1262/2025. Úrskurður frá 27. mars 2025
Hinn 27. mars 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1262/2025 í máli ÚNU 24110015.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 15. nóvember 2024, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja beiðni hans um aðgang að gögnum. Með erindi, dags. 5. nóvember 2024, óskaði kærandi eftir aðgangi að kauptilboði Mílu hf. í Eygló eignarhaldsfélag ehf. Beiðni kæranda var hafnað með erindi, dags. 8. nóvember 2024, þar sem fram kom að með vísan til mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna Mílu gæti sveitarfélagið ekki afhent kauptilboðið.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með erindi, dags. 27. nóvember 2024, og sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Vestmannaeyjabær afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar.
Hinn 16. janúar 2025 var úrskurðarnefndinni sent afrit af erindi Vestmannaeyjabæjar til kæranda, dags. daginn áður. Í erindinu var aftur vísað til erindis kæranda frá 5. nóvember 2024 og kom þar fram að sala á Eygló eignarhaldsfélagi til Mílu væri í biðstöðu þar sem Samkeppniseftirlitið hefði hana til skoðunar. Úrskurðarnefndin sendi Vestmannaeyjabæ erindi samdægurs og óskaði eftir að nefndinni yrði afhent umsögn vegna hinnar kærðu ákvörðunar frá 8. nóvember 2024 og afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Nefndin ítrekaði erindið 4. febrúar 2025.
Með erindi, dags. 17. febrúar 2025, upplýsti Vestmannaeyjabær nefndina að á fundi bæjarráðs fjórum dögum fyrr hefði tillaga stjórnar Eyglóar eignarhaldsfélags um að falla frá viðskiptum um sölu á félaginu verið samþykkt. Hinn 16. mars 2025 bárust úrskurðarnefndinni svo þær skýringar að aldrei hefði borist skriflegt kauptilboð frá Mílu um kaup á Eygló eignarhaldsfélagi. Míla hefði haft samband við stjórn Eyglóar eignarhaldsfélags og lýst yfir áhuga á að kaupa félagið. Stjórnin hefði tekið beiðnina fyrir á stjórnarfundi og málið rætt í bæjarráði. Ákveðið hefði verið að samþykkja að selja Eygló eignarhaldsfélag til Mílu ef fyrirtækið væri tilbúið að greiða fyrir félagið það sem Vestmannaeyjabær hefði lagt í það. Allt hefði þetta verið munnlegt þar til drög að samningi hefðu legið fyrir með forsendum sem ræddar hefðu verið. Þau drög hefðu verið samþykkt og endanlegur samningur samþykktur í bæjarráði og bæjarstjórn. Eiginlegt kauptilboð væri samkvæmt framangreindu ekki til.
Niðurstaða
Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að kauptilboði Mílu hf. í Eygló eignarhaldsfélag ehf. Í hinni kærðu ákvörðun var beiðninni hafnað þar sem tilboðið hefði að geyma upplýsingar sem vörðuðu mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Mílu. Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni kom hins vegar í ljós að hjá Vestmannaeyjabæ lægi ekki fyrir kauptilboð frá Mílu hf. þar sem samskipti um kaup á félaginu hefðu aðeins verið munnleg fram að þeim tíma sem samningsdrög lágu fyrir.
Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 20. gr. sömu laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun beiðni um að veita aðgang að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er.
Vestmannaeyjabær fullyrðir að kauptilboð Mílu í Eygló eignarhaldsfélag liggi ekki fyrir hjá sveitarfélaginu. Þrátt fyrir Vestmannaeyjabæjar hafi gefið til kynna í hinni kærðu ákvörðun að gagnið lægi fyrir og yrði ekki afhent með vísan til hagsmuna Mílu hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar staðhæfingu sveitarfélagsins að umrætt kauptilboð sé ekki til og gagn þar um liggi því ekki fyrir hjá Vestmannaeyjabæ. Með vísan til þess liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður ákvörðun Vestmannaeyjabæjar því staðfest.
Úrskurðarorð
Staðfest er afgreiðsla Vestmannaeyjabæjar, dags. 8. nóvember 2024, á beiðni kæranda, […], um aðgang að kauptilboði Mílu hf. í Eygló eignarhaldsfélag ehf.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir