Hoppa yfir valmynd

1275/2025. Úrskurður frá 15. maí 2025

Hinn 15. maí 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1275/2025 í máli ÚNU 25040002.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Hinn 28. mars 2025 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá Vinnuverndarnámskeiðum ehf. þess efnis að Vinnueftirlitið hefði ekki afgreitt beiðni kæranda um aðgang að gögnum innan 30 virkra daga, sbr. 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
Með erindi, dags. 11. febrúar 2025, óskaði kærandi eftir upplýsingum um fjölda þving­unaraðgerða og dagsekta Vinnueftirlitsins á árunum 2018 til og með 2024.
 
Kæran var kynnt Vinnueftirlitinu með erindi, dags. 1. apríl 2025. Hinn 16. apríl 2025 var úrskurð­ar­nefndinni gert viðvart um að beiðni kæranda hefði verið afgreidd 1. apríl 2025. Með þeirri af­greiðslu hefði beiðni kæranda verið hafnað, þar sem gagn með umbeðnum upp­lýsingum lægi ekki fyrir hjá stofnuninni og að það kallaði á umfangsmikla úrvinnslu að verða við beiðninni, sem stofn­un­inni væri óskylt að ráðast í.
 
Kærandi tjáði úrskurðarnefndinni með erindi, dags. 23. apríl 2025, að hann vildi að málinu yrði hald­ið áfram hjá nefndinni. Vinnueftirlitið upplýsti úrskurðarnefndina með erindi, dags. 29. apríl 2025, að til að verða við beiðni kærenda þyrfti að fara inn í hvert mál í GoPro sem varðaði vett­vangsathugun til að kanna hvort viðurlögum hefði verið beitt. Til að mynda hefðu mál vegna vett­vangsathugana verið 1212 árið 2023 og 1456 árið 2024.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni um aðgang að gögnum um fjölda þvingunaraðgerða og dagsekta Vinnu­eftir­litsins á árunum 2018 til 2024. Vinnueftirlitið kveður að ekki liggi fyrir gagn með þeim upp­lýs­ingum sem beiðnin varðar og það myndi útheimta þó nokkra vinnu að útbúa gagnið.
 
Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er mælt fyrir um að upplýsingaréttur almennings nái til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Í athugasemdum við 5. gr. í greinargerð með frum­varpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að skilyrði þess að gagn sé undirorpið upplýsingarétti sé að það liggi fyrir hjá þeim sem fær beiðni um aðgang til afgreiðslu. Þá segir enn fremur að réttur til aðgangs að gögnum nái þannig aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.
 
Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa fullyrðingu Vinnueftirlitsins um að gagn með þeim upplýsingum sem kærandi óskaði eftir liggi ekki fyrir í vörslu stofnunarinnar. Úrskurð­ar­nefnd­in leggur þann skilning í upplýsingar frá Vinnueftirlitinu að ekki sé hægt að kalla fram yfirlit yfir umbeðnar upplýsingar með einföldum aðgerðum í málaskrárkerfi stofn­unarinnar heldur þyrfti að fara inn í nokkur þúsund mál til þess að athuga hvort þvingunaraðgerðum eða dagsektum hefði verið beitt. Að framangreindu virtu og með vísan til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga telur úrskurð­ar­nefndin að Vinnueftirlitinu sé ekki skylt að verða við beiðni kæranda.
 
Samkvæmt framangreindu verður lagt til grundvallar að umbeðin gögn séu ekki fyrir­liggj­andi hjá Vinnueftirlitinu í skilningi upplýsingalaga. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Því ligg­ur ekki fyrir synjun beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga og verður því staðfest afgreiðsla Vinnueftirlitsins á beiðni kæranda.
 

Úrskurðarorð

Staðfest er afgreiðsla Vinnueftirlitsins, dags. 1. apríl 2025, á beiðni kæranda, Vinnuverndar­nám­skeiða ehf., dags. 11. febrúar 2025, um aðgang að upplýsingum um fjölda þvingunaraðgerða og dag­sekta stofnunarinnar frá 2018 til 2024.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Símon Sigvaldason
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta