Mál nr. 27/2024. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. september 2024
í máli nr. 27/2024:
Búaðstoð ehf.
gegn
Bolungarvíkurkaupstað og
Þotunni ehf.
Lykilorð
Kröfu um stöðvun samningsgerðar hafnað.
Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði stöðvunarkröfu kæranda þar sem skilyrði 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup voru ekki talin uppfyllt.
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. júlí 2024 kærði Búaðstoð ehf. (hér eftir „kærandi“) ákvörðun Bolungarvíkurbæjar (hér eftir „varnaraðili“) vegna útboðs auðkenndu „Lundahverfi – Gatnagerð og lagnir“.
Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að efna til samningskaupa án undanfarandi útboðsauglýsingar í kjölfar hins kærða útboðs og leggi fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik. Til vara krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi hið kærða útboð varnaraðila og leggi fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik. Í báðum tilvikum krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og einnig að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Ef kominn er á samningur milli varnaraðila og Þotunnar ehf. þá krefst kærandi þess að kærunefnd útboðsmála lýsi þann samning óvirkan. Loks krefst kærandi þess að innkaupaferlið verði stöðvað um stundarsakir þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru þessari.
Varnaraðili krefst þess í greinargerð sinni 16. ágúst 2024 að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Þotan ehf. hefur ekki lagt fram athugasemdir vegna kærunnar.
Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir frekari upplýsingum og gögnum frá varnaraðila með tölvupósti 19. ágúst 2024. Varnaraðili svaraði beiðni kærunefndarinnar með tölvupósti 21. ágúst 2024 og lagði fram umbeðin gögn.
Kærandi fékk færi á að tjá sig um athugasemdir varnaraðila sem og svör varnaraðila við spurningum nefndarinnar. Athugasemdir kæranda bárust 29. ágúst 2024.
Hið kærða útboð var auglýst 12. apríl 2024. Tilboð voru opnuð 29. apríl 2024 og bárust tvö tilboð. Annars vegar frá kæranda að fjárhæð 256.878.200 krónur og hins vegar frá Þotunni ehf. að fjárhæð 289.488.100 krónur. Kostnaðaráætlun varnaraðila nam 287.607.500 krónum og var tilboð kæranda því 89% af kostnaðaráætlun, en tilboð Þotunnar ehf. 101% af kostnaðaráætlun.
Í fundargerð bæjarráðs varnaraðila 14. maí 2024 kemur fram að bæjarstjóri hafi á fundinum kynnt minnisblað frá Tæknideild Bolungarvíkurkaupstaðar með niðurstöðu frá opnun tilboða. Bæjarráð hafni báðum tilboðum í verkið og feli bæjarstjóra að vinna, í samvinnu við tæknideild, að nýrri útfærslu á framkvæmdum við Lundahverfi ásamt kostnaðaráætlun. Í fundargerð bæjarráðs varnaraðila 25. júní 2024 er svo fært til bókar, að „[f]ramkvæmdir við Lundahverfi hefjast á árinu, en framkvæmdum verður áfangaskipt. Fyrsti áfangi sem unnin verður á árinu 2024 gerir ráð fyrri gatnagerð á Brekkulundi frá Þjóðólfsvegi að Völusteinsstræti. Bæjarráð leggur til að semja við tilboðsgjafa í útboði um verkið í samræmi við útboðsskilmála þess.“
Hinn 5. júlí tilkynnti varnaraðili kæranda að tilboði hans hefði verið hafnað. Samkvæmt gögnum málsins hafnaði varnaraðili einnig tilboði Þotunnar ehf. með bréfi þann sama dag. Í rökstuðningi varnaraðila fyrir ákvörðun sinni var tekið fram að tilboð kæranda hefði ekki uppfyllt kröfur um reynslu yfirstjórnanda. Þá var einnig tekið fram að varnaraðili „hefur ekki lokið yfirferð á því tilboði sem eftir stendur, eftir að tilboð Búaðstoðar stóðst ekki útboðskröfur. Stefnt er að því að klára yfirferð á því tilboði eins fljótt og auðið er. Vegna sumarleyfa, gæti það tafist um nokkrar vikur. Að lokinni yfirferðinni, þá mun sveitarfélagið senda frá sér tilkynningu um endanlega niðurstöðu útboðsins.“
Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir frekari skýringum frá varnaraðila 19. ágúst 2024 og staðfestingu á því að innkaupaferlinu sé lokið. Í svari varnaraðila frá 21. ágúst s.á. kemur fram að innkaupaferlinu hafi lokið með höfnun beggja tilboða og að ekki standi til að gera samning við Þotuna ehf. Þá hefur varnaraðili upplýst að kærandi hafi fengið rangar upplýsingar um að til standi að fara yfir tilboð Þotunnar ehf. og fundargerð varnaraðila 25. júní 2024 beri að skilja sem svo að til skoðunar sé að efna til nýs innkaupaferlis vegna verksins.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, heimilt að stöðva innkaupaferli eða samningsgerð um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.
Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili hefur hafnað báðum tilboðum og hinu kærða innkaupaferli er lokið. Stendur því ekki til að gera samning á grundvelli hins kærða útboðs. Af því leiðir að hvorki er til staðar innkaupaferli né er fyrirhuguð samningsgerð sem geta verið andlag kröfu um stöðvun. Kröfu kæranda þess efnis er því hafnað.
Úr öðrum kröfum aðila verður leyst með úrskurði þegar aðilar hafa skilað endanlegum sjónarmiðum sínum í málinu og lagt fram þau gögn sem þeir telja máli skipta.
Ákvörðunarorð
Hafnað er kröfu kæranda, Búaðstoðar ehf., um að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir vegna útboðs varnaraðila, Bolungarvíkurkaupstaðar, auðkennt „Lundahverfi – Gatnagerð og lagnir“.
Reykjavík, 20. september 2024
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir