1261/2025. Úrskurður frá 27. mars 2025
Hinn 27. mars 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1261/2025 í máli ÚNU 24090010.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 19. september 2024, kærði […], blaðamaður á Nútímanum, til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ákvörðun Útlendingastofnunar að synja beiðni hans um aðgang að gögnum.
Með erindi, dags. 24. júlí 2024, óskaði kærandi eftir öllum gögnum sem til væru og snertu umsókn […] um alþjóðlega vernd, sem hann hefði fengið árið 2018. Svar barst við beiðni hans 19. ágúst 2024. Þar kom fram að Útlendingastofnun hefði tekið saman þau gögn sem heyrðu undir beiðnina. Þau samanstæðu til dæmis af gögnum sem umsækjandi hefði skilað inn, hljóðupptökum úr viðtali, tungumála- og staðháttaprófi, gögnum frá lögreglu, samskiptum við erlend stjórnvöld, dagnótum starfsfólks, samskiptum við talsmann, gögnum sem vörðuðu þjónustu og ákvörðunum Útlendingastofnunar sem vörðuðu rétt umsækjanda til alþjóðlegrar verndar.
Gögn sem snertu umsókn um alþjóðlega vernd vörðuðu að jafnaði viðkvæmar persónulegar aðstæður. Þær upplýsingar sem finna mætti í umbeðnum gögnum væru meðal annars lífkennaupplýsingar, heilsufarsupplýsingar, upplýsingar um trúarbrögð, uppruna, félagslegar aðstæður og meinta refsiverða háttsemi. Að mati stofnunarinnar væri um að ræða upplýsingar sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Þar sem upplýsingarnar væru á víð og dreif í gögnum málsins væri ekki hægt að veita aðgang að hluta gagnanna. Beiðni kæranda væri því hafnað.
Kærandi var upplýstur um að Útlendingastofnun hefði undir höndum gögn frá kærunefnd útlendingamála sem vörðuðu umsókn […]. Með vísan til 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga væri kæranda rétt að leita þangað varðandi þau gögn.
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar bendir kærandi á að […] hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi á Íslandi áður en honum var veitt alþjóðleg vernd. Almenningur hafi ríkari rétt til upplýsinga þegar viðkomandi einstaklingur hafi gerst sekur um alvarleg brot, enda sé um að ræða mikilvæga hagsmuni varðandi öryggi almennings og trúverðugleika stjórnvalda. Þá kemur fram að umsóknarferli fyrir alþjóðlega vernd sé mjög viðkvæmt og mikilvægt ferli sem þurfi að vera gagnsætt og heiðarlegt. Stjórnvöld beri mikla ábyrgð, bæði gagnvart núverandi þegnum landsins og þeim sem hingað komi í leit að betra lífi. Til að tryggja traust og réttlæti í þessu ferli sé nauðsynlegt að almenningur hafi aðgang að upplýsingum sem varði málsmeðferð, rökstuðning og ákvarðanir sem teknar séu í þessum málum. Það sé í almannaþágu að þessi mál séu meðhöndluð með þeirri nákvæmni og gagnsæi sem upplýsingarétturinn tryggi.
Þá segir í kæru til nefndarinnar að ekkert bendi til þess að Útlendingastofnun hafi íhugað að afhenda hluta gagna með útstrikun viðkvæmra upplýsinga. Í mörgum tilvikum sé hægt að veita aðgang að gögnum með því að fjarlægja eða fela viðkvæmar upplýsingar og kærandi telji að það hefði átt að vera mögulegt í þessu tilfelli. Staðhæfing Útlendingastofnunar um að ekki hafi verið hægt að aðgreina viðkvæmar persónuupplýsingar frá öðrum upplýsingum í gögnum málsins telur kærandi óásættanlega.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Útlendingastofnun með erindi, dags. 20. september 2024, og stofnuninni gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Útlendingastofnun afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar.
Umsögn Útlendingastofnunar barst úrskurðarnefndinni 14. október 2024. Umsögninni fylgdu þau gögn sem kæran varðar. Í umsögninni eru ítrekuð þau sjónarmið sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun. Umsögn Útlendingastofnunar var kynnt kæranda með erindi, dags. 15. október 2024, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
Niðurstaða
1.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að gögnum í vörslu Útlendingastofnunar sem varða umsókn […] um alþjóðlega vernd. Ákvörðun stofnunarinnar að hafna beiðni kæranda byggðist á því að gögnin vörðuðu einkamálefni umsækjandans sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá taldi stofnunin ekki unnt að veita aðgang að gögnunum að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna, þar sem upplýsingar um einkamálefni væru svo samofnar öðrum upplýsingum að ekki væri unnt að skilja þar á milli.
Í hinni kærðu ákvörðun var kærandi upplýstur um að fyrir lægju gögn frá kærunefnd útlendingamála en að með vísan til 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga væri kæranda rétt að beina ósk um aðgang að þeim gögnum til kærunefndarinnar. Í 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. kemur fram að þegar farið er fram á aðgang að gögnum í máli þar sem taka á eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun skuli beiðni beint til þess sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Útlendingastofnun afhenti úrskurðarnefndinni framangreind gögn. Ljóst er að þau eru gögn í máli sem lauk með stjórnvaldsákvörðun kærunefndar útlendingamála. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar að taka ekki afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að þeim gögnum því staðfest.
2.
Hin kærða ákvörðun var að öðru leyti byggð á 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Í því ákvæði kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í athugasemdum við 9. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur eftirfarandi fram:
Ákvæði 9. gr. […] felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi […] er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.
Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. […] Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.
Undir 9. gr. geta fallið upplýsingar um hvort tiltekið mál er snertir ákveðinn einstakling sé eða hafi verið til meðferðar. Dæmi um slík tilvik væru t.d. upplýsingar um það hvort tiltekinn einstaklingur hafi lagt fram umsókn um leyfi til að ættleiða barn, umsókn um fjárhagsaðstoð frá félagsmálastofnun eða umsókn um fóstureyðingu.
3.
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þau gögn sem Útlendingastofnun afmarkaði beiðni kæranda við. Það er mat nefndarinnar að gögnin í heild sinni varði einkamálefni viðkomandi umsækjanda um alþjóðlega vernd í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Þá telur nefndin það sanngjarnt og eðlilegt að gögnin fari leynt í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í þeim og áður hefur verið farið yfir.
Við mat á því hvort engu að síður sé hægt að veita aðgang að hluta gagnanna þarf í fyrstu að líta til 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, þar sem fram kemur að ef ákvæði 6.–10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Um ákvæðið segir í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012:
Í [reglunni] felst að veita á aðgang að hluta gagns ef fært telst að skilja þær upplýsingar sem falla undir undantekningar frá þeim upplýsingum sem veita má aðgang að með tiltölulega einföldum hætti. Skiptir í því sambandi máli hversu víða þær upplýsingar koma fram sem óheimilt er að veita aðgang að og hversu stór hluti gagnsins verður þá ekki afhentur. Má hér almennt miða við að ef þær upplýsingar sem halda ber eftir koma fram í meira en helmingi skjals þurfi ekki að veita aðgang að öðrum hlutum þess.
Í hinni kærðu ákvörðun taldi Útlendingastofnun að þar sem upplýsingar um einkamálefni umsækjandans um alþjóðlega vernd væru á víð og dreif í gögnunum væri ekki hægt að veita aðgang að hluta þeirra. Að lokinni yfirferð gagnanna telur fellst úrskurðarnefndin á það mat Útlendingastofnunar og að upplýsingar í gögnunum um einkamálefni samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga séu svo víða og séu svo samofnar öðrum upplýsingum sem e.t.v. séu ekki háðar takmörkunum samkvæmt lögunum að útilokað sé að skilja á milli þeirra. Á það ekki aðeins við um umsóknargögn heldur líka gögn um meðferð málsins og ákvarðanir sem teknar voru, þar sem upplýsingar um einkamálefni umsækjandans sem óheimilt er að veita aðgang að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga mynda þann grundvöll málsins sem öll gögnin byggja á.
Kærandi vísar til þess að almenningur hafi hagsmuni af því að fá aðgang að gögnunum sem deilt er um aðgang að og nefnir nokkur atriði til stuðnings þeirri staðhæfingu. Af því tilefni vill úrskurðarnefndin nefna að við beitingu takmörkunarákvæðis 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga er gert ráð fyrir að metið sé hvort upplýsingar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna. Það er því jafnan eðli upplýsinganna sem slíkt sem ræður úrslitum um hvort aðgangur að þeim skuli takmarkaður fremur en að hagsmunir viðkomandi einstaklings af að upplýsingunum sé haldið leyndum séu vegnir á móti hagsmunum almennings af að fá aðgang að þeim.
Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að staðfesta skuli hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. ágúst 2024, að synja kæranda, […], um aðgang að gögnum máls vegna umsóknar um alþjóðlega vernd.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir