Hoppa yfir valmynd

1279/2025. Úrskurður frá 28. maí 2025

Hinn 28. maí 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1279/2025 í máli ÚNU 24100012.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 18. október 2024, kærði […], ritstjóri hjá Eyjafréttum, ákvörð­un umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis að synja beiðni hans um aðgang að gögnum.
 
Með tölvupósti til Orkustofnunar, dags. 18. mars 2024, óskaði kærandi meðal annars eftir að stofn­un­in gerði opinber þau gögn, þ.m.t. rekstrar- og efnahagsreikninga, sem HS Veitur hf. not­uðu til að ákvarða gjaldskrá sína. Orkustofnun vísaði þessari beiðni kæranda til umhverfis-, orku- og lofts­lags­ráðuneytis og upplýsti kæranda um það með tölvupósti 25. sama mánaðar.
 
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti leitaði eftir afstöðu HS Veitna hf. til beiðni kæranda og bár­ust athugasemdir frá félaginu 12. apríl 2024. Ráðuneytið veitti kæranda aðgang að tilteknum upp­lýsingum með tölvupósti, dags. 22. maí 2024, þ.m.t. að bréfum HS Veitna hf. til ráðu­neyt­isins, dags. 9. júní 2023 og 22. nóvember sama ár. Þá kom fram í tölvupóstinum að ráðuneytið hefði til skoðunar hvort afhenda skyldi kæranda viðauka með bréfi HS Veitna hf. 22. nóvember 2023, sem innihéldi sundurliðaðar upplýsingar um áætlaða afkomu hitaveitustarfseminnar í Vest­manna­eyjum árið 2024 með og án hækkunar á gjaldskrá. Ráðuneytið og HS Veitur hf. áttu í kjöl­farið í sam­skipt­um varðandi hvort veita skyldi aðgang að þessu skjali.
 
Með tölvupósti, dags. 11. október 2024, synjaði ráðuneytið beiðni kæranda um aðgang að fyrr­nefnd­um viðauka með vísan til 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og leiðbeindi kæranda um kæru­heimild og kærufrest.
 
Í kæru kemur fram að umbeðnar upplýsingar stafi frá fyrirtæki sem hafi einkaleyfi á grunnþjónustu á svæðinu og því vandséð að um sé að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar, líkt og haldið sé fram af forsvarsmönnum fyrirtækisins. Þá sé gagnrýnt hversu langan tíma hafi tekið fyrir ráðuneytið að svara beiðni kæranda.
 

Málsmeðferð

1.

Kæran var kynnt umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneyti með erindi 21. október 2024 og ráðu­neyt­inu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.
 
Umsögn ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni 5. nóvember 2024 og meðfylgjandi henni voru þau gögn sem ráðuneytið taldi að kæran lyti að. Þá afhenti ráðuneytið nefndinni einnig athuga­semd­ir HS Veitna hf., dags. 12. apríl 2024 og 4. nóvember 2024.
 
Í umsögn ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið telji að um sé að ræða viðkvæmar fjárhags­upp­lýs­ingar sem undanþegnar séu upplýsingarétti á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Gögnin séu ítar­legri en þau sem HS Veitur hf. sendi inn til ársreikningaskrár og ítarlegri en þau gögn sem aðilar á skuldabréfamarkaði, sem séu að lána fyrirtækinu fé, hafi aðgang að. Ráðuneytið hafi þó upplýst kær­anda um meginniðurstöðu þessara gagna, sem séu þær að án hækkunar á gjaldskrá hefði að óbreyttu orðið 75 milljóna kr. tap af rekstrinum 2024 en með hækkun yrði 62 milljóna kr. hagnaður árið 2024 sam­kvæmt upplýsingum í umbeðnu skjali.
 
Í athugasemdum HS Veitna hf., dags. 14. apríl 2024, er meðal annars rakið að ekki komi til álita að afhenda upplýsingarnar á grundvelli upplýsingalaga þar sem félagið falli ekki undir gildissvið lag­anna í ljósi eignarhalds þess. Ekki sé unnt að falla frá skilyrðum 2. gr. upplýsingalaga þó um­rædd gögn hafi verið afhent opinberum aðila vegna eftirlitsskyldu þeirra með starfsemi viðkom­andi aðila. Þá er í athugasemdunum rakið að umbeðnar upplýsingar teljist vinnugögn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga og falli einnig undir 9. gr. upplýsingalaga.
 
Í samhengi við 9. gr. upplýsingalaga er meðal annars rakið að mikilvægt sé að hafa í huga þá ríku trún­aðarskyldu sem hvíli á HS Veitum hf. gagnvart markaðsaðilum sem tekið hafa þátt í skulda­bréfa­útboði félagsins. Því sé mjög óeðlilegt ef mikilvægar og viðkvæmar upplýsingar innan úr fél­ag­inu séu afhentar þriðja aðila og geti þannig haft áhrif á hagsmuni félagsins og eftir atvikum lán­veitenda, það er markaðsaðila. Um upplýsingagjöf gagnvart þessum aðilum gildi tilteknar regl­ur sem félaginu beri að fara eftir og lúti bæði að hagsmunum félagsins og lánardrottna og jafnræði þeirra. Með þetta í huga þurfi einnig að minna á að starfsemi HS Veitna hf. heyri undir ákvæði sam­keppnislaga þrátt fyrir að rekstur einstakra veitusviða byggi jafnframt á viðkomandi sérlögum og sé háður opinberu eftirliti á þeim grundvelli.
 
Í athugasemdum HS Veitna hf., dags. 4. nóvember 2024, eru meðal annars áréttuð þau sjónarmið sem eru rakin í fyrrgreindum athugasemdum félagsins. Þá er í athugasemdunum lögð áhersla á að um sé að ræða vinnugögn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga sem lögð hafi verið fram í tengslum við eftir­litsskyldur ráðuneytisins gagnvart hitaveitum samkvæmt orkulögum, nr. 58/1967. HS Veitur hf. telji ljóst að áskilnaður laganna um að ráðherra staðfesti gjaldskrá áður en hún geti tekið gildi feli í sér eftirlit af hálfu ráðuneytisins og/eða Orkustofnunar í umboði ráðuneytisins. Gögnin hafi því ekki misst stöðu sína sem vinnugögn þegar þau hafi verið afhent ráðuneytinu, sbr. úrskurð nefnd­arinnar nr. 1152/2023.
 
Um­sögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með erindi, dags. 12. nóvember 2024, og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
 

2.

Með erindi 6. mars 2025 til ráðuneytisins óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir upp­lýs­ing­um hvort ráðuneytið teldi að umbeðin gögn væru vinnugögn í skilningi 1. mgr. 8. gr. upp­lýs­inga­laga og, ef svo væri, nánari rökstuðning fyrir hvernig skilyrði ákvæðisins væru uppfyllt. Þá ósk­aði nefndin einnig eftir upplýsingum hvort 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga kynni að eiga við um gögn­in. Loks óskaði nefndin eftir afriti af bréfum HS Veitna hf. til ráðuneytisins frá 9. júní og 22. nó­vember 2023.
 
Ráðuneytið svaraði erindinu 21. mars 2025 og afhenti umbeðin gögn. Í svarinu kom meðal annars fram að HS Veitur hf. væru að hluta til í eigu opinberra aðila og að hluta til í eigu einkaaðila en hlut­ur opinberu aðilanna næmi 50,2%. Félagið falli því ekki undir gildissvið upplýsingalaga sam­kvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna. Ráðuneytið geti fallist á að umbeðin gögn hafi verið afhent á grund­velli eftirlitsskyldu ráðuneytisins með gjaldskrám hitaveitna og teljist þá sem slík til vinnugagna sam­kvæmt 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 1152/2023.
 
Á hinn bóginn sé það mat ráðuneytisins að um sé að ræða upplýsingar um atvik máls sem ekki komi fram annars staðar en umbeðnar upplýsingar hafi meðal annars legið til grundvallar ákvörðun ráðu­neytisins um staðfestingu á gjaldskrá HS Veitna hf. Upplýsingarnar falli því undir 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Á þeim grundvelli ætti ráðuneytið að veita aðgang að gögnunum, meðal annars með hliðsjón af athugasemdum um 8. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýs­inga­lög­um. Í þeim athugasemdum komi hins vegar einnig fram að þrátt fyrir að stjórnvald eða lögaðili sem falli undir gildissvið upplýsingalaga kunni að hafa útbúið tiltekið gagn í eigin þágu og til nota við meðferð máls geti efni þess engu að síður verið slíkt að rök standi til að veita almennan aðgang að því. Þar sé því áréttað að einungis sé átt við lögaðila sem falli undir gildissvið upplýsingalaga. Ráðu­neytið telji að HS Veitur hf. falli ekki undir gildissvið laganna og á þeim grundvelli beri að synja um aðgang að umbeðnum gögnum. Þá var í svarinu áréttuð afstaða ráðuneytisins um að upp­lýsingarnar féllu undir 9. gr. upplýsingalaga og meðal annars tiltekið að um væri að ræða gögn sem almennt væru ekki birt öðrum en stjórn HS Veitna hf.
 
Með erindi 16. apríl 2025 til ráðuneytisins upplýsti nefndin að við úrlausn málsins hefði hún til skoð­unar hvort HS Veitur hf. féllu undir gildissvið upplýsingalaga á grundvelli 3. gr. laganna. Var ráðu­neytinu gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum um hvort það teldi að HS Veitur hf. féllu undir gildissvið upplýsingalaga.
 
Ráðuneytið svaraði erindinu 2. maí 2025. Í svarinu kom fram að rekstur hitaveitna væri ekki lög­bund­ið hlutverk sveitarfélaga en þeim væri heimilt að reka hitaveitu og gætu fengið einkaleyfi ráð­herra til að starfrækja hitaveitu á tilteknu veitusvæði, sbr. orkulög, nr. 58/1967. Á grundvelli lag­anna gætu sveitarfélög, með samþykki ráðherra, framselt einkaleyfið einstaklingum eða fél­ög­um að einhverju leyti eða öllu leyti um ákveðið tímabil í senn með þeim skilyrðum og kvöðum sem ástæða þætti til. Í ljósi þessa teldi ráðuneytið að HS Veitur hf. féllu ekki undir gildissvið upp­lýsingalaga á grundvelli 3. gr. laganna.
 
Óþarft er að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórn­sýslu­laga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við meðferð þess.
 

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að viðauka með bréfi HS Veitna hf. 22. nóvember 2023 til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Ráðuneytið afhenti kæranda bréfið en synjaði honum um aðgang að viðaukanum á grundvelli 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
HS Veitur hf. fara með einkaleyfi á rekstri hitaveitu í Vestmannaeyjum og fer um einkaleyfið eftir ákvæð­um orkulaga, nr. 58/1967, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 944/2018 fyrir HS Veitur hf. Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. orkulaga skal ráðherra staðfesta gjaldskrá fyrir hitaveitu sem fengið hefur einkaleyfi til starfrækslu sinnar, sbr. einnig reglur um staðfestingu iðnaðar- og viðskiptaráðherra á gjaldskrám hita­veitna, nr. 947/2015.
 
Með fyrrgreindu bréfi 22. nóvember 2023 óskuðu HS Veitur hf. eftir staðfestingu ráðuneytisins á 18% hækkun á gjaldskrá hitaveitu Vestmannaeyja frá og með 1. janúar 2024. Í bréfinu var að finna skýr­ingar á ástæðum umræddrar hækkunar og sagði þar meðal annars að að óbreyttu yrði tap á rekstri hita­veitu í Vestmannaeyjum upp á 75 milljónir kr. á árinu 2024. Í viðaukanum sem fylgdi bréf­inu komu fram sundurliðaðar upplýsingar um áætlaða afkomu hitaveitustarfsemi HS Veitna hf. í Vest­manna­eyjum á árinu 2024 með og án umræddrar hækkunar á gjaldskrá. Gjaldskrá HS Veitna hf. fyrir heitt vatn, nr. 1583/2023, var staðfest af hálfu umhverfis-, orku- og lofts­lags­ráðu­neyti og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. desember 2023.
 
Um rétt kæranda til aðgangs að umbeðnu skjali fer eftir 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, en samkvæmt ákvæð­inu er þeim sem falla undir lögin skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrir­liggj­andi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna. Þá er til þess að líta að kær­andi er blaðamaður en úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að fjöl­miðl­ar geti haft tilgreinda hagsmuni af aðgangi að gögnum vegna almenns hlutverks þeirra, sbr. t.d. úr­skurði nefndarinnar nr. 1202/2024 og 1212/2024.
 
Að gefnu tilefni þykir rétt að benda á að beiðni kæranda beinist að umhverfis-, orku- og loftslags­ráðu­neyti sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga og hefur umbeðið skjal í vörslum sínum, sbr. 1. mgr. 16. gr. laganna. Verður málinu því ekki vísað frá á þeim grundvelli að HS Veitur hf. kunni að falla utan gildissviðs laganna.
 

2.

Í athugasemdum HS Veitna hf., sem ráðuneytið afhenti úrskurðarnefndinni við meðferð þessa máls, er lögð áhersla á að umbeðið skjal sé vinnugagn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga sem hafi verið afhent ráðuneytinu sem eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu. Svo sem er nánar rakið hér að fram­an telur ráðuneytið að ekki sé heimilt að takmarka rétt kæranda til aðgangs að skjalinu með vísan til 8. gr. upplýsingalaga.
 
Samkvæmt 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga geta vinnugögn verið undanþegin upplýsingarétti. Hug­tak­ið vinnu­gagn er skilgreint í 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga en samkvæmt málsgreininni eru vinnu­gögn þau gögn sem stjórnvöld eða aðrir aðilar samkvæmt I. kafla laganna hafa ritað eða útbúið til eigin afnota við undir­búning ákvörð­unar eða annarra lykta máls. Í 2. málslið málsgreinarinnar er tek­ið fram að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, nema afhending hafi verið til eftirlitsaðila á grundvelli laga­skyldu. Samkvæmt 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. ber þrátt fyrir 5. tölul. 6. gr. að afhenda vinnugögn ef þar koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma ann­ars staðar fram.
 
Úrskurðarnefndin tekur fram að það kann að vera sjálfstætt álitamál hvort umbeðið skjal teljist vinnu­gagn í skiln­ingi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, einkum með tilliti til þess hvort skjalið teljist rit­að eða út­búið til eigin afnota af stjórnvaldi eða öðrum aðila samkvæmt I. kafla laganna, en í því sam­bandi getur m.a. reynt á hvort sú starfsemi HS Veitna hf. sem upplýsingar í skjalinu varða falli undir upplýsingalög, sbr. 2. eða 3. gr. upplýsingalaga. Á hinn bóginn verður fallist á með ráðuneyt­inu að í skjalinu komi fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma annars staðar fram, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Verður því að telja að réttur kæranda að umbeðnu skjali yrði ekki takmarkaður á grundvelli 8. gr. upplýsingalaga, sbr. 5. tölul. 6. gr. lag­anna, og þarf í þeim efnum ekki að taka afstöðu til þess hvort skilyrði 1. mgr. 8. gr. laganna séu upp­fyllt.
 

3.

Að framangreindu frágengnu byggir synjun ráðuneytisins á 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga, með tilliti til hags­muna HS Veitna hf. Ráðu­neyt­ið hefur einkum bent á að umbeðnar upplýsingar séu ítarlegri en gögn sem HS Veitur hf. sendi til ársreikningaskrár og ítarlegri en gögn sem aðilar á skulda­bréfa­markaði hafi aðgang að.
 
Í 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga er mælt fyrir um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögn­um sem varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lög­aðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Fyrir liggur að HS Veit­ur hf. leggst gegn því að kæranda verði afhent umbeðið skjal.
 
Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsinga­lög­um, nr. 140/2012, segir að óheimilt sé að veita upplýsingar um atvinnu-, fram­leiðslu- og við­skipta­leynd­ar­mál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnis­stöðu svo og aðra mikil­væga við­skipta­hagsmuni. Miklu skipti að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hlið­sjón af hags­munum þess lög­aðila sem upplýsingar varða. Við matið þurfi almennt að vega sam­an hags­muni viðkom­andi lög­aðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikil­vægu hags­munum að upp­lýs­ingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenn­ingi. Þegar lögaðilar geri samn­inga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað sé opinberum hagsmunum, geti þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.
 
Við beitingu ákvæðisins er gert ráð fyrir að metið sé í hverju tilviki hvort við­komandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni verði þær gerðar opinberar. Við fram­kvæmd slíks mats verð­ur að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón verði ef að­gang­ur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, fram­setn­ingar þeirra og aldurs svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra hagsmunir við­komandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem megin­reglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér umbeðið skjal en það telur tvær blaðsíður. Á fyrstu blaðsíðu skjalsins er að finna sundurliðaðar upplýsingar um áætlaða afkomu hitaveitu­starf­semi HS Veitna hf. í Vestmannaeyjum á árinu 2024 án hækkunar á gjaldskrá félagsins. Þar koma meðal annars fram upplýsingar um áætlaðar rekstrartekjur og rekstrargjöld HS Veitna hf. á árinu 2024, sundurliðað í einstaka tekju- og gjaldaliði, auk upplýsinga um áætlaðan hagnað. Jafnframt koma þar fram upplýsingar um verðmæti fastafjármuna félagsins, skuldir, eigið fé og eigin­fjár­hlut­fall þess. Þá eru tilteknar upplýsingar teknar saman í niðurlagi síðunnar, meðal annars hversu há prósenta áætlaður hagnaður er af áætluðum rekstrartekjum. Á síðari blaðsíðu skjalsins koma fram upplýsingar um sömu fjárhagsliðina þó með þeirri breytingu að þar er gert ráð fyrir hækkun gjald­skrárinnar.
 
Eftir yfirferð á umbeðnu skjali er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að 2. málsl. 9. gr. upp­lýsingalaga standi ekki í vegi fyrir afhendingu þess. Þótt fallast megi á að upplýsingarnar sem skjal­ið hefur að geyma varði viðskiptahagsmuni HS Veitna hf. telur nefndin að ekki sé um mikil­væga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari.
 
Í framangreindu sambandi horfir úrskurðarnefndin til þess að hvorki ráðuneytið né HS Veitur hf. hafa leitt líkur að því að opinberun upplýsinganna muni leiða til tjóns fyrir félagið. Í þessu sam­hengi skiptir máli að umbeðnar upplýsingar, sem eru rúmlega eins og hálfs árs gamlar, varða hita­veitu­starfsemi HS Veitna hf. í Vestmannaeyjum en félaginu hefur verið veitt einkaleyfi á þeirri starf­semi eftir ákvæðum orkulaga, nr. 58/1967, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 944/2018.
 
Enn fremur er að mati nefndarinnar vandséð að opinberun upplýsinganna kunni að hafa í för með sér tjón fyrir HS Veitur hf. á þeim grundvelli að þær séu nákvæmari en þær upplýs­ing­ar sem aðilar á skuldabréfamarkaði hafa aðgang að. Er þess þá að gæta að umbeðnar upp­lýs­ing­ar varða áætlaða af­komu hitaveitustarfsemi HS Veitna hf. í Vestmannaeyjum á árinu 2024. Auk þess liggja fyrir end­an­legar upplýsingar um afkomu félagsins á því ári í ársreikningi félagsins fyrir árið 2024. Jafn­framt geta röksemdir um að upplýsingarnar séu nákvæmari en þær sem HS Veitur hf. afhendi árs­reikningaskrá ekki einar og sér leitt til þess að óheimilt sé að afhenda almenningi upp­lýsingar á grund­velli 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga.
 
Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verður loks að telja að almenningur hafi töluverða hags­muni af því að kynna sér þær forsendur sem lágu að baki fyrrnefndri hækkun á gjaldskrá HS Veitna hf. Að þessu og öðru framangreindu gættu telur úrskurðarnefndin að hagsmunir almennings af að fá aðgang að umbeðnum upplýsingum vegi þyngra en hagsmunir HS Veitna hf. af að upplýs­ing­arn­ar fari leynt. Verður réttur kæranda til aðgangs að umbeðnu skjali því ekki takmarkaður á grund­velli 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga.
 
Samkvæmt framangreindu og þar sem úrskurðarnefndin telur að hvorki 4. tölul. 10. gr. upp­lýs­inga­laga né önnur takmörkunarákvæði laganna eigi við um umbeðið skjal verður umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti gert að afhenda það kæranda.
 

Úrskurðarorð

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti skal veita kæranda, […], aðgang að viðauka með bréfi HS Veitna hf., dags. 22. nóvember 2023, til ráðuneytisins.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta