Hoppa yfir valmynd

1284/2025. Úrskurður frá 16. júní 2025

Hinn 16. júní 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1284/2025 í máli ÚNU 25050004.
 

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 2. maí 2025, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál af­greiðslu Skattsins á beiðni hans um upplýsingar. Með erindi til Skattsins, dags. 3. mars 2025, ósk­aði kærandi eftir einni heildartölu um hverju íþróttafélagið ÍBV hefði skilað í opinber gjöld vegna Þjóð­hátíðar í Vestmannaeyjum 2024.
 
Í erindi Skattsins til kæranda, dags. 25. apríl 2025, kom fram að undantekningar frá meginreglu um þagnarskyldu starfsmanna skattyfirvalda, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skyldi túlka þröngt og upplýsingar um einstaka aðila yrðu ekki veittar nema á grundvelli áskilnaðar í lögum.
 
Kæran var kynnt Skattinum með erindi, dags. 8. maí 2025, og Skattinum gefinn kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Skatturinn afhenti úrskurðarnefnd um upplýs­inga­mál þau gögn sem kær­an varðar.
 
Umsögn Skattsins barst úrskurðarnefndinni 16. maí 2025. Í umsögn­inni ítrekar Skatturinn það sem kom fram í umsögn embættisins við aðra kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem lauk með úrskurði nr. 1251/2025 frá 18. febrúar 2025, þar sem óskað var eftir sambærilegum upplýsing­um og í máli þessu. Í þeirri umsögn kom fram að gagn með umbeðnum upplýsingum væri ekki fyrir­liggjandi í skilningi upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá kemur fram í umsögninni að upplýsingar um tekjur og opinber gjöld vegna einstakra viðburða liggi almennt ekki fyrir. Eftirlit með einstök­um aðilum sé byggt á greiningu meðal annars á atvinnugreinanúmerum út frá áhættu­þáttum. Slíkri grein­ingu ásamt tilheyrandi gagnaöflun yrði ekki stýrt af óviðkomandi aðilum. Þá væri ekki unnt að verða við beiðni um slíkt verkefni að ósk úrskurðarnefndarinnar, með tilliti til umfangs, tíma og kostnaðar meðal annars frá viðkomandi aðila um afmörkun einstakra þátta tekju­öflunar og kostn­aðar innan ársins.
 
Þrátt fyrir að þagnarskyldu sé aflétt með lögboðinni framlagningu annars vegar álagningarskrár og hins vegar skattskrár, þá sé einungis um að ræða álagða skatta og gjöld á skattskylda aðila miðað við skattstofna á ársgrundvelli.
 
Umsögn Skattsins var kynnt kæranda með erindi, dags. 22. maí 2025, og honum gefinn kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
 

Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda til Skattsins um upplýsingar um eina heildartölu sem sýni hverju íþrótta­félagið ÍBV skilaði í opinber gjöld vegna Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum 2024. Skatturinn kveð­ur að ekki liggi fyrir gagn með þessum upplýsingum og að ekki sé hægt að kalla það fram með einföldum skipunum í gagnagrunnum embættisins.
 
Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er mælt fyrir um að upplýsingaréttur almennings nái til fyrirliggjandi gagna sem varða tiltekið mál og tiltekinna fyrirliggjandi gagna. Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. er ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. 5. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að ef ákvæði 6.–10. gr. laganna eigi aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess. Í athugasemdum við 5. gr. í greinargerð með frum­varpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir að skilyrði þess að gagn sé undirorpið upplýsingarétti sé að það liggi fyrir hjá þeim sem fær beiðni um aðgang til afgreiðslu. Þá segir enn fremur að réttur til aðgangs að gögnum nái þannig aðeins til þeirra gagna sem til eru og fyrir liggja á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma.
 
Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að draga í efa þá fullyrðingu Skattsins að gagn með um­beðnum upplýsingum sé ekki fyrirliggjandi hjá stofnuninni. Þá er ljóst að ekki væri unnt að kalla fram gagn með þeim upplýsingum sem óskað er eftir með tiltölulega einföldum hætti, svo sem með nokkr­um einföldum skip­unum í gagnagrunni, heldur þyrfti að ráðast í vinnu sem væri meiri að umfangi en sem því nemur. Að framan­greindu virtu og með vísan til 1. mgr. 5. gr. upp­lýs­ingalaga verður lagt til grundvallar að gagn með umbeðnum upplýsingum liggi ekki fyrir hjá Skatt­inum.
 
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum sam­kvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Þar sem gagn með umbeðnum upplýsingum liggur ekki fyrir hjá Skattinum er ljóst að ekki er um að ræða synjun beiðni um afhendingu gagna í skiln­ingi 1. mgr. 20. gr. upplýs­inga­laga. Verður því staðfest hin kærða ákvörðun Skatts­ins.
 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Skattsins, dags. 25. apríl 2025, að synja beiðni kæranda, […], dags. 3. mars 2025, er staðfest.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta