Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 6/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Tilkynningarskylda. Mismunun vegna kynþáttar og þjóðernisuppruna. Utan vinnumarkaðar. Ekki fallist á brot.

A, sem hafði fengið lokabréf frá Barnavernd B í tilefni af tilkynningu X vegna háttsemi sonar hans, kærði þá ákvörðun skólans að tilkynna son hans vegna tiltekinnar háttsemi en ekki tvo aðra nemendur sem hefðu haft upp sambærilega háttsemi við dóttur hans. Að mati kærunefndar var ekki talið að sýnt hefði verið fram á að í ákvörðun um tilkynningu til barnaverndar hefði falist mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna sem hefði beinst að syni kæranda. Var því ekki fallist á að B hefði gerst brotlegur við lög nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 8. ágúst 2024 er tekið fyrir mál nr. 6/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 21. apríl 2023, kærði A þá ákvörðun X að tilkynna son hans til Barnaverndar B vegna tiltekinnar háttsemi en ekki tvo aðra nemendur við sama skóla sem hefðu haft uppi sambærilega háttsemi við dóttur kæranda. Af kæru má ráða að kærandi telji að með því hafi verið um að ræða mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna og þar með hafi kærði brotið gegn 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 12. júní 2023. Greinargerð kærða barst með bréfi 3. ágúst 2023 og var send kæranda til athugasemda degi síðar. Athugasemdir kæranda eru dags. 21. ágúst og 28. september 2023 og athugasemdir kærða dags. 8. september s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Málið beinist að mismunandi meðferð X á tveimur atvikum þar sem nemendur áttu hlut að máli. Annars vegar var um að ræða atvik, sem varðaði son kæranda sem ætlaðan geranda, en hann er dökkur á hörund og af Z uppruna en ætlaður þolandi er ljós á hörund. Ákvað skólinn að tilkynna það atvik til Barnaverndar B sem lauk málinu án frekari aðkomu hennar að því og var kærandi upplýstur um það. Hins vegar var um að ræða atvik sem ekki var tilkynnt til barnaverndar og lauk skólinn málinu innan hans. Í því tilviki var um að ræða tvo gerendur sem eru ljósir á hörund og íslenskir að uppruna en þolandinn, sem er dóttir kæranda, er dökk á hörund og af Z uppruna.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  5. Af kæru má ráða að kærandi telji að ákvörðun X um að tilkynna tiltekið atvik til barnaverndar hafi falið í sér mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna, sbr. 1. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar. Heldur kærandi því fram að skólinn hafi hvorki farið að verklagsreglum barnaverndar fyrir grunnskóla, lögum nr. 91/2008, um grunnskóla, né samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
  6. Kærandi tekur fram að honum og eiginkonu hans hafi borist bréf frá Barnavernd B, dags. 7. febrúar 2023, þar sem þau hafi verið upplýst um að barnavernd hafi borist tilkynning frá X um að 10 ára sonur þeirra sem er ættleiddur frá Z hafi átt tiltekið tal við bekkjarbróður sinn. Hafi verið um að ræða lokabréf en í því kom fram að ekki þætti tilefni til frekari aðkomu nefndarinnar að málinu á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var áréttað að þeim væri velkomið að hafa samband við nefndina ef þau hefðu spurningar varðandi efni bréfsins. Kærandi tekur fram að þau hafi ekki verið upplýst um þessa tilkynningu skólans til barnaverndar, auk þess sem sonur þeirra hafi ekki kannast við atvikið. Samkvæmt upplýsingum frá barnavernd hafi þetta ekki verið í samræmi við verklagsreglur eða viðmið sem nefndin ætlaði grunnskólum að vinna eftir. Voru þau hvött til að senda inn kvörtun vegna þessa til skóla- og frístundasviðs kærða.
  7. Kærandi tekur fram að dóttir hans, sem einnig er ættleidd frá Z, hafi kvartað undan háttsemi tveggja bekkjarfélaga við umsjónarkennarann sinn sem hafi rætt við þá. Þeir hafi gengist við ákveðnum ummælum en tekið fram að um grín hafi verið að ræða. Umsjónarkennarinn hafi brugðist við með því að láta þá biðja dóttur kæranda afsökunar og spurt hana hvort hún tæki hana gilda. Kennarinn hafi í framhaldinu rætt um alvarleika málsins við drengina. Dóttir kæranda hafi verið í miklu uppnámi þegar hún kom heim úr skólanum en skólinn hafi leitt málið farsællega til lykta og með þeim hætti sem eðlilegt hljóti að teljast og samkvæmt verkferlum skólans.
  8. Kærandi tekur fram að þessi tilvik hafi verið meðhöndluð á gerólíkan hátt en að skólinn hafi ekki gefið haldbærar skýringar á því. Bendir kærandi á að eini augljósi munurinn sé sá að í fyrra tilvikinu hafi ætlaður gerandi verið dökkur á hörund en í því seinna hafi þeir verið hvítir á hörund og af íslenskum uppruna. Þá hafi skólinn í fyrra tilvikinu látið hjá líða að bera ávirðingar ónefnds bekkjarfélaga undir son kæranda og ræða við foreldrana. Hafi hann verið fundinn sekur um eitthvað, sem ekki sé vitað hvað er, á grundvelli óljósrar frásagnar og óþekkts nemanda. Í framhaldinu hafi skólinn tekið ákvörðun um að bregðast við eins og um fjórða stigs agabrot væri að ræða og senda tilkynningu til Barnaverndar B.
  9. Kærandi tekur fram að engar skýringar hafi verið gefnar á mismunandi meðferð þessara tveggja sambærilegu mála. Almenn umfjöllun um tilkynningarskyldu til barnaverndar réttlæti ekki þessa meðferð enda sé ekki heimilt að afgreiða sambærileg mál með ósambærilegum hætti. Engin rök séu færð fyrir því mati skólans að atvikin séu ekki sambærileg. Þá sé ekki heldur gerð grein fyrir því hvaða málefnalegu sjónar­mið lágu til grundvallar þessari niðurstöðu hans og ekki heldur af hverju var ekki farið að verklagsreglum barnaverndarnefndar.
  10. Kærandi bendir á að skólinn hafi aldrei haft frumkvæði að samskiptum við kæranda í tengslum við tilkynninguna til barnaverndarnefndar. Þá hafi kærandi ekki verið upp­lýstur um að hvorki hafi verið um að ræða brot á skólareglum né agabrot í tilviki sonar hans. Hitt tilvikið sem varðar dóttur kæranda og tvo bekkjarfélaga hennar hafi verið meðhöndlað sem agabrot og í samræmi við reglur skólans. Lítur kærandi svo á að meðhöndlun þessara mála hafi lotið geðþótta skólans og/eða einstakra starfsmanna hans í stað þess að fylgja verklagsreglum. Vísar kærandi til skýringa sem skólinn hafi veitt honum því til stuðnings. Hafi skólinn þannig sniðgengið sínar eigin reglur eða ferla og annarra stofnana sem hann á í samskiptum við, sbr. verklagsreglur barna­verndarnefndar.
  11. Kærandi bendir á að samkvæmt verklagsreglum um tilkynningaskyldu starfsmanna leik- grunn og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda þurfi tilkynning að vera rökstudd. Þegar tilkynnt sé um vanrækslu eða áhættuhegðun barns sé oftast nær um að ræða ástand sem hafi varað í lengri tíma og hafi ekki breyst þrátt fyrir ábendingar og leiðbeiningar starfsmanna til foreldra. Þá kemur fram að jafnan skuli láta foreldra vita af tilkynningunni og gera þeim grein fyrir að starfsmenn skóla séu að fylgja lagaskyldu. Engin rök hafi komið fram af hálfu skólans af hverju hann hafi kosið að fara ekki eftir þessum verklagsreglum barnaverndarnefndar.
  12. Kærandi bendir á að af tilkynningu skólans til barnaverndar megi ráða að um hafi verið að ræða huglægt mat starfsmanns skólans en hvorki rökstuddan grun né ástand sem hafi varað í lengri tíma. Áréttar kærandi að hvorki hafi verið rætt við son kæranda né forsjáraðila hans.
  13. Kærandi bendir á að af skólareglum skólans megi ráða að atvikið sem varðaði dóttur kæranda hafi verið metið sem fyrsta stigs agabrot og hafi viðbrögð verið í samræmi við það. Aftur á móti sé því haldið fram af skólanum að atvikið sem varðaði son kæranda hafi ekki verið agabrot. Af því megi draga þá ályktun að það hafi verið „léttvægara“ en samt sem áður hafi skólinn sent tilkynningu til barnaverndar. Standist þessi málflutningur skólans engan veginn og því sé ekki hægt að draga aðra ályktun en að aðrir hvatar en áhyggjur af velferð barnsins liggi að baki tilkynningunni.
  14. Kærandi tekur fram að svo virðist sem skólinn hafi ekki nægilega þekkingu eða reynslu af kynþáttafordómum þegar kemur að því að tryggja jafna meðferð. Því sé mikilvægt að tekið sé á málinu og að skólinn leiti sér viðeigandi aðstoðar, ráðgjafar og/eða sérfræðiþekkingar þannig að hann sé í stakk búinn að takast á við sambærileg mál í framtíðinni.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  15. Kærði hafnar því að kynþáttur eða þjóðernisuppruni hafi haft áhrif á mat um tilkynningarskyldu í þessum tveimur málum sem kæran beinist að. Bendir kærði á að hann hafi ekki upplýsingar um hvort afstöðu viðkomandi barns eða barna hafi verið aflað í tengslum við kæruna en það komi í hlut kærunefndar að leggja mat á aðild og fyrirsvar í málinu sem og hvort lagaskilyrði séu fyrir því að kæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni.
  16. Kærði bendir á að samkvæmt 1. mgr. 96. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé það refsi­vert að koma vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum á framfæri við barnaverndar­þjónustu. Sé því alfarið vísað á bug að aðrir þættir en málsatvik, áhyggjur af velferð barna og önnur viðeigandi sjónarmið sem líta verði til við mat á tilkynningarskyldu til barnaverndarþjónustu samkvæmt 16. og 17. gr. barnaverndarlaga liggi til grundvallar ákvörðun um að senda tilkynningu til barnaverndarþjónustu. Þjóðernisuppruni barna eða önnur ómálefnaleg sjónarmið komi þar hvergi nærri eins og auðveldlega mætti sjá ef tekin yrðu saman þau mál sem skólinn hafi tilkynnt til barnaverndar í gegnum árin.
  17. Kærði bendir á að það sé rangt sem komi fram í kæru, að engin samskipti skóla og forsjáraðila hafi átt sér stað varðandi tilkynningu skólans til barnaverndar varðandi son kæranda þar sem kærandi hafði símasamband við skólann og átti langt samtal við aðstoðarskólastjóra þar sem tildrög tilkynningarinnar voru útskýrð í þaula. Kom þar skýrt fram að ástæða tilkynningarinnar væri áhyggjur af velferð sonar kæranda en ekki að hann hefði brotið skólareglur. Þá hefði skólinn látið kæranda í té afrit af verklagsreglum um tilkynningaskyldu starfsmanna leik- grunn og framhaldsskóla til barnaverndarnefnda sem Barnaverndarstofa gaf út.
  18. Kærði tekur fram að kærandi hafi fengið upplýsingar frá skólanum, bæði símleiðis sem og skriflega, um ástæður og atvik sem leiddu til þess að skólinn ákvað að tilkynna um málefni barns hans til barnaverndar í þessu tiltekna tilviki. Hafi umrædd ákvörðun sem er matskennd verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum.
  19. Kærði tekur fram að almennt sé grunnskóla ekki heimilt að miðla viðkvæmum upplýs­ingum um nemendur, s.s. um tilkynningar til barnaverndaryfirvalda vegna tiltekinna barna, til annarra en foreldra viðkomandi, sbr. 2. og 6. gr. reglugerðar nr. 897/2009, um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín. Vísar kærði einnig til laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og laga nr. 91/2008, um grunnskóla, varðandi þagnarskyldu starfsfólks grunnskóla og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum. Foreldrum nemenda í skólum séu því ekki veittar upplýsingar um barnaverndartilkynningar vegna annarra en eigin barna. Þá séu þeim ekki veittar upplýsingar um málefni annarra barna sem kunna að koma við sögu í tengslum við upplýsingagjöf skólans vegna barna viðkomandi foreldra til barnaverndar. Sé því ekki fyrir hendi heimild eða lagagrundvöllur fyrir því að veita upplýsingar um viðbrögð vegna málefna annarra nemenda en barna kæranda. Kærði tekur fram að kæranda hafi verið veittar upplýsingar um atriði sem snúa að börnum hans.
  20. Kærði tekur fram að það sé að mati skólans rangt að um sambærileg atvik hafi verið að ræða. Sé horft til lýsingar á málsatvikum eins og þau koma fram í tilkynningu skólans til barnaverndar annars vegar og lýsingar kæranda á hinu atvikinu sem varðar dóttur kæranda hins vegar sjáist skýrlega að ekki sé um að ræða mál sem talist geta sambærileg. Hafi þjóðernisuppruni eða álíka sjónarmið engin áhrif haft við mat á tilkynningarskyldu í umræddum málum. Tekur kærði fram að umrædd tilkynning hafi ekki verið byggð á því að viðkomandi nemandi hafi brotið skólareglur eða að um hafi verið að ræða agabrot en kærandi hafi verið upplýstur um það símleiðis.
  21. Kærði tekur fram að eðli málsins samkvæmt komi það í hlut grunnskóla hverju sinni að leggja mat á það hvort tiltekið mál barns gefi tilefni til þess að tilkynnt sé um það til barnaverndar, sbr. ákvæði barnaverndarlaga og verklagsreglur um tilkynninga­skyldu. Vísar kærði því á bug að skólinn hafi ekki farið að reglum skólans og leiðbeiningum frá Barnaverndarstofu við mat á tilkynningarskyldunni. Þá hafi það verið í höndum barnaverndar að taka ákvörðun um frekari könnun. Tekur kærði fram að tilkynning til barnaverndar hafi það að markmiði að stuðla að velferð barns og sé því ekki um íþyngjandi ákvörðun að ræða.
  22. Kærði telur að ekkert liggi fyrir um að skólinn hafi farið gegn þeim fyrirmælum sem koma fram í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2018. Þá hafi engar líkur verið leiddar að því að um hafi verið að ræða mismunun samkvæmt lögunum, sbr. 15. gr. laga nr. 85/2018, á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna, sbr. 1. mgr. 1. gr.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  23. Af kæru má ráða að mál þetta snúi að því hvort kærði hafi brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 7. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, með því að tilkynna til barnaverndar tiltekið atvik sem varðaði son kæranda sem geranda en ekki annað sambærilegt atvik þar sem dóttir hans var þolandi og sem aðrir gerendur áttu hlut að máli. Sonur kæranda sé dökkur á hörund og af Z uppruna en hitt atvikið varði gerendur sem séu ljósir á hörund og af íslenskum uppruna.
  24. Í ljósi atvika máls þessa, þ.m.t. kæruefnis, og aldurs sonar kæranda þegar atvikin áttu sér stað sem og þeirrar reglu að foreldrar fari með forsjá barns og fyrirsvar þess, sbr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003, verður eins og hér stendur á ekki gerðar athugasemdir við það að kærandi sé aðili að málinu.
  25. Í 2. gr. laga nr. 85/2018 kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna er hvers kyns mismunun á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. óheimil, sbr. einnig lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Sérstaklega er tekið fram í 1. mgr. 10. gr. að í skólum sé hvers kyns mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. óheimil. Er skylt að gæta þessa í námi, kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur.
  26. Í 15. gr. laga nr. 85/2018 kemur fram að ef leiddar eru líkur að því að mismunun hafi átt sér stað skuli sá sem talinn er hafa mismunað sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kynþáttur og/eða þjóðernisuppruni hafi haft áhrif á niðurstöðu kærða um að senda tilkynningu til barnaverndar í tilviki sonar kæranda.
  27. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórn­sýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Tekið er fram að lögin gildi m.a. um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.
  28. Í málinu liggur fyrir að grunnskóli sem sonur kæranda stundar nám í hafi ákveðið að tilkynna til Barnaverndar B atvik sem varðaði hann. Á hinn bóginn hafi atvik sem hafi beinst að dóttur kæranda ekki verið tilkynnt barnavernd. Heldur kærandi því fram að um sambærileg atvik hafi verið að ræða og hafi því syni hans verið mismunað þar sem gerendurnir í tilviki dóttur hans, sem sé dökk á hörund og af Z uppruna, séu hvítir á hörund og af íslenskum uppruna ólíkt syni hans sem sé dökkur á hörund og af Z uppruna. Þá hafi skólinn ekki farið að eigin skólareglum og verklagsreglum sem gilda um slíkar tilkynningar til barnaverndar þar sem kærandi hafi ekki verið upplýstur um tilkynninguna.
  29. Ágreiningslaust er að skólinn tók ákvörðun um tilkynningu til barnaverndar í framhaldi af tilteknu atviki í skólanum sem beindist að bekkjarbróður sonar kæranda en tilkynnti ekki bekkjarbræður dóttur kæranda vegna atviks sem beindist að henni. Að mati skólans var ekki um sambærileg tilvik að ræða. Tilkynning skólans til barnaverndar liggur fyrir í málinu en í henni kemur fram að hún sé byggð á 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í því ákvæði er m.a. mælt fyrir um skyldu skólastjóra og kennara til að tilkynna um tilteknar aðstæður barna sem þeir verða varir við og sem lýst er í 16. gr. laganna.
  30. Ljóst er að rík tilkynningarskylda hvílir á kennurum og skólastjórnendum í grunnskólum samkvæmt 16. og 17. gr. barnaverndarlaga og verður að játa þeim ákveðið svigrúm við mat á því hvort þau skilyrði sem mælt er fyrir um í þessum ákvæðum barnaverndarlaga séu fyrir hendi í einstökum tilvikum. Það er í framhaldinu barnaverndar að ákveða framhald málsins án tafar sem felst í því að taka ákvörðun um hvort hún hefji könnun máls eða ekki og tilkynna foreldrum um það, almennt innan viku frá því erindi barst, sbr. 21. gr. barnaverndarlaga. Foreldrar hafa ekki aðkomu að þeirri ákvörðun barnaverndar þó að þau séu upplýst um hana. Að þessu virtu og í ljósi eðlis slíkra tilkynninga og þeirra hagsmuna sem verið er að vernda með þeim verður ekki hjá því komist að telja að ákvörðun skólans um að senda tilkynningu til barnaverndar hafi hvorki verið óheimil né ómálefnaleg. Verður því að telja að matið hafi að þessu leyti verið forsvaranlegt og málefnalegt. Í ljósi svigrúms til slíkra tilkynninga, þeirra hagsmuna sem þeim er ætlað að vernda og skýringa kærða að þessu leyti kemur ágreiningur um það hversu sambærileg umrædd atvik hafi verið ekki til nánari skoðunar.
  31. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að í ákvörðun um tilkynningu til barnaverndar hafi falist mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna sem hafi beinst að syni kæranda. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 85/2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, B, braut ekki gegn lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, með ákvörðun X um tilkynningu til Barnaverndar B.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta