Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

1202/2024. Úrskurður frá 13. júní 2024

Hinn 13. júní 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1202/2024 í máli ÚNU 23060009.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, 15. júní 2023, kærði […], fréttastjóri hjá Morgunblaðinu, synjun em­bætt­is ríkislögreglustjóra, dags. sama dag, á beiðni um upplýsingar.
 
Hinn 2. júní 2023 birtist fréttartilkynning á heimasíðu lögreglunnar með yfirskriftina „Búnaður lög­reglu á leiðtogafundi“. Þar komu fram upplýsingar um búnað sem ríkislögreglustjóri hafði keypt fyrir leið­togafund Evrópuráðsins sem haldinn var hér á landi í maí 2023. Í tilkynningunni var meðal annars rak­ið að keypt hefðu verið skotvopn og skotfæri frá tilgreindum söluaðilum vegna fundarins fyrir um 185 millj. kr. og þar hefði helst verið um að ræða Glock G-17 9x19GEN5 9 mm skammbyssur og hálf­sjálfvirkar 9 mm MP5A5 og MP5KSF einskotsbyssur. Í tilkynningunni var jafnframt rakið að keypt­ir hefðu verið hjálmar og jakkaföt fyrir nánar tilgreindar fjárhæðir og að tvær aðrar tegundir vopna hefðu verið keyptar til að styrkja sérsveit ríkislögreglustjóra.
 
Í erindi sínu til ríkislögreglustjóra, dags. 6. júní 2023, vísaði kærandi meðal annars til fyrrgreindrar til­kynn­ingar og óskaði eftir svörum við nánar tilgreindum spurningum. Ríkislögreglustjóri svaraði erind­inu 15. sama mánaðar og veitti kæranda tilteknar upplýsingar um innkaupin. Ríkislögreglustjóri synjaði á hinn bóginn um aðgang að upplýsingum að öðru leyti með vísan til 17. gr. laga um opin­ber innkaup, nr. 120/2016, og 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
Í kæru er meðal annars rakið að röksemdir ríkislögreglustjóra fyrir synjun á aðgangi að upplýsingunum stand­ist ekki skoðun. Varnarbúnaður lögreglu hafi oft verið umræðuefni fjölmiðla og hafi Ríkiskaup til að mynda nýverið veitt upplýsingar um fyrirhuguð kaup á tilteknum fjölda rafbyssa. Kær­andi krefst þess að ríkislögreglustjóri svari eftirfarandi spurningum í tengslum við innkaup em­bætt­isins vegna fyrr­nefnds leiðtogafundar:
 

  1. Hvað voru keyptir margir hjálmar?
  2. Hvað voru keypt mörg jakkaföt?
  3. Hvað voru keyptar margar skammbyssur?
  4. Hvað voru keyptar margar MP5-byssur?
  5. Hversu mikið magn skotfæra var keypt?
  6. Hvaða tvær aðrar tegundir vopna voru keyptar fyrir sérsveit ríkislögreglustjóra?

 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ríkislögreglustjóra með erindi, dags. 16. júní 2023, og embættinu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að. Umsögn ríkislögreglustjóra barst úrskurðarnefndinni 27. júní 2023 og meðfylgjandi henni voru þau gögn sem embættið taldi að kæran lyti að.
 
Í umsögn ríkislögreglustjóra er rakið að embættið hafi synjað beiðni kæranda, hvað varðar upplýsingar um skotvopn og skotfæri, með vísan til 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Nákvæmar upplýsingar um bún­að lögreglu, svo sem um fjölda skotvopna eftir t.d. hlaupvídd, falli að mati embættisins undir upp­lýs­­ing­ar sem geti haft neikvæð áhrif á öryggi ríkisins verði þær afhentar almenningi. Umræddar upp­lýs­ingar geti verið til þess fallnar að gagn­ast þeim sem hafi í hyggju árásir eða tilræði sem veikt geti verulega öryggi ríkisins, sbr. úrskurð nefnd­arinnar í máli nr. A-151/2002. Í úrskurðinum hafi nefndin fallist á þau rök að það geti stofnað öryggi ríkisins í hættu ef meðal annars upplýsingar um vopnaburð og önnur valdbeitingartæki séu á allra vitorði.
 
Færa megi rök fyrir því að þau sjónarmið sem fram komi í umræddum úrskurði eigi enn frekar við í dag með vísan til verulegra breyttra forsendna hvað varðar þjóðaröryggi. Liggi þannig fyrir að hryðju­verka­ógn hafi aukist um alla Evrópu, líkt og fram komi í hættumatsskýrslu greiningardeildar ríkis­lög­reglu­stjóra. Þá hafi hernaðarógn og spenna ekki verið meiri í Evrópu frá árum seinni heimsstyrjaldar.
 
Ríkislögreglustjóri hafi ekki áður birt upplýsingar um varnarbúnað, líkt og kærandi byggi á. Einu upp­lýs­ingar um fjölda og gerð vopna lögreglunnar á Íslandi hafi verið birtar af hálfu annarra stjórnvalda og án aðkomu eða samþykkis ríkislögreglustjóra.
 
Hvað varðar upplýsingar um jakkaföt og hjálma vísar ríkislögreglustjóri til þess að embættinu sé óheim­ilt að afhenda upplýsingar um hversu mörg eintök hafi verið keypt af vörunum þar sem slíkar upp­lýsingar muni eðli málsins samkvæmt gefa upp einingarverð seljanda en slíkar upplýsingar séu bund­nar trúnaði samkvæmt 17. gr. laga um opinber innkaup. Embættinu sé jafnframt óheimilt að veita að­gang að upplýsingunum samkvæmt fyrirmælum 9. gr. upplýsingalaga þar sem seljandi hafi ekki veitt sam­þykki sitt fyrir að einingarverðin yrðu gefin upp.
 
Umsögn ríkislögreglustjóra var kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. júní 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum sem hann gerði með frekari athugasemdum 17. júlí 2023.
 
Kærandi tekur meðal annars fram að það sé rangt að ríkislögreglustjóri hafi ekki áður veitt nákvæmar upp­lýsingar um varnarbúnað lögreglu opinberlega, þ.m.t. upplýsingar um fjölda og gerð skotvopna. Þessu til stuðnings vísar kærandi til nokkurra dæma þar sem upplýsingar um vopn, öryggis- og hlífðar­bún­að lögreglu hafi verið birtar opinberlega, m.a. af hálfu ríkislögreglustjóra. Ekki skipti máli hvort upplýsingar um vopnabúnað lögreglu hafi verið veittar án aðkomu eða samþykkis ríkislögreglustjóra heldur skipti meginmáli að upplýsingarnar hafi verið veittar af hálfu stjórnvalda enda ríkislögreglustjóri sem og önnur stjórnvöld bundin á sama hátt af ákvæðum upplýsingalaga. Hvað varðar fyrsta og annan lið í beiðni sinni telur kærandi enn fremur að hagsmunir almennings um rétt til að fá upplýsingar um opinber innkaup vegi þyngra en ætlað trúnaðarsamband milli kaupanda og seljanda.
 
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við meðferð þess.
 

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum er varða innkaup ríkislögreglustjóra á skotvopnum, skotfærum og öðrum vörum í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem fram fór hér á landi í maí 2023.
 
Í kæru kemur fram að kærandi krefjist þess að fá svör við nánar tilgreindum spurningum sem hann beindi til ríkislögreglustjóra 6. júní 2023 en embættið neitaði að svara. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upp­lýs­ingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úr­skurð­ar­nefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af því leiðir að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar um beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synj­unar á beiðni um að afhenda fyrirliggjandi gögn á tiltæku formi. Það fellur því utan valdsviðs úr­skurðarnefndarinnar að krefja stjórnvöld um efnisleg svör við spurningum.
 
Fyrir liggur að ríkislögreglustjóri tók ekki saman þær upplýsingar sem kærandi óskaði eftir en hefur af­hent úrskurðarnefnd um upplýsingamál afrit af gögnum sem hafa að geyma umbeðnar upplýsingar. Mun nefndin því taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til aðgangs að þessum gögnum en um er að ræða eftirfarandi gögn:
 

  1. Sölureikningur frá Sako Ltd., dags. 1. mars 2023.
  2. Sölureikningur frá Sako Ltd., dags. 1. mars 2023.
  3. Sölureikningur frá Heckler & Koch GmbH., dags. 15. mars 2023.
  4. Sölureikningur frá Capsicum A/S, dags. 20. mars 2023.
  5. Sölureikningur frá Veiðihúsinu Sakka ehf., dags. 29. mars 2023.
  6. Sölureikningur frá TST Protection Ltd., dags. 12. janúar 2023.
  7. Sölureikningur frá TST Protection Ltd., dags. 31. janúar 2023.
  8. Sölureikningur frá Northwear ehf., dags. 5. maí 2023.
  9. Sölureikningur frá Northwear ehf., dags. 26. maí 2023.
  10. Sölureikningur frá Northwear ehf., dags. 15. júní 2023.

 
Um rétt kæranda til aðgangs að framangreindum gögnum fer eftir 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, en sam­kvæmt ákvæðinu er þeim sem falla undir lögin skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrir­liggjandi gögnum með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. laganna. Þá er til þess að líta að kær­andi er fréttarstjóri fjölmiðils en úrskurðarnefnd um upplýsingarmál hefur lagt til grundvallar að fjöl­miðlar geti haft tilgreinda hagsmuni af aðgangi að gögnum vegna almenns hlutverks þeirra, sbr. úrskurði nr. 1138/2023 og 1157/2023.
 

2.

Synjun ríkislögreglustjóra er, hvað varðar þá sölureikninga sem eru tilgreindir í töluliðum 1–5 í kafla 1 að framan, byggð á 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Umrædd gögn eiga það sammerkt að geyma upp­lýsingar um innkaup ríkislögreglustjóra á skotvopnum, fylgibúnaði þeirra og skotfærum.
 
Samkvæmt 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikil­vægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um öryggi ríkisins eða varn­armál. Í athugasemdum við 10. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum kemur fram að með orðalaginu „þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist“ sé vísað til þess að beiðni um upplýs­ing­ar verði ekki synjað, hvorki í heild né að hluta, nema aðgangur að upplýsingum muni skaða ein­hverja af þeim almannahagsmunum sem tilgreindir eru í ákvæðinu.
 
Þá segir í athugasemdunum um 1. tölul. 10. gr.:
 

Með upplýsingum um öryggi ríkisins er eingöngu vísað til hinna veigamestu hagsmuna sem tengj­ast því hlutverki ríkisvaldsins að tryggja öryggi ríkisins inn á við og út á við. Upp­lýs­ing­ar um skipulag löggæslu, landhelgisgæslu, almannavarna og útlendingaeftirlits geta fallið hér undir. […]
 
Við túlkun á ákvæðinu verður að hafa í huga að því er ætlað að vernda mjög þýðingarmikla hags­muni. Ef upplýsingar þeim tengdar berast út getur það haft afdrifaríkar afleiðingar. Þess vegna verður að skýra ákvæðið tiltölulega rúmt. […]

 
Í umsögn ríkislögreglustjóra er meðal annars rakið að nákvæmar upplýsingar um búnað lögreglu, svo sem um fjölda skotvopna til dæmis eftir hlaupvídd, falli að mati embættisins undir upplýsingar sem gætu haft neikvæð áhrif á öryggi ríkisins. Geti umræddar upplýsingar verið til þess fallnar að gagnast þeim aðilum sem hafi í hyggju árásir eða tilræði sem veikt geti verulega öryggis ríkisins og birting þeirra geti haft mjög afdrifaríkar afleiðingar. Þá kemur fram í umsögninni að hryðjuverkaógn hafi aukist um alla Evrópu eins og megi ráða af nánar tiltekinni skýrslu ríkislögreglustjóra og að hernaðarógn og spenna hafi ekki verið meiri í Evrópu frá árum seinni heimsstyrjaldar.
 
Eins og áður hefur verið rakið birtist tilkynning á heimasíðu lögreglunnar 2. júní 2023 þar sem meðal annars kom fram að innkaup ríkislögreglustjóra hefðu einkum varðað kaup á Glock-skammbyssum og tveimur nánar tilteknum gerðum af hálfsjálfvirkum einskotsbyssum.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér þá sölureikninga sem ríkislögreglustjóri telur að falli undir 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Í þeim er meðal annars að finna upplýsingar um framangreind skot­vopn, þar með talið um gerð og fjölda þeirra, gerð og magn skotfæra og tæknilega eiginleika fyrr­greind­ra einskotsbyssa. Þá koma fram upplýsingar um gerð og fjölda tveggja skotvopna sem voru keypt fyrir sérsveit ríkislögreglustjóra auk upplýsinga um skotfæri og fylgibúnað sem var keyptur með þeim vopnum.
 
Að virtum þeim upplýsingum sem koma fram í umræddum sölureikningum telur úrskurðarnefndin að fallast verði á með ríkis­lög­reglustjóra að gögnin hafi að geyma upplýsingar sem geta varðað öryggi ríkisins. Að mati nefndarinnar verð­ur þannig að telja að upplýsingar um fjölda skotvopna og skotfæra, sundurliðað eftir gerðum vopn­anna, sem og upplýsingar um tæknilega eiginleika fyrrgreindra einskotsbyssa kunni að nýtast þeim sem hafa í hyggju að fremja árásir eða tilræði og að opinberun þessara upplýsinga myndi því raska al­manna­hagsmunum.
 
Athugasemdir kæranda um fyrri birtingu á upplýsingum um varnarbúnað lögreglu hrófla ekki við fram­an­greindu mati ríkislögreglustjóra nú. Þótt birting upplýsinga að eigin frumkvæði stjórnvalda geti eftir atvikum haft áhrif við mat á því hvort veita skuli aðgang að sambærilegum upplýsingum eftir ákvæðum upp­lýs­ingalaga leiðir það ekki til þess að stjórnvöldum sé skylt að veita slíkan aðgang eftir ákvæðum lag­anna. Þá er ljóst að mat á því hvaða upplýsingar geta verið til þess fallnar að raska öryggi ríkisins getur ver­ið breytilegt eftir aðstæðum hverju sinni.
 
Á hinn bóginn telur nefndin að 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga taki ekki til allra þeirra upplýsinga sem koma fram í umræddum sölureikningum. Gögnin hafa þannig að geyma ýmsar aðrar upplýsingar sem telja verður vandséð að varði öryggishagsmuni ríkisins, svo sem almennar upplýsingar um greiðslu­fresti, dagsetningar, sendingarstað varanna, heimilisföng og fleira þess háttar. Þá koma fram í gögn­un­um upplýsingar um heildarfjárhæð hvers reiknings ásamt upplýsingum um einingaverð og heild­ar­fjár­hæð­ir vegna kaupa á einstökum vörum auk annarra upplýsingar sem þegar hafa verið gerðar opinberar, svo sem um söluaðila varanna og gerð þriggja skotvopna.
 
Nefndin gerir þó þann fyrirvara að ríkislögreglustjóra kunni að vera heimilt að synja um aðgang að ein­stökum upplýsingum í framangreindu samhengi ef unnt væri að ráða af þeim aðrar upplýsingar um atriði sem varða öryggi ríkisins, svo sem um fjölda skotvopna og skotfæra. 
 
Eins og fyrr segir koma einnig fram upplýsingar í reikningunum um þær tvær tegundir skotvopna sem keypt­ar voru fyrir sérsveit ríkislögreglustjóra en þessar upplýsingar eru á meðal þeirra sem kærandi ósk­aði sérstaklega eftir með beiðni sinni til embættisins. Þá koma einnig fram upplýsingar um hvaða skot­færi og fylgibúnaður var keyptur með umræddum skotvopnum. Hvorki í ákvörðun né umsögn ríkis­lögreglustjóra er rökstutt hvernig opinberun upplýsinga um gerð, skotfæri eða fylgibúnað þessara skot­vopna kynni að raska öryggishagsmunum íslenska ríkisins eða hvernig skotvopnin skera sig frá þeim sem ríkislögreglustjóra taldi sér unnt að veita upplýsingar um með opinberum hætti.
 
Auk framangreinds er í rökstuðningi ríkislögreglustjóra aðeins með almennum hætti fjallað um ástæður þess að umræddir sölureikningar skulu undanþegnir upplýsingarrétti almennings á grundvelli 1. tölul. 10. gr. upplýsingalaga. Er þannig ekki gerður greinarmunur á eðli einstakra upplýsinga þannig að úr­skurð­arnefnd um upplýsingamál sé kleift að leggja mat á hvort aðgangur að einstökum upplýsingum í gögn­unum sé til þess fallin að raska öryggishagsmunum ríkisins, umfram það sem varðar upplýsingar um fjölda skotvopna, skotfæra og tæknilega eiginleika fyrrgreindra einskotsbyssa.
 
Í þessu samhengi tekur nefndin fram að samkvæmt 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er aðilum sem falla undir gildissvið upp­lýsingalaga skylt að veita aðgang að þeim hluta umbeðinna gagna sem ekki eru háðir takmörkunum sam­kvæmt 6.–10. gr. laganna. Skyldan nær þannig bæði til þess að meta rétt kæranda til aðgangs að hluta og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningar­ákvæð­um laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ríkislögreglu­stjóri hafi tekið afstöðu til þess hvort unnt sé að veita kæranda aðgang að hluta gagnanna þannig að kæranda verði veittur að­gang­ur að upplýsingum í gögnunum sem ekki eru til þess fallnar að raska öryggi ríkisins. Þá verður ekki séð að ríkislögreglustjóri hafi tekið afstöðu til þess hvort veita bæri kær­anda aðgang að gögnunum í ríkara mæli en skylt er samkvæmt lögunum en samkvæmt 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga er skylt að gera það þegar synjun er byggð á 10. gr. laganna.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að meginmarkmiðið með kæruheimild til nefndarinnar er að treysta réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórn­sýslustigum. Hafi mál ekki hlotið efnislega umfjöllun á lægra stjórnsýslustigi, eða það afgreitt á röng­um lagagrundvelli, getur stjórn­valdi á kærustigi því verið nauðugur sá kostur að vísa málinu heim til lögmætrar málsmeðferðar í stað þess að leitast við að bæta sjálft úr annmörkunum. Að öðrum kosti fengi stjórnsýslumálið ekki um­fjöllun á tveimur stjórnsýslustigum eins og stefnt er að með kæru­heim­ild.
 
Þrátt fyrir að fyrir liggi efnisleg afstaða ríkislögreglustjóra til afhendingar fyrirliggjandi gagna er það mat úr­skurðarnefndarinnar að málsmeðferð embættisins hafi ekki verið fullnægjandi hvað varðar synjun á beiðni kæranda um aðgang að umræddum sölureikningum. Að mati úrskurðarnefndar um upp­lýsingamál skortir þannig á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda, líkt og upp­lýs­ingalög gera ráð fyrir, og hefur nefndin takmarkaðar forsendur til að taka afstöðu til þess fyrst á kæru­stigi hvort að unnt sé að veita kæranda aðgang að hluta gagnanna eftir 3. mgr. 5. gr. upplýs­inga­laga. Þar af leiðandi verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórn­­sýslu­stigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða.
 
Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun að hluta til úr gildi og leggja fyrir ríkislögreglustjóra að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar hvað varðar umrædda sölu­reikninga, þar sem tekið verði tillit til framangreindra sjónarmiða.
 

3.

Að framangreindu frágengnu stendur eftir að leysa úr rétti kæranda til aðgangs að sölureikningum frá North­wear ehf. og TST Protection Ltd., sbr. töluliði 6–10 í kafla 1 hér að framan. Ríkislögreglustjóri telur sér meðal annars óheimilt að afhenda umrædd gögn með vísan til 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Sam­kvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða mikilvæga virka fjár­hags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, nema sá samþykki sem í hlut á. Sam­kvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra leggjast fyrirtækin gegn afhendingu gagnanna.
 
Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga er tekið fram að ákvæðið feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær sé rétt að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Í athuga­semd­unum segir svo:
 

Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orð­um ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verð­ur að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo við­kvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

 
Í athugasemdunum segir enn fremur um 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga:
 

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskipta­hags­muni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um at­vinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða sam­keppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við mat­ið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opin­berra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opin­bera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.

 
Við beitingu ákvæðis 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga gera lögin ráð fyrir að metið sé í hverju og einu til­viki hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrir­tækja eða annarra lögaðila að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda þeim tjóni, verði þær gerð­ar opinberar. Við framkvæmd slíks mats verður að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt það er að tjón muni verða ef aðgangur er veittur að upplýsingunum. Enn fremur verður að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafi fyrir þann lög­aðila sem um ræðir á þeim tíma er matið fer fram.
 
Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir viðkomandi lögaðila af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upp­lýs­ingarétt almennings er ætlað að tryggja. Líkt og er rakið í fyrrgreindum athugasemdum skiptir almennt verulegu máli við mat á hagsmunum almennings hvort og þá að hvaða leyti upplýsingar sem um ræðir lúta að ákvörðunum um ráðstöfun opinbers fjár. Á þetta reynir sérstaklega þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, sem fela í sér að hið opin­bera kaupir af þeim þjónustu, verk eða annað. Í ljósi meginreglu upplýsingalaga, sbr. 5. gr. laganna, geta hagsmunir almennings af því að fá að­gang að slíkum upplýsingum rutt til hliðar við­skiptalegum hagsmunum enda hafi ekki verið sýnt fram á að það valdi viðkomandi samningsaðila tjóni verði upplýsingarnar gerðar opinberar.
 
Hefur úrskurðarnefndin m.a. byggt á því í úrskurðum sínum að það sjónarmið, að upplýsingar um umsamið endurgjald opinberra aðila til einkaaðila fyrir veitta þjónustu eða vörur skuli fara leynt, verði að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upp­lýs­ingalaga um upplýsingarétt almennings, sbr. m.a. úrskurð nefndarinnar nr. 1162/2023. Þá er rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar, sem gera samninga við stjórnvöld eða lögaðila er falla undir ákvæði upplýsingalaga, verða í senn að vera búin undir að mæta samkeppni frá öðrum sem og að borgararnir láti reyna á rétt sinn til aðgangs að upplýsingum um viðkomandi samninga, meðal annars í því skyni að stuðla að gagnsæi í stjórn­sýsl­unni og veita stjórnvöldum aðhald.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér þau gögn sem ríkislögreglustjóri telur að falli undir 2. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Um er að ræða þrjá sölureikninga frá fyrirtækinu Northwear ehf. er varða kaup á fatnaði, þ.m.t. jakkafötum, og tvo sölureikninga frá fyrirtækinu TST Protection Ltd. er varða kaup á hjálmum og fylgibúnaði þeirra.
 
Eftir yfirferð á umræddum sölureikningum telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið sýnt fram á að upp­lýs­ing­ar í þeim nái til svo mikilvægra virkra fjárhags- eða við­skipta­hags­muna að aðgangi að um­beðn­um upplýsingum verði synjað á þeim grundvelli. Í því sambandi lítur nefndin til þess að um er að ræða upplýsingar sem lúta með beinum hætti að kaupum hins opinbera á vörum og þar með ráðstöfun opinberra fjármuna. Þegar vegnir eru saman hags­munir sem Northwear ehf. og TST Protection Ltd. hafa af því að synj­að sé um aðgang að gögnunum annars vegar og þeir mikilvægu almanna­hags­mun­ir sem felast í aðgangi almennings að upplýsingum um ráð­stöfun opinberra fjármuna hins vegar verð­ur ekki talið að synjað verði um aðgang að sölureikningunum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.
 
Að því er varðar vísun ríkislögreglustjóra til 17. gr. laga um opinber innkaup, nr. 120/2016, telur úr­skurð­arnefndin að atriði sem þar eru talin upp kunni að vera samþýðanleg upplýsingum sem óheimilt sé að afhenda á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Hins vegar telur nefndin að sölureikningar Northwear ehf. og TST Protection Ltd. heyri ekki þar undir, enda er það niðurstaða nefndarinnar að ekkert sé fram komið í málinu sem sé til þess fallið að skaða hagsmuni þeirra fyrirtækja sem upplýsingarnar varða ef aðgangur er veittur að þeim, svo vitnað sé til orðalags 1. mgr. 17. gr. laga nr. 120/2016.
 
Í ljósi framangreinds og þar sem engar aðrar takmarkanir upplýsingarréttar eiga við um framangreinda sölureikninga er ríkislögreglustjóra skylt að veita kæranda aðgang að þeim í samræmi við það sem nánar greinir í úrskurðarorði.
 

Úrskurðarorð

Ákvörðun ríkislögreglustjóra, dags. 15. júní 2023, um synjun á beiðni kæranda, […], um aðgang að eftirtöldum sölureikningnum er felld úr gildi og lagt fyrir ríkislögreglustjóra að taka beiðn­ina til nýrrar meðferðar og afgreiðslu:
 

  1. Sölureikningur frá Sako Ltd., dags. 1. mars 2023.
  2. Sölureikningur frá Sako Ltd., dags. 1. mars 2023.
  3. Sölureikningur frá Heckler & Koch GmbH., dags. 15. mars 2023.
  4. Sölureikningur frá Capsicum A/S, dags. 20. mars 2023.
  5. Sölureikningur frá Veiðihúsinu Sakka ehf., dags. 29. mars 2023.

 
Ríkislögreglustjóra er skylt að veita kæranda aðgang að eftirfarandi gögnum:
 

  1. Sölureikningur frá TST Protection Ltd., dags. 12. janúar 2023.
  2. Sölureikningur frá TST Protection Ltd., dags. 31. janúar 2023.
  3. Sölureikningur frá Northwear ehf., dags. 5. maí 2023.
  4. Sölureikningur frá Northwear ehf., dags. 26. maí 2023.
  5. Sölureikningur frá Northwear ehf., dags. 15. júní 2023.

 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta