Mál nr. 31/2024. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 6. september 2024.
í máli nr. 31/2024:
Nýbyggð ehf.
gegn
Bláskógabyggð
Lykilorð
Kröfu um stöðvun samningsgerðar hafnað.
Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði stöðvunarkröfu kæranda þar sem skilyrði 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup voru ekki talin uppfyllt.
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 21. ágúst kærði Nýbyggð ehf. (hér eftir „kærandi“) útboð Bláskógabyggðar (hér eftir „varnaraðili“) auðkennt „Dæluhús Laugarvatni – Uppsteypa og utanhússfrágangur“.
Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir varnaraðila að ganga til samninga við kæranda á grundvelli tilboðs hans í hinu kærða útboði. Til vara krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála ógildi hið kærða útboð og leggi fyrir varnaraðila að auglýsa það að nýju. Til þrautavara krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála láti í té álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart honum. Þá krefst kærandi málskostnaðar í öllum tilvikum. Loks krefst kærandi þess að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir og áskilur sér jafnframt rétt til þess að koma að frekari kröfum síðar, þar á meðal að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun varnaraðila um að ganga til samninga við væntanlega samningsaðila og til þess að krefjast áframhaldandi stöðvunar á samningsgerð þar til kærunefndin hefur skorið úr öllum kæruatriðunum.
Varnaraðila var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Varnaraðili sendi tölvupóst til nefndarinnar 22. ágúst 2024 og tók fram að öllum tilboðum hefði verið hafnað og því ekkert innkaupaferli í gangi. Þá krafðist varnaraðili þess með tölvupósti 26. ágúst 2024 að stöðvunarkröfu kæranda yrði hafnað í samræmi við meðalhófsreglu enda væri ekkert tilefni til kröfunnar. Varnaraðili tók fram að hann teldi ekki þörf á að skila sérstökum athugasemdum til nefndarinnar vegna kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar þar sem ekkert innkaupaferli væri í gangi og engin samningsgerð yfirvofandi.
Tilboð í hinu kærða útboði voru opnuð 2. júlí 2024. Samkvæmt fundargerð opnunarfundar bárust fjögur tilboð í útboðinu, þar á meðal frá kæranda sem átti lægsta tilboðið að fjárhæð 67.486.928 krónur. Útboðið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar varnaraðila 7. ágúst 2024. Í fundargerð fundarins kom fram, undir fundarlið 16, að tilboð kæranda kæmi ekki til álita þar sem hann uppfyllti ekki allar kröfur útboðsgagna. Þá kom fram að önnur tilboð væru verulega yfir kostnaðaráætlun og samþykkti sveitarstjórn samhljóða að taka önnur tilboð ekki til frekari skoðunar. Varnaraðili tilkynnti kæranda um ákvörðun sveitarstjórnar með tölvupósti 8. ágúst 2024.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, heimilt að stöðva innkaupaferli eða samningsgerð um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.
Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili hefur hafnað öllum tilboðum og stendur því ekki til að gera samning á grundvelli hins kærða útboðs. Af því leiðir að hvorki er til staðar innkaupaferli né er fyrirhuguð samningsgerð sem geta verið andlag kröfu um stöðvun. Kröfu kæranda þess efnis er því hafnað.
Úr öðrum kröfum aðila verður leyst með úrskurði þegar aðilar hafa skilað endanlegum sjónarmiðum sínum í málinu og lagt fram þau gögn sem þeir telja máli skipta.
Ákvörðunarorð:
Hafnað er kröfu kæranda, Nýbyggð ehf., um að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir vegna útboðs varnaraðila, Bláskógabyggðar, auðkennt „Dæluhús Laugarvatni – Uppsteypa og og utanhússfrágangur“.
Reykjavík, 6. september 2024.
Reimar Pétursson
Sigurður Snædal Júlíusson
Auður Finnbogadóttir