Hoppa yfir valmynd

880/2020. Úrskurður frá 24. mars 2020

Úrskurður

Hinn 24. mars 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 880/2020 í máli ÚNU 19100007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 3. október 2019, kærðu Neytendasamtökin afgreiðslu Fjársýslu ríkisins á beiðni samtakanna um upplýsingar. Kærandi óskaði þann 7. júní 2019 eftir upplýsingum um það hvort og að hversu miklu leyti tilteknar sektir sem fyrirtækinu A hafi verið gert að greiða hefðu skilað sér til ríkissjóðs. Einnig var óskað upplýsinga um hvort gerð hefði verið tilraun til að innheimta allar þær stjórnvaldssektir sem Neytendastofa lagði á fyrirtækið.

Með bréfi, dags. 18. júlí 2019, synjaði Fjársýslan beiðninni á þeim grundvelli að hún hefði ekki heimild til þess að veita upplýsingarnar. Þann 19. júlí óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var erindið ítrekað þann 7. ágúst 2019. Þann 28. ágúst 2019 barst svar frá Fjársýslunni þess efnis að á grundvelli laga nr. 90/2018 um persónuvernd væri óheimilt að veita upplýsingar um stöðu einstakra viðskiptavina ríkissjóðs og stofnana.

Í kæru kemur fram að á árunum 2016 og 2017 hafi sektir verið lagðar á smálánafyrirtæki sem nú séu í eigu A. Kærandi telji mikilvægt að fá úr því skorið hvort eða að hve miklu leyti fyrirtækin hafi greitt álagðar sektir svo hægt sé að meta hvort refsing í formi stjórnvaldssekta sé raunhæft úrræði þegar komi að ólögmætri starfsemi smálánafyrirtækja. Kærandi telji lög um persónuvernd ekki eiga við í málinu. Þá hafi Fjársýslan ekki farið eftir 19. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, varðandi rökstuðning þegar erindinu var hafnað, né hafi þau leiðbeint um rétt til kæru skv. 20. gr. sömu laga.

Kærandi krefst þess að fá aðgang að gögnum sem sýni hvort A eða dótturfyrirtæki hafi greitt álagðar stjórnvaldssektir í heild eða að hluta og aðgang að gögnum sem sýni hvort og að hve miklu leyti reynt hafi verið að innheimta sektirnar. Þá segir í kæru að ef ekki verði fallist á aðgang kæranda að framangreindum gögnum í heild sinni sé þess farið á leit að aðgangur verði veittur að svo stórum hluta sem lög leyfi. Kærandi segir ákvarðanir um stjórnvaldssektir vera opinberar upplýsingar þar sem fyrirtæki séu nafngreind og upphæð sekta sé tilgreind. Að mati kæranda sé það ekki haldbær rökstuðningur að upplýsingar um greiðslu sekta eigi ekki erindi við almenning né heldur að lög um persónuvernd gildi um upplýsingarnar. Fyrirtæki sem stundi smálánastarfsemi séu ekki leyfisskyld og sæti því ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Stjórnvaldssektir séu því eina úrræði opinberra eftirlitsaðila fari fyrirtækin ekki að lögum. Að mati kæranda séu ríkir almannahagsmunir fólgnir í því að fá aðgang að upplýsingunum til þess að geta metið hvort beiting dagsekta sé raunhæft úrræði þegar um sé að ræða ólögmæta fjármálastarfsemi á neytendamarkaði. Að mati kæranda eigi engar undantekningarreglur upplýsingalaga við um aðgang að umbeðnum gögnum.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Fjársýslu ríkisins með bréfi, dags. 7. október 2019, og henni veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Fjársýslunnar, dags. 15. nóvember 2019, kemur fram að beiðni kæranda hafi verið tekin til meðferðar á grundvelli upplýsingalaga. Í því skyni að afmarka beiðnina við gögn í vörslum Fjársýslunnar, sbr. 15. gr. upplýsingalaga, hafi verið farið yfir málaskrá stofnunarinnar. Engin mál hafi fundist sem tengdust beiðni samtakanna. Þar sem ekki liggi fyrir gögn í vörslum Fjársýslunnar sem felld verði undir beiðnina verði að vísa henni frá en réttur almennings til aðgangs að upplýsingum nái einungis til fyrirliggjandi gagna, skv. 5. gr. upplýsingalaga. Að því leyti sem beiðnin taki til aðgerða á borð við að fletta upp stöðu einstakra lögaðila í gagnagrunnum Fjársýslunnar telji stofnunin sér það hvorki skylt, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, né heimilt skv. 9. gr. laganna, sbr. einnig 6. gr. reglugerðar nr. 464/2018. Upplýsingar um skuldastöðu einstaklinga og lögaðila við ríkið eða stöðu mála sem séu í innheimtu teljist að mati Fjársýslunnar tvímælalaust til viðkvæmra upplýsinga um einkahagsmuni þeirra.

Umsögn Fjársýslunnar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 15. nóvember 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 3. desember 2019, er beiðnin ítrekuð. Fram kemur að kærandi geti ekki séð að slíkar upplýsingar varði einungis einkahagsmuni þess fyrirtækis sem um ræði. Kærandi hafni þeirri röksemd að 9. gr. upplýsingalaga hamli því að Fjársýsla ríkisins afhendi umbeðnar upplýsingar. Smálánafyrirtæki hafi verið dæmd fyrir að brjóta lög og gert sem refsingu að greiða stjórnvaldssektir. Því til staðfestingar sé bent á að þann 29. nóvember 2019 hafi dómur í máli nr. 227/2019 fallið í Landsrétti þess efnis að A og fyrirtæki undir hatti þess hafi brotið í bága við lög um neytendalán nr. 33/2013 og að álagðar stjórnvaldssektir stæðu. Í dómnum sé opinberað hverjar umræddar sektarupphæðir séu og því ekki um að ræða upplýsingar sem varði mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila í skilningi 9. gr. upplýsingalaga.

Í lögskýringargögnum með 9. gr. komi fram að þær upplýsingar sem óheimilt sé að veita séu upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Fyrir liggi dómsmál þar sem umræddum aðila sé gert að greiða ákveðna upphæð. Upplýsingar um skuldastöðu fyrirtækisins séu því nú þegar opinberar. Viðskiptahagsmunir standi því ekki í vegi fyrir því að kærandi fái upplýsingar um hvort fyrirtækið hafi greitt stjórnvaldssekt sem sé opinber og fyrirtækinu beri að greiða lögum samkvæmt. Þá telji kærandi það vera sanngjarnt og eðlilegt að veittar séu upplýsingar um það hvort að lögaðili hafi framfylgt dómsniðurstöðu. Ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 464/2018 eigi því ekki við í þessu tilviki. Hafi Fjársýslan ekki umbeðnar upplýsingar, þ.e. um innheimtu þessara sekta og útistandandi kröfur, hefði hún mátt benda kæranda á það strax í upphafi í stað þess að gefa ófullnægjandi svör og vísa til laga um persónuvernd sem eigi augljóslega ekki við í þessu samhengi. Hafi Fjársýslan hins vegar umbeðnar upplýsingar sé farið fram á að þær verði afhentar kæranda.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, Neytendasamtakanna, til aðgangs að gögnum frá Fjársýslu ríkisins með upplýsingum um hvort fyrirtæki sem dæmt hafi verið til greiðslu sekta hafi greitt sektirnar og þá að hvaða leyti. Þá er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum frá sömu stofnun með upplýsingum um hvort gerð hafi verið tilraun til að innheimta allar þær stjórnvaldssektir sem Neytendastofa hafi lagt á fyrirtækið.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Samkvæmt gögnum málsins synjaði Fjársýslan beiðni kæranda með bréfi, dags. 28. ágúst 2019, en kæra er dagsett 3. október 2019. Kæran barst því 36 dögum eftir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Í svari Fjársýslunnar til kæranda var honum þó hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr., svo sem er áskilið er í 1. mgr. 19. gr. laganna. Með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er því afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en að liðnum kærufresti og verður henni því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum.

2.

Fjársýsla ríkisins afgreiddi beiðnina með vísan til þess að í málaskrá stofnunarinnar væru ekki fyrirliggjandi gögn með þeim upplýsingum sem óskað væri eftir. Að því leyti sem beiðnin taki til aðgerða á borð við þá að fletta viðkomandi lögaðila upp í gagnagrunni stofnunarinnar þá telji stofnunin sér það hvorki skylt, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, né heimilt skv. 9. gr. laganna, sbr. einnig 6. gr. reglugerðar nr. 464/2018 en upplýsingar um skuldastöðu einstaklinga og lögaðila við ríkið eða stöðu mála sem séu í innheimtu séu viðkvæmar upplýsingar um einkahagsmuni þeirra.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál ræður það af framangreindu svari Fjársýslu ríkisins að þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir kunni að vera aðgengilegar hjá stofnuninni með því einfaldlega að fletta viðkomandi lögaðila upp í kerfi stofnunarinnar. Þegar af þessum sökum telur nefndin ekki koma til greina að vísa málinu frá á þeim grundvelli að ljóst sé að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá stjórnvöldum, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þess í stað verður tekin afstaða til þeirra röksemda sem stofnunin færir fram fyrir þeirri afstöðu að neita að fletta lögaðilanum upp í kerfi sínu á grundvelli þeirra takmarkana á upplýsingarétti sem kveðið er á um í 9. gr. upplýsingalaga. Í ljósi þess að álitaefnið snýr að því hvort kærandi eigi lögvarinn rétt á umræddum upplýsingum í kjölfar beiðni þar að lútandi kemur 6. gr. reglugerðar nr. 464/2018, sem stofnunin vísaði jafnframt til í svari sínu, ekki til nánari skoðunar, enda fjallar reglugerðin um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda.

3.

Í 5. gr. upplýsingalaga kemur fram að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Í máli þessu reynir á 9. gr. upplýsingalaga sem fjallar um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Þar segir orðrétt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Eins og sjá má af orðalagi ákvæðisins gera upplýsingalög greinarmun á því hvort takmarkanir á grundvelli ákvæðisins lúti að einkahagsmunum einstaklinga eða fyrirtækja. Í athugasemdum greinargerðar er fylgdi frumvarpi til laganna er til dæmis sérstaklega tekið fram að upplýsingar um það hvort mál sé eða hafi verið til meðferðar hjá stjórnvöldum kunni að falla undir takmörkun ákvæðisins. Um einkamálefni lögaðila segir hins vegar:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Samkvæmt framangreindu gera hvorki orðalag 9. gr. upplýsingalaga, né lögskýringargögn, ráð fyrir því að þær upplýsingar einar og sér að mál fyrirtækis eða annars lögaðila hafi verið til meðferðar hjá stjórnvöldum teljist upplýsingar sem falli undir ákvæðið. Það sem hér skiptir máli er hvort upplýsingarnar varði virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi lögaðila. Séu slíkir hagsmunir til staðar þarf stjórnvald jafnframt að vega þá á móti hagsmunum almennings af því að hafa aðgang að umræddum upplýsingum hjá stjórnvöldum.

Í því máli sem hér um ræðir óska Neytendasamtökin eftir því að fá upplýsingar um það hvernig stjórnvöld hafi fylgt eftir álagningu stjórnvaldssektar, sem staðfest var með dómi Landsréttar í máli 227/2019. Í umræddum dómi kemur fram fjárhæð sektarinnar sem og þau atvik sem leiddu til hennar. Upplýsingarnar sem kærandi óskar eftir varða aftur á móti aðeins það hvort stjórnvöld hafi innheimt umrædda sekt hjá fyrirtækinu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að upplýsingar um þetta teljist almennt séð ekki þess eðlis að þær njóti verndar 9. gr. upplýsingalaga. Enda teljast þær einar og sér ekki til upplýsinga um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál og veita ekki viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Þá hefur almenningur almennt ríkan hag af því að geta fylgst með því hvort stjórnvaldssektir sem staðfestar eru með dómi séu innheimtar í kjölfar lögbrota fyrirtækja og annarra lögaðila.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Fjársýslu ríkisins hafi verið óheimilt að synja beiðni Neytendasamtakanna á þeirri forsendu að upplýsingar um meðferð í málum einstakra lögaðila féllu almennt og án frekari atviksbundinnar athugunar undir 9. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin felur því stofnuninni að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar, rannsaka þau gögn sem falla kunni undir beiðnina í kerfi stofnunarinnar, og taka í kjölfar afstöðu til réttar kæranda til aðgangs að upplýsingum í samræmi við þau meginsjónarmið sem rakin eru hér að framan.

Úrskurðarorð:

Kæru Neytendasamtakanna á ákvörðun Fjársýslu ríkisins, dags. 28. ágúst 2019, er vísað til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson

 

Sigríður ÁrnadóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira