Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 17. september 2019
í máli nr. 6/2019:
Verkís hf.
gegn
Vatnajökulsþjóðgarði,
Ríkiskaupum og
Computer Vision ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. mars 2019 kærði Verkís hf. útboð Ríkiskaupa f.h. Vatnajökulsþjóðgarðs (hér eftir vísað til sameiginlega sem varnaraðila) nr. 20888 auðkennt „Innheimtukerfi fyrir þjónustugjöld Vatnajökulsþjóðgarðs.“ Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila að taka tilboði Computer Vision ehf. í hinu kærða útboði. Þá er krafist álits á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda auk málskostnaðar.

Varnaraðilum og Computer Vision ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð varnaraðila 23. apríl 2019 var þess krafist að öllum kröfum kæranda yrði vísað frá eða hafnað. Computer Vision ehf. gerði sömu kröfur með greinargerð 23. apríl 2019, auk þess sem krafist var málskostnaðar úr hendi kæranda. Kærandi skilaði andsvörum 18. júní 2019.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 2. maí 2019 var aflétt þeirri sjálfkrafa stöðvun hins kærða útboðs sem hafði komist á með kæru í máli þessu.

I

Í janúar 2019 óskuðu varnaraðilar eftir tilboðum í uppsetningu og rekstur innheimtukerfis fyrir Vatnajökulsþjóðgarð. Var gert ráð fyrir því að kerfið yrði sérsmíðað að hluta eða öllu leyti og að það samanstæði m.a. af myndavélabúnaði og hugbúnaði sem gæti greint bílnúmer og innheimt gjöld af gestum þjóðgarðsins. Í útboðsgögnum kom fram að um opið útboð væri að ræða samkvæmt lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup. Í útboðsgögnum voru gerðar tilteknar kröfur til hæfis bjóðenda. Í grein 1.2.3 var gerð krafa um að eigið fé bjóðanda árið 2017 skyldi vera jákvætt um sem næmi 10% af efnahagsreikningi og þá skyldi ársvelta bjóðanda sama ár vera að lágmarki því sem næði tvöföldu boðnu verði. Í svörum varnaraðila við fyrirspurnum bjóðenda kom fram að árshlutauppgjör og/eða uppgjör vegna 2018 yrðu tekin jafngild. Í grein 1.2.4 kom fram að bjóðandi skyldi hafa reynslu í notkun á opnu gagnasafnskerfi og í þekktu umhverfi við hugbúnaðargerð og sýna fram á það með skrá yfir þrjú sambærileg verk sem hann hefði unnið á undanförnum þremur árum, en sambærileg verk töldust verkefni þar sem forritun og útfærsla næmi a.m.k. 500 klst. Þá skyldi bjóðandi hafa a.m.k. þrjá starfsmenn á launaskrá sem störfuðu alfarið við forritun og/eða hugbúnaðargerð, hefðu reynslu af því að starfa við nánar tiltekin kerfi og hefðu háskólamenntun á sviði tölvunarfræði, verkfræði eða sambærilega menntun og hefðu starfað við hugbúnaðargerð í a.m.k. 24 mánuði. Skyldi bjóðandi sýna fram á þetta með því að leggja fram með tilboði sínu skrá yfir boðna starfsmenn sem störfuðu hjá bjóðanda ásamt upplýsingum um menntun og reynslu þeirra. Í svörum við fyrirspurnum bjóðenda kom fram að háskólamenntun á sviði viðskiptafræði og yfir 15 ára starfsreynsla við hugbúnaðargerð og kerfisstjórn fyrir viðurkennda viðskiptavini myndi fullnægja skilyrði um menntun. Í grein 1.3 kom fram að valið skyldi á milli tilboða á grundvelli verðs, sem gæti mest gefið 75 stig, og gæða, sem gætu mest gefið 25 stig. Við mat á gæðum skyldi horft til reynslu teymis, hvort starfsemi bjóðanda væri vottuð í heild eða hluta, þjónustugetu, þekkingu á Agile aðferðarfræði og afhendingar, en gefin yrðu fimm stig ef bjóðandi myndi skuldbinda sig til þess að afhenda fullbúna lausn fyrir 15. maí 2019. Í grein 1.5.2 kom fram að samningstími væri 60 mánuðir með heimild til framlengingar þrisvar sinnum um eitt ár í senn. Þá fylgdi útboðsgögnum jafnframt tæknilýsing vegna innheimtukerfisins, þar sem nánari lýsing á þörfum varnaraðila kom fram.

Tilboð voru opnuð 1. mars 2019 og buðu þrjú fyrirtæki í verkið. Hinn 21. mars 2019 tilkynnti varnaraðili að tilboð Computer Vision ehf. hefði verið valið þar sem tilboð fyrirtækisins hefði verið hagstæðast. Kom fram að tilboð Computer Vision ehf. hefði fengið 100 stig fyrir verð og 86 stig fyrir gæði, eða samtals 96,50 stig. Tilboð kæranda, sem var talið næsthagstæðast, hafði fengið 90,91 stig fyrir verð en 100 stig fyrir gæði, eða samtals 93,18 stig.

Þá er upplýst í málinu að varnaraðili hafi framkvæmt verðkönnun í júní 2017 þar sem óskað hafi verið eftir tilboðum í sjálfvirkt eftirlit og innheimtu bílastæðagjalda í Skaftafelli og við Dettifoss til loka árs 2017. Upplýst er að varnaraðili gekk til samninga við Computer Vision ehf. í kjölfar þeirrar verðfyrirspurnar.

II

Málatilbúnaður kæranda byggir á því að Computer Vision ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsins um fjárhagslegt hæfi og um tæknilega og faglega getu. Samkvæmt ársreikningi Computer Vision ehf. fyrir rekstarárið 2017 standist fyrirtækið ekki kröfu útboðsgagna um jákvætt eigið fé og um lágmarksveltu. Þá starfi einungis þrír starfsmenn hjá fyrirtækinu samkvæmt ársreikningi fyrir rekstarárið 2018 og heimasíðu fyrirtækisins. Því geti fyrirtækið ekki boðið þrjá starfsmenn sem starfi alfarið við forritun eins og útboðsgögn áskilji. Þá setji kærandi spurningarmerki við að stjórnarmenn og hluthafar í Computer Vision ehf., sem og starfsmenn sem starfi hjá öðrum fyrirtækjum, geti uppfyllt kröfur útboðsgagna. Þá hafi kærandi upplýsingar um að einungis einn starfsmaður hafi menntun á sviði viðskiptafræði og að hinir tveir hafi ekki lokið háskólaprófi. Þá hafi umræddir starfsmenn ekki þá reynslu af sambærilegum verkefnum sem gerð hafi verið krafa um í útboðsgögnum. Kærandi byggir jafnframt á því að dregið hafi verið úr ýmsum kröfum í útboðinu sem hafi orðið til þess að Computer Vision ehf. hafi staðist hæfiskröfur útboðsins, meðal annars kröfur um jákvætt eigið fé og lágmarksveltu og um menntun starfsmanna. Með þessu hafi jafnræði bjóðenda verið raskað.

Kærandi byggir einnig á því að Computer Vision ehf. hafi ekki átt hagstæðasta tilboðið í útboðinu þar sem fyrirtækið hafi fengið of háa einkunn fyrir gæði. Einungis einn starfsmaður sé í fullu starfi við forritun og þá sé kæranda ekki kunnugt um að fyrirtækið hafi gilda vottun. Þá setji kærandi spurningarmerki við gæði þeirrar vottunar sem Computer Vision ehf. kveðst hafa og að bjóðendur hafi getað fengið stig fyrir það eitt að vera með einhvers konar vottun. Kærandi dregur einnig í efa að fyrirtækið hafi getað fengið fullt hús stiga fyrir þekkingu í Agile aðferðarfræði. Þá hafi Computer Vision ehf. verið eini bjóðandinn sem hafi getað afhent fullbúna lausn fyrir 15. maí 2019 og því sá eini sem hafi getað fengið 5 stig vegna þess liðar. Því hefði fyrirtækið í mesta lagi átt að fá 15 stig fyrir gæði í stað 21,5 og í heildina færri stig en kærandi. Því hefði varnaraðila borið að ganga til samninga við kæranda. Fyrri aðkoma Computer Vision ehf. hafi veitt fyrirtækinu forskot bæði hvað varðar hæfi og við stigagjöf.

Kærandi byggir jafnframt á því að ekki hafi verið gætt að jafnræði bjóðenda þar sem Computer Vision ehf. hafi haft forskot á aðra bjóðendur við gerð tilboða. Þannig hafi varnaraðilar framkvæmt verðkönnun um mitt ár 2017 þar sem óskað hafi verið eftir tilboðum í sjálfvirkt eftirlit og innheimtu bílastæðagjalda í Skaftafelli og við Dettifoss og gert hafi verið ráð fyrir því að samningstími yrði til áramóta 2017/2018. Jafnframt hafi verið gert ráð fyrir að seljandi skyldi fjármagna uppbyggingu og rekstur kerfisins, bæði tækjabúnað og hugbúnað. Á þessum tíma hafi Computer Vision ehf. þegar verið búið að setja upp búnað í þessum tilgangi í Skaftafelli. Félag sem sé að hluta til í eigu kæranda hafi tekið þátt í könnuninni, en varnaraðili hafi ákveðið að ganga til samninga við Computer Vision ehf. Þannig hafi Computer Vision ehf. unnið að umræddri lausn og búnaði vegna innheimtukerfis í eitt og hálft ár. Fyrirtækið gerþekki þann búnað sem notast skuli við og hafi þegar lagt talsverða vinnu í þróun hans. Þá hafi kærandi á útboðstíma í fjölmörg skipti kallað eftir tæknilegum upplýsingum um þann búnað sem nota skyldi, en þær upplýsingar hafi aldrei borist. Óvissa um samþættingu búnaðar hafi valdið því að kærandi hafi þurft að bjóða hærra verð en Computer Vision ehf. sem hafi haft allar upplýsingar um búnaðinn. Þá hafi forgreiningarskýrsla sem minnst var á í útboðsgögnum aldrei verið afhent. Computer Vision ehf. hafi því verið eini bjóðandinn sem hafi þekkt búnaðinn og hafi auk þess fengið sérstakt forskot við þróun hugbúnaðarlausnarinnar. Þetta hafi einnig leitt til þess að Computer Vision ehf. hafi getað boðið betra verð enda hafi hluti af kostnaði félagsins við verkið fallið undir fyrra innkaupaferli. Fyrirtækið hafi því haft augljóst forskot í hinu kærða útboði á aðra bjóðendur í andstöðu við 15. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Þá mótmælir kærandi því að hann hafi ekki fullnægt hæfiskröfum útboðsins, líkt og Computer Vision ehf. haldi fram.

III

Varnaraðilar Vatnajökulsþjóðgarður og Ríkiskaup byggja á því að Computer Vision ehf. hafi fullnægt öllum kröfum útboðsgagna um hæfi eins og þeim hafi verið breytt á fyrirspurnartíma, þegar horft hafi verið til þeirra gagna sem þeir hafi skilað með tilboði sínu. Þannig hafi í grein 1.2.3 í útboðsgögnum verið gerð krafa um að eigið fé bjóðanda skyldi árið 2017 hafa verið jákvætt um sem næmi 10% af efnahagsreikningi. Einnig hafi verið gerð krafa um að ársvelta bjóðanda skyldi vera að lágmarki því sem næmi tvöföldu boðnu verði. Samkvæmt svari við fyrirspurn á tilboðstíma hafi verið nægilegt að skila árshlutauppgjöri eða uppgjöri vegna 2018. Samkvæmt þeim gögnum sem hafi fylgt tilboði Computer Vision ehf. hafi fyrirtækið uppfyllt kröfur um fjárhagslegt hæfi. Þá hafi grein 1.2.4 í útboðsgögnum gert kröfu um að bjóðandi legði fram skrá yfir sambærileg verk sem hefðu verið unnin á undanförnum þremur árum en sambærileg verk teldust vera verkefni þar sem forritun og útfærsla næmi a.m.k. 500 klst. Computer Vision ehf. hafi lagt fram lýsingar á þremur verkefnum með tilboði sínu sem hafi uppfyllt kröfur útboðsgagna. Þá hafi Computer Vision ehf. lagt fram gögn með tilboði sínu sem sýni að sjö starfsmenn starfi hjá fyrirtækinu og að hinu útboðna verkefni. Þar af séu tveir viðskiptafræðingar, einn tölvunarfræðingur, einn með BSc í tölvunarverkfræði, einn með BSc í hugbúnaðarverkfræði, einn nemi í tölvunarfræðum sem hafi starfað með námi hjá Computer Vision ehf. og einn hugbúnaðarhönnuður með 15 ára reynslu í forritun og hugbúnaðarþróun. Samkvæmt svari á fyrirspurnartíma hafi háskólamenntun á sviði tölvunarfræði, verkfræði og/eða viðskiptafræði uppfyllt skilyrði útboðsgagna og sömuleiðis 15 ára starfsreynsla við forritun, hugbúnaðargerð og kerfisstjórnun fyrir viðurkennda viðskiptavini. Samkvæmt þeim gögnum sem Computer Vision ehf. hafi lagt fram með tilboði sínu hafi starfsmenn fyrirtækisins uppfyllt þessar kröfur.

Hvað varðar stigagjöf hafi útboðsgögn gert ráð fyrir því að hægt væri að fá fimm stig fyrir samanlagða starfsreynslu teymis á bilinu 6-30 ár. Að mati varnaraðila hafi þau gögn sem fylgdu með tilboði Computer Vision ehf. borið með sér að starfsmenn fyrirtækisins næðu 30 ára starfsaldri hið minnsta og því hafi tilboð þess fengið fimm stig fyrir þessa valforsendu. Þá hafi fyrirtækið fengið þrjú stig þar sem hjá fyrirtækinu störfuðu fleiri en fimm en færri en 11 starfsmenn sem störfuðu við hugbúnaðargerð.

Það hafi verið hæfiskrafa í útboðinu að bjóðandi skyldi vera með skriflegt gæðakerfi og vinna að hugbúnaðargerð í samræmi við slíkt kerfi og sýna fram á það. Computer Vision ehf. hafi skilað með tilboði sínu greinargerð um gæðakerfi og svokallaðan „SmartAccess“ búnað og greinargerð um vinnubrögð og vottun „SmartAceess“ auk vottunar „Certificate on STAKA standard Compliance“. Varnaraðilar hafi því talið að fyrirtækið uppfyllti þessa hæfiskröfu. Þá hafi vottun einnig verið metin sem valforsenda. Þannig skyldi gefa fimm stig ef öll starfsemi bjóðanda væri vottuð en 3,5 stig ef einungis hugbúnaðarhluti bjóðanda væri vottaður. Við mat tilboða hafi niðurstaða varnaraðila verið sú að einungis hugbúnaðarhluti Computer Vision ehf. væri vottaður og hafi fyrirtækið því aðeins fengið 3,5 stig fyrir þann hluta. Til viðbótar megi nefna að öll starfsemi fyrirtækisins sé vottuð í dag. Þá hafi Computer Vision ehf. tilgreint að það hefði tekið þátt í verkefnum af sambærilegri stærð þar sem „Agile aðferðarfræði“ hafi verið beitt og að a.m.k. tveir úr boðnu teymi hafi tekið þátt í námskeiði í Agile. Því hafi fyrirtækið fengið fimm stig fyrir þennan þátt. Fyrirtækið hafi jafnframt fengið fimm stig fyrir að skuldbinda sig til að afhenda lausn fyrir 15. maí 2019.

Varnaraðilar byggja einnig á því að jafnræði bjóðenda hafi ekki verið raskað þótt Computer Vision ehf. hafi komið að gerð eftirlits og innheimtukerfis bílastæðagjalda við Skaftafell og Dettifoss í kjölfar verðfyrirspurnar. Þegar þjónusta sé boðin út megi ávallt líta svo á að fyrrverandi þjónustuveitandi hafi forskot vegna þekkingar sinnar á starfsemi kaupanda. Hér sé þó ekki um slíkt að ræða. Kærandi hafi allt frá árinu 2017, þegar tilkynnt var um fyrirhugað útboð, haft tækifæri til að undirbúa sig fyrir útboðið og haft allar nauðsynlegar upplýsingar. Ekki hafi verið óskað eftir eins innheimtukerfi og Computer Vision ehf. hafi þróað. Aðeins hafi verið gerðar tilteknar lágmarkskröfur og forsendur til kerfisins sem hafi ekki á nokkurn hátt verið takmarkandi og veitt öllum áhugasömum fyrirtækjum næga möguleika á að bjóða í þjónustuna.

Þá haldi kærandi því fram að hann hafi margoft óskað eftir tæknilegum upplýsingum um þann búnað er nota skyldi og ekki fengið þær. Kærandi hafi ekki lagt fram þessar spurningar. Ef kærandi telji nú að útboðsgögn og svör hafi ekki verið nægilega skýr, þá sé það kæruefni of seint fram komið. Hvað varðar forgreiningarskýrslu sem nefnd var í útboðsgögnum þá hafi í svari á fyrirspurnartíma komið fram að tilvísun þessi væri röng og skyldi falla niður. Þessi ranga tilvísun í útboðsgögnum í forgreiningarskýrslu hafi verið einföld ritvilla. Tæknilýsingin hafi upphaflega verið hugsuð sem kröfur og tilvísun í forgreiningarskjal, en þetta hafi verið sameinað í eitt skjal og í kjölfarið gleymst að taka út þetta orð úr útboðsgögnum. Þá hafi í fyrirspurnum verið spurt um búnað og hafi komið fram í svari varnaraðila að verksali ætti að sjá um allan búnað sjálfur að frátalinni myndavél sem væri á staðnum. Heimiluð hafi verið frávik varðandi búnað í tilboðum. Þá hafi komið fram í svörum þessum að gert væri ráð fyrir að byggt yrði á myndavél sem sé á staðnum en að öðru leyti skyldi verksali sjálfur sjá um öflun búnaðar. Allir sem þekki til tæknimála viti að slíkar myndavélar eru staðlaðar og engin vandkvæði að tengjast þeim. Jafnframt hafi verið tekið fram að verksala væri heimilt að tilgreina frávik og/eða fyrirvara vegna búnaðarþátta í tilboði sínu. Ekkert af þessum atriðum hafi orðið til þess að kærandi hafi fengið lægri einkunn en Computer Vision ehf. enda hafi kærandi fengið 25 stig af 25 mögulegum fyrir gæði. Kærandi hafi ekki verið valinn því hann hafi fengið lægri heildareinkunn en Computer Vision ehf. sem boðið hafi lægra verð.

Computer Vision ehf. byggir kröfur um frávísun málsins á því að kæra byggi á röngum og órökstuddum getgátum um fyrirtækið, hún sé tilefnislaus og höfð uppi til að tefja. Því uppfylli málatilbúnaður kæranda ekki almennar skýrleikakröfur íslensks réttarfars. Þá uppfylli kærandi ekki sjálfur hæfiskröfur útboðsins þar sem hann hafi ekki unnið þrjú sambærileg verk í skilningi útboðsgagna. Computer Vision ehf. hafi uppfyllt allar hæfiskröfur útboðsins, svo sem um fjárhagslega getu, fjölda starfsmanna, menntun þeirra og reynslu. Þá mótmæli fyrirtækið því að fyrirtækið hafi verið ofmetið við stigagjöf. Þvert á móti hafi fyrirtækið átt að fá fleiri stig í útboðinu en það fékk. Þá mótmælir fyrirtækið því að það hafi haft forskot á aðra bjóðendur vegna þess að samið hafi verið við það í kjölfar verðkönnunar 2017. Þannig hafi komið skýrt fram í svörum á fyrirspurnartíma að bjóðendur gætu boðið þær hugbúnaðarlausnir sem þeir kysu og jafnframt að myndavél varnaraðila uppfyllti allar gæðakröfur um myndgreiningu og að bjóðendum væri frjálst að setja upp þann búnað sem þeir kysu að vinna með og hanna forrit sín þannig að sem best tenging næðist milli hugbúnaðar og vélbúnaðar. Í tæknilýsingu og svörum á útboðstíma hafi bjóðendum því verið gefnar frjálsar hendur með tækjabúnað og hugbúnað hvort heldur hann væri eign bjóðanda að fullu eða að hluta. Því hafi verið fullt jafnræði með bjóðendum. Þá megi benda á þá heimild sem finna megi í 2. mgr. 79. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, en samkvæmt ákvæðinu hefði verið heimilt fyrir varnaraðila að tiltaka í útboðslýsingu og taka með í útreikningi á kostnaðarhagkvæmni hvað það myndi kosta að skipta út núverandi kerfi. Þannig hefðu varnaraðilar getað lagt skiptikostnað ofan á verð annarra bjóðenda, en það hafi ekki verið gert. Gerð sé krafa um málskostnað úr hendi kæranda þar sem kæra í málinu eigi ekki við nokkur rök að styðjast og sé tilefnislaus.

IV

Kærandi byggir á því að Computer Vision ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi og um tæknilega og faglega getu, auk þess sem dregið hafi verið úr þessum kröfum á síðari stigum útboðsins, en með því hafi samkeppni í útboðinu og jafnræði aðila verið raskað.

Kröfur um hæfi bjóðenda og lýsing á þeim gögnum sem bjóðendur skyldu leggja fram til staðfestingar á hæfi sínu komu fram í greinum 1.2.3 og 1.2.4 í útboðsgögnum, sem áður hefur verið lýst. Fyrir liggur að kröfur þessar voru nánar skýrðar og breytt í tilteknum atriðum á fyrirspurnartíma. Meðal annars kom þar fram að við mat á fjárhagslegri getu mætti horfa til árshlutauppgjörs og/eða uppgjörs 2018 í stað ársreiknings 2017 auk þess sem háskólamenntun á sviði viðskiptafræði og 15 ára starfsreynsla við hugbúnaðargerð og kerfisstjórnun var talin fullnægja kröfum um menntun starfsmanna. Að mati kærunefndar útboðsmála hefur kærandi ekki fært viðhlítandi rök að því að með framangreindum skýringum og breytingum á kröfum til hæfni á fyrirspurnartíma hafi samkeppni eða jafnræði bjóðenda verið raskað með þeim hætti að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þá hefur nefndin farið yfir þau gögn sem fylgdu tilboði Computer Vision ehf. og varða hæfi fyrirtækisins. Af þeim verður ekki annað ráðið en að fyrirtækið hafi uppfyllt þær kröfur um fjárhagslegt og tæknilegt hæfi sem kæra beinist að, eins og þær kröfur voru nánar skýrðar eða breytt í svörum varnaraðila á fyrirspurnartíma. Kærunefnd hefur með sama hætti yfirfarið gögn málsins varðandi einkunnagjöf í tilviki Computer Vision ehf., sem kærandi heldur fram að hafi verið röng og leitt til þess að fyrirtækið hafi fengið of mörg stig fyrir gæði. Að mati kærunefndar benda þessi gögn málsins ekki til þess að ástæða sé til þess að rengja það mat varnaraðila að Computer Vision ehf. hafi átt hagkvæmasta tilboðið í útboðinu samkvæmt valforsendum þess.

Kærandi byggir einnig á því að Computer Vision ehf. hafi haft slíkt forskot við gerð tilboða í útboðinu að jafnræði bjóðenda hafi verið raskað svo að í bága fari við 15. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Fyrir liggur að Computer Vision ehf. gerði samning við varnaraðila um eftirlit og innheimtu bílastæðagjalda í Skaftafelli og við Dettifoss á árinu 2017. Samningur þessi var gerður í kjölfar verðfyrirspurnar sem varnaraðili framkvæmdi í júní 2017 og skyldi gilda til loka þess árs. Kærandi telur að þessi fyrri aðkoma Computer Vision ehf. hafi veitt fyrirtækinu ólögmætt forskot í hinu kærða útboði.

Þegar deilt er um atriði af framangreindum toga verður að skoða hvert tilvik fyrir sig þar sem niðurstaðan ræðst af heildarmati á því hvort bjóðandi hafi notið forskots fram yfir aðra bjóðendur þannig að jafnræði bjóðenda hafi verið skert. Í máli þessu liggur m.a. fyrir að kærandi fékk fullt hús stiga (100 stig) í mati varnaraðila á gæðum, þ.á m. fyrir afhendingu fullbúinnar lausnar fyrir 15. maí 2019. Computer Vision ehf. fékk hins vegar nokkru lægri einkunn fyrir gæði eða 86 stig. Meint forskot Computer Vision ehf. fær þannig ekki stoð í þeim einkunnum sem lagðar voru til grundvallar við mat á gæðum. Örðugara er að ráða í hugsanleg áhrif hins fyrri samnings á boðin verð en heildarmat kærunefndar í ljósi framangreinds og fyrirliggjandi gagna er að kærandi hafi ekki sýnt fram á að Computer Vision ehf. hafi notið forskots sem raskað hafi jafnræði bjóðenda með ólögmætum hætti.

Með hliðsjón af framangreindu verður að hafna öllum kröfum kæranda. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Verkís ehf., vegna útboðs varnaraðila, Ríkiskaupa f.h. Vatnajökulsþjóðgarðs, nr. 20888 auðkennt „Innheimtukerfi fyrir þjónustugjöld Vatnajökulsþjóðgarðs“ er hafnað.

Málkostnaður fellur niður.

Reykjavík, 17. septemer 2019.

Eiríkur Jónsson

Auður Finnbogadóttir

Sandra BaldvinsdóttirÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira