Hoppa yfir valmynd

1280/2025. Úrskurður frá 16. júní 2025

Hinn 16. júní 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1280/2025 í máli ÚNU 24100005.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 4. október 2024, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að synja honum aðgang að gögnum.
 
Með erindi, dags. 16. september 2024, óskaði kærandi eftir kröfubréfi á hendur Vinnslustöðinni hf. vegna tjóns á vatnsleiðslu til Vestmannaeyja. Sveitarfélagið synjaði kæranda um aðgang að kröfubréfinu með erindi, dags. 30. september 2024, þar sem um vinnuskjal væri að ræða, sem ekki yrði gert opinbert fyrr en málið yrði tekið fyrir.
 
Í kæru til nefndarinnar segir að það geti ekki gengið svo til að tjón upp á hundruð milljóna komi íbúum Vestmannaeyja ekki við. Tjónið geti lent illa á íbúum sveitarfélagsins.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Vestmannaeyjabæ með erindi, dags. 21. október 2024, og sveitarfélaginu gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Vestmannaeyjabær afhenti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál þau gögn sem kær­an varðar. Með erindi, dags. 1. nóvem­ber 2024, óskaði Vestmannaeyjabær eftir viðbótarfresti í fjórar vikur til að unnt væri að leita afstöðu erlends fyrirtækis sem upplýsingar í bréfinu vörðuðu. Úrskurðarnefndin féllst á þá beiðni.
 
Umsögn Vestmannaeyjabæjar barst úrskurðarnefndinni 29. nóvember 2024, ásamt þeim gögnum sem deilt er um aðgang að, þ.e. kröfubréfi Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna hf. til Vátrygg­inga­félags Íslands hf., Vinnslustöðvarinnar hf. og Hugins ehf. vegna tjóns á vatnslögn til Vest­manna­eyja. Í umsögn­inni kemur fram að Vestmannaeyjabær telji að gagnið sem deilt sé um aðgang að sé viðkvæmt og hafi verið útbúið vegna máls sem enn sé ólokið. Enn sem kom­ið er hafi ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir um hvernig málið verði afgreitt, en í bréfinu komi fram upplýsingar sem skaðað gætu áframhaldandi rekstur sveitarfélagsins ef þær kæmust á vit­orð almennings á þessu stigi.
 
Sveitarfélagið telji að kröfubréfið skuli undanskilið upplýsingarétti almennings í heild sinni á grund­velli 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, þar sem bréfið hafi verið sent viðkomandi aðila til athug­unar á því hvort höfða þyrfti dómsmál til innheimtu þeirrar kröfu sem þar væri gerð.
 
Fallist nefndin ekki á það telji Vestmannaeyjabær að synja skuli um aðgang að ákveðnum hluta þeirra upplýsinga sem fram koma í kröfubréfinu þar sem þær varði mikilvæga virka fjárhags- eða við­skiptahagsmuni fyrirtækja sem upplýsingarnar varða, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Þá segir að fyrir­tækin hafi lagst gegn því að upplýsingarnar verði afhentar kæranda, enda varði þau slíka hags­muni að afhending þeirra til almennings væri til þess fallin að valda þeim tjóni. Bótakröfur þær sem fram komi í kröfubréfinu séu viðmiðunarupphæðir sem byggðar séu á tilboðum frá umrædd­um fyrirtækjum sem aflað hafi verið í verk, sem enn sé óunnið og ekki hafi verið samið um endan­lega framkvæmd á.
 
Hvað varði viðgerðir á þeirri vatnslögn sem varð fyrir skemmdum hafi ekki verið lagt endanlegt mat á það hvort bjóða þurfi út þau verk sem ráðast þurfi í vegna þess tjóns sem hafi orðið á vatns­lögninni. Ljóst sé að verði upplýsingar um tilboð þau sem bárust í verkið frá viðkomandi fyrirtækj­um við undirbúning kröfubréfsins gerðar opinberar á þessu stigi skerði það mjög möguleika þeirra á framgöngu ef farið yrði í slíkt ferli. Yrðu upplýsingarnar afhentar gætu upplýsingar um nákvæm tilboðsverð borist til samkeppnisaðila félaganna, sem þá gætu nýtt þær í beinni samkeppni, m.a. til að mynda sitt eigið boð í verkið. Nái þetta á þessu stigi málsins bæði til upplýsinga um heildar­fjárhæð þeirra tilboða sem um ræði og verð á einstaka hlutum verksins. Einungis sé um að ræða tilboð sem aflað hafi verið til að áætla kostnað, sem enginn samningur hafi verið gerður um eða opinberu fé ráðstafað til.
 
Umsögn Vestmannaeyjabæjar var kynnt kæranda með erindi, dags. 3. desember 2024, og honum gefinn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Þær bárust 11. desember 2024.
 
Úrskurðarnefndin sendi Vestmannaeyjabæ fyrirspurn um málið 2. apríl 2024. Í henni var óskað eftir almennum upplýsingum um stöðu málsins, þar á meðal um hvort búið væri að semja um við­gerð á vatnslögninni. Þá var óskað afstöðu til þess hvort Vestmannaeyjabær liti svo á að heimilt væri að afhenda kæranda ákveðna hluta kröfubréfsins, að því tilskildu að 3. tölul. 6. gr. upplýsinga­laga ætti ekki við um bréfið.
 
Svar Vestmannaeyjabæjar barst nefndinni 10. apríl 2024. Í svarinu kom fram að búið væri að ganga frá samningi um kaup á nýrri vatnslögn, sem yrði afhent í ágúst 2026. Ákveðið hefði verið að fara í almennt útboð á Evrópska efnahagssvæðinu sem lyti að útlagn­ingu og flutningi neysluvatns­lagn­ar­innar. Að því er varðaði síðari hluta fyrirspurnar úrskurðarnefndarinnar teldi Vestmannaeyjabær að afmá ætti allar upplýsingar í gögnunum um nöfn og verðtilboð þeirra fyrir­tækja sem um ræddi.
 
Með erindum, dags. 15. maí 2025, óskaði úrskurðarnefndin afstöðu þeirra fyrirtækja sem gert höfðu tilboð í viðgerð á lögninni til afhendingar umbeðinna gagna til almennings. Í svari eins fyrir­tæk­is, dags. 27. maí 2025, kom fram að lagst væri gegn afhendingu þar sem um væri að ræða við­kvæmar fjárhags- og tækniupplýsingar fyrirtækisins. Yrðu þær afhentar myndi það skaða sam­keppn­is­stöðu fyrirtækisins því þær veittu innsýn í tæknilausnir, útbúnað og uppbyggingu til­boðs­verða fyrirtækisins. Þá yrði að líta til þess að ekki væri búið að gera samkomulag við Vest­manna­eyja­bæ um viðgerðina auk þess sem viðgerðin yrði líklega boðin út. Loks væri vakin at­hygli á því að Vestmannaeyjabær hefði ekki óskað eftir formlegu tilboði frá fyrirtækinu heldur aðeins mati á því hvað fyrirtækið liti svo á að viðgerðin gæti kostað.
 
Svar annars fyrirtækis barst 30. maí 2025. Í því kom fram að lagst væri gegn afhendingu gagnanna. Fyrir­tækið væri í virkri samkeppni og kysi þannig að halda verðupplýsingum leyndum eins og kost­ur væri. Þá legðist fyrirtækið sérstaklega gegn því að upplýsingar um tæknilausnir þess yrðu af­hentar.
 
Með erindi til Vestmannaeyjabæjar, dags. 2. júní 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari upp­lýsingum um stöðu málsins. Svör Vestmannaeyjabæjar bárust 10. júní 2025. Í þeim kemur fram að neysluvatnslögninni sem varð fyrir tjóni sé í fullri notkun og að það verði gert við hana. Vegna yfirvofandi skaðabótamáls sé verkið í ákveðinni biðstöðu. Tilboða, sem fram komi í þeim gögnum sem deilt er um aðgang að, hafi verið aflað óformlega til að unnt væri að átta sig á umfangi tjónsins.
 

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um aðgang að kröfubréfi Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna hf. til Vátrygg­inga­félags Íslands hf., Vinnslustöðvarinnar hf. og Hugins ehf. vegna tjóns á vatnslögn til Vest­manna­eyja. Í hinni kærðu ákvörðun var tilgreint að um vinnuskjal væri að ræða. Þótt ekki hafi verið vísað til ákvæða upplýsingalaga í því samhengi er ljóst að bréfið myndi ekki uppfylla skilyrði laganna fyrir að teljast vinnugagn þegar af þeirri ástæðu að það hefur verið afhent öðrum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna. Synjun Vestmannaeyjabæjar er jafnframt byggð á því að um sé að ræða bréfaskipti við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til af­nota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað, og að hluti bréfsins innihaldi upp­lýsingar sem varði mikilvæga virka fjár­hags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja sem upplýs­ing­arnar varða.
 
Samkvæmt 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til bréfa­skipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við at­hug­un á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir:
 

Hér að baki býr það sjónarmið að hið opinbera geti, á sama hátt og hver annar aðili að dóms­máli, leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig er aflað kom­ist til vitundar gagnaðila. Ber að túlka ákvæðið þannig að það tryggi að hið opin­bera standi ekki vegna upplýsingalaga höllum fæti í dómsmálum. Undanþágunni verður aðeins beitt um gögn sem verða til eða aflað er gagngert í þessu skyni og tekur því t.d. ekki til álits­gerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslu­mála almennt. […]

 
Gagnið sem deilt er um aðgang að í málinu er bótakrafa sem Vestmannaeyjabær og HS Veitur beindu að Vátryggingafélagi Íslands, Hugin, eiganda skipsins sem olli tjóni á vatnslögninni, og Vinnslu­stöðinni, móðurfélagi Hugins. Úrskurðarnefndin telur að viðtakendur bótakröfunnar geti ekki talist vera sérfróðir aðilar í skilningi 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Líkt og fram kemur í fram­an­greindum athugasemdum við ákvæðið er tilgangur þess að gera hinu opinbera kleift að leita ráð­gjafar sérfróðra aðila án þess að ráðgjöfin komist til vitundar gagnaðila. Viðtak­endur bótakröf­unn­ar eru mögulegir gagnaðilar í fyrirliggjandi deilu um bætur fyrir tjón á vatns­lögn­inni. Því getur Vestmannaeyjabær ekki byggt á því að 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga takmarki að­gang kæranda að bréf­inu.
 

2.

Sam­kvæmt 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða mikilvæga virka fjár­hags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.
 
Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum segir meðal annars:
 

Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörð­un tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta um­beðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

 
Í athugasemdum segir jafnframt um 2. málsl. greinarinnar:
 

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða við­skipta­hagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upp­lýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lög­aðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hags­mun­um að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hags­mun­um, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýs­ing­um.

 
Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu tilviki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni við­komandi fyrirtækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerðar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjón­ið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upp­lýs­ing­un­um. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir þann lögaðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.
 
Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við mat á hagsmunum almennings skiptir al­mennt verulegu máli hvort og þá að hvaða leyti þær upplýsingar sem um ræðir tengjast ákvörð­un­um um ráðstöfun opinbers fjár og eigna.
 

3.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar og frekari skýringum sveitarfélagsins í kjölfar hennar kemur fram að sveitarfélagið telji óheimilt samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga að afhenda tilteknar upplýsingar í bréfinu og fylgiskjali með því, nánar tiltekið heiti þeirra fyrirtækja sem um ræðir, heildarupphæð áætlaðs tjóns sveitarfélagsins og upplýsingar um verðtilboð fyrirtækjanna.
 
Úrskurðarnefndin kynnt sér kröfubréfið sem deilt er um aðgang að auk fylgiskjals með því. Bréfið er fjórar blaðsíður og hefur að geyma bótakröfu vegna tjóns á vatnslögn til Vestmannaeyja og rök­stuðning fyrir henni. Í bréfinu eru upplýsingar um heildarupphæð áætlaðs tjóns og sundurliðun á upphæðinni. Þá eru upplýsingar um þau tvö fyrirtæki sem lögðu fram tilboð í annars vegar fram­leiðslu lagnar, hönnun og ráðgjöf, og hins vegar flutning og útlagningu. Í fylgiskjali með bréfinu, sem er ein blaðsíða, eru ítarlegri upplýsingar um tilboð þessara tveggja fyrirtækja.
 
Fyrirtækin leggjast gegn því að upplýsingar um verð og tæknilegar upplýsingar í tilboðunum verði afhentar kæranda. Þá verður ekki séð að viðkomandi upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenn­ingi. Úrskurðarnefndin telur nægilega í ljós leitt að upplýsingar um þessi atriði sem finna má í gögn­unum varði mikilvæga virka fjárhags- eða við­skipta­hags­muni viðkomandi tveggja fyrirtækja, enda eru upplýsingarnar nýlegar. Við mat á því hvort sanngjarnt sé og eðlilegt að upplýsingarnar fari leynt telur úrskurðarnefndin það hafa grundvallar­þýðingu að ekki hefur enn verið gert sam­komu­lag um viðgerð á vatnslögninni og opinberum hagsmunum ráðstafað sem almenn­ing­ur gæti haft hagsmuni af að vera upplýstur um. Þá telur nefndin að fyrirtækin hafi leitt nægjanlegar líkur að því að þau kynnu að verða fyrir tjóni ef upplýsingarnar yrðu gerðar opinberar. Er Vestmanna­eyjabæ því óheimilt að veita kæranda aðgang að sundurliðun heildarupphæðar áætlaðs tjóns á bls. 3 í bréfinu og fylgiskjali með bréfinu í heild sinni.
 
Úrskurðarnefndin telur á hinn bóginn að almenningur hafi hagsmuni af að fá aðgang að kröfubréf­inu að öðru leyti auk þess sem ekki verður séð að í því séu upplýsingar sem undirorpnar séu tak­mörkunum samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Þá telur nefndin að upplýsingar um heildarupp­hæð áætlaðs tjóns á vatnslögninni eigi ekki að fara leynt, meðal annars þar sem upplýsingarnar eru að nokkru leyti þekktar nú þegar. Loks telur nefndin vandséð að upplýsingar um heiti fyrirtækjanna sem gerðu tilboð í við­gerðina og upplýsingar um þau sem birtast í neðanmálsgrein á bls. 3 í bréfinu geti fallið undir 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin að ákvörðun Vestmannaeyjabæjar skuli felld úr gildi að hluta og að sveitarfélaginu sé skylt að veita kæranda aðgang að bréfinu með þeim hætti sem tilgreint er í úrskurðarorðinu.
 

Úrskurðarorð

Vestmannaeyjabær skal veita kæranda, […], aðgang að bréfi Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna hf. til Vátryggingafélags Íslands hf., Vinnslustöðvarinnar hf. og Hugins ehf.. dags. 31. maí 2024, að undanskildum þeim fjárhæðum sem tilgreindar eru í sundurliðun heildarupphæð­ar áætlaðs tjóns Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna hf. á bls. 3 í bréfinu. Kærandi á ekki rétt til að­gangs að fylgiskjali með bréfinu.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta