Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 19/2018. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 20. júní 2019
í máli nr. 19/2018:
Advania ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Umhverfisstofnun
og Fjölneti ehf.

Með kæru 25. október 2018 kærði Advania ehf. örútboð Ríkiskaupa fyrir hönd Umhverfisstofnunar nr. 20797 „Hýsingar- og rekstrarþjónusta fyrir Umhverfisstofnun“. Kærandi gerir þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Ríkiskaupa og Umhverfisstofnunar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um að velja tilboð Fjölnets ehf. í hinu kærða örútboði. Þá er gerð krafa um að kærunefnd útboðsmála úrskurði um óvirkni samningsins en til vara að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Í öllum tilvikum er þess krafist að varnaraðilum verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilum var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Greinargerð varnaraðila barst kærunefnd útboðsmála 12. nóvember 2018 þar sem þess var krafist að öllum kröfum kæranda yrði vísað frá eða hafnað. Fjölneti ehf. var gefinn kostur á að koma að athugasemdum en lét málið ekki til sín taka. Kærandi tilkynnti nefndinni 10. janúar 2019 að hann myndi ekki senda frekari athugasemdir vegna greinargerðar varnaraðila.

I

Kærandi, Fjölnet ehf. og fleiri fyrirtæki eru aðilar að rammasamningi nr. 20114 „Hýsingar og rekstrarþjónusta“. Í grein 3.1 í útboðsgögnum rammasamningsins kom fram að innkaup samkvæmt rammasamningnum færu fram með örútboðum. Í grein 3.2.1 kom fram að í örútboðum yrði gerð krafa um tiltekna þjónustu- og/eða gæðaþætti og við val tilboða myndi verð gilda 80-100% en ákjósanlegir þjónustu og/eða gæðaþættir 0-20%. Hinn 3. september 2018 auglýstu varnaraðilar örútboð á grundvelli rammasamningsins nr. 20797 „Hýsingar- og rekstrarþjónusta fyrir Umhverfisstofnun“. Með örútboðinu var óskað eftir tilboðum í rekstur, hýsingu og þjónustu við notendur. Í því fólst einkum útvegun grunnbúnaðar, rekstur og þjónustu við kerfið, umhverfi og notendur varnaraðila Umhverfisstofnunar. Í kafla 11 í örútboðsgögnum var fjallað um val tilboða og í grein 11.1 kom fram að verð gilti 80% en gæðaþættir 20%. Í grein 11.2 kom fram að við mat á verði yrði litið til heildarkostnaðar við þriggja ára rekstur auk stofnkostnaðar eins og hann yrði settur fram í tilboðshefti. Samkvæmt tilboðsblaði bar að gera verðtilboð í ýmsa liði þjónustunnar, þar með talið í 16 klukkustunda viðveru sérfræðings á mánuði.
Alls bárust tíu tilboð frá átta bjóðendum, þar á meðal kæranda. Hinn 5. október 2018 tilkynntu varnaraðilar að tilboð Fjölnets ehf. hefði verið metið hagstæðast. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um val tilboðs og barst hann 9. október 2018. Heildarkostnaður vegna þriggja ára reksturs samkvæmt tilboði Fjölnets ehf. var 17.608.258 krónur en heildarkostnaður kæranda var 25.267.272 krónur.

II

Kærandi telur að ekki hafi verið eðlilegt að reikna kostnað af viðveru sérfræðings sem hluta af heildarkostnaði af rekstri bjóðenda. Varnaraðilum hafi borið að velja á milli tilboða rammasamningsaðila á grundvelli þeirra valforsendna sem fram hafi komið í skilmálum rammasamnings. Ekki hafi verið gerð krafa um slíka viðveru í skilmálum örútboðsins heldur aðeins í tilboðsheftinu. Kærandi telur að misræmi milli örútboðsskilmála og tilboðsheftisins auki líkur á því að bjóðendur hafi ýmist gert verðtilboð í „viðveru sérfræðings“ eða ekki. Þá hafi tilboð í þennan þátt verið gerð á grundvelli óljósra forsendna þar sem ekkert hafi komið fram um það hvað fælist í slíkri viðveru. Verðtilboð kæranda í þennan tilboðsþátt hafi byggst á því að hlutaðeigandi sérfræðingur hafi þurft að uppfylla ýtrustu kröfur en telja verði líklegt að aðrir bjóðendur hafi ekki lagt sama skilning í tilboðsliðinn. Kærandi telur því að við samanburð á tilboðum bjóðenda og einkunnagjöf vegna verðs hafi varnaraðilum borið að bera saman heildarkostnað án tilboðsliðarins „viðvera sérfræðings“.

III

Varnaraðilar vísa til þess að í örútboðsgögnum hafi mikil áhersla verið lögð á þjónustuþáttinn. Þjónustan sé veitt með ýmsum hætti, svo sem í gegnum síma, fjarþjónustu eða viðveru á starfsstöð kaupanda. Hafi kærandi verið þjónustuveitandi varnaraðila Umhverfisstofnunar samkvæmt sambærilegum eldri samningi og í þeim samningi hafi verið gert ráð fyrir viðveru starfsmanns í 32 klukkustundir á mánuði. Hafi þjónustuþættir verið skilgreindir í örútboðsgögnum, sbr. greinar 1.5.1 til 1.5.5, og skýrt komið fram hvaða þættir skyldu innifaldir í tilboðum bjóðenda. Nánari skýringar hafi svo komið fram í viðaukum við örútboðsgögn en auk þess hafi kröfum kaupenda til þjónustunnar verið skilmerkilega lýst í rammasamningnum sem örútboðið byggist á. Þá sé tilboðsheftið hluti örútboðsgagna og þar hafi verið gerð skýr grein fyrir þeim kostnaðarliðum sem mynduðu heildarkostnað sem lagður yrði til grundvallar við mat á boðnu verði. Kærandi hafi hvorki gert fyrirvara um tilboðsliðinn viðvera sérfræðings né sent fyrirspurn á fyrirspurnartíma. Varnaraðilar taka fram að allir bjóðendur hafi gert ráð fyrir 16 klukkustunda viðveru sérfræðings á mánuði í tilboðum sínum.

IV

Það er meginregla opinberra innkaupa að forsendum útboðs, þar með talið kröfum til bjóðenda og valforsendum, verður ekki breytt eftir að tilboð hafa verið opnuð enda mikilvægt að bjóðendur geti treyst því að farið verði eftir þeim reglum sem lagt var upp með. Þá taka fyrirtæki ákvörðun um þátttöku í útboði með hliðsjón af þeim kröfum og valforsendum sem gerðar eru í útboðsgögnum. Framangreind meginregla birtist með ýmsum hætti í ákvæðum laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þannig hafa til að mynda reglur um kærufrest verið túlkaðar með þeim hætti að frestur til þess að kæra skilyrði útboðsgagna byrji að líða um leið og fyrirtæki veit eða má vita um þá útboðsskilmála sem það telur ólögmæta. Í athugasemdum með eldri lögum um opinber innkaup nr. 84/2007 kom meðal annars fram að í opinberum innkaupum væri oft og tíðum sérlega mikilvægt að ekki væri fyrir hendi óvissa um gildi tiltekinna ákvarðana, jafnvel þótt vera kynni að ákvarðanir væru ólögmætar og leiddu til bótaskyldu. Í opinberum innkaupum stæðu því sérstök rök til þess að fyrirtæki brygðust skjótt við ætluðum brotum, ef þau óskuðu eftir því að úrræðum kærunefndar útboðsmála yrði beitt. Þætti þetta ekki óeðlilega íþyngjandi þegar litið væri til þess að þau fyrirtæki sem tækju þátt í innkaupaferlum byggju yfirleitt yfir reynslu og þekkingu á því sviði sem hér væri um að ræða. Kærunefnd útboðsmála hefur litið svo á að telji bjóðandi í opinberum innkaupum tiltekinn skilmála eða tiltekna forsendu útboðsgagna ólögmæta verði hann að beina kæru til nefndarinnar innan kærufrests og geti ekki borið því við eftir opnun tilboða að víkja beri skilmálunum til hliðar.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort lögmætt hafi verið að taka tillit til tímagjalds vegna viðveru sérfræðings við útreikning á heildarkostnaði einstakra tilboða. Í skilmálum hins kærða örútboðs kom skýrt fram að verð, sem hafði 80% vægi við mat á tilboðum, væri heildarkostnaður til þriggja ára reiknaður á grundvelli allra tilboðsliða sem fram kæmu á tilboðsblaði. Þá kom skýrt fram á tilboðsblaði að meðal þeirra liða sem gera átti tilboð í var „tímagjald v. viðveru sérfræðings“ og að miða bæri við 16 klukkustundir á mánuði. Þetta er jafnframt í samræmi við kafla 10 í örútboðsgögnum þar sem gerð er grein fyrir skyldu bjóðenda til að tilgreina taxta vegna vinnu sérfræðinga, þar með talið vegna þátta sem tilgreindir eru í tilboðshefti. Þá liggur fyrir að allir bjóðendur gáfu upp einingarverð samkvæmt þessum tilboðslið, þar á meðal kærandi. Ekki verður séð að umræddur liður hafi verið óskýr eða þess eðlis að varnaraðilar hefðu óeðlilegt svigrúm til þess að útfæra hann.

Með vísan til þess sem að framan greinir telur kærunefnd útboðsmála að varnaraðilum hafi verið rétt að líta til hins umdeilda tilboðsliðar við útreikning á heildarkostnaði og þar með við mat og val á tilboði. Verður því að hafna kröfum kæranda, en þær byggjast allar á því að ólöglega hafi verið staðið að ákvörðun um val á tilboði í hinu kærða örútboði. Rétt er að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Advania ehf., vegna örútboðs Ríkiskaupa fyrir hönd Umhverfisstofnunar nr. 20797 „Hýsingar- og rekstrarþjónusta fyrir Umhverfisstofnun“, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.

Reykjavík, 20. júní 2019.

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Eiríkur JónssonÚrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira