Hoppa yfir valmynd

792/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 792/2019 í máli ÚNU 19030002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. mars 2019, kærði A, blaðamaður […], ákvörðun Seðlabanka Íslands um synjun beiðni um aðgang að gögnum.

Með gagnabeiðni kæranda, dags. 11. febrúar 2019, var óskað eftir aðgangi að gögnum um rannsókn Seðlabanka Íslands á meintum brotum útgerðarfélagsins Samherja hf. á lögum um gjaldeyrismál. Nánar tiltekið var óskað eftir öllum fylgigögnum, tölvupóstum og öðrum skjölum sem fylgdu kæru Seðlabanka Íslands til embættis sérstaks saksóknara þann 10. apríl 2013, sem notuð voru til að undirbyggja og útskýra það mat bankans að embætti sérstaks saksóknara þyrfti að rannsaka viðskipti útgerðarinnar. Þá var einnig óskað eftir gögnum sem fylgdu kæru bankans til embættis sérstaks saksóknara þegar málið var endursent til ákæruvaldsins.

Í ákvörðun Seðlabanka Íslands, dags. 18. febrúar 2019, var vísað til þess að rík þagnarskylda hvíldi á starfsmönnum bankans samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001, sbr. einnig 15. gr. gjaldeyrislaga nr. 87/1992. Upplýsingarnar væru þess eðlis að þær vörðuðu málefni bankans og teldust því ekki opinberar upplýsingar. Var beiðni kæranda því hafnað.

Kærandi telur að umbeðin gögn eigi brýnt erindi við almenning þar sem um sé að ræða viðskipti stærsta útgerðarfélags Íslands, næst stærsta beina kvótahafa og stærsta óbeina kvótahafa í gegnum hlutdeildarfélög. Seðlabankanum beri skylda til að afhenda fjölmiðlum gögnin svo hægt sé að greina almenningi frá þeim viðskiptaháttum Samherja sem lágu að baki rannsókn á fyrirtækinu. Hagsmunir almennings af því að fá fram öll gögn málsins séu mikilvægari en túlkun Seðlabanka Íslands á þagnarskylduákvæði í lögum um bankann. Líta megi á opinberun gagnanna sem ígildi þess að sannleiksnefnd yrði skipuð þar sem markmiðið væri í báðum tilfellum að opinbera sannleikann um mikilvægt mál. Þá bendir kærandi á að seðlabankastjóri hafi sjálfur sagt að hann væri ekki mótfallinn því að umbeðin gögn verði gerð opinber.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 7. mars 2019, var kæran kynnt Seðlabanka Íslands og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum.

Í umsögn Seðlabankans, dags. 3. apríl 2019, er í upphafi fjallað um þagnarskylduákvæði laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 og laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001. Samkvæmt 15. gr. fyrrnefndu laganna séu þeir sem annist framkvæmd laganna bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fái vitneskju um í starfi sínu og leynt skuli fara samkvæmt lögum eða eðli málsins, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þá hvíli rík þagnarskylda á starfsmönnum Seðlabankans um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001.

Seðlabankinn byggir á því að um sérstök þagnarskylduákvæði sé að ræða, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 645/2016 varðandi 15. gr. gjaldeyrislaga og úrskurði nr. A-324/2009, A-423/2012, 582/2015 og 774/2019 varðandi 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands í Hrd. 3. júní 2014 (329/2014). Umbeðnar upplýsingar teljist til upplýsinga um hagi viðskiptamanna bankans og falli því undir þagnarskylduna samkvæmt orðanna hljóðan. Þá bendir bankinn á að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Þá segi einnig í ákvæðinu að sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Í þessu felist takmörkun á upplýsingarétti almennings.

Seðlabanki Íslands hafnar alfarið röksemdum kæranda sem lúta að því að hagsmunir almennings og opinberun sannleikans í málinu leiði til þess að veita beri aðgang að umbeðnum gögnum. Brot gegn þagnarskylduákvæðum gjaldeyrislaga og laga um Seðlabanka Íslands geti varðað refsingu með sektum eða fangelsi og því ljóst að stíga þurfi varlega til jarðar þegar óskað sé eftir aðgangi að upplýsingum sem teljast til trúnaðargagna. Þegar mat bankans sé á þá leið að umbeðin gögn séu háð þagnarskyldu sé honum hreinlega skylt að synja beiðni um aðgang að þeim.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2019, var umsögn Seðlabanka Íslands kynnt kæranda og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kæru sinnar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að gögnum í vörslu Seðlabanka Íslands sem varða rannsókn bankans á meintum brotum útgerðarfélagsins Samherja hf. á lögum um gjaldeyrismál. Ákvörðun bankans um synjun beiðni kæranda var byggð á þagnarskylduákvæðum laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 og laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001. Loks var í umsögn bankans vísað til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í 2. málslið 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum nr. 140/2012.

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu með dómi frá 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014 að 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 fæli í sér sérstaka þagnarskyldureglu en ekki almenna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur byggt á því að þagnarskyldan sé sérgreind með þeim hætti að hún nái til upplýsinga sem varða hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs og annars þess sem starfsmenn bankans fá vitneskju um í starfi og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þá telst 15. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992 einnig vera sérstakt þagnarskylduákvæði um hagi einstakra viðskiptamanna þeirra sem annast framkvæmd laganna, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 645/2016, 665/2016 og 694/2017.

Seðlabanki Íslands hefur látið úrskurðarnefnd um upplýsingamál í té afrit af þeim gögnum sem bankinn afmarkaði beiðni kæranda við. Gögnin eiga það sameiginlegt að tilheyra málum í málaskrá Seðlabanka Íslands er varða rannsókn bankans á meintum brotum Samherja hf. og tengdra félaga á ákvæðum laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og reglna settum með heimild í sömu lögum. Meðal gagnanna eru minnisblöð, rannsóknarskýrslur og lögfræðileg álit sem unnin voru af hálfu Seðlabankans en einnig gögn sem aflað var hjá lögaðilum með húsleitum á grundvelli laga nr. 87/1992, sbr. ákvæði laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þar með talin samskipti, samningar og önnur gögn úr rekstri þeirra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir umbeðin gögn og telur hafið yfir allan vafa að þau hafi að geyma upplýsingar um hagi viðskiptamanna Seðlabanka Íslands í skilningi 15. gr. laga um gjaldeyrismál nr. 87/1992, sbr. einnig 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001. Þegar tekið er tillit til þess hvernig umbeðin gögn urðu til eða þeirra var aflað af hálfu bankans er það enn fremur mat nefndarinnar að þau séu öll undirorpin þagnarskyldu og ekki komi því til greina að gera Seðlabankanum að veita kæranda aðgang að þeim að hluta. Samkvæmt framangreindu eru gögnin undirorpin sérstakri þagnarskyldu sem gengur framar rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna.

Í tilefni af röksemdum kæranda er lúta að því að umbeðin gögn eigi erindi við almenning tekur úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að þagnarskylduákvæði laga um gjaldeyrismál og laga um Seðlabanka Íslands gera ekki ráð fyrir að slíkt mat fari fram við ákvörðun á því hvort almenningur eigi rétt til aðgangs að gögnum sem falla að öðru leyti undir ákvæðin. Nægjanlegt er að upplýsingar varði hagi viðskiptamanna Seðlabanka Íslands til að upplýsingaréttur almennings verði takmarkaður á grundvelli ákvæðanna umfram fyrirmæli upplýsingalaga. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun um synjun beiðni kæranda.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Seðlabanka Íslands, dags. 18. febrúar 2019, um synjun beiðni kæranda um aðgang að gögnum um rannsókn Seðlabanka Íslands á meintum brotum útgerðarfélagsins Samherja hf. á lögum um gjaldeyrismál.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira