Hoppa yfir valmynd

889/2020. Úrskurður frá 22. apríl 2020

Úrskurður

Hinn 22. apríl 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 889/2020 í máli ÚNU 19080013

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 26. ágúst 2019, kærði Sigurgeir Valsson lögmaður, f.h. Fylkis ehf., synjun Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis á beiðni félagsins um aðgang að gögnum.

Í kæru kemur fram að kærandi sé eigandi fasteignar að Tjaldsnesi í Mosfellsdal. Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis hafi lagt dagsektir á kæranda vegna kröfu um endurnýjun á fráveitu. Ágreiningur hafi orðið um lögmæti kröfunnar og undir rekstri máls Y-3/2018 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hafi heilbrigðiseftirlitið lagt fram dómskjal með bréfum frá heilbrigðiseftirlitinu til fasteignaeigenda í Mosfellsdal þar sem krafist var úrbóta á rotþróm en upplýsingar um viðtakendur bréfanna höfðu verið afmáðar. Umrædd bréf fylgdu kærunni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Með erindi til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 29. júlí 2019, óskaði kærandi eftir afritum af bréfum heilbrigðiseftirlitsins þar sem sjá má viðtakendur bréfanna. Þá óskaði kærandi eftir aðgangi að öllum svarbréfum fasteignaeigenda við bréfum heilbrigðiseftirlitsins, auk allra samskipta heilbrigðiseftirlitsins við viðkomandi fasteignaeigendur vegna framangreindra úrbótakrafna sem og samskipta heilbrigðiseftirlitsins við umhverfissvið Mosfellsbæjar.

Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis synjaði beiðni kæranda með bréfi, dags. 15. ágúst 2019. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að í beiðninni felist ósk um aðgang að gögnum um einkamálefni sem óheimilt sé að veita aðgang að með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Upplýsingarnar varði stjórnsýslumál og ábendingar til einkaaðila um einkamálefni þeirra sem lúti að fasteignum viðkomandi og öðrum einkahögum og geti þær jafnframt varðað fjárhagsleg málefni þeirra.

Í kæru segir kærandi gögnin ekki vera þess eðlis að upplýsingar í þeim falli undir 9. gr. upplýsingalaga. Meðal þeirra gagna sem heilbrigðiseftirlitið hafi óskað eftir með bréfum sínum til fasteignaeiganda séu teikningar af fráveitukerfum. Kærandi telji slík gögn vera opinber eftir að þeim hafi verið skilað til opinberra aðila. Teikningar af fráveitukerfum á starfssvæði heilbrigðiseftirlitsins séu almennt birtar opinberlega í þeim tilvikum sem teikningar séu fyrir hendi, þ. á m. á kortavefsjá Mosfellsbæjar. Þá geti upplýsingar sem varði mengun sem komi frá fráveitukerfum fasteignaeigenda og sé hugsanlega veitt út í nærliggjandi vatnsföll ekki verið einkamál viðkomandi fasteignaeiganda enda kunni mengun eins fasteignaeiganda að valda öðrum verulegu fjártjóni auk þess að valda skaða á lífríki í Mosfellsdal. Í kæru er einnig vísað til þess að heilbrigðiseftirlitinu sé skylt að afhenda hluta gagna eða afmá persónugreinanlegar upplýsingar, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Þá geti heilbrigðiseftirlitið ekki synjað um aðgang að gögnum sem varði samskipti þess og Mosfellsbæjar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2019, var kæran kynnt Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis og því veittur frestur til að senda umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins, dags. 23. september 2019, segir meðal annars að beiðninni hafi verið synjað í kjölfar mats á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Upplýsingarnar varði einkamálefni einstaklinga og heilbrigðiseftirlitið telji óheimilt að veita aðgang að þeim án vitundar eða samþykkis viðkomandi aðila. Í gögnunum komi fram upplýsingar er varði stjórnsýslumál og ábendingar til einkaaðila um einkamálefni þeirra, þær lúti að fasteignum viðkomandi og öðrum persónulegum hagsmunum enda geti þær jafnframt varðað fjárhagsleg málefni þeirra. Af þeirri ástæðu sé óheimilt að veita umbeðnar upplýsingar.

Í umsögninni kemur einnig fram að í þeim bréfum sem lögð hafi verið fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli í máli Y-3/2018 hafi persónuupplýsingar verið afmáðar. Um sé að ræða stöðluð bréf sem send hafi verið íbúum á svæðinu varðandi úrbætur á rotþróum á lóðum íbúa. Framlagning bréfanna fyrir dómi breyti í engu því ágreiningsefni sem kæran lúti að. Upplýsingarnar sem kærandi fari fram á séu ítarlegri en þær upplýsingar sem sé að finna í áðurnefndum bréfum en þær varði persónulega hagi íbúa, fasteignir þeirra og fjárhagslegar upplýsingar. Heilbrigðiseftirlitið hafi lagt dagsektir á kæranda og grundvelli þeirrar álagningar verði ekki hnekkt með afhendingu umbeðinna gagna, kærandi eigi þannig enga lögvarða hagsmuni af afhendingu gagnanna.

Í umsögninni segir enn fremur að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi þegar fjallað um kröfu kæranda um aðgang að gögnunum. Úrskurður hafi verið kveðinn upp í því máli þann 14. mars 2019. Heilbrigðiseftirlitið byggi á því að niðurstaða dómstólsins hafi res judicata áhrif í málinu fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Meðfylgjandi umsögninni voru afhent afrit af tveimur úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í ágreiningsmáli aðila, dags. 9. janúar 2019 og 14. mars 2019. Að lokum segir í umsögninni að hlutverk og staða heilbrigðiseftirlitsins sé skýr samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og sé málsaðilum ekki veittur réttur til að fá upplýsingar um alla aðila í sömu stöðu í viðkomandi sveitarfélagi og þá ekki heldur um stöðu mála gagnvart þeim.

Með bréfi, dags. 1. október 2019, var kæranda gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnarinnar. Í athugasemdum kæranda, dags. 14. október 2019, segir í fyrsta lagi að þær upplýsingar sem óskað sé aðgangs að séu ekki einkamálefni einstaklinga. Kærandi telur upplýsingar í gögnunum vera mikilvægar almenningi og falla undir 5. gr. upplýsingalaga. Upplýsingar um mögulega mengunarvalda kunni að vera öðrum fasteignaeigendum á viðkomandi svæði bæði mikilvægar og nauðsynlegar til þess að þeir geti gætt hagsmuna sinna. Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis hafi í störfum sínum birt sambærilegar upplýsingar, t.d. í fundargerðum og á vefsíðu sinni. Það skjóti því skökku við að heilbrigðiseftirlitið telji nú umbeðnar upplýsingar vera einkamálefni í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Auk þess segir kærandi að teikningar af fráveitukerfum séu birtar á kortavefsjá Mosfellsbæjar, að því marki sem þær séu til. Séu umbeðin gögn ekki til óski kærandi eftir staðfestingu þess efnis.

Kærandi krefst aðgangs að bréfum heilbrigðiseftirlitsins sem lögð voru fram í fyrrnefndu dómsmáli án útstrikana. Til viðbótar óskar kærandi eftir aðgangi að svarbréfum og tilkynningum frá fasteignaeigendum vegna umræddra bréfa heilbrigðiseftirlitsins. Kærandi telur að tilgangur að baki framlagningu bréfa heilbrigðiseftirlitsins fyrir dómi sé málsmeðferðinni hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál óviðkomandi. Kærandi mótmælir þeirri fullyrðingu að búið sé að fjalla um kröfu hans til umbeðinna gagna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en það mál hafi varðað ágreining um lögmæti fullnustugerðar.

Í athugasemdum kæranda kemur einnig fram að með lögfestingu upplýsingalaga hafi almenningi verið veittur réttur til þess að tryggja gegnsæi stjórnsýslu í þeim tilgangi að styrkja upplýsingarétt og möguleika almennings til þess að taka þátt í lýðræðissamfélagi með því að veita opinberum aðilum aðhald og til þess að efla traust almennings á stjórnsýslunni, sbr. 1. gr. laga nr. 140/2012. Réttur kæranda byggi á framangreindu og sé óháður ágreiningi aðila í óskyldu máli. Kærandi telji að tilgangur með setningu upplýsingalaga hafi einmitt verið að veita almenningi vettvang til þess að óska eftir upplýsingum svo þeir geti lagt mat á hvort þeir hafi verið beittir órétti og/eða mismunun af hálfu tiltekins stjórnvalds enda á stjórnvald að geta veitt upplýsingar sem það hefur óskað eftir. Með lögfestingu fyrri upplýsingalaga frá 1996 hafi verið lögfest sú almenna skylda stjórnvalds að skrá mál sem koma til meðferðar hjá þeim á kerfisbundinn hátt og varðveita málsgögn svo þau séu aðgengileg. Sérstaklega sé tekið fram í lögskýringargögnum með núgildandi upplýsingalögum að þessi regla sé mikilvæg forsenda þess að upplýsingaréttur, bæði samkvæmt upplýsingalögum og einnig á grundvelli annarra reglna, sé raunhæfur og virkur.

Með erindi til Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, dags. 18. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir því að fá afhent þau gögn sem kæran lýtur að. Beiðnin var ítrekuð með símtali þann 25. febrúar. Í tölvupósti frá heilbrigðiseftirlitinu, dags. 25. febrúar, kemur fram að heilbrigðiseftirlitið hafi falið lögmannsstofu að ganga frá svari vegna málsins enda hafi stofan haft öll gögn málsins vegna tengds héraðsdómsmáls. Nefndinni barst tölvupóstur frá lögmanni heilbrigðiseftirlitsins, dags. 27. febrúar, þar sem fram kom að verið væri að taka gögnin saman. Þann 3. mars óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvenær gögnin yrðu afhent en svar barst ekki. Þann 9. mars ítrekaði nefndin beiðni um aðgang að gögnunum.

Svar barst frá lögmanni Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, dags. 9. mars. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að kæranda hafi undir höndum afrit af bréfum þess til fasteignaeigenda en nöfn þeirra hafi verið afmáð. Þá hafi í dómsmáli kæranda gegn heilbrigðiseftirlitinu verið tekin afstaða til þess í tvígang hvort kærandi ætti rétt til aðgangs að umbeðnum upplýsingum og hvort þær hefðu einhverja þýðingu fyrir ágreiningsmál aðila og álagningu dagsekta. Í báðum tilvikum hafi því verið hafnað að kærandi ætti rétt til aðgangs að upplýsingunum auk þess sem þær hafi ekki verið taldar hafa efnislega þýðingu fyrir málið. Úrskurðir Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Y-3/2018, kveðnir upp 14. mars 2019 og 9. janúar 2019, fylgdu bréfinu.

Með erindi, dags. 13. mars 2020, vakti úrskurðarnefndin athygli heilbrigðiseftirlitsins á því að umbeðin gögn í málinu hefðu ekki verið afhent nefndinni. Ítrekað var að kærandi hefði óskað eftir bréfum heilbrigðiseftirlitsins til fasteignaeigenda án útstrikana, öllum svarbréfum viðkomandi fasteignaeigenda, öllum samskiptum heilbrigðiseftirlitsins við viðkomandi fasteignaeigendur og samskipti heilbrigðiseftirlitsins við umhverfissvið Mosfellsbæjar. Ítrekuð var krafa um að heilbrigðiseftirlitið afhenti úrskurðarnefndinni umbeðin gögn. Með erindi, dags. 23. mars 2020, ítrekaði úrskurðarnefndin enn kröfu um afhendingu gagnanna.

Þann 31. mars 2020 bárust úrskurðarnefndinni afrit af bréfum heilbrigðiseftirlitsins til fasteignaeigenda án útstrikunar. Hvað varðar svarbréf fasteignaeigenda segir heilbrigðiseftirlitið að engin svarbréf, skjalfærðar upplýsingar, vistuð rafræn samskipti sem feli í sér svör við bréfunum eða önnur samskipti séu til sem geymi svör fasteignaeigenda við erindi heilbrigðiseftirlitsins. Um fáar fasteignir sé að ræða og þegar úrbótakröfur af þessu tagi séu gerðar þá sé alla jafna orðið við þeim án frekari umræðu eða samskipta. Í málaskrá liggi því ekki fyrir gögn um hverja og eina fasteign, að undanskilinni fasteign kæranda þar sem þau samskipti hafi verið lengri og umfangsmeiri og séu enn yfirstandandi. Þá sé umhverfissvið Mosfellsbæjar ekki málsaðili mála sem séu til meðferðar hjá heilbrigðiseftirlitinu, þar sem umhverfissviðið heyri undir yfirstjórn Mosfellsbæjar, svo og tvær fagnefndir sem séu samkvæmt núgildandi skipulagi skipulagsnefnd og umhverfisnefnd, en heilbrigðiseftirlitið heyri undir sameiginlega heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis samkvæmt 45. gr. laga nr. 7/1998. Engin samskipti heilbrigðiseftirlitsins við umhverfissvið Mosfellsbæjar séu þannig til vegna málsins.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis á beiðni kæranda um aðgang að gögnum.

Í fyrsta lagi er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um nöfn og heimilisföng viðtakenda bréfa sem Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis sendi fasteignaeigendum í Mosfellsdal árið 2017 varðandi úrbætur á fráveitukerfum. Fyrir liggur að kærandi hefur bréfin undir höndum en nöfn og heimilisföng viðtakenda bréfanna voru afmáð.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis segir að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af afhendingu gagnanna og að leyst hafi verið úr rétti kæranda til aðgangs að þeim fyrir héraðsdómi. Í því sambandi tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að sá sem óskar eftir gögnum hjá stjórnvöldum á grundvelli upplýsingalaga getur gert það án þess að sýna fram á nokkra hagsmuni eða tengsl við umbeðin gögn. Þannig fjallar 5. gr. upplýsingalaga um rétt „almennings“ til gagna hjá stjórnvöldum. Þegar af þessari ástæðu stenst ekki sú afgreiðsla stjórnvalds að synja kæranda um aðgang að gögnum á þeirri forsendu einni að hann hafi ekki sýnt fram á nægilega ríka hagsmuni af því að fá að kynna sér þau. Þegar beiðni berst um afhendingu á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga þarf stjórnvald með öðrum orðum að taka málið til afgreiðslu á grundvelli þeirra laga óháð því hvort viðkomandi eigi nokkurra hagsmuna að gæta af því að fá að kynna sér gögnin eða ekki.

Hvað varðar þau rök heilbrigðiseftirlitsins að fjallað hafi verið um rétt kæranda til aðgangs að gögnunum í máli Y-3/2018 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur bendir nefndin á að í því máli var fjallað um rétt kæranda til að leiða fram vitni en ekki leyst úr rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012. Úrskurðirnir sem heilbrigðiseftirlitið lét úrskurðarnefndinni í té hafa því ekki þýðingu fyrir úrlausn þessa máls.

Í hinni kærðu ákvörðun var beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum um nöfn og heimilisföng viðtakenda bréfa heilbrigðiseftirlitsins jafnframt synjað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Var það rökstutt svo að um væri að ræða upplýsingar um einkamálefni einstaklinga, upplýsingar um stjórnsýslumál og ábendingar til einkaaðila um einkamálefni sem lúti að fasteignum viðkomandi og öðrum einkahögum. Þá geti upplýsingarnar jafnframt varðað fjárhagsleg málefni þeirra.

Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í athugasemdum um ákvæðið 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum segir um takmörkunina:

„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, segir í athugasemdunum:

„Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“

Enn fremur kemur fram í athugasendunum að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni einstaklinga. Þannig sé til dæmis almennt óheimilt að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér 21 bréf frá heilbrigðiseftirlitinu til fasteignaeigenda á svæðinu. Viðtakendur eru einstaklingar, fyrirtæki og ríkisstofnun. Í bréfunum eru gerðar athugasemdir vegna fráveitu fasteigna viðtakendanna og í sumum bréfanna er tekið fram að ófullnægjandi frágangur fráveitu valdi mengun. Þá koma fram fyrirmæli heilbrigðiseftirlitsins til fasteignaeigenda um úrbætur.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál eru upplýsingar um ástand fráveitukerfa fasteigna ekki einkamálefni eiganda fasteignar í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Upplýsingar um ófullnægjandi frágang fráveitna frá fasteignum varða ekki persónulega einkahagi fasteignaeigenda. Þá veita upplýsingar um viðtakendur bréfanna ekki innsýn inn í fjárhagsmálefni einstaklinga þeirra líkt og heilbrigðiseftirlitið heldur fram en í bréfunum má hvergi finna upplýsingar sem varða fjárhagsstöðu eða tekjur viðkomandi fasteignaeigenda. Þvert á móti hefur almenningur hagsmuni af því að geta kynnt sér upplýsingar um ástand fráveitukerfa og mengun sem frá þeim kann að berast. Þá bendir úrskurðarnefnd um upplýsingamál á að sérstaklega er fjallað um aðgang að upplýsingum um umhverfismál í VII. kafla upplýsingalaga en samkvæmt 31. gr. laganna á almenningur rétt á því að fá aðgang að upplýsingum um mengandi losun út í umhverfið þrátt fyrir ákvæði 6.-10. gr. og sérstök lagaákvæði um þagnarskyldu. Í ljósi framangreinds verður heilbrigðiseftirlitinu gert að afhenda kæranda bréf heilbrigðiseftirlitsins án þess að upplýsingar um viðtakendur þeirra séu afmáðar.

2.

Í öðru lagi er deilt um afgreiðslu heilbrigðiseftirlitsins vegna beiðni kæranda um svarbréf fasteignaeigenda til heilbrigðiseftirlitsins og öllum samskiptum heilbrigðiseftirlitsins við viðkomandi fasteignaeigendur vegna málsins. Í erindi heilbrigðiseftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. mars 2020, kemur fram að engin svarbréf, skjalfærðar upplýsingar, vistuð rafræn samskipti sem feli í sér svör við bréfunum eða önnur samskipti séu til.

Í bréfum heilbrigðiseftirlitsins, sem send voru árið 2017, er tekið fram að tilkynning um að úrbætur hafi verið framkvæmdar skuli berast því eigi síðar en 10 dögum eftir að úrbótum er lokið og er tilgreint netfang sem senda megi tilkynningarnar á. Fram kemur að málið verði þá látið niður falla en að öðrum kosti verði þvingunarúrræðum beitt til að knýja á um úrbætur.

Heilbrigðiseftirlitið hefur í skýringum sínum til úrskurðarnefndarinnar fullyrt að enginn þeirra sem fékk bréf frá heilbrigðiseftirlitinu hafi tilkynnt eftirlitinu um úrbætur líkt og krafist var. Samkvæmt efni bréfanna gerði heilbrigðiseftirlitið skriflegar athugasemdir við alls 21 einstakling vegna fráveitu fasteigna viðtakendanna. Í sumum bréfanna er tekið fram að ófullnægjandi frágangur eða ráðstafanir við fráveitu valdi mengun. Heilbrigðiseftirlitið hefur hins vegar haldið því fram gagnvart úrskurðarnefndinni að enginn þessara einstaklinga hafi svarað bréfum þess á þeim rúmlega tveimur árum frá því þau voru send þar til að kærandi óskaði eftir upplýsingum um þau.

Í ljósi þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki frekari upplýsingar í höndunum um samskipti umræddra einstaklinga og heilbrigðiseftirlitsins hefur hún ekki forsendur til að vefengja staðhæfingu heilbrigðiseftirlitsins um að engin frekari samskipti við fasteignaeigendur hafi farið fram vegna málsins. Í þessu samhengi þykir rétt að benda á að stjórnvöldum er skylt að skrá og varðveita upplýsingar um meðferð mála, sbr. 27. gr. upplýsingalaga og 22. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Þar sem leggja verður til grundvallar að engin gögn séu fyrirliggjandi hjá heilbrigðiseftirlitinu er varði svör fasteignaeiganda við bréfi þess er ekki um að ræða ákvörðun um að synja beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Verður því að vísa þessum hluta kærunnar frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

3.

Í þriðja og síðasta lagi óskaði kærandi eftir samskiptum heilbrigðiseftirlitsins við umhverfissvið Mosfellsbæjar. Í erindi heilbrigðiseftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. mars 2020, kemur fram að engin samskipti heilbrigðiseftirlitsins við umhverfissvið Mosfellsbæjar séu til vegna málsins. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til þess að rengja þær fullyrðingar heilbrigðiseftirlitsins. Verður því að taka þær fullyrðingar trúanlegar að engin samskipti hafi farið fram á milli heilbrigðiseftirlitsins við umhverfissvið Mosfellsbæjar vegna þeirrar athugunar eftirlitsins á frágangi frárennsliskerfa sem beiðni kæranda tekur til. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. upplýsingalaga að ræða. Af því leiðir að vísa verður þessum hluta kærunnar frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál gerir verulegar athugasemdir við samskipti og svör Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis við erindum nefndarinnar um afhendingu gagna málsins. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga er þeim sem kæra beinist að skylt að láta nefndinni í té afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að, enda falli viðkomandi undir gildissvið laganna skv. I. kafla. Þrátt fyrir þessa skýlausu skyldu afhenti Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis ekki þau gögn sem úrskurðarnefndin óskaði eftir 18. febrúar 2020 fyrr en 31. mars 2020, eða sex vikum eftir að upphaflega var óskað eftir þeim. Hafði úrskurðarnefndin þá fimm sinnum ítrekað erindi sitt til Heilbrigðiseftirlitsins.

Úrskurðarnefndin vekur af þessu tilefni athygli á því að í ákvæðum V. kafli upplýsingalaga er gengið út frá því að nefndin leysi úr ágreiningsmálum um aðgang að gögnum á grundvelli upplýsingalaga svo fljótt sem verða má. Ljóst er að ákvæðum upplýsingalaga um hraða málsmeðferð verður ekki fylgt nema þeir aðilar sem falla undir úrskurðarvald nefndarinnar sinni lögbundnum skyldum sínum í samræmi við 2. mgr. 22. gr. laganna.

Úrskurðarorð

Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis ber að veita kæranda, Sigurgeiri Valssyni f.h. Fylkis ehf., afrit af bréfum heilbrigðiseftirlitsins til fasteignaeigenda sem send voru vegna fráveitumála í Mosfellsbæ árið 2017 án þess að nöfn og heimilisföng viðtakenda séu afmáð.

Þeim hlutum kærunnar sem snúa að svarbréfum fasteignaeigenda vegna bréfa Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis og samskiptum eftirlitsins við umhverfissviðs Mosfellsbæjar er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira