Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 2/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

 

Ráðning í starf. Stjórnvald. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun G um að ráða konu í starf yfirlögfræðings. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að G hefði gerst brotleg við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 13. september 2024 er tekið fyrir mál nr. 2/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru sem barst 15. febrúar 2023 kærði A ákvörðun Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um að ráða konu í starf yfirlögfræðings. Kærandi telur að kærði hafi með ráðningunni brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þá krefst kærandi þess að kærði greiði honum kostnað af því að hafa kæruna uppi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafn­réttismála.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var send kærða með bréfi, dags. 20. mars 2023, þar sem óskað var eftir afstöðu hans til kærunnar. Greinargerð kærða, dags. 19. maí s.á., barst þann dag og var send kæranda til athugasemda 1. júní s.á. Athugasemdir kæranda eru dags. 14. júní og 4. september 2023 og athugasemdir kærða dags. 18. ágúst og 22. september 2023. Hinn 8. apríl 2024 barst krafa frá kæranda um málskostnað, sem andmælt var af kærða 9. maí s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærði auglýsti starf yfirlögfræðings laust til umsóknar 6. október 2022 með auglýsingu á vefsíðum með umsóknarfresti til 17. október 2022. Í auglýsingunni kom m.a. fram að um væri að ræða krefjandi og spennandi starf fyrir lögfræðing með leiðtogahæfileika. Staðan heyrði beint undir forstjóra í skipuriti en stofnunin hefði eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt væri m.a. á grundvelli barnaverndarlaga, laga um Barna- og fjöl­skyldustofu, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, laga um málefni aldraðra, laga um Ráðgjafar- og greiningarstöð, laga um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið með starfseminni væri að sú þjónusta sem lyti eftirliti stofnunarinnar væri traust, örugg og í samræmi við ákvæði laga, reglu­gerða, reglna, samninga og leiðbeininga. Tekið var fram að á næstu misserum væru fjölbreytt og mikilvæg verkefni framundan hjá stofnuninni við þróun gæðaviðmiða í velferðarþjónustu á Íslandi sem væru hornsteinn eftirlits með þjónustunni og þeim kröfum sem væru settar fram vegna rekstrarleyfa.
  5. Í auglýsingunni var tekið fram að helstu verkefni stofnunarinnar væru auk framangreinds birting á lykiltölum yfir starfsemina, þróun ferla við leyfisveitingar, afgreiðsla leyfisumsókna, frumkvæðiseftirlit með gæðum þjónustu, stærri eftirlits­verkefni, afgreiðsla kvartana og ábendinga yfir þjónustu og vegna alvarlegra atvika en í starfinu fælust samskipti við fjölmarga hagsmunaaðila. Leitað væri að drífandi, já­kvæðum og öguðum einstaklingi sem væri tilbúinn til að leiða lögfræðiteymi stofnunarinnar þar sem reyndi á fagmennsku, sjálfstæði og samstarf. Fram kom að helstu verkefni og ábyrgð væru að tryggja reglufylgni í starfsemi stofnunarinnar og ráðgjöf um lagalegar túlkanir á starfssviði hennar, umsjón með umsögnum um laga­breytingar og útfærslu reglugerða, yfirsýn og dreifing verkefna í lögfræðiteymi stofnunarinnar, að vera tengiliður við persónuverndarfulltrúa, yfirsýn yfir vinnslu kvartana, ábyrgð á úrvinnslu á alvarlegum atvikum og samvinna og þátttaka í verkefnum þvert á teymi stofnunarinnar. Menntunar- og hæfniskröfur voru tilgreindar sem meistarapróf í lögfræði en framhaldsmenntun á sviði stjórnunar væri kostur, reynsla af opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarþjónustu, þekkingu á málaflokkum og lögum sem lúta eftirliti stofnunarinnar en reynsla og þekking á verkefna- og breytinga­stjórnun væri kostur. Gerð var krafa um framúrskarandi hæfni í mannlegum sam­skiptum og lipurð í samvinnu, fagmennsku og sjálfstæði í vinnubrögðum og gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
  6. Alls bárust sjö umsóknir um starfið frá fjórum körlum og þremur konum, og voru þau öll boðuð í myndbandsviðtal. Í kjölfarið var fimm umsækjendum, þremur körlum og tveimur konum, boðið í seinna viðtal, þ. á m. kæranda. Að loknum viðtölum var annarri konunni boðið starfið sem hún þáði. Var hinum umsækjendunum tilkynnt um ráðningu hennar með bréfi 2. nóvember 2022.
  7. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi og gögnum málsins 3. nóvember 2022. Beiðnin var ítrekuð 28. s.m. Rökstuðningur var veittur 8. desember 2022 en gögn málsins voru send kæranda 23. janúar 2023 eftir að hann hafði ítrekað þá beiðni 9. desember 2022.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  8. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf yfirlögfræðings, og að honum hafi þar með verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna.
  9. Kærandi telur að hann hafi meiri starfsreynslu og þekkingu en sú sem var ráðin miðað við þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu um starfið en starfsreynsla hennar hafi verið verulega ofmetin við mat á hæfni umsækjenda. Telur kærandi að hann sé ekki aðeins jafn hæfur og sú sem starfið hlaut heldur hæfari. Þá telur hann að mat á hæfni umsækjenda hafi hvorki farið fram með forsvaranlegum hætti né að það hafi verið í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar.
  10. Kærandi bendir á að samkvæmt þeirri skilgreiningu sem alla jafna er stuðst við á hugtakinu opinber stjórnsýsla sé um að ræða stjórnsýslu sem ríki eða sveitarfélög hafi með höndum, sbr. gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati kæranda vísi hæfniskrafan „reynsla af opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarmála“ til starfsreynslu hjá opinberri stofnun þar sem dagleg verkefni og störf byggjast á meginreglum stjórnsýsluréttar og málsmeðferðarreglum sem stjórnsýslulög kveða á um þar sem verkefnin séu á sviði velferðarmála. Starfsreynsla konunnar, sem fékk starfið, hjá dómstólum geti því ekki talist reynsla á því sviði, jafnvel þótt viðkomandi hafi í einhverjum tilvikum komið að málum þar sem reynir á stjórnsýslurétt.
  11. Kærandi bendir á að í ferilskrá konunnar komi fram að hún hafi starfað í fjögur ár hjá slitastjórn og í ellefu mánuði sem sjálfstætt starfandi lögmaður þar sem hún hafi sinnt m.a. málum á sviði barnaréttar, skiptaréttar, hjúskaparréttar og sakamála. Þrátt fyrir það komi fram á lista yfir munnlega flutt mál sem fylgir ferilskrá hennar að hún hafi eingöngu flutt mál á sviði fjármunaréttar. Þá teljist störf hennar hjá Seðlabanka Íslands í rúm tvö ár ekki til starfsreynslu á sviði velferðarmála og tæplega tveggja ára starfsreynsla hennar hjá héraðssaksóknara, þar sem hún hafði aðkomu að meðferð sakamála, ekki til opinberrar stjórnsýslu í framangreindum skilningi. Kærandi bendir á að konan hafi einnig starfað sem aðstoðarmaður héraðsdómara í rúmt ár þar sem hún hafði aðkomu að málum á ýmsum réttarsviðum. Þá hafði hún innan við tveggja ára reynslu af verkefnastjórn sem verkefnastjóri aðstoðarmanna dómara. Hafi hún því enga reynslu haft af opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarmála.
  12. Kærandi tekur fram að hann hafi rúmlega sex ára starfsreynslu í opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarmála en hann hafi að auki lokið þremur námskeiðum í stjórnsýslurétti við Lagadeild Háskóla Íslands. Hafi hann einnig lagt mikla áherslu á mannréttindi í náminu. Þá hafi hann starfað sem verkefnastjóri, annars vegar forgangsteymis á verndarsviði Útlendingastofnunar og hins vegar efnismeðferðarteymis, í rúm þrjú ár en 14 lögfræðingar hafi verið undir hans stjórn. Í starfinu hafi hann beitt sér sérstaklega fyrir bættri málsmeðferð í málum barna og annarra viðkvæmra hópa og sérhæft sig í málum fylgdarlausra barna og fatlaðra einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd, m.a. með mikilli samvinnu við sveitarfélög, félagasamtök og aðrar ríkisstofnanir á sviði velferðarmála, svo sem Barnaverndarstofu, nú Barna- og fjölskyldustofu, barnaverndarnefndir, Barnahús, Rauða krossinn, UNICEF og þau ráðuneyti sem ábyrgð bera í málaflokkunum. Kærandi hafi einnig starfað á alþjóðavettvangi, annars vegar sem fulltrúi stofnunarinnar í flóttamannanefnd sem starfar á grundvelli Sameinuðu þjóðanna, sem og verið tengiliður Íslands við EASO (e. European Asylum Support Office, nú EUAA), komið að lagasetningar- og reglugerðarvinnu í málaflokknum og setið fyrir hönd stofnunarinnar í fyrirtöku hjá Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Á þessum sex árum hafi reynt daglega á álitaefni tengd opinberri stjórnsýslu, ritun stjórnvaldsákvarðana, túlkun málsmeðferð­arreglna stjórnsýsluréttar, rannsókn mála á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslu­réttar og birtingu ákvarðana, svo fátt eitt sé nefnt. Hafi þessar upplýsingar komið fram með umsókn hans um starfið og í viðtölunum tveimur, auk þess að hafa verið staðfestar af umsagnaraðilum. Ekkert í gögnum málsins bendi til að sú sem var ráðin hafi sam­bærilega sérhæfingu í gegnum nám sitt eða störf.
  13. Kærandi tekur fram að jafnvel þótt beitt væri verulega rúmri túlkun á hugtakinu opinber stjórnsýsla á sviði velferðarmála sé ljóst að kærandi hafi lengri og umfangs­meiri starfsreynslu á þeim vettvangi sem og lengri og umfangsmeiri stjórnunarreynslu en sú sem starfið hlaut. Það sé því ómögulegt að komast að þeirri niðurstöðu að hún sé hæfari til að gegna starfinu.
  14. Kærandi bendir á að fram komi í þeim gögnum sem honum hafi borist að hæfni umsækjenda hafi verið metin út frá níu þáttum á grundvelli viðtalanna tveggja, einkum síðara viðtalsins. Engin spurning, hvorki í fyrra né seinna viðtali, hafi lotið að reynslu af opinberri stjórnsýslu eða þekkingu á sviði stjórnsýsluréttar. Sé litið til verkefna kærða sem opinberrar eftirlitsstofnunar sé ljóst að þau séu nær eingöngu lögfræðilegs eðlis og byggist skyldur hennar að veigamiklum hluta á því að rannsaka hvort sú starfsemi sem eftirlitsheimildir hennar lúta að hafi samræmst þeim meginreglum sem fram komi í stjórnsýslulögum og sérlögum á sviði velferðarmála.
  15. Kærandi bendir á að í hæfnistöflu sé gert ráð fyrir að reynsla af opinberri stjórnsýslu vegi þyngst, þ.e. 20%. Einnig sé í hæfnistöflu vísað til „persónuverndarmála“ en ekki hafi verið gerð krafa um slíkt í hæfniskröfum auglýsingarinnar. Kærandi bendir á að hann sé í hæfnistöflu metinn með einkunnina fjóra hvað varðar opinbera stjórnsýslu og að konan fái sömu einkunn þrátt fyrir að hafa enga starfsreynslu í opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarmála. Gerir kærandi athugasemd við það og telur ljóst að starfsreynsla hennar hafi verið verulega ofmetin hvað þann hæfnisþátt varðar. Í flokknum „persónuverndarmál“ hafi kærandi fengið einkunnina þrjá og sú sem starfið hlaut einkunnina fjóra. Gerir kærandi einnig athugasemd við það mat, enda megi sjá af samantekt úr seinna viðtali að svör þeirra séu algjörlega sambærileg sem og svör umsagnaraðila um þekkingu þeirra á persónuvernd. Sá reginmunur sé þó á þeim að verkefni kæranda á því sviði hafi eingöngu lotið að álitaefnum hvað varðar skyldur hins opinbera, sem séu mjög ólíkar skyldum dómstóla, enda gilda lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, ekki um vinnslu persónuupplýsinga á sviði saka- eða dómsmála, sbr. 6. mgr. 4. gr. laganna. Þá verði ekki séð að reynsla kæranda af persónuverndarmálum hafi verið minni en þeirrar sem hlaut starfið. Að öðru leyti sé þeim gefin sama einkunn hvað aðrar hæfniskröfur varðar.
  16. Kærandi bendir á að honum sé gefinn einkunnin sjö í flokknum „athugasemdir og umsagnir, á skalanum 1–10“ en þeirri sem starfið hlaut níu. Ekki sé að sjá af umsögnum að marktækur munur sé á þeim fyrir utan þá staðreynd að haft var samband við þrjá umsagnaraðila vegna konunnar en aðeins tvo vegna kæranda. Bendir kærandi á að af lestri umsagnanna sé ljóst að báðir umsækjendur fái mjög góð meðmæli. Sé einkunnum vegna þeirra skipt í liti þar sem grænn sé augljóslega hæsta einkunn, gulur þar á eftir og rauður slakasta einkunnin. Einkunn kæranda sé merkt rauð, sem sé alls ekki forsvaranlegt. Í yfirliti um umsagnirnar sé velt upp skipulagshæfileikum, út frá spurningu um getu til að takast á við mikið álag og erfiðar aðstæður, þar sem komi jafnframt fram að undirritaður standi sig vel í slíkum aðstæðum og að mikið álag hafi ekki haft áhrif á gæði vinnu.
  17. Kærandi bendir á að verkefni Útlendingastofnunar séu oft og tíðum mjög flókin og erfið og unnin undir gífurlegri tímapressu, sem og vökulu auga fjölmiðla og almennings sem krefjist sífelldrar endurskoðunar og sveigjanleika, svo ekki sé minnst á þær kröfur sem beri að standast gagnvart æðri stjórnvöldum. Líkt og komi fram í gögnum málsins hafi kærandi stýrt stærsta lögfræðiteyminu á sínu sviði með mjög góðum árangri, eins og umsagnirnar varpi skýru ljósi á. Ennfremur bendir undirritaður á að framúrskarandi skipulagshæfileikar hafi ekki verið meðal hæfniskrafa og hafi kærða því borið að gefa kæranda kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, sbr. athugasemdir við 19. gr. laga nr. 150/2020. Hafi það ekki verið gert, auk þess sem engin spurning hafi lotið að skipulagsfærni í viðtölum.
  18. Kærandi bendir á að Rauði kross Íslands hafi ekki sinnt málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd í rúmt ár. Þá bendir kærandi á að þjónusta við þessa umsækjendur hafi verið færð undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem sé sama ráðuneyti og kærði heyrir undir og hafi því sá málaflokkur augljóslega einhverja tengingu við velferðarmál. Þá verði ekki séð að reynsla kæranda af persónuverndarmálum hafi verið minni en þeirrar sem fékk starfið. Bendir kærandi á að hafi kærði verið í vafa um starfsreynslu kæranda hafi kærða verið í lófa lagið að beina spurningum til hans um það, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Það að kærði hafi ekki gert það sýni fram á að aldrei hafi staðið vilji til þess að meta umsækjendur með sanngjörnum og málefnalegum hætti og sé til þess fallið að draga megi enn frekar í efa að staðið hafi verið faglega að umræddri ráðningu. Áréttar kærandi að verkefni þau sem hann hafi sinnt hjá Útlendingastofnun séu vissulega á sviði velferðarmála og vísar í því sambandi til yfirlýsingar sviðsstjóra verndarsviðs stofnunarinnar og yfirmanns hans.
  19. Kærandi tekur fram að jafnvel þótt stjórnvöld hafi vissulega rúmt svigrúm til mats á hæfni umsækjenda, líkt og komi fram í fjölmörgum úrskurðum kærunefndar jafnréttismála, geti það mat aldrei falist í því að afbaka fyrirliggjandi staðreyndir um reynslu einstakra umsækjenda í því skyni að gera öðrum umsækjendum hærra undir höfði.
  20. Kærandi bendir á að hjá kærða starfi ellefu starfsmenn, þar af tíu konur og einn karl. Í því ljósi bendir kærandi á forgangsreglu jafnréttislaga sem felur í sér að ef karl og kona eru a.m.k. jafn hæf til að gegna starfi og á annað kynið hallar á starfssviðinu skuli ráða umsækjanda af því kyni. Telur kærandi í ljósi þeirra hæfniskrafa sem kærði setti sjálfur sem fortakslaus skilyrði í auglýsingu að hann hafi leitt nægar líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  21. Kærði telur að ekki hafi verið leiddar að því líkur að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns eða annarra þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf yfirlögfræðings.
  22. Kærði tekur fram að hann starfi samkvæmt lögum nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, en í þeim sé að finna umfjöllun um margvíslegt hlutverk stofnunarinnar og markmið í starfsemi hennar. Þá tekur hann fram að öllum sjö umsækjendunum hafi verið boðið í fyrsta viðtal, sem var myndbandsviðtal, þar sem sömu átta spurningarnar voru lagðar fyrir þá sem höfðu jafnt vægi. Að því loknu voru umsækjendur metnir og ákveðið að bjóða fimm umsækjendum í síðara viðtal við forstjóra og rekstrar- og gæðastjóra kærða en forstjórinn sat öll viðtölin, bæði fyrri og síðari, ásamt því að stýra síðari viðtölum. Voru staðlaðar spurningar lagðar fyrir umsækjendurna í síðari viðtölum. Bendir kærði á að á matsblaði sé að finna samantekt á matsþáttum, mat á umsóknargögnum, viðtölum og umsögnum auk vægis hvers þáttar um sig. Í kjölfar síðari viðtala var umsagna leitað hjá tveimur umsagnaraðilum með hverjum umsækjanda. Voru sex staðlaðar spurningar lagðar fyrir umsagnaraðilana og voru svör þeirra skráð.
  23. Kærði tekur fram að sú ákvörðun hafi verið tekin að bjóða konunni starf yfirlögfræðings þar sem hún var talin uppfylla best allra umsækjenda áskildar kröfur til að gegna starfinu og þar með hæfasti umsækjandinn. Niðurstaðan hafi verið byggð á heildarmati á ráðningarferlinu en hún var talin hafa mjög góða sýn á starfið og áhuga á mála­flokknum. Þá hafi hún verið talin hafa mjög víðtæka reynslu af opinberri stjórnsýslu og á rannsókn og úrvinnslu mála auk afar góðrar þekkingar á persónuverndarmálum og lagaumhverfi kærða. Ennfremur hafi hún verið talin hafa umtalsverða og haldgóða þekkingu á þeim málaflokkum sem lúti eftirliti kærða og góða reynslu af umsögnum um lagabreytingar og útfærslu reglugerða. Það sem einkum hafi skorið úr um ráðningu hennar hafi verið jákvætt og lausnamiðað viðhorf, framúrskarandi framkoma og afburðavilji til samstarfs. Framangreindu til viðbótar hafi verið litið til góðrar hæfni hennar til að skipuleggja og stýra eigin vinnu og annarra af frumkvæði og með sjálfstæðum og árangursríkum hætti.
  24. Kærði telur að verðleikareglunni hafi verið fylgt við ráðningu konunnar, þ.e. að hæfasti einstaklingurinn til að sinna starfi yfirlögfræðings hjá kærða hafi verið valinn úr hópi umsækjenda sem uppfylltu auglýstar hæfniskröfur. Því liggi fyrir að þótt talið yrði að leiddar yrðu líkur að því að mismunun samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi átt sér stað hafi verið sýnt fram á að ástæður þess að kærandi hafi ekki verið ráðinn tengist ekki kyni hans. Sýnt hafi verið fram á að valið hafi verið byggt á málefnalegum sjónarmiðum og hafi rúmast innan þess svigrúms sem atvinnurekandi hefur við mat á vægi einstakra sjónarmiða við samanburð á milli umsækjenda um tiltekin störf. Það komi í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið.
  25. Kærði tekur fram að kærunefndin hafi ekki sjálfstæða heimild til að byggja á öðrum sjónarmiðum en hann hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá falli það ekki undir valdsvið kærunefndar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt. Bendir kærði á að samkvæmt almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um mat á hæfni umsækjenda um störf sé ráðningaraðila ljáð töluvert svigrúm um mat á vægi einstakra sjónarmiða við samanburð á milli umsækjenda og hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5466/2008.
  26. Kærði bendir á að eðli málsins samkvæmt sé við mat á umsækjendum ekki einungis litið til þess hvort umsækjendur uppfylli hæfniskröfur samkvæmt auglýsingu heldur einnig hvernig starfsreynsla, menntun og þekking henti til að leysa úr þeim verkefnum sem fylgja auglýstu starfi og axla þá ábyrgð sem því fylgir. Jafnframt hafi verið litið til umsagna og mats á leiðtoga- og stjórnunarhæfileikum í þeim umsögnum. Hafi mat á stjórnunar- og leiðtogahæfni, hæfni til að stýra verkefnum, skipulagshæfileikar og geta til að vinna undir álagi og stýra afköstum annarra verið metin út frá viðtölum, þ.e. lýsingu umsækjenda sjálfra sem og umsögnum. Fellst kærði ekki á að litið verði framhjá umsögnum eins og kærandi leggur til enda um að ræða einn lykilþátt í hefðbundnu og gegnsæju ráðningarferli sem oftar en ekki bætir við aðra matsþætti.
  27. Kærði tekur fram að ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak allra efnisþátta. Að mati kærða verði ekki heldur annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvað félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaran­legt. Bendir kærði á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöfinni sé það einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati kærða á umsækjendum. Tekur kærði fram að matsblaðið hafi fyrst og fremst verið haft til hliðsjónar við töku ákvörðunar um val á milli umsækjenda um starfið. Þá sé ekkert í gögnum málsins sem bendi til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í starfið hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærði því að mat kærða á umsækjendum, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  28. Kærði telur að skilningur kæranda á hugtakinu opinber stjórnsýsla sé of þröngur og mætti ætla að starfsreynsla hans miðað við þá skilgreiningu eina og sér væri óveruleg eða engin. Kærði bendir á að konan sem fékk starfið hafi starfað sem fulltrúi á lög­mannsstofu á árunum 2014–2015 og sinnt þar m.a. störfum á sviði barnaréttar. Þá hafi hún starfsreynslu frá Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem reyndi á lög og reglur á sama sviði. Eðli málsins samkvæmt telur sú reynsla, jafnvel þó svo að hún hafi ekki verið starfsmaður hjá stjórnsýslustofnun, enda megi jafna störfum hennar sem lög­manns og sem aðstoðarmanns héraðsdómara við störf innan stjórnsýslustofnunar að þessu leyti. Þá hafi hún starfað sem sérfræðingur í undanþágudeild og rannsóknardeild hjá Seðlabanka Íslands á árunum 2015–2017 þar sem hún vann að undirbúningi stjórnvaldsákvarðana og rannsókn mála. Hafi hún því uppfyllt það skilyrði auglýsingar að hafa reynslu af opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarmála auk annarrar reynslu af opinberri stjórnsýslu. Fullyrðingar kæranda um að hann hafi meiri reynslu í opinberri stjórnsýslu en konan standist því enga skoðun. Þá sé vandséð á hvern hátt hægt sé að telja að reynsla kæranda við störf í þágu Útlendingastofnunar sé meiri en konunnar, auk þess sem slík störf falli ekki undir starfsreynslu af opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarmála, a.m.k. ef tekið er mið af skilgreiningu kæranda sjálfs á hugtakinu opinber stjórnsýsla, en þó einkum þegar litið er til hlutverks og starfsemi kærða í samanburði við starfsemi Útlendingastofnunar. Hafi það verið niðurstaða kærða að reynsla konunnar og kæranda af opinberri stjórnsýslu hafi talist sambærileg og fengu þau bæði sama fjölda stiga á matsblaði fyrir þennan þátt.
  29. Kærði telur að kærandi hafi lýst störfum sínum og hlutverki með villandi hætti og um leið gert of mikið úr starfsreynslu sinni í opinberri stjórnsýslu, a.m.k. á sviði velferðarmála. Bendir kærði á að umfjöllun kæranda um eigin störf hjá Útlendinga­stofnun, þ.e. að hann hafi starfað í rúm þrjú ár sem verkefnastjóri, annars vegar í forgangsteymi á verndarsviði stofnunar og hins vegar í efnismeðferðarteymi, og samhengi hennar komi ekki heim og saman við staðhæfingar hans um starfsreynslu sína af opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarmála.
  30. Kærði bendir á að Útlendingastofnun starfi á grundvelli laga nr. 80/2016, um útlend­inga, og heyri undir dómsmálaráðuneytið. Hlutverk stofnunarinnar felist í afgreiðslu umsókna um dvalarleyfi, íslenskan ríkisborgararétt, alþjóðlega vernd og vegabréfs­áritanir. Stofnunin taki ákvarðanir varðandi dvalarleyfi, gefi út ferðaskilríki fyrir flóttamenn og vegabréf fyrir útlendinga en Rauði krossinn hafi það hlutverk að gæta hagsmuna flóttamanna. Verði Útlendingastofnun á engan hátt talin til velferðar­stofnunar í skilningi íslenskra laga og viðfangsefni hennar ekki talin til velferðarmála að íslenskum lögum enda verkefni hennar og hlutverk um margt annað. Því sé með engu móti hægt að halda því fram að kærandi hafi yfirhöfuð uppfyllt það skilyrði aug­lýsingar að hafa reynslu í opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarmála. Með þessu sé þó engan veginn gert lítið úr hlutverki stofnunarinnar en á það bent að umfjöllunarefni erindis kæranda til kærunefndar varði starfsreynslu hans af opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarmála, sem hann taldi umfram þá starfsreynslu sem konan hafði. Má því fremur halda því fram að starfsreynsla kæranda hafi verið ofmetin í ráðningarferlinu en ekki starfsreynsla konunnar. Í þessu sambandi má ennfremur hafa í huga að við ráðningu í starf yfirlögfræðings hafði kærandi sex ára starfsreynslu frá próflokum en konan tólf ára starfsreynslu.
  31. Kærði bendir til viðbótar á að ekkert liggi fyrir um fyrrnefnd störf og áherslur kæranda í starfi hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi megi þó nefna að kærði tók yfir starfsemi stofnana á sviði velferðarmála á árinu 2022 og leiði óformleg skoðun í ljós að ekki liggi fyrir nein erindi eða gögn frá Útlendingastofnun um þau mál og þær áherslur sem kærandi tilgreinir í bréfi sínu, hvorki til kærða né forvera þeirrar stofnunar. Hér skipti þó meginmáli að verkefnin sem um ræðir verði ekki sjálfkrafa talin til umtalsverðrar reynslu í opinberri stjórnsýslu velferðarmála, umfram þá reynslu sem konan hafði, auk þess sem þau lúti fremur að samskiptum við ríkisstofnanir og sveitarfélög um almennar úrbætur á regluverki og málsmeðferð í tengslum við málefni flóttafólks. Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga að við val á milli umsækjenda var horft til annarra þátta og annarrar reynslu, t.d. í opinberri stjórnsýslu, sbr. til hliðsjónar menntunar- og hæfniskröfur auglýsingar um starfið.
  32. Kærði bendir á að við ráðningarferlið séu umsækjendur metnir heildstætt með hliðsjón af áskildum kostum í auglýsingu sem og starfinu sem um ræðir. Fyrir liggi að verkefni kærða lúti að þáttum sem séu í senn viðkvæmir og persónulegs eðlis og því sé þekk­ing á persónuvernd nauðsynlegur þáttur í starfinu. Það sé því ljóst að yfirlögfræðingur kærða þarf að hafa góða þekkingu á slíkum málum enda megi ætla að álitaefni tengd persónuvernd kunni að koma upp í velflestum málum sem koma til skoðunar og úrlausnar stofnunar. Mat stofnunar á þekkingu kæranda og konunnar hafi byggst á sambærilegum viðmiðum.
  33. Kærði bendir á að stigagjöf á matsblaði undir liðnum „Athugasemdir og umsagnir“ byggi á sömu forsendum og viðmiðum varðandi alla umsækjendurna. Niðurstaðan byggi á samtölum og samskiptum kærða við umsagnaraðila án beinnar aðkomu um­sækjenda. Hvað svo sem staðhæfingum kæranda líði um þennan lið megi ljóst vera að skipulagshæfileikar hljóti að skipta máli við mat á umsækjendum um starf yfirlög­fræð­ings stofnunar og því með öllu fráleitt að halda því fram að líta beri framhjá slíkum þætti þar sem „framúrskarandi skipulagshæfileikar“ hafi ekki verið tilgreindir í aug­lýsingu sem áskilinn kostur. Af hálfu kærða er því ennfremur hafnað, sem kærandi heldur fram í bréfi, að kærða hafi borið að veita honum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna þessa þáttar, sbr. athugasemdir við 19. gr. laga nr. 150/2020. Hafa beri í huga að þessi þáttur byggðist á umsögnum umsagnaraðila og með engu móti hægt að leggja mótbárur kæranda varðandi slíkar umsagnir til grundvallar við úrlausn þessa máls.
  34. Kærði telur að ekki hafi verið sýnt fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna. Hafi við ráðningarferlið verið gætt lögmætra og málefnalegra sjónarmiða, það hafi verið gegnsætt og sömu hlutlægu forsendurnar hafi legið til grundvallar við heildarmat á umsækjendunum. Var það niðurstaða kærða að konan sem var ráðin hafi uppfyllt best allra umsækjenda hæfniskröfurnar til að gegna starfinu og hafi því verið hæfasti umsækjandinn. Hafi hún skarað fram úr varðandi góða hæfni til að skipuleggja og stýra eigin vinnu og annarra af frumkvæði og með sjálfstæðum og árangursríkum hætti, auk þess að sýna af sér jákvætt og lausnamiðað viðhorf, framúrskarandi framkomu og afburðavilja til samstarfs. Samkvæmt því hafi kærði ekki gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  35. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með ráðningu konu í starf yfirlögfræðings.
  36. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórn­sýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kæru­nefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framan­sögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  37. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í það starf sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  38. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálf­stæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  39. Í auglýsingu um starf yfirlögfræðings hjá kærða kom fram að um væri að ræða krefjandi og spennandi starf fyrir lögfræðing með leiðtogahæfileika. Leitað væri að drífandi, jákvæðum og öguðum einstaklingi sem væri tilbúinn til að leiða lögfræðiteymi stofnun­arinnar þar sem reyndi á fagmennsku, sjálfstæði og samstarf. Helstu verkefni og ábyrgð væru að tryggja að reglufylgni væri í starfsemi stofnunarinnar, ráðgjöf um lagalegar túlkanir á starfssviði stofnunarinnar, umsjón með umsögnum um lagabreytingar og útfærslu reglugerða, yfirsýn og dreifing verkefna í lögfræðiteymi stofnunarinnar, að vera tengi­liður við persónuverndarfulltrúa, yfirsýn yfir vinnslu kvartana, ábyrgð á úrvinnslu á alvarlegum atvikum og samvinna og þátttaka í verkefnum þvert á teymi stofnunarinnar. Menntunar- og hæfniskröfur voru tilgreindar sem meistarapróf í lögfræði en framhaldsmenntun á sviði stjórnunar væri kostur. Þá var gerð krafa um reynslu af opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarþjónustu, þekkingu á málaflokkum og lögum sem lúta eftirliti stofnunarinnar en að reynsla og þekking á verkefna- og breytingastjórnun væri kostur. Gerð var krafa um framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og lipurð í samvinnu, fagmennsku og sjálfstæði í vinnubrögðum og gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti.
  40. Að mati kærða uppfylltu allir sjö umsækjendurnir þær kröfur sem gerðar voru til starfs­ins í auglýsingu, bæði er varðaði menntun og starfsreynslu, og var þeim því boðið í myndbandsviðtal. Fyrir liggur að skilyrðið um reynslu af opinberri stjórnsýslu á sviði velferðarþjónustu var túlkað svo af hálfu kærða að það tæki ekki einungis til starfs­reynslu hjá stjórnsýslustofnunum heldur einnig til reynslu af stjórnsýslu af framan­greindum málaflokkum sem umsækjendur höfðu öðlast í öðrum störfum. Af hálfu kærunefndar verða ekki gerðar athugasemdir við það eins og hér stendur á. Í viðtalinu voru lagðar fyrir umsækjendurna sam­ræmdar spurningar sem höfðu jafnt vægi. Að loknum við­tölunum var niðurstaðan sú að fimm umsækjendurnir stæðu framar hinum, þrír karlar og tvær konur, og var þeim boðið í síðara viðtal við forstjóra og rekstrar- og gæðastjóra kærða. Í síðara viðtali voru samræmdar spurningar lagðar fyrir umsækj­endurna. Í framhaldinu var það niðurstaða forstjóra að loknu heildstæðu mati á öllum gögnum málsins, þ.m.t. upplýsingum sem komu fram í viðtali og hjá umsagnaraðilum, og þeim sjónarmiðum sem leggja bæri til grundvallar við ráðningu í starfið að ráða aðra konuna.
  41. Kærði hefur lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við val á þeim umsækjanda sem var ráðin hafi verið heildstætt mat á öllum matsþáttum auk góðrar skipulagshæfni og framúrskarandi framkomu. Byggði kærði mat sitt einkum á upplýsingum í umsóknum, þ.m.t. fylgigögnum, frammistöðu í báðum viðtölum og svörum umsagnaraðila. Fyrir liggur að staðlaðar spurningar voru lagðar fyrir umsækjendurna fimm en svör þeirra liggja fyrir í gögnum málsins. Í kjölfar síðari viðtala var umsagna leitað hjá tveimur umsagnaraðilum með hverjum umsækjanda þar sem sex staðlaðar spurningar voru lagðar fyrir þá og voru svör þeirra skráð.
  42. Á matsblaði sem liggur fyrir í málinu er að finna samantekt á níu matsþáttum þar sem mat á umsóknargögnum, viðtölum og umsögnum fór fram auk vægis hvers þáttar um sig. Matsþættirnir voru: 1) Sýn á starfið og áhugi fyrir málaflokknum, 2) reynsla af opinberri stjórnsýslu, 3) þekking á þeim málaflokkum sem lúta eftirliti stofnunarinnar, 4) samskipti við þjónustuþega og hagsmunaaðila, 5) úrvinnsla kvartana og atvika, 6) umsagnir um lagabreytingar og útfærsla reglugerða, 7) persónuverndarmál, 8) framúr­skarandi samskiptahæfni og samstarfsvilji og 9) jákvætt og lausnamiðað viðhorf. Kæru­nefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessa þætti í lögum er það kærða að ákveða kröfur þessar í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni stofnunarinnar að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar.
  43. Eins og fram kemur á matsblaðinu fékk sú sem var ráðin fleiri stig en kærandi fyrir matsþáttinn „persónuverndarmál“ sem vó 15% en að öðru leyti fengu þau jafn mörg stig. Í ljósi eðlis starfsins eins og því var lýst í auglýsingu og þeirra verkefna sem um var að ræða verður ekki annað séð en að þessir matsþættir hafi verið málefnalegir. Þá verður ekki annað ráðið en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak þessara þátta.
  44. Að mati kærunefndar verður heldur ekki annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvað félli undir framangreinda níu matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Á það einnig við um matsþættina „reynsla af opinberri stjórnsýslu“, „þekking á þeim mála­flokkum sem lúta eftirliti stofnunarinnar“, og „persónuverndarmál“ sem eru þeir mats­þættir sem kærandi hefur gert athugsemdir við. Fengu kærandi og sú sem var ráðin jafn mörg stig fyrir fyrstu tvo matsþættina en kærandi var lægri en hún í síðastgreinda matsþættinum eins og áður segir. Í því sambandi er rétt að benda á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöf er hún einungis hluti af margþættu og heild­stæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
  45. Eins og áður segir voru samræmdar spurningar lagðar fyrir umsækjendur í viðtölum og fengu upplýsingar sem komu fram í þeim vægi í mati kærða. Það sama á við um samræmdar spurningar sem lagðar voru fyrir tvo umsagnaraðila hjá hverjum þessara fimm umsækjenda sem komust í síðara viðtal. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að upplýsingar í viðtölum og frá umsagnaraðilum hafi verið hluti af heildarmati á umsækjendum eða það talið ómálefnalegt að byggja á þeim upplýsingum sem þar komu fram enda um að ræða mat á hæfni umsækjenda og afstöðu í víðara samhengi sem gat haft þýðingu fyrir starf yfirlögfræðings.
  46. Með vísan til framangreinds og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum og í umsögnum, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjanda sem var ráðin hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði lagði áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  47. Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í starf yfirlögfræðings hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að mat kærða á umsækjendum, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  48. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf yfirlögfræðings. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.
  49. Í samræmi við þessa niðurstöðu verður ekki fallist á kröfu kæranda um að kærði greiði honum málskostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf yfirlögfræðings.

Ekki er fallist á kröfu kæranda um að kærði greiði honum málskostnað við að hafa kæruna uppi.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta