Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 9/2024 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Frávísun. Kærufrestur.

Máli A gegn B var vísað frá kærunefnd þar sem kæran barst kærunefnd eftir að lögmæltur kærufrestur var liðinn.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 14. ágúst 2024 er tekið fyrir mál nr. 9/2024 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 29. mars 2024, kærði A B fyrir að synja honum um sömu laun fyrir sama starf sem bæði samstarfsmaður og eftirmaður hans hefðu fengið. Hafi kærði þar með brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.

     

    NIÐURSTAÐA

  3. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, svo sem hvað varðar ákvarðanir í tengslum við laun og önnur starfskjör, sbr. c-lið ákvæðisins. Í 1. mgr. 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr.
  4. Í 9. gr. laga nr. 86/2018 er mælt fyrir um bann við mismunun í tengslum við laun og önnur kjör. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er atvinnurekanda óheimilt að mismuna starfsmönnum sínum vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. í tengslum við laun og önnur kjör, enda sinni þeir sömu eða jafnverðmætum störfum. Skal starfsmönnum ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo, sbr. 2. mgr.
  5. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, er mælt fyrir um að erindi skuli berast kærunefnd jafnréttismála skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot á lögum nr. 85/2018 lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á lögunum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Kærunefndin getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár.
  6. Í kæru greinir að kærandi hafi starfað sem […] og síðar sem vaktstjóri frá byrjun mars 2018 þar til hann lenti í vinnuslysi […]. Í lok janúar 2023 var kæranda sagt upp störfum en jafnframt boðið nýtt starf sem […] hjá kærða sem hann þáði. Á fundi með yfir[…]manni og mannauðsstjóra kærða í apríl eða maí 2023 ítrekaði kærandi m.a. ósk sína um að halda fyrri launum þar sem hann hefði lent í vinnuslysi. Þeirri beiðni kæranda var hafnað. Til vara óskaði kærandi eftir að fá […]laun og vísaði til þess að […]maður sem væri í sama starfi og hann með starfsstöð á X væri á […]launum. Þeirri beiðni var einnig hafnað. Í framhaldinu hætti kærandi störfum hjá kærða og hóf störf hjá öðrum atvinnurekanda. Í mars 2024 átti kærandi leið hjá sínum gamla vinnustað og hitti fyrir þann sem tók við starfi hans hjá kærða. Sá hafði verið ráðinn hjá kærða sem […] og upplýsti að hann væri enn á þeim launum, þ.e. sömu launum og kæranda hafði verið synjað um. Af kæru má ráða að kærandi haldi því fram að slys þau sem hann hafi orðið fyrir hafi verið notuð gegn honum varðandi ákvörðun um laun og honum því mismunað á grundvelli skertrar starfsgetu.
  7. Í ljósi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 verður að ganga út frá því að kærufrestur hafi byrjað að líða frá fundi aðila sem kærandi hefur vísað til að hafi átt sér stað í apríl eða maí 2023 þegar hann gerði kröfu um hærri laun og a.m.k. um skipstjóralaun þar sem hann vísaði í tiltekið fordæmi í því sambandi. Kæran barst kærunefnd 29. mars 2024. Samkvæmt því er hún utan sex mánaða frestsins sem tiltekinn er í fyrrgreindu ákvæði. Af efni kærunnar verður ekki ráðið að sérstaklega standi á í skilningi 3. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020 til að kæran verði tekin til meðferðar. Með vísan til þessa er málinu vísað frá kærunefnd.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta