Mál nr. 479/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 479/2024
Fimmtudaginn 9. janúar 2025
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 1. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2024, um að synja beiðni hans um afturvirkar greiðslur atvinnuleysisbóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 9. september 2024. Með ákvörðun, dags. 26. september 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt með 76% bótarétti. Kæranda var jafnframt tilkynnt að beiðni hans um breytingu á dagsetningu umsóknar væri hafnað með vísan til 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. október 2024. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 13. desember 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. desember 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hann óski eftir endurskoðun á ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2024, þar sem umsókn hans um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt með 76% bótarétti en beiðni um breytingu á dagsetningu umsóknar hafi verið hafnað. Kærandi hafi fyrst lagt inn umsókn um atvinnuleysisbætur þann 30. maí 2024 og sett fram skýringu um að umsóknin ætti að miðast við þann dag. Hins vegar hafi kerfið lokað á umsóknina vegna mistaka sem tengdust umsókn um atvinnu með stuðningi. Þar sem kærandi hafi tekið þá umsókn til baka telji hann rétt að bótaréttur ætti að reiknast afturvirkt frá þeim degi er fyrsta umsóknin hafi verið lögð inn. Auk þess bendi kærandi á að í bréfinu sem hann hafi fengið frá Vinnumálastofnun sé tekið fram að hann þurfi að staðfesta atvinnuleit á „Mínum síðum“ milli 20. og 25. dags hvers mánaðar. Kerfi Vinnumálastofnunar hafi hins vegar lokað á þessa möguleika þegar hann hafi gert umsókn um atvinnu með stuðningi þannig að kærandi hafi ekki getað staðfest atvinnuleitina á réttum tíma. Kærandi telji að þetta atriði eigi að hafa áhrif á bótarétt hans og þurfi að leiðrétta. Kærandi óski því eftir að Vinnumálastofnun endurskoði ákvörðunina og að hann fái greiddar afturvirkar atvinnuleysisbætur frá 30. maí 2024 eins og hann eigi rétt á samkvæmt fyrstu umsókn og að tekið verði tillit til þess að hann hafi ekki getað staðfest atvinnuleit vegna þessarar kerfisvillu.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 30. maí 2024 og umsóknin hafi verið samþykkt með erindi, dags. 18. júní 2024. Kærandi hafi aldrei staðfest atvinnuleit frá 30. maí 2024 en þann 30. júní 2024 hafi hann sent breytingu á umsókn sinni, úr almennri umsókn yfir í atvinnu með stuðningi. Þann 2. júlí 2024 hafi kærandi hætt við þá umsókn en hafi aftur sótt um atvinnu með stuðningi daginn eftir, 3. júlí 2024. Kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun samdægurs, eða 3. júlí 2024, og óskað eftir samtali við ráðgjafa. Þann 4. júlí 2024 hafi verið gerðar tilraunir til að ná sambandi við kæranda, án árangurs. Þá hafi einnig verið reynt að ná í kæranda bæði 13. og 21. ágúst 2024 um að hann væri hvorki að svara tölvupóstum né símtölum vegna umsóknar sinnar. Umsókn kæranda hafi verið afskráð frá 27. ágúst 2024 þar sem hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína. Kæranda hafi verið tilkynnt um afskráningu með bréfi, dags. 9. september 2024. Kærandi hafi aftur sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 9. september 2024. Þá hafi borist erindi frá kæranda þann 11. september 2024 þar sem óskað hafi verið eftir því að umsókn hans myndi gilda frá 30. maí 2024. Í erindi kæranda segi:
„Ég sendi inn umsóknir þrisvar sinnum, þann 30. maí, 30. júní og 3. júlí. Því miður varð ruglingur hjá mér varðandi umsóknarferlið, þar sem ég sótti óvart um ranga þjónustu. Í stað þess að sækja um atvinnuleit sótti ég um starf með stuðningi. Þessi misskilningur leiddi til ákveðinna flækja varðandi bætur, og vegna þess fékk ég ekki atvinnuleysisbætur fyrir þessa mánuði.
Í staðinn sótti ég um félagslegar bætur fyrir þessa mánuði og fékk greitt um 120 ISK, sem er minna en það sem ég hefði átt að fá ef ég hefði sótt um atvinnuleysisbætur.
Ég er því að velta fyrir mér hvort ég eigi rétt á að fá leiðréttar greiðslur frá fyrstu umsókn, þar sem kerfið lokaði á möguleikann að sækja um venjulegar bætur eftir að ég óvart valdi atvinnu með stuðningi.“
Umsókn kæranda, dags. 9. september 2024, hafi verið samþykkt með erindi, dags. 26. september 2024. Útreiknaður bótaréttur kæranda hafi verið 76%. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 26. september 2024, hafi beiðni kæranda um breytingu á upphafsdegi umsóknar verið synjað.
Kærandi hafi sent erindi 1. október 2024 og óskað eftir því að Vinnumálastofnun myndi endurskoðaði synjun á beiðni um afturvirkri dagsetningu á umsókn. Vinnumálastofnun hafi tilkynnt kæranda um niðurstöðu þeirrar endurskoðunar með erindi, dags. 4. október 2024, þar sem fyrri ákvörðun hafi verið staðfest. Með kæru, dags. 1. október 2024, hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir. Þá segi svo í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum.“
Í athugasemdum við 29. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun taki við umsókn um atvinnuleysisbætur. Eðli máls samkvæmt sé það grundvallarskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt með umsókn til Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun telji sér almennt ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur aftur fyrir umsókn atvinnuleitanda um atvinnuleysisbætur.
Fyrir liggi að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 30. maí 2024. Kærandi hafi þó aldrei staðfest atvinnuleit og því ekki fengið greiddar atvinnuleysistryggingar. Í kjölfarið hafi hann verið afskráður. Í byrjun júlí 2024 hafi kærandi sótt um aðstoð við atvinnuleit með stuðningi. Atvinna með stuðningi sé úrræði Vinnumálastofnunar sem sé ætlað einstaklingum með skerta starfsgetu sem þurfi aðstoð við atvinnuleit, þjálfun í starf og stuðning við að halda vinnu á almennum vinnumarkaði. Þegar umsókn um úrræðið hafi borist hafi strax verið haft samband við kæranda og honum tjáð að ráðgjafi myndi boða hann í viðtal við fyrsta tækifæri. Umsókn kæranda hafi ekki borið þess ekki merki að kærandi uppfyllti skilyrði fyrir aukinni aðstoð við atvinnuleit vegna skertrar starfsgetu. Ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að ná sambandi við kæranda til fá úr því skorið hvort mistök hefðu átt sér stað og hvort ætlun hans hafi verið að sækja um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafi hvorki svarað síma né tölvupóstum. Vinnumálastofnun hafi tekið við nýrri umsókn kæranda þann 9. september 2024. Kærandi telji að Vinnumálastofnun hafi lokað á umsókn hans þar sem hann hafi gert mistök við val á tegund umsóknar. Kærandi geri kröfu um það fyrir úrskurðarnefnd að umsókn hans um atvinnuleysistryggingar taki mið af umsókn hans frá 30. maí 2024.
Við afgreiðslu á beiðni kæranda um að fá greiddar atvinnuleysisbætur aftur fyrir umsóknardag hafi stofnunin kannað hvort kærandi hefði, áður en hann hafi sótt um greiðslur hjá stofnuninni, gert tilraun til að sækja um atvinnuleysisbætur, verið í sambandi við stofnunina eða fengið leiðbeiningar um upphafsdag umsóknar.
Almennar leiðbeiningar Vinnumálastofnunar til atvinnuleitenda um það hvenær skuli sækja um atvinnuleysibætur séu þær að unnt sé að sækja um hjá stofnuninni allt að mánuði áður en viðkomandi verði atvinnulaus að fullu eða hluta. Umsækjendur geti þó í fyrsta lagi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með þeim degi sem þeir geti hafið störf, þ.e. séu atvinnulausir. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar sé sérstaklega vakin athygli á því að atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar afturvirkt. Kærandi hafi vissulega gert tilraun til að sækja fyrr um greiðslur atvinnuleysisbóta. Fyrst með umsókn 30. maí 2024 en þar sem kærandi hafi aldrei staðfest atvinnuleit sína, sbr. 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hafi hann verið afskráður í lok júní 2024. Í byrjun júlí 2024 hafi kærandi svo sótt um þátttöku í úrræði Vinnumálastofnunar, „Atvinna með stuðningi“. Þegar reynt hafi verið að ná í kæranda til að fá hann til að breyta umsókn sinni hafi ekki verið unnt að ná í hann, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Á vefsíðu Vinnumálastofnunar séu ítarlegar leiðbeiningar um hvernig skuli haga umsókn um atvinnuleysistryggingar. Þá séu einnig greinargóðar leiðbeiningar í umsóknarferli um skyldu atvinnuleitenda til að staðfesta atvinnuleit eftir að umsókn sé fullkláruð. Ástæður þess að kærandi hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysistryggingar frá lok maí 2024 séu tilkomnar vegna athafna og athafnaleysis kæranda. Hvorki mistök né villur í kerfum stofnunarinnar hafi valdið því að kæranda hafi verið ómögulegt að sækja um greiðslur atvinnuleysisbóta fyrr. Tilraunir stofnunarinnar til að leiðbeina kæranda hafi ekki borið árangur. Í ljósi alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri beiðni kæranda um tilfærslu á upphafsdegi umsóknar hans, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að umsókn kæranda skuli taka mið af þeirri dagsetningu sem hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur, eða þann 9. september 2024.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um afturvirkar greiðslur atvinnuleysisbóta.
Í 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:
„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“
Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.
Fyrir liggur að Vinnumálastofnun tók við nýjustu umsókn kæranda 9. september 2024 en fyrir þann tíma átti hann ekki gilda umsókn hjá stofnuninni. Kærandi átti því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006. Framangreind skilyrði laganna eru ströng og engar undantekningar á þeim þar að finna. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2024, um að synja beiðni A, um afturvirkar greiðslur atvinnuleysisbóta, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir