Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 507/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 507/2024

Fimmtudaginn 9. janúar 2025

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. september 2024, um að greiða honum ekki atvinnuleysisbætur í 22 daga vegna ótekins orlofs hjá fyrrum vinnuveitanda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 2. september 2024. Með ákvörðun, dags. 24. september 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að bótaréttur væri 100%. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 2. september 2024 til 1. október 2024 vegna ótekins orlofs hjá fyrrum vinnuveitanda, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. október 2024. Með bréfi, dags. 31. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 3. desember 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. desember 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun um mánaðamótin september/október 2024 þar sem ótekið orlof hafi verið tekið sem laun. Kærandi mótmæli þeirri ráðstöfun og vísi til eldra máls frá úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta því til stuðnings.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysistryggingar 2. september 2024. Meðal gagna í máli þessu sé umsókn kæranda. Þar komi fram að kærandi hafi lokið uppsagnarfresti 30. ágúst 2024 og að hann hafi ekki átt ótekið orlof við starfslok. Við skoðun á gögnum sem kærandi hafi sent stofnuninni hafi komið í ljós að við greiðslu í ágúst 2024 hafi hann fengið 94 orlofstíma, eða 22 daga greidda út við starfslok. Sjálfur hafi kærandi ekki valið á umsókn sinni um atvinnuleysistryggingar á hvaða tímabili hann ætlaði að taka út orlofið sitt. Með erindi, dags. 24. september 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að bótaréttur hans væri 100%. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að vegna ótekins orlofs væri hann skráður í orlof á tímabilinu 2. september 2024 til 1. október 2024. Kæranda hafi verið bent á að unnt væri að færa töku orlofs innan orlofstímabils og honum veittar leiðbeiningar um hvernig haga bæri slíkum beiðnum í bréfinu. Kærandi hafi hvorki óskað eftir breytingum á orlofsskráningu í kerfum stofnunarinnar né haft samband til þess að fá frekari leiðbeiningar um breytingar á ráðstöfun orlofs.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 14. október 2024. Í kæru til nefndarinnar geri kærandi athugasemdir við að fá ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan orlof hans varði og vísi til niðurstöðu í kærumál fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta í máli nr. 56/2003.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hann taki út ótekið orlof hjá fyrrverandi vinnuveitanda.

Samkvæmt 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kveðið sé á um upplýsingar í tengslum við umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli launamaður þegar hann sæki um atvinnuleysisbætur tilgreina hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi. Jafnframt sé Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda til að staðreyna slíkar upplýsingar. Samkvæmt  launaseðli frá fyrrum vinnuveitanda kæranda hafi hann fengið greidda út 22 orlofsdaga við starfslok sín. Kærandi hafi ekki óskað eftir því að taka út orlof sitt, enda hafi hann ekki upplýst um það í umsókn sinni.

Í 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um þær greiðslur sem atvinnuleitandi kunni að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum og séu ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður og því ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 4. mgr. 51. gr. sé kveðið á um ótekið orlof sem greitt hafi verið út við starfslok. Þar segi orðrétt:

,,Hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skal hinn tryggði taka fram hvenær hann ætlar að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.“

Atvinnuleitandi teljist því ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemi þeim orlofsdögum sem hann hafi ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslok. Vísun til úrskurðar úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta í máli nr. 56/2003 sem hafi verið kveðinn upp í tíð eldri laga nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar breyti ekki skýru ákvæði núgildandi laga um atvinnuleysistryggingar.

Líkt og Vinnumálastofnun hafi bent kæranda á sé honum heimilt að ráða tilhögun orlofs síns innan orlofstímabilsins. Í samræmi við 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti kærandi tiltekið hvenær hann taki út orlof sitt á orlofstímabilinu. Slík beiðni hafi ekki borist stofnuninni og því taki skráning á orlofstöku mið af upphafsdegi umsóknar.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan hann taki út orlof sitt.   

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur í 22 daga vegna ótekins orlofs hans hjá fyrrum vinnuveitanda. 

Í 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um greiðslur sem eru ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 4. mgr. 51. gr. kemur fram að hver sá sem fengið hefur greitt út orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um.

Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir svo:

„Lagt er til að atvinnuleitandi teljist ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemur þeim orlofsdögum sem hann hafði ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslokin. Þó er gert ráð fyrir að umsækjandi geti tilgreint á umsókn um atvinnuleysisbætur hvenær hann ætli að taka út orlof sitt á orlofstímanum og er miðað við að hann hafi tekið út orlofið fyrir lok næsta orlofstímabils eða 15. september ár hvert, sbr. lög nr. 30/1987, um orlof. Kemur orlofsgreiðslan þá til frádráttar fyrir þann tíma sem hinn tryggði ætlaði í orlof samkvæmt umsókninni en ekki þegar í upphafi tímabilsins.“

Samkvæmt gögnum málsins lauk uppsagnarfresti kæranda 30. ágúst 2024 og átti hann þá 22 ótekna orlofsdaga sem voru greiddir út við starfslok. Kærandi var því skráður í orlof 2. september til 1. október 2024. Ljóst er að kærandi á ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir það tímabil sem orlofsgreiðslurnar áttu við um, enda eru þær greiðslur ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum. Kæranda var bent á að unnt væri að færa töku orlofs á annað tímabil en orlofstökunni skyldi þó vera lokið fyrir lok orlofstímabilsins, þ.e. 15. september 2025. Þá voru kæranda veittar leiðbeiningar um hvernig haga bæri slíkum beiðnum. Að sögn Vinnumálastofnunar barst engin slík beiðni frá kæranda. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur í 22 daga vegna ótekins orlofs, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. september 2024, um greiðslu atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta