Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2020. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 30. mars 2020
í máli nr. 13/2020:
Vinnuföt ehf.
gegn
Ríkiskaupum
embætti ríkislögreglustjóra og
Hiss ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 20. mars 2020 kæra Vinnuföt ehf. útboð Ríkiskaupa og embættis ríkislögreglustjóra (hér eftir vísað til sameiginlega sem varnaraðila) nr. 20783 auðkennt „Einkennisfatnaður lögreglu“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi hið kærða útboð um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Þá er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboðum í flokkum 1, 2 og 5 í hinu kærða útboði og að kærunefnd láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til kröfu kæranda um að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.

Í september 2019 óskuðu varnaraðilar eftir tilboðum í einkennisfatnað fyrir lögreglu. Í grein 1.1.1 í útboðsgögnum kom fram að útboðið skiptist í sjö flokka, þar á meðal í flokk 1 „hlífðarfatnað/regnfatnað“, flokk 2 „buxur fyrir útkallslögreglu“ og flokk 5 „skyrta/bolur undir öryggisvesti“. Heimilt var að bjóða í einstaka flokka og áskildi kaupandi sér rétt til að taka tilboði í einn eða fleiri hluta. Í grein 1.3.4 kom fram að fjárhagsstaða bjóðanda skyldi vera það trygg að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Var meðal annars gerð sú krafa að ársvelta bjóðanda árið 2018 samkvæmt ársreikningi 2018 skyldi vera að lágmarki því sem næmi tvöföldu boðnu verði. Í grein 1.4 kom fram að velja skyldi hagkvæmasta tilboð á grundvelli verðs og gæða, þar sem verð gæti mest gefið 30 stig og gæði 70 stig. Kom fram að við mat á gæðum skyldi horfa til sniðs fatnaðar, styrks, eiginleika og frágangs og saumaskapar samkvæmt nánari leiðbeiningum um hvernig matið skyldi fara fram og stigagjöf vegna þess. Skyldi fata- og búninganefnd ríkislögreglustjórans annast matið og skyldi henni heimilt að leita ráðgjafar sérfræðinga við það mat. Í grein 1.6 voru jafnframt gerðar ýmsar ófrávíkjanlegar lágmarkskröfur til boðins fatnaðar.

Í útboðinu bárust tilboð frá fimm bjóðendum. Með bréfi 6. mars 2020 voru bjóðendur upplýstir um að ákveðið hefði verið að taka tilboðum frá Hiss ehf. í flokkum 1, 2 og 5 þar sem tilboð þess fyrirtækis hefði hlotið flest stig samkvæmt valforsendum útboðsgagna. Með tölvubréfi 9. mars 2020 óskaði kærandi eftir því að fá upplýsingar um þann stigafjölda sem tilboð hans hefðu fengið í útboðinu. Með tölvubréfi varnaraðila 16. mars 2020 var upplýst að tilboð kæranda í flokkum 1, 2 og 5 hefðu verið metin ógild þar sem þau hefðu ekki fullnægt kröfum útboðsgagna.

Kærandi byggir að meginstefnu til á því að Hiss ehf. hafi ekki fullnægt kröfum útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi. Samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2018 hafi ársvelta fyrirtækisins ekki náð tvöföldu boðnu verði samkvæmt tilboðum þess. Þá sé ársreikningurinn ekki áritaður. Jafnfamt er bent á að að Hiss ehf. hafi fengið fullt hús stiga fyrir verð í flokki 1 þrátt fyrir að hafa boðið hæsta verðið. Þá hafi tilboð kæranda í flokki 1 uppfyllt lágmarkskröfur útboðsgagna og því hafi varnaraðilum verið óheimilt að ógilda tilboð hans í þennan flokk.

Varnaraðilar byggja á því að tilboð kæranda í flokkum 1, 2 og 5 hafi verið ógild þar sem þau hafi ekki fullnægt lágmarkskröfum útboðsgagna. Þá hafi Hiss ehf. fullnægt kröfum útboðsgagna um lágmarksveltu þegar horft sé til ársveltu fyrirtækisins fyrir rekstrarárið 2019 samkvæmt ársreikningi fyrir það ár. Undirbúningur hins kærða útboðs hafi hafist snemma árs 2019 en framkvæmd þess tafist fram á árið 2020. Sé því eðlilegra að horfa til fjárhagslegrar stöðu fyrirtækisins á árinu 2019 en á árinu 2018 eins og gerð hafi verið krafa um í útboðsgögnum, enda skipti mestu máli að horfa til raunverulegrar stöðu bjóðenda á opnunardegi tilboða. Þá hafi verið lögð mun meiri áhersla á gæði en verð og hafi tilboð Hiss ehf. verið hagkvæmast samkvæmt valforsendum útboðsgagna í flokki 1 þrátt fyrir að hafa verið hærra að fjárhæð en önnur tilboð. Auk þess hafi ekkert annað gilt tilboð borist í þeim flokki. Hiss ehf. byggir einkum á því að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunnar þar sem tilboð hans í flokkum 1, 2 og 5 hafi verið ógild. Þá hafi fyrirtækið uppfyllt kröfur um fjárhagslegt hæfi vegna ársins 2019 og beri að líta til þess þar sem útboðið hafi tafist.

Niðurstaða

Kærandi, sem hefur sem bjóðandi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfur sínar, byggir meðal annars á því að Hiss ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna til fjárhagslegrar stöðu. Í grein 1.3.4 í útboðsgögnum kom fram að fjárhagsstaða bjóðanda skyldi vera það trygg að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Var meðal annars gerð sú krafa að ársvelta bjóðanda árið 2018 skyldi að lágmarki nema tvöföldu boðnu verði og að til staðfestingar skyldi leggja fram áritaðan ársreikning ársins 2018. Í máli þessu er óumdeilt að Hiss ehf. uppfyllti ekki kröfur útboðsgagna um ársveltu að þessu leyti fyrir árið 2018. Varnaraðilar og Hiss ehf. byggja hins vegar á því að fyrirtækið hafi uppfyllt umrædda kröfu vegna ársins 2019 samkvæmt árituðum ársreikningi þess árs og að heimilt hafi verið að líta til þeirra upplýsinga með hliðsjón af 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og 4. mgr. 74. gr. sömu laga. Heimild fyrrnefnda ákvæðisins tekur samkvæmt orðanna hljóðan eingöngu til þeirrar aðstöðu þegar upplýsingar eða gögn sem bjóðandi leggur fram virðast vera ófullkomin eða innihalda villur eða ef tiltekin skjöl vantar. Ekki verður séð að þessi aðstaða hafi verið uppi hvað varðar tilboð Hiss ehf. í hinu kærða útboði. Þá er heimild bjóðanda til þess að færa sönnur á fjárhagslega stöðu sína með öðrum gögnum en kaupandi krefst samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laganna bundin við það að bjóðandanum sé ekki unnt, af gildri ástæðu, að leggja fram þau gögn sem kaupandi krefst. Fyrir liggur að Hiss ehf. var unnt að leggja fram ársreikning fyrir árið 2018 eins og krafist var í útboðsgögnum. Að virtum skýrum kröfum útboðsgagna og meginreglunni um jafnræði bjóðenda er það því mat kærunefndar útboðsmála, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að Hiss ehf. hafi ekki fullnægt kröfum um fjárhagslegt hæfi eins og þær voru fram settar. Vegna þessa hafi varnaraðilum verið óheimilt að taka tilboði fyrirtækisins í flokkum 1, 2 og 5 í hinu kærða útboði. Verður því að miða við að kærandi hafi leitt verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup við framkvæmd útboðsins sem geti leitt til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Verður þegar af þessari ástæðu fallist á kröfu kæranda um að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru.

Í greinargerð varnaraðila kemur fram að mikið liggi á að ljúka hinu kærða útboði, „sérstaklega í ljósi þess neyðarástands sem er á landinu“, en nú sé „ákveðið neyðarástand í þjóðfélaginu“ og lögregla geti „ekki starfað nema hafa þar til gerðan fatnað.“ Að mati kærunefndar útboðsmála hafa varnaraðilar með þessu ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að almannahagsmunir geti réttlætt að vikið verði til hliðar þeim einkahagsmunum sem bjóðandi kann að hafa af stöðvun, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup.

Ákvörðunarorð:

Útboð varnaraðila, Ríkiskaupa og embættis ríkislögreglustjóra, nr. 20783 auðkennt „Einkennisfatnaður lögreglu“, er stöðvað um stundarsakir.

Reykjavík, 30. mars 2020

Ásgerður Ragnarsdóttir (sign)

Sandra Baldvinsdóttir (sign)

Auður Finnbogadóttir (sign)Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira