1272/2025. Úrskurður frá 30. apríl 2025
Hinn 30. apríl 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1272/2025 í máli ÚNU 24120006.
Kæra og málsatvik
Með erindi, dags. 10. desember 2024, kærði […], ritstjóri hjá Eyjafréttum, ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja beiðni hans um aðgang að samningi sveitarfélagsins við Ólaf Elíasson um gerð minnisvarða. Kærandi óskaði eftir gagninu með erindi, dags. 15. nóvember 2024, og ítrekaði beiðnina fimm dögum síðar. Með erindi, dags. 28. nóvember 2024, afhenti Vestmannaeyjabær kæranda samninginn að hluta. Strikað hafði verið yfir hluta af textanum samkvæmt beiðni Studio Olafur Eliasson þar sem viðkomandi upplýsingar vörðuðu mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
Í kæru er gerð krafa um að Vestmannaeyjabær afhendi þau gögn sem upp á vanti í samningnum, þ.e. viðauka A og B auk þeirra upplýsinga sem strikað var yfir. Þegar kemur að fjárútlátum úr sameiginlegum sjóðum hvíli rík upplýsingaskylda á sveitarfélaginu.
Málsmeðferð
Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með erindi, dags. 13. desember 2024, og sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Vestmannaeyjabær afhenti úrskurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar. Þar sem engin viðbrögð bárust frá sveitarfélaginu var erindið ítrekað hinn 16. janúar 2025.
Umsögn Vestmannaeyjabæjar barst úrskurðarnefndinni með erindi, dags. 22. janúar 2025. Umsögninni fylgdu þau gögn sem kæran varðar. Í umsögninni kemur fram að upplýsingarnar sem strikað hafi verið yfir séu um greiðslur til Studio Olafur Eliasson, sem sé verðið á listaverkinu, en segi ekkert til um kostnaðinn og gæti þar af leiðandi leitt til misskilnings sem kæmi Studio Olafur Eliasson illa viðskiptalega. Viðauki A við samninginn innihaldi mjög viðkvæmar upplýsingar um listaverkið sem hvergi hafi verið birtar opinberlega. Listaverkið sé enn í mótun og viðaukinn gefi ekki rétta mynd af endanlegri útkomu. Ólafur Elíasson muni koma til Vestmannaeyja í lok febrúar og kynna verkið sjálfur, og verði það þá opinberað. Yrði það opinberað fyrr gætu aðrir hannað eitthvað svipað út frá hugmyndinni og eignað sér. Upplýsingarnar vörðuðu því mikilvæga viðskiptahagsmuni Studio Olafur Eliasson samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Viðauki B væri tímalína sem tæki stöðugum breytingum. Það gæti verið vont fyrir viðskiptahagsmuni Studio Olafur Eliasson ef útgefin tímalína stæðist ekki. Ákvæði 9. gr. upplýsingalaga ætti því einnig við hér.
Umsögninni fylgdu samskipti Vestmannaeyjabæjar við Studio Olafur Eliasson. Í samskiptunum óskaði sveitarfélagið eftir afstöðu til afhendingar gagnanna þar sem borist hefði beiðni um þau frá almenningi. Í svörum Studio Olafur Eliasson kom fyrst fram að sveitarfélaginu væri heimilt að afhenda samninginn. Síðar kom fram að Studio Olafur Eliasson vildi að strikað yrði yfir upplýsingar um kaupverð þar sem upplýsingar um verðið segðu ekkert um kostnaðinn og gætu leitt af sér misskilning.
Með erindi, dags. 2. apríl 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um stöðu málsins og hvort forsendur sveitarfélagsins fyrir ákvörðun sinni að hafna beiðni um afhendingu samningsins væru óbreyttar. Í svari Vestmannaeyjabæjar, dags. sama dag, kom fram að íbúafundur hefði verið haldinn en á fundinum hefði ekkert komið fram um þær upplýsingar sem strikað hefði verið yfir í samningnum. Afstaða Vestmannaeyjabæjar og Studio Olafur Eliasson væri því óbreytt varðandi yfirstrikanirnar og viðauka B. Viðauka A mætti hins vegar afhenda núna.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að samningi Vestmannaeyjabæjar við Studio Olafur Eliasson um gerð minnisvarða. Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda veittur aðgangur að samningnum en strikað hafði verið yfir upplýsingar um kaupverð og viðaukum við samninginn haldið eftir með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, þar sem upplýsingarnar vörðuðu mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni Studio Olafur Eliasson.
Í 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að óheimilt sé að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Miklu skipti að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þurfi almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar geri samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað sé opinberum hagsmunum, geti þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.
Við beitingu ákvæðisins er gert ráð fyrir að metið sé í hverju tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja.
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir samninginn sem deilt er um aðgang að. Aðilar að samningnum eru Vestmannaeyjabær og Stúdíó Reykjavík ehf. Samningurinn er ódagsettur. Í 4. gr. samningsins hefur verið strikað yfir upplýsingar um upphæð kaupverðs sem Vestmannaeyjabær samþykkti að greiða fyrir verkið. Þá hefur verið strikað yfir upplýsingar um hvað Vestmannaeyjabær skyldi greiða fyrir hvern áfanga verksins. Varðandi viðauka A liggur fyrir að á íbúafundi sem haldinn var 28. mars 2025 kynnti Ólafur Elíasson minnisvarðann sem fyrirhugað er að setja upp. Viðauki A hefur að stórum hluta að geyma sömu upplýsingar og kynntar voru á fundinum. Þá hefur Vestmannaeyjabær samþykkt að viðaukann megi afhenda kæranda. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefndin að takmörkunarákvæði upplýsingalaga eigi ekki við um viðauka A og verður sveitarfélaginu gert að afhenda hann kæranda.
Að mati nefndarinnar varða upplýsingar um kaupverð í samningnum og í viðauka B um tímalínu verksins bæði fjárhags- og viðskiptahagsmuni Studio Olafur Eliasson. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á með fullnægjandi hætti að verði upplýsingarnar gerðar opinberar muni það valda Studio Olafur Eliasson tjóni. Þá horfir nefndin til þess að upplýsingar um kaupverð varða ráðstöfun opinberra fjármuna en almenningur hefur jafnan mikla hagsmuni af að vera upplýstur um hvernig fé úr sameiginlegum sjóðum er varið. Þá hefur almenningur einnig hagsmuni af að geta fylgst með hvort tímaáætlanir um verkið standist. Það er því niðurstaða nefndarinnar að hagsmunir Studio Olafur Eliasson af að upplýsingar um kaupverð og tímalínu fari leynt þurfi að víkja fyrir ríkari hagsmunum almennings af að fá upplýsingarnar afhentar. Upplýsingarnar varði þannig ekki mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni stúdíósins sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Þar sem önnur takmörkunarákvæði upplýsingalaga eiga ekki við um upplýsingarnar verður Vestmannaeyjabæ gert að veita kæranda aðgang að samningnum í heild ásamt viðaukum A og B.
Úrskurðarorð
Vestmannaeyjabær skal veita kæranda, […], aðgang að samningi sveitarfélagsins við Stúdíó Reykjavík ehf. í heild sinni ásamt viðaukum A og B við samninginn.
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir