Hoppa yfir valmynd

1285/2025. Úrskurður frá 3. júlí 2025

Hinn 3. júlí 2025 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1285/2025 í máli ÚNU 25050002.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 30. janúar 2025, kærði […] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja beiðni hans um aðgang að gögnum.
 
Í desember 2024 sendi kærandi erindi til Reykjavíkurborgar, þar sem hann kallaði eftir því að brugð­ist yrði tafarlaust við ófullnægjandi aðstöðu barna til náms í […]skóla. Í erindinu velti kær­andi því upp hvernig Reykjavíkurborg gæti tryggt menntun barna í skólanum og veitt kenn­ur­um þannig stuðning sem þeir þyrftu á að halda. […]
 
Í erindi kæranda til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 1. janúar 2025, kom eftirfar­andi meðal annars fram:
 
[…]
 
Í svari Reykjavíkurborgar, dags. 2. janúar 2025, kom fram að til að sveitarfélagið gæti brugðist við erind­inu þyrfti að afla frekari upplýsinga meðal annars frá […]skóla. Með erindi, dags. 15. jan­úar 2025, óskaði kærandi eftir öllum þeim gögnum sem skóla- og frístundasvið tæki saman varð­andi mál kæranda.
 
Reykjavíkurborg brást við erindi kæranda hinn 27. janúar 2025 og afhenti honum meðal annars um­sögn […]skóla, dags. 13. janúar 2025, sem skóla- og frístundasvið hefði óskað eftir með bréfi, dags. 2. janúar 2025. Aðgangur að tilteknum upplýsingum í umsögninni var takmarkaður með vísan til 9. gr., sbr. 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og 6. gr. reglugerðar um miðl­un og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýs­ing­um um börn sín, nr. 897/2009. Kæranda var leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar um upp­lýs­ingamál.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Reykjavíkurborg með erindi, dags. 10. febrúar 2025, og Reykjavíkurborg gefinn kost­ur á að koma á framfæri umsögn um kæruna. Þá var þess óskað að Reykjavíkurborg afhenti úr­skurðarnefnd um upplýsingamál þau gögn sem kæran varðar.
 
Umsögn Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 14. mars 2025. Umsögninni fylgdu þau gögn sem kæran varðar. Í umsögninni kemur fram að umrædd umsögn hafi verið afhent kæranda á grund­velli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Þá var tekið fram að líta beri til þess að grunn­skólar séu bundnir af reglum sem um starfsemi þeirra gilda, sbr. meðal annars lög um grunn­skóla, nr. 91/2008, og reglugerð um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum, nr. 897/2009. Einnig sagði að aðgangur kæranda hefði verið takmarkaður á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upp­lýsingalaga, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 897/2009.
 
Umsögn Reykjavíkurborgar var kynnt kæranda með erindi, dags. 18. mars 2025, og honum gefinn kost­ur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust 20. mars 2025. Óþarft er að rekja frek­ar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úr­skurð­ar­nefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja að hluta beiðni kæranda um aðgang að umsögn […]skóla um stöðu mála í […] árgangi skólans frá 13. janúar 2025. Fyrir liggur að skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar aflaði umsagnarinnar frá skólanum í tilefni af erindum kær­anda til sveitarfélagsins í desember 2024 og janúar 2025.
 
Í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálf­an. Ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga hefur verið skýrt svo, að undir greinina falli ekki ein­vörðungu þau tilvik þegar maður óskar eftir aðgangi að gögnum með upplýsingum um sig sjálf­an, heldur taki hún einnig til þess þegar upplýsingarnar varða hann með þeim hætti að hann hafi sér­staka hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnunum.
 
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni þeirrar umsagnar sem kærandi hefur óskað aðgangs að. Í henni er fjallað almennt um stöðu árgangsins og athugasemdum kæranda svarað. Auk þess er fjall­að um þær aðgerðir sem […]skóli hefur ráðist í til þess að bæta stöðu árgangsins. Tilgangur um­sagnarinnar var að bregðast við athugasemdum kæranda um stöðu […] árgangs […]skóla […].
 
Með hliðsjón af framangreindu og þar sem ljóst er að umsögnin geymir upplýsingar sem kærandi hefur sérstaka hagsmuni af því að fá aðgang að, umfram aðra, í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsinga­laga, telur úrskurðarnefndin að um aðgang kæranda fari eftir þeirri lagagrein og að öðru leyti eftir ákvæð­um upplýsingalaga, sbr. III. kafla laganna.
 

2.

Réttur aðila til aðgangs að upplýsingum er varða hann sjálfan er m.a. takmarkaður af 3. mgr. 14. gr. upp­lýsingalaga. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafn­framt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Í málinu þarf því að taka afstöðu til þess hvort hagsmunir þeirra einstaklinga sem nefnd­ir eru í umsögninni, eða sem hægt er að bera kennsl á út frá upplýsingum sem þar koma fram, af því að umsögnin fari leynt, vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að geta kynnt sér upplýs­ing­arnar.
 
Í athugasemdum við 3. mgr. 14. gr. í frumvarpinu sem varð að upplýsingalögum kemur fram að í að­stæðum, líkt og þeim sem uppi eru í máli þessu, sé líklegt að reyni á andstæða hagsmuni, annars vegar þess sem upplýsinga óskar og hins vegar annarra þeirra sem hlut eiga að máli og kunna að eiga réttmæta hagsmuni af því að tilteknum atriðum er þá varða sé haldið leyndum. Kjarni regl­unn­ar í 3. mgr. felist í því að vega skuli og meta þessa gagnstæðu hagsmuni, en síðarnefndu hags­mun­irnir séu að meginstefnu hinir sömu og liggja að baki 9. gr. upplýsingalaga. Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum kemur fram að það sé engum vafa undir­orp­ið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd séu allar undan­þegn­ar aðgangi samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Í 3. tl. 3. gr. laga um persónuvernd og vinnslu per­sónu­upplýsinga, nr. 90/2018, segir að viðkvæmar persónuupplýsingar séu meðal annars upp­lýs­ing­ar um þjóðernisuppruna og upplýsingar um líkamlegt eða andlegt heilbrigði einstaklings.
 
Þeir hlutar umsagnarinnar, sem kæranda var synjað um aðgang að, hafa að geyma viðkvæmar upp­lýsingar um einkamálefni annarra barna, […]. Ljóst er að um er að ræða upplýsingar um einkamálefni annarra í skilningi 3. mgr. 14. gr. upp­lýsingalaga. Kærandi hefur fengið aðgang að þeim upplýsingum í umsögninni, sem deilt er um að­gang að, sem fjalla beint um kröfur hans […]. Þrátt fyrir að í umsögninni séu engin nöfn tilgreind má gera ráð fyrir því að mögulegt sé að tengja upplýsingar sem þar koma fram við tiltekna aðila. Hagsmunir þeirra barna og foreldra sem í hlut eiga, vega að mati úrskurð­ar­nefndarinnar þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að þeim hluta umsagnarinnar sem synjað var um aðgang að.
 
Með vísan til þess sem framan greinir er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sú að staðfesta beri ákvörð­un Reykjavíkurborgar um að synja kæranda um aðgang að umsögninni að hluta.
 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 27. janúar 2025, að synja að hluta beiðni kæranda, […], um aðgang að umsögn […]skóla, dags., 13. janúar 2025.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta