Hoppa yfir valmynd

1283/2025. Úrskurður frá 16. júní 2025

Hinn 16. júní 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1283/2025 í máli ÚNU 25040014.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 22. apríl 2025, kærði FF 11 ehf. til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ákvörð­un embættis ríkislögreglustjóra að synja beiðni félagsins um aðgang að gögnum.
 
Með erindi, dags. 20. desember 2024, var fyrir hönd kæranda óskað eftir drónaupptökum sem sér­sveit ríkislögreglustjóra hefði annast á vettvangi bruna sem varð í apríl 2018. Kærandi væri ann­ar tveggja eigenda hússins sem hefði orðið eldi að bráð og hefði notið réttarstöðu brotaþola sam­kvæmt lögum um meðferð sakamála við rannsókn málsins. Í samskiptum við ríkislög­reglu­stjóra í kjölfarið kom fram að tilgangur beiðni kæranda væri að afla gagna vegna yfirstandandi mats­ferlis í dómsmáli þar sem eigendur hússins og þáverandi leigutaka annars eigendanna greindi á um ábyrgð á tjóni vegna brunans.
 
Með erindi, dags. 28. febrúar 2025, var kæranda tjáð að þar sem sakamálinu væri lokið yrði að­gangur að gögnunum ekki byggð­ur á lögum um meðferð sakamála heldur fyrir­mælum ríkis­sak­sóknara nr. 9/2017 um að­gang að gögnum sakamála sem er lokið. Um lagaheimild vísaðist til 6. mgr. 15. gr. stjórnsýslu­laga, nr. 37/1993. Ríkislög­reglu­stjóri hefði fengið staðfestingu þess efnis frá Lögreglunni á höfuð­borgarsvæðinu að gögnin væru rannsóknargögn. Kærandi ætti rétt til þess að koma í hús til að kynna sér gögnin en hvorki rétt til afhendingar þeirra né afritunar. Sam­skipti við ríkislög­reglustjóra héldu áfram fram í apríl og lyktaði með þeirri afstöðu rík­is­lög­reglustjóra að 6. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga og fyrirmæli nr. 9/2017 yrðu ekki túlkuð þannig að þau veittu rétt til af­hendingar gagnanna.
 
Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að kærandi telji að um rétt til aðgangs að gögnum fari samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um rétt til aðgangs að gögnum um aðila sjálfan. Þar sem kærandi ætti ekki aðild að stjórnsýslumáli ætti takmörkun á gildissviði upplýs­ingalaga í 2. mgr. 4. gr. þeirra laga ekki við í málinu.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ríkislögreglustjóra með erindi, dags. 25. apríl 2025, og embættinu gefinn kost­ur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að ríkislögreglustjóri af­henti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál þau gögn sem kær­an varðar.
 
Umsögn ríkislögreglustjóra barst úrskurðarnefndinni 21. maí 2025. Umsögninni fylgdu þau gögn sem kæran varðar. Í umsögn­inni kemur fram að umbeðin gögn falli utan gildissviðs upp­lýs­ingalaga sam­kvæmt 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga þar sem gögnin séu ótvírætt hluti af rann­sókn sakamáls. Sú staðreynd að rannsókn málsins sé lokið breyti ekki stöðu drónaupptakanna sem rannsóknar­gagna.
 
Umsögn ríkislögreglustjóra var kynnt kæranda með erindi, dags. 22. maí 2025, og félaginu gef­inn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Í athugasemdum kæranda, dags. 23. maí 2025, vísar hann til athugasemda við 4. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem varð að upplýsinga­lög­um, nr. 140/2012, þar sem segi að aðgangur að gögnum í sakamálum fari sam­kvæmt sérákvæpum laga um meðferð sakamála. Ríkislögreglustjóri hafi hafnað því að að­gangur kæranda verði byggður á lögum um meðferð sakamála. Kærandi telji ótækt að ríkis­lög­reglu­stjóri líti svo á að kæru skuli vísað frá með vísan til þess að kærandi eigi ríkari rétt til að­gangs að gögnum samkvæmt lögum sem ríkislögreglustjóri hafi talið að eigi ekki við í mál­inu. Þá fái kærandi ekki séð að ríkis­lög­reglu­stjóri fari með rannsókn eða saksókn nema í sér­stök­um málaflokkum sem ekki verði séð að mál kæranda falli undir.
 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upptökum í vörslu embættis ríkislögreglu­stjóra af bruna sem varð í húsnæði í eigu kæranda. Kærandi telur að réttur hans til aðgangs að gögn­unum fari samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og að hann eigi rétt á að fá af­rit af þeim. Ríkislögreglustjóri telur að gagnið falli utan gildissviðs laganna þar sem það til­heyri sakamáli, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna.
 
Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða sak­sókn. Í nefndaráliti allsherjarnefndar um frumvarp það sem varð að upplýsingalögum, nr. 50/1996, kemur fram að talið hafi verið eðlilegra að lög um meðferð opinberra mála hefðu að geyma sér­reglur í þessu sam­bandi. Þá segir í athugasemdum við 4. gr. í greinargerð með frum­varpi til upp­lýs­ingalaga, nr. 140/2012, að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sér­ákvæð­um laga um með­ferð sakamála. Það hefur ekki þýðingu fyrir túlkun þessa ákvæðis hvort rann­sókn sakamáls sé enn í gangi eða hvort henni sé lokið, sbr. til dæmis úrskurð nefndarinnar nr. A-144/2002. Um að­gang að gögnum sakamála sem er lokið fer samkvæmt fyrirmælum rík­is­saksóknara þess efnis nr. 9/2017. Í 1. gr. fyrirmælanna er kveðið á um að heimila megi sak­borningi og brotaþola aðgang að rannsóknargögnum sakamáls sem er lokið, sem og hverjum þeim sem sýni fram á að hann hafi lög­varinna hagsmuna að gæta.
 
Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra, sem aflaði einnig staðfestingar þess efnis frá Lög­regl­unni á höfuðborgarsvæðinu, tilheyra gögn þau sem deilt er um aðgang að í máli þessu saka­máli sem laut að rannsókn í tengslum við bruna sem varð í húsnæði í eigu kæranda árið 2018. Úr­skurð­ar­nefndin hefur farið yfir gögnin, sem samanstanda af drónaupptökum af vett­vangi brunans, og telur ekki ástæðu til að draga í efa að þau tilheyri umræddu sakamáli. Það hefur ekki þýðingu fyrir þessa niðurstöðu hvort ríkislögreglustjóri hafi annast rannsókn saka­máls­ins.
 
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þau gögn sem deilt er um aðgang að í málinu falla samkvæmt framangreindu utan gildissviðs upp­lýs­inga­laga. Í því ljósi verður að vísa kæru í máli þessu frá úrskurðarnefnd um upplýsinga­mál.
 

Úrskurðarorð

Kæru FF 11 ehf., dags. 22. apríl 2025, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta