Hoppa yfir valmynd

1058/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022

Hinn 3. febrúar 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1058/2022 í máli ÚNU 21070014.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 21. júlí 2021, kærði A synjun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir einnig LRH) á beiðni hans, dags. 20. júlí sama ár, um aðgang að upplýsingum og gögnum vegna tiltekins máls hjá lögreglunni, skriflegum erindum á hvaða formi sem þau væru og hvort sem um formleg eða óformleg erindi væri að ræða, fyrirspurnum, minnisblöðum og öllum öðrum gögnum í tengslum við málið. Beiðni kæranda var byggð á 14. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, um rétt til aðgangs að gögnum um aðila sjálfan. Kæranda var tjáð að eina gagn málsins væri dagbókarfærsla. Hann fékk ekki aðgang að sjálfri dagbókarfærslunni en fékk hins vegar aðgang að samantekt úr færslunni.

Kæran var kynnt LRH með erindi, dags. 22. júlí 2021, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að LRH léti úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn LRH barst úrskurðarnefndinni hinn 10. ágúst 2021. Í umsögninni kemur fram að tildrög málsins séu þau að kærandi hafi lagt fram tilkynningu um að barn hans væri týnt hinn 2. júlí 2021. Málið hafi verið bókað í dagbók lögreglu. Sú dagbókarfærsla sé eina gagn málsins og því sé ekki um önnur gögn að ræða.

Í umsögn LRH er því lýst að þegar aðili komi á lögreglustöð og tilkynni um týndan einstakling skuli lögregla hefja rannsókn máls, þótt ekki liggi fyrir grunur um refsiverða háttsemi, sbr. 52. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Umsögnin var kynnt kæranda sama dag og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust nefndinni samdægurs. Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, kemur fram að lögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum er tilgreint að um aðgang að gögnum í slíkum málum fari að sérákvæðum laga um meðferð sakamála.

Þau gögn sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að í máli þessu tilheyra skilmerkilega rannsóknargögnum sakamáls, samkvæmt upplýsingum frá LRH. Aðgangur að þeim verður því ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Synjun á beiðni um aðgang að þeim verður þar af leiðandi ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Því er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá nefndinni.

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 21. júlí 2021, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira