Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 30/2024. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 20. september 2024
í máli nr. 30/2024:
UHA umhverfisþjónusta ehf.
gegn
Múlaþingi og
Fljótsdalshreppi

Lykilorð
Stöðvunarkröfu hafnað.

Útdráttur
Kröfu U um stöðvun innkaupaferlis var hafnað, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 16. ágúst 2024 kærði UHA umhverfisþjónusta ehf. (hér eftir „kærandi“) ákvörðun Múlaþings og Fljótsdalshrepps (hér eftir „varnaraðilar“) um að hafna tilboði hans í útboði auðkenndu „Úrgangsþjónusta í Múlaþingi og Fljótsdalshreppi 2024-2028“.

Kærandi krefst þess aðallega að varnaraðilum verði gert að auglýsa útboð á nýjan leik. Til vara er þess krafist að ákvörðun varnaraðila, um að tilboð kæranda sé ógilt, verði felld úr gildi. Kærandi krefst þess einnig að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna hins kærða útboðs og þess tjóns sem ágallar á því kunni að hafa valdið kæranda. Kærandi krefst jafnframt greiðslu málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Loks krefst kærandi þess að samningsgerð verði stöðvuð á meðan leyst er úr kæru.

Varnaraðili Múlaþing krefst þess að kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis verði hafnað og að öðrum kröfum kæranda verði einnig hafnað. Varnaraðili Fljótsdalshreppur hefur ekki látið málið til sín taka.

Þess skal getið að kærandi lagði fram aðra kæru vegna sama útboðs 5. júlí 2024 og krafðist þess að tilteknir útboðsskilmálar yrðu felldir niður og að einn bjóðenda í hinu kærða útboði yrði útilokað frá þátttöku í útboðinu. Úrskurður í því máli er kveðinn upp á sama tíma og ákvörðun í máli þessu.

Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir.

I

Varnaraðilar buðu út úrgangsþjónustu í Múlaþingi og Fljótsdalshreppi fyrir árin 2024-2028 og var hið kærða útboð auglýst 12. júní 2024 innanlands og á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt grein 0.1 í útboðsskilmálum var markmið útboðsins að bæta úrgangsmeðhöndlun innan beggja sveitarfélaga. Endurnýting úrgangs yrði áfram aukin og dregið úr urðun. Lögð væri áhersla á góða þjónustu við íbúa sveitarfélaganna hvort sem væri við sorphirðu eða á gámastöðum. Eitt af markmiðum hins kærða útboðs væri að gera góða ímynd sveitarfélaganna í úrgangsmálum enn betri. Hinu kærða útboði væri ætlað að uppfylla framangreint með sem minnstum kostnaði fyrir sveitarfélögin og íbúa þeirra. Þannig væri það markmið með útboðinu að skapa verktaka eða verktökum umhverfi þar sem þeir geti sjálfir ráðstafað öllum hugsanlegum verðmætum úr úrganginum, sér til tekna, hvort sem það séu sölutekjur af efnum til endurvinnslu eða hlutdeild í úrvinnslugjaldi.

Samkvæmt sömu grein var verkinu skipt upp í þrjá verkhluta. Í fyrsta lagi sorphirðu frá heimilum, í öðru lagi rekstur móttökustöðva á Egilsstöðum og Seyðisfirði, og í þriðja lagi gámaleigu og þjónusta við gámastöð á Djúpavogi. Bjóðendum væri heimilt að bjóða í einn, tvo eða alla verkhluta. Hver verkhluti væri sjálfstæður en tilboðsskrá væri stillt upp með þeim hætti að hægt sé að gera tilboð í einstaka verkhluta óháð öðrum, en einnig væri hægt að gera tilboð í fleiri en einn verkhluta sem væri bundið við aðra verkhluta.

Í grein 0.1.3 var fjallað um upplýsingar sem bjóðendur skyldu skila inn með tilboðum sínum í stafliðum A-M. Meðal þeirra upplýsinga sem bjóðendur áttu að skila inn voru skrá yfir sambærileg verk á síðustu tveimur árum og lýsingu á reynslu bjóðanda (stafliður L) og meðmælabréf frá tveimur sveitarfélögum eða opinberum aðilum þar sem góðri reynslu af verktaka væri lýst af sambærilegum verkum. Þá var tilteknum atriðum lýst í sömu grein sem myndu leiða til þess að ekki yrði gengið til samninga við bjóðanda og tilboði þess vísað frá. Þar á meðal var ef ársreikningur bjóðanda sýndi neikvætt eigið fé, en þó væri heimilt að ganga til samninga við bjóðanda þótt ársreikningur sýndi neikvætt eigið fé ef staðfesting lægi fyrir um jákvætt eigið fé bjóðanda í árshlutareikningi eða yfirlýsingu löggilts endurskoðanda (liður 8). Einnig þyrfti bjóðandi að hafa yfir að ráða tæknilega eða faglega getu til að geta framkvæmt verkið, en undir það félli a.m.k. 2 ára reynslu af verkefnum sem krefðust sömu eða svipaðrar vinnu og við sorphirðu eða rekstur gámavalla.

Kærandi lagði fram kæru vegna sama útboðs til kærunefndar útboðsmála 5. júlí 2024 og krafðist þess að tilteknir útboðsskilmálar yrðu felldir niður og að einn bjóðenda yrði útilokaður frá þátttöku á grundvelli persónulegra aðstæðna.

Tilboð voru opnuð 22. júlí 2024 og bárust tilboð frá fimm félögum, þ. á m. frá kæranda og frá Íslenska gámafélaginu ehf., sem bæði buðu í alla verkhluta.

Varnaraðili Múlaþing tilkynnti kæranda 16. ágúst 2024 að tilboð félagsins uppfyllti ekki skilyrði útboðsgagna þar sem engum meðmælabréfum hefði verið skilað með fylgigögnum og útfylltri tilboðsskrá í samræmi við kafla 0.1.3 í útboðsgögnum. Væri tilboð kæranda því ógilt. Með bréfinu til kæranda var listi yfir þau gögn sem hefðu átt að fylgja með útfylltri tilboðsskrá.

II

Kærandi bendir á að tilboð hans í hinu kærða útboði hafi verið lægst. Hann hafi ekki heyrt neitt í varnaraðilum fyrr en með tölvupósti 16. ágúst 2024 og honum hafi þar verið tilkynnt um að tilboðið væri ógilt þar sem ekki hafi fylgt með því meðmælabréf og tilboðsskrá. Kærandi andmælir tilkynningu varnaraðila um að tilboð hans hafi verið ógilt og gerir alvarlegar athugasemdir við þá málsmeðferð sem varnaraðilar hafi viðhaft, sem kærandi telji allt í senn í andstöðu við útboðsgögn, lög nr. 120/2016 og meginreglur laga um opinber innkaup, sbr. 15. gr. laganna.

Kærandi hafi verið í góðri trú um að hafa skilað inn öllum umbeðnum gögnum, sbr. grein 0.1.3 í útboðsgögnum, áður en opnun tilboða hafi átt sér stað, þar með talið meðmælabréfum og tilboðsskrá. Engar athugasemdir hafi borist frá varnaraðilum fyrir opnun tilboða, né hafi engar athugasemdir verið gerðar við opnun tilboða þegar í ljós hafi komið að tilboð kæranda hafi verið lægst. Það hafi ekki verið fyrr en fjórum vikum eftir opnun tilboða að varnaraðilar hafi sent kæranda tilkynningu um að tilboð hans væri ógilt. Kærandi vísar til þess að ómögulegt hafi verið fyrir varnaraðila að lesa upp tilboð kæranda við opnun þeirra ef það hafi engin tilboðsskrá fylgt tilboði hans. Kærandi hafi ekki skilað inn tilboðsblaði, þar sem það hafi ekki verið afhent með útboðsgögnum. Varnaraðilar hafi haft tækifæri til þess að kalla eftir gögnum, komi í ljós að þau vanti, en ekki liggi fyrir í þessu máli hvað olli því að gögn hafi vantað í tilboð kæranda.

Þá vísar kærandi til greinar 0.4.7 í útboðsgögnum þar sem m.a. komi fram að verkkaupi, þ.e. varnaraðilar, áskilji sér rétt til þess að láta minni háttar vöntun eða formannmarka á fylgigögnum með tilboði ekki hafa áhrif á gildi tilboðs. Kærandi telji einmitt að hafi meðmælabréf og tilboðsbréf vantað með tilboði hans þá sé um að ræða minni háttar vöntun sem hafi ekki áhrif á tilboðið, enda hafi slík vöntun ekki áhrif á tölulegar niðurstöður tilboðs. Af því leiði að ákvörðun varnaraðila um að líta sem svo á að tilboð kæranda hafi verið ógilt, þar sem ekki hafi fundist meðmælabréf og tilboðsblað, feli í sér strangari ákvörðun en nauðsynlegt hafi verið vegna umfangs annmarkans og fari gegn meginreglu laga nr. 120/2016 um meðalhóf.

Kærandi bendi jafnframt á að hann hafi fengið upplýsingar frá öðrum bjóðanda um að varnaraðilar hafi tekið við fyrirspurn eftir að fyrirspurnarfresti hafi lokið, sbr. grein 0.1.7 í útboðsgögnum. Fyrirspurnin hafi borist 19. júlí en tilboð hafi verið opnuð 22. júlí 2024. Fyrirspurnin hafi lotið að fyrirkomulagi útboðsins hvað varði tilboðsskrá og tilboðsblað, og telji kærandi að fyrirspurnin hafi þannig lotið að mikilvægum upplýsingum um grundvöll útboðsins og framsetningu tilboða. Fyrirspurninni hafi verið svarað símleiðis og hafi varnaraðilar ekki komið þeim upplýsingum, hvorki fyrirspurninni né svari við henni, á framfæri við kæranda. Því hafi kærandi ekki vitað að tilboðsskrá hafi verið ígildi tilboðsblaðs. Þetta telji kærandi vera skýrt brot gegn grein 0.3.2 í útboðsgögnum, þar sem fram komi að fyrirspurnir skuli vera skriflegar og svör við þeim skuli send öllum þeim bjóðendum sem hafi fengið útboðsgögnin. Fyrirspurnir og svör verði hluti af útboðsgögnum. Að mati kæranda hafi þetta ekki verið í samræmi við útboðsgögn og feli í sér mismunun bjóðenda í útboðsferlinu. Þessi mismunun sé það alvarleg að ekki verði hjá því komist að auglýsa útboðið á nýjan leik. Þessi málsmeðferð sé jafnframt í andstöðu við 47. gr. laga nr. 120/2016.

Að auki komi fram í grein 0.3.1 í útboðsgögnum að til útboðsgagna teljist m.a. tilboðsblað. Í 48. gr. laga nr. 120/2016 komi fram að skylt sé að tilboðsblað sé hluti útboðsgagna og þannig úr garði gert að tilboð séu sett fram á sams konar hátt og séu þannig samanburðarhæf. Að mati kæranda hafi þessi skýlausa skylda verið brotin í hinu kærða útboði og af því leiðir að gera verði varnaraðilum að bjóða innkaupin út að nýju. Vísi kærandi einnig í þessum efnum til greinar 0.4.1 í útboðsgögnum, þar sem því sé lýst með nokkuð ítarlegum hætti hvernig útboðið sé upp byggt og hvernig bjóðendur skuli haga tilboðum sínum, þ. á m. að bjóðendur skuli færa niðurstöður á tilboðsblað og þeir skuli í tilboðum sínum reikna með þeim áætluðu magntölum sem gefnar séu í tilboðsskrá. Kærandi vísi einnig til þess að samkvæmt grein 0.4.3 í útboðsgögnum hafi komið fram að bjóðandi skuli auk tilboðsskrár og tilboðsblaðs skila öllum umbeðnum fylgigögnum og upplýsingum með tilboði. Í ljósi þess að enginn af þeim bjóðendum sem hafi boðið í verkið hafi skilað tilboðsblaði, enda hafi það ekki verið hluti af útboðsgögnum, verði því að líta svo á að öll tilboð í hið kærða verk séu ógild.

III

Varnaraðili bendir sérstaklega á að starfsmaður Eflu hf., sem hafi verið umsjónaraðili útboðsins, hafi fengið fyrirspurn að morgni 19. júlí 2024, þess efnis að í útboðsgögnum hafi ekki verið sérstakt tilboðsblað heldur aðeins tilboðsskrá. Um leið hafi verið sendur tölvupóstur til allra þeirra sem hefðu sótt útboðsgögnin og þar tekið fram að vegna þessarar fyrirspurnar væri ítrekað að samtölur í útfylltri og undirritaðri tilboðsskrá væru gildandi og ekki yrði lagt fram eiginlegt tilboðsblað þar sem samtölur væru lagðar saman.

Þá bendir varnaraðili á að hin kærða ákvörðun, dags. 16. ágúst 2024, þar sem tilboði kæranda hafi verið hafnað sem ógildu, lúti að því að ekki hafi fylgt meðmæli tveggja aðila þar sem lýst væri góðri reynslu af verktaka í sambærilegum verkum. Varnaraðili vísar í þessu sambandi til sjónarmiða sinna varðandi þetta í greinargerð sinni í máli nr. 23/2024. Telji varnaraðili ekki óalgengt að kaupendur geri í útboðslýsingu kröfu um að bjóðendur sýni fram á jákvæð meðmæli annarra aðila sem hafi notið sambærilegrar þjónustu af þeirra hendi og verið sé að bjóða út, sbr. m.a. 72. gr., sbr. 69. gr., laga nr. 120/2016. Fallast megi á með kæranda að bjóðendur geti sýnt fram á reynslu af sambærilegum verkum með ýmsum hætti, en varnaraðili hafi metið það svo að upplýsingar um hvort verk hafi verið leyst vel af hendi fáist aðeins frá viðskiptavinum fyrir verkefni sem séu svipuð og það verkefni sem nú sé boðið út. Hið kærða verk hafi verið boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu og nái yfir úrgangsþjónustu í næst stærsta sveitarfélagi landsins að flatarmáli. Það sé því stórt verefni og mikilvægt fyrir kaupendur að góð reynsla sé af fyrri sambærilegum verkum bjóðenda. Því sé ekki unnt að fallast á að um óeðlilega kröfu sé að ræða af hálfu kaupenda. Krafa um tvær umsagnir hvíli á meðalhófssjónarmiðum og m.a. sé tekið fram að litið sé til sambærilegra verka með nokkuð víðtækum hætti.

Varnaraðili vísar jafnframt til þess að krafa kæranda sé efnislega sú hin sama og hann hafi sett fram í máli nr. 23/2024. Kærandi byggir í kæru sinni í þessu máli á misskilningi um að ákvörðun um ógildi tilboðs hafi varðað skil á tilboðsskrá. Tilboðsblað samkvæmt 48. gr. laga nr. 120/2016 sé skjal sem skuli vera hluti útboðsgagna og þannig úr garði gert að tilboð séu sett fram á sams konar hátt og þannig samanburðarhæf. Varnaraðili telji ljóst að tilboðsskráin hafi verið slíkt skjal og hafi uppfyllt þær kröfur sem fram komi í 48. gr. Orðalag í tölvupósti varnaraðila, dags. 16. ágúst 2024, hafi mátt skilja þannig að ógildi tilboðs kæranda tengdist skorti á tilboðsskrá. Það sé ekki raunin heldur hafi ógildi tilboðsins verið vegna þess að meðmælabréf hafi ekki fylgt með gögnum kæranda, þ.e. fylgigögnum og tilboðsskrá. Þá árétti varnaraðili að allir bjóðendur hafi verið upplýstir um að tilboðsblað hafi ekki fylgt með útboðsgögnum, en skila ætti tilboðsskrá útfylltri og undirritaðri.

Þá hafni varnaraðili að honum hafi borið að kalla eftir skýringum og frekari gögnum frá kæranda í kjölfar opnunar tilboða. Ljóst sé að kærandi hafði áður kært ákvæði útboðsgagna um meðmæli tveggja aðila til kærunefndar útboðsmála, sbr. mál nefndarinnar nr. 23/2024, þannig ljóst sé að kærandi hafi þekkt útboðsgögnin vel. Yfirferð tilboða og fylgigagna hafi tekið nokkurn tíma og heimildinni til að kalla eftir frekari gögnum og skýringum beri að beita af varfærni svo jafnræði bjóðenda verði ekki raskað. Slík heimild verði t.a.m. fremur nýtt til að fá skýringar á óskýrleika fyrirliggjandi gagna, en ekki til að veita einstökum bjóðendum færi á að skila gögnum sem alveg skorti. Enda hafi kærandi hafði áður gert að ágreiningsefni hvort heimilt væri að fara fram á umrædd gögn.

Varnaraðili bendir að auki á að allir bjóðendur hafi skilað tilboðsskrám en ekki öðru tilboðsblaði. Engin röskun hafi orðið á jafnræði bjóðenda vegna þessa og útboðsgögnin því skýr um að skila ætti tilboðsskrá. Svo sem áður segi þá megi fallast á að skilja mætti orðalag í ákvörðun um höfnun tilboðs kæranda sem svo að ógildi komi til þar sem tilboðsskrá hafi vantað. Það sé þó ekki réttur skilningur og í tilkynningunni hafi aðeins átt við að meðmæli hafi skort. Í öllu falli sé ljóst að staða mála varðandi tilboðsskrá hafi ekki raskað framgangi innkaupaferlis og skýrlega hafi verið útskýrt með tölvupóstum 19. júlí sl. Framkvæmdastjóri kæranda hafi fengið slíkan tölvupóst og einnig sá sem ritar kæru kæranda. Þá tekur varnaraðili fram að kærandi hafi sent tvenn meðmæli til starfsmanns varnaraðila eftir að honum hafi verið tilkynnt um höfnun tilboðsins, hinn 16. ágúst 2024. Meðmælin eru dagsett eftir opnunartíma tilboða og verði því að draga í efa umfjöllun í kæru um að gleymst hafi að leggja með tilboði meðmæli, sem til hafi verið þegar tilboðum hafi verið skilað.

Loks bendir varnaraðili á að stöðvun samningsgerðar sé mjög óheppileg þar sem hið kærða útboð varði innkaup sem séu hluti af grunnþjónustu við íbúa sveitarfélags og varða mikilvæga þjónustu varðandi umhverfi og hollustuhætti. Vísi varnaraðili til 110. gr. laga nr. 120/2016 um almannahagsmuni að baki því að innkaupaferli verði ekki stöðvað. Þá hafi ekki verið leiddar líkur að því að hin kærða ákvörðun feli í sér brot gegn innkaupareglum. Það sé í raun óumdeilt að umrædd gögn hafi ekki borist með tilboði kæranda, kærandi hafi sannanlega þekkt til þessara ákvæða útboðsgagna og afleiðingar þess að gögnin bærust ekki hafi verið glöggar í útboðsgögnum.

IV

Í ákvörðun þessari er til úrlausnar krafa kæranda um að innkaupaferli hins kærða útboðs verði stöðvað um stundarsakir. Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála heimilt, að kröfu kæranda, að stöðva innkaupaferli um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.

Líkt og að framan greinir lagði kærandi fram aðra kæru í málinu á meðan tilboðstíma stóð, hinn 5. júlí 2024, og krafðist þar að tilteknir útboðsskilmálar yrðu felldir niður. Af málatilbúnaði kæranda í því máli er ljóst að þar eigi kærandi við liðir L og M í grein 0.1.3 í útboðsgögnum, þar sem fram kemur að bjóðendur skuli leggja fram með tilboðum sínum skrá yfir sambærileg verk á síðustu tveimur árum og lýsingu á reynslu bjóðanda ásamt meðmælabréfum frá tveimur sveitarfélögum/opinberum aðilum „þar sem góðri reynslu af verktaka er lýst af sambærilegum verkum“. Krafa kæranda í þessu máli beinist einnig að umræddu ákvæði útboðsgagna, en tilboði kæranda var hafnað á þeim grundvelli að meðmælabréf hafi ekki fylgt tilboði hans en kærandi heldur því jafnframt fram að tilboði hans hafi verið hafnað á grundvelli þess að ekkert tilboðsblað hafi fylgt tilboði hans.

Í úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli 23/2024, sem rekið er samhliða máli þessu á milli sömu aðila, er fjallað um gildi hinna umdeildu ákvæða útboðsgagna er lúta að framlagningu meðmæla tveggja aðila. Í úrskurðinum er vísað til þess að kaupanda sé heimilt með vísan til c. liðar 1. mgr. 69. gr. laga nr. 120/2016 að setja skilyrði fyrir þátttöku fyrirtækja á grundvelli tæknilegrar og faglegrar getu. Þá er rakið að samkvæmt 1. mgr. 71. gr. laganna skuli tæknileg og fagleg geta fyrirtækis vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Jafnframt komi fram í 1. mgr. 74. gr. sömu laga að kaupandi geti krafist þess að lögð séu fram vottorð, yfirlýsingar og önnur gögn til sönnunar á því að ekki séu fyrir hendi ástæður til útilokunar samkvæmt 68. gr. og að viðeigandi hæfiskröfur séu uppfylltar samkvæmt 69.-72. gr. laganna. Þá er vísað til þess að samkvæmt a-lið 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 955/2016, sem sett er með stoð í 5. mgr. 74. gr. laga nr. 120/2016, sé skrá yfir þau verk sem unnin hafi verið á undanförnum fimm árum, ásamt vottorðum um fullnægjandi efndir og niðurstöðu mikilvægustu verksamninganna, á meðal þeirra aðferða sem skal að jafnaði vera hægt að færa sönnur á tæknilega getu bjóðanda. Það er mat kærunefndar útboðsmála, að virtum öllum fyrirliggjandi gögnum, í máli nr. 23/2024 að það sé ekki í andstöðu við lög nr. 120/2016 að krefjast þess í útboðsgögnum að fyrirtæki hafi reynslu af framkvæmd sambærilegra verka og leggja verði til grundvallar að meðmælabréf fyrri samningsaðila teljist vottorð í skilningi a-liðar 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 955/2016. Krafa útboðsgagna hafi því verið í samræmi við meginreglur laga nr. 120/2016 um jafnræði, meðalhóf og gagnsæi, sbr. 15. gr. laganna, og var kröfu kæranda um niðurfellingu umræddra liða í útboðsgögnum hafnað í úrskurði kærunefndarinnar.

Að því frágengnu er ljóst að umræddir skilmálar eru að mati kærunefndarinnar ekki í andstöðu við lög nr. 120/2016 eða reglur settar samkvæmt lögunum. Af þessum sökum verður jafnframt að leggja til grundvallar að bjóðendum hafi borið að leggja fram meðmælabréf tveggja opinberra aðila með tilboðum sínum.

Það er meginregla útboðsréttar að bjóðendur bera ábyrgð á tilboðum sínum og að þeim sé skilað í samræmi við kröfur útboðsgagna, eftir atvikum eins og þeim hefur verið breytt eða þau nánar skýrð við meðferð útboðsins, sbr. úrskurð kærunefndar útboðsmála 20. september 2022 í máli nr. 15/2022. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal tilboði kæranda og fylgigögnum þess, er ljóst að kærandi lagði ekki fram meðmælabréf tveggja opinberra aðila með tilboði sínu. Eins og atvikum er háttað og með hliðsjón af yfirlýstri afstöðu kæranda meðan á útboði stóð hlutu varnaraðilar að líta svo á að kærandi ætlaði sér ekki að skila umræddum gögnum. Varnaraðilar höfðu því enga ástæðu til að kalla eftir frekari gögnum eða skýringum frá kæranda áður en tilboð hans var lýst ógilt.

Þegar af þessari ástæðu og að framangreindu virtu, fyrirliggjandi gögnum og málatilbúnaði aðila að öðru leyti þykir mega miða við, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að ekki hafi verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögum nr. 120/2016 sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila. Verður því að telja að skilyrði 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 séu ekki uppfyllt og verður því að hafna stöðvunarkröfu kæranda.

Ákvörðunarorð

Hafnað er kröfu kæranda, UHA umhverfisþjónustu ehf., um að stöðva innkaupaferli varnaraðila, Múlaþings og Fljótsdalshrepps, vegna útboðs auðkenndu „Úrgangsþjónusta í Múlaþingi og Fljótsdalshreppi 2024-2028“.


Reykjavík, 20. september 2024


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta