðni […], dags. 9. júní 2024, um endurupptöku mála ÚNU 20010009 og ÚNU 22030008 sem lauk með úrskurð­um úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 910/2020, frá 11. júní 2020, og 1108/2022, frá 16. nóvember 2022, er hafnað.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta