Hoppa yfir valmynd

Nr. 503/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 503/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21080029

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Þann 13. nóvember 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. september 2020, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Svíþjóðar. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 16. nóvember 2020 og þann 23. nóvember 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 1. desember 2020 var þeirri beiðni synjað.

Þann 18. ágúst 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd þann 23. ágúst 2021 frá Útlendingastofnun og þann 25. ágúst 2021 frá stoðdeild ríkislögreglustjóra. Bárust kærunefnd andmæli kæranda þann 30. ágúst 2021. Þá bárust frekari upplýsingar frá Útlendingastofnun og stoðdeild dagana 10., 15. og 21. september 2021.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda kemur fram að vegna þess tíma sem hafi liðið frá því að úrskurður kærunefndar í máli kæranda var birtur fyrir honum, þann 16. nóvember 2020, sé ljóst að tímafrestur sá sem 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar kveði á um sé liðinn. Í 2. mgr. 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin) komi fram að ef flutningur fari ekki fram innan sex mánaða frestsins falli niður sú skylda aðildarríkisins, sem beri ábyrgð, að taka við hlutaðeigandi umsækjanda aftur og færist ábyrgðin til aðildarríkisins sem lagði fram viðtökubeiðnina. Aðeins séu tvær undanþágur veittar frá þessum tímafresti, þ.e. ef umsækjandi hefur setið í fangelsi eða ef hann hafi hlaupist á brott. Kærandi hafi dvalið í búsetuúrræðum íslenskra stjórnvalda allt þangað til honum hafi verið vísað þaðan út og hann sviptur framfærslu án nauðsynlegrar lagaheimildar. Kærandi hafi ávallt haft sama símanúmer hér á landi og íslenskum stjórnvöldum hafi ávallt verið kunnugt um aðsetur hans.

Vegna þess tíma sem hafi liðið frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 3. ágúst 2020 sé einnig ljóst að tímafrestur samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sé liðinn. Samkvæmt stjórnsýsluframkvæmd hafi afgreiðsla umsókna í skilningi framangreinds ákvæðis miðast við umsóknardag og endursendingu til þess ríkis sem beri ábyrgð á umsókn viðkomandi umsækjanda um alþjóðlega vernd samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni. Til hafi staðið að flytja kæranda til Svíþjóðar að undangenginni líkamsrannsókn en eðli máls samkvæmt þurfi að gera ríkar kröfur til slíkra rannsókna en strangt bann sé lagt við þeim í 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 nema fyrir liggi dómsúrskurður eða sérstök lagaheimild. Ljóst sé að engin sérstök lagaheimild hafi verið eða sé til staðar til að framkvæma slíkar líkamsrannsóknir. Þá sé kæranda ekki kunnugt um að leitað hafi verið dómsúrskurðar.

Kærandi telur að stjórnvöld hafi ekki fullnýtt þá möguleika sem þau hafi og beri skylda til að beita við að þvinga hann til að undirgangast líkamsrannsókn. Þá sé ljóst að flutningur kæranda til Svíþjóðar sé alfarið á ábyrgð íslenskra stjórnvalda þar sem honum hafi t.d. ekki verið veitt tækifæri til sjálfviljugrar brottfarar. Þá hafi kæranda ekki borið skylda til að vinna með íslenskum stjórnvöldum við flutning þar sem hann telji líf sitt vera í hættu vegna áframsendingar til heimaríkis. Kærandi hafi sýnt fullan samstarfsvilja meðan umsókn hans hafi verið til meðferðar hér á landi. Þá vísar kærandi til sömu sjónarmiða og hafi verið höfð til hliðsjónar við setningu 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að Svíþjóð beri ekki lengur ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd. Atvik málsins hafi breyst verulega og beri kærunefnd að endurupptaka mál hans á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá beri nefndinni að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og fela stofnuninni að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland Dyflinnarreglugerðina, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Þann 20. ágúst 2020 samþykktu sænsk stjórnvöld að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd. Byggði samþykki Svíþjóðar á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Við rekstur máls sem fer samkvæmt fyrirkomulagi Dyflinnarreglugerðarinnar þurfa stjórnvöld að gæta að tilteknum tímafrestum, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um fyrirkomulag og fresti. Í því ákvæði felst m.a. að flutningur á umsækjanda skal fara fram innan sex mánaða frá því að lokaákvörðun var tekin um kæru eða endurskoðun. Þó er heimilt í undantekningartilvikum að framlengja frest til flutnings í að hámarki 18 mánuði ef hlutaðeigandi einstaklingur hleypst á brott (e. abscond). Ef umræddir frestir líða leiðir það til þess að ábyrgð á viðkomandi umsókn um alþjóðlega vernd færist sjálfkrafa yfir til þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni, sbr. til hliðsjónar dómur Evrópudómstólsins í máli Shiri, C-201/16, frá 25. október 2017 (26.-34. mgr. dómsins). Ef frestir samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar líða er íslenskum stjórnvöldum því ekki lengur heimilt að krefja viðkomandi ríki um viðtöku einstaklings í skilningi c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU19040090 frá 9. maí 2019 taldi kærunefnd að þegar mál hefur verið kært til kærunefndar og réttaráhrifum frestað skyldi upphafstími þessa frests miðaður við dagsetningu birtingar úrskurðar kærunefndar. Eins og að framan greinir samþykktu sænsk stjórnvöld endurviðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda þann 20. ágúst 2020. Þá var endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi birt fyrir kæranda þann 16. nóvember 2020. Rann því upphaflegur sex mánaða frestur til þess að flytja kæranda úr landi út þann 16. maí 2021. Í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá 16. apríl 2020, C(2020) 2516 final, kemur fram að ekkert ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar heimili frávik frá 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar við aðstæður sambærilegar þeim sem leiða af Covid-19 faraldrinum.

Þann 23. ágúst 2021 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svör við fyrirspurnum kærunefndar bárust dagana 23. og 25. ágúst 2021 en þar kemur m.a. fram að fyrirhugað hafi verið að flytja kæranda þann 17. mars 2021 til viðtökuríkis. Þann 16. mars 2021 hafi þess verið farið á leit við kæranda að hann undirgengist Covid-19 sýnatöku en hann hafi neitað allri samvinnu við lögreglu. Að mati Útlendingastofnunar hefði ákvörðun stofnunarinnar verið framfylgt ef kærandi hefði samþykkt að undirgangast sýnatöku. Kærandi hafi verið handtekinn þann 16. mars 2021 til að tryggja návist og öryggi hans en hann látinn laus samdægurs og honum tilkynnt af lögreglu að allar líkur væru á því að hann gæti ekki sótt þjónustu til Útlendingastofnunar eða sveitarfélags í framhaldinu. Í apríl 2021 hafi aftur verið hafin skipulagning á flutningi kæranda og þann 9. apríl 2021 hafi verið haft samband við kæranda og hann boðaður á fund þann 12. apríl 2021 og textaskilaboð send til staðfestingar. Ætlunin hafi verið að kynna fyrirhugaða Covid-19 sýnatöku og ferðaleið kæranda dagana 14. og 15. apríl 2021. Kærandi hafi ekki mætt á boðaðan fund og ekki hafi náðst í hann. Stoðdeild hafi þann 14. apríl 2021 haft samband við Útlendingastofnun sem hafi ekki haft upplýsingar um dvalarstað kæranda. Kærandi hafi vegna þessa verið eftirlýstur í kerfum lögreglu frá 14. apríl 2021. Þann 21. apríl 2021 hafi stoðdeild jafnframt sent tölvubréf á lögmann kæranda og hann upplýstur um að skjólstæðingur hans svari ekki lögreglu og að hann hafi verið tilgreindur sem eftirlýstur í lögreglukerfum vegna þess. Samkvæmt upplýsingum stoðdeildar hafi kærandi þann 1. júlí 2021 mætt til Útlendingastofnunar til að vitja um framfærslu hjá stofnuninni. Þar sem kærandi hafi verið eftirlýstur hafi verið teknar niður upplýsingar um dvalarstað hans og símanúmer. Þá hafi kæranda verið gert að sinna tilkynningarskyldu um staðsetningu sína sem hann hafi ekki sinnt. Þá kemur fram í svari stoðdeildar að frá 6. júlí 2021 hafi ekki verið haft samband við kæranda vegna flutnings hans til Svíþjóðar þar sem forsendur viðtöku séu Covid-19 sýnataka en þær sé ekki hægt að framkvæma nema með samþykki viðkomandi. Í svari Útlendingastofnunar kemur fram að stofnuninni sé ekki kunnugt um dvalarstað kæranda og þá hafi kærandi hvorki mætt í nafnakall hjá Útlendingastofnun né notað greiðslukort sitt frá þeim tíma. Að mati Útlendingastofnunar sé litið svo á að kærandi hafi tafið mál sitt, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þann 30. ágúst 2021 var kæranda veitt tækifæri til að koma að andmælum við framangreind svör í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga og bárust andmæli kæranda samdægurs. Í andmælum kæranda kemur m.a. fram að kæranda hafi verið synjað um alla þjónustu af hálfu Útlendingastofnunar þegar hann hafi neitað að fara til Svíþjóðar í mars 2021, s.s. húsnæði. Kærunefnd hafi síðan komist að þeirri niðurstöðu að þessi synjun á lögbundinni þjónustu hafi verið ólögleg af hálfu Útlendingastofnunar. Þegar kæranda hafi verið gert að yfirgefa búsetuúrræði Útlendingastofnunar hafi honum ekki verið gert að sinna tilkynningarskyldu. Þá sé ljóst að kærandi hafi sjálfur haft samband við Útlendingastofnun þann 1. júlí 2021 en Útlendingastofnun hafi aldrei haft samband við kæranda til að upplýsa hann um lögbrot stofnunarinnar. Kærandi geri ekki athugasemdir við þær upplýsingar að hann hafi hafnað því að fara aftur til Svíþjóðar enda telji hann sig vera í hættu þar vegna áframsendingar til heimaríkis. Kærandi hafi uppfyllt að fullu allar kröfur íslenskra stjórnvalda eins og þær hafi verið útskýrðar fyrir honum og honum hafi verið unnt en hann telji að taka þurfi tillit til þess að lengst af þeim tíma sem um ræðir hafi kærandi verið án öruggs húsnæðis og framfærslu hér á landi. Með tilliti til þess að stoðdeild hafi einungis einu sinni kannað raunverulega afstöðu kæranda til flutnings úr landi og Covid-19 sýnatöku auk þess sem að lögreglan hætti öllum afskiptum af máli kæranda þann 6. júlí 2021 þá telji kærandi fordæmi kærunefndar í máli nr. KNU21070020 frá 26. ágúst 2021 eiga við.

Kærunefnd sendi frekari fyrirspurnir á Útlendingastofnun og stoðdeild dagana 6., 10. og 16. september 2021 í máli kæranda og bárust svör dagana 10., 15. og 21. september 2021. Í svörum Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að kærandi hafi ritað undir eldri gerð af þjónustupappírum þegar hann hafi mætt til viðtals þann 18. ágúst 2020 en þar er ekki að finna leiðbeiningar um að honum væri skylt að tilkynna um breytta búsetu sína og hvaða afleiðingar það hefði tilkynnti hann ekki um slíka brottför. Þá kemur fram að kæranda hafi verið gert að yfirgefa búsetuúrræði Útlendingastofnunar þann 23. mars 2021 og honum hafi ekki verið gert að undirrita skjal er varðaði skerðingu eða brottfall þjónustu af hálfu Útlendingastofnunar. Útlendingastofnun tók þó fram að kæranda hefði verið gerð grein fyrir skyldum sínum gagnvart stjórnvöldum og afleiðingum þess að hann neitaði samvinnu við lögreglu við framkvæmd flutnings. Lögmaður kæranda hafi jafnframt verið upplýstur um framangreint er hann óskaði eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun þann 30. mars 2021. Þjónustuteymi Útlendingastofnunar hafi ítrekað reynt að ná sambandi við kæranda í þeim tilgangi að hann skrifaði undir tilkynningu um brottfall þjónustu en hann hafi ekki svarað símhringingum stofnunarinnar. Vegna andmæla kæranda áréttar stofnunin að eftir uppkvaðningu úrskurða kærunefndar þann 15. júní 2021 í málum nr. KNU21050050 og KNU21050051, þar sem ákvarðanir Útlendingastofnunar um niðurfellingu þjónustu voru felldar úr gildi, hafi textaskilaboð verið send síðar þann sama dag á alla umsækjendur og þeim boðið að koma aftur í úrræði Útlendingastofnunar og þiggja þá þjónustu sem hafði verið felld niður. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 10. september 2021, var óskað eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun um hvort frestur til flutnings kæranda hafi verið framlengdur úr 6 mánuðum í 18 mánuði. Í svari Útlendingastofnunar þann sama dag kom fram að fresturinn hefði verið framlengdur í 18 mánuði með tilkynningu stofnunarinnar til sænskra yfirvalda þann 14. apríl 2021. Í svari stoðdeildar er áréttað að tilkynningarskylda kæranda hafi fyrst hafist þann 1. júlí 2021. Þá er tekið fram að tilkynningarskyldan hafi verið birt kæranda án aðstoðar túlks en hann hafi fengið afhent afrit.

Kærunefnd tekur fram að samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er almennt lagt til grundvallar að flutningur hlutaðeigandi einstaklings til ábyrgs aðildarríkis skuli fara fram innan 6 mánaða frá þar tilgreindum tímamörkum, þ.e. til dæmis eftir að lokaákvörðun hefur verið tekin um kæru, hafi réttaráhrifum verið frestað. Framlenging á þeim tímafresti í 18 mánuði, sbr. 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, felur í sér undantekningu frá þeirri almennu reglu. Í því ljósi og með hliðsjón af því að sex mánaða tímafrestinum er ætlað að tryggja að flutningur fari fram eins skjótt og hægt er í þágu umsækjenda telur nefndin að stjórnvöld þurfi að sýna fram á í hverju tilviki fyrir sig og með fullnægjandi hætti að hlutaðeigandi einstaklingur hafi hlaupist á brott svo komið geti til beitingar 18 mánaða frests 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar.

Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hefur hugtakið að hlaupast á brott (e. abscond) í skilningi 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar verið skýrt sem svo að það geti gefið til kynna ásetning hlutaðeigandi einstaklings um að komast undan einhverju eða flýja einhvern, í þessu tilviki yfirvöld og fyrirhugaðan flutning á viðkomandi, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins í máli Jawo, C-163/17, frá 19. mars 2019. Samkvæmt þeim dómi, sem kærunefnd telur að hafa megi nokkra hliðsjón af, verða þær kröfur þó ekki gerðar til stjórnvalda að þau þurfi að færa fram sönnur um ásetning umsækjenda um að hlaupast á brott. Samkvæmt dómi Evrópudómstólsins í máli Jawo taldi dómstóllinn að yfirgefi umsækjandi búsetuúrræði sitt án þess að upplýsa stjórnvöld um fjarveru sína geti stjórnvöld metið það svo að umsækjanda hefði ásetning til að hlaupast á brott, með þeim fyrirvara þó að umsækjanda hafi verið gerð grein fyrir þessari tilkynningarskyldu sinni og afleiðingum þess að henni sé ekki sinnt.

Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2011/95/EB, um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða fólk sem að öðru leyti þarfnast alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar, er í 2. til 4. mgr. 7. gr. mælt fyrir um að aðildarríki geti takmarkað möguleika umsækjenda um alþjóðlega vernd til að velja sér búsetu og gert kröfu um að umsækjandi útvegi sér leyfi frá stjórnvöldum áður en þeir yfirgefi búsetuúrræði stjórnvalda. Þá skuli aðildarríki krefja umsækjendur um alþjóðlega vernd um að upplýsa viðeigandi stjórnvöld um núverandi heimilisfang sitt og tilkynna um breytingu á heimilisfangi eins fljótt og auðið er, sbr. 5. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar. Í 5. gr. tilskipunarinnar er gerð sú krafa að aðildarríki upplýsi umsækjanda um alþjóðlega vernd um framangreindar skyldur sínar. Að mati kærunefndar er með hliðsjón af framangreindu vandkvæðum bundið að láta umsækjanda um alþjóðlega vernd bera hallann af því að stjórnvöld hafi ekki upplýst umsækjanda með fullnægjandi hætti um skyldur hans gagnvart stjórnvöldum.

Í því máli sem hér er til meðferðar var kæranda gert að yfirgefa búsetuúrræði Útlendingastofnunar þann 23. mars 2021 í kjölfar þess að Útlendingastofnun tók ákvörðun um niðurfellingu á þjónustu við hann. Með úrskurðum kærunefndar í málum nr. KNU21050050 og KNU21050051 frá 15. júní 2021 felldi nefndin úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar um niðurfellingu þjónustu í sambærilegum málum og í kjölfarið var þeim umsækjendum sem höfðu verið sviptir þjónustu með ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. kæranda, boðið að koma aftur í úrræði Útlendingastofnunar og þiggja þá þjónustu sem hafði verið felld niður. Af gögnum málsins verður ekki séð að kæranda hafi, við upphaf málsmeðferðar, verið leiðbeint um að honum væri skylt að tilkynna ef hann hyrfi á brott úr búsetuúrræði og hvaða afleiðingar það hefði tilkynnti hann ekki um slíka brottför, umfram þær afleiðingar sem það kynni að hafa á fjárhagslegan stuðning stjórnvalda til kæranda í formi framfærslu. Þá verður ekki séð að kæranda hafi verið leiðbeint um skyldur hans gagnvart stjórnvöldum með formlegum hætti þegar honum hafi verið vísað úr búsetuúrræði stofnunarinnar þann 23. mars 2021 og hvaða afleiðingar það hefði í för með sér ef hann sinnti ekki umræddum skyldum sínum. Af upplýsingum frá stoðdeild má sjá að þann 9. apríl 2021 hafi verið haft samband við kæranda og hann boðaður á fund þann 12. apríl 2021 sem kærandi hafi tekið vel í auk þess sem að send hafi verið textaskilaboð til staðfestingar. Kærandi hafi þó ekki mætt á boðaðan fund og ekki náðst í hann í kjölfarið en stoðdeild hafi reynt að hringja í hann og sent textaskilaboð. Þann 14. apríl 2021 hafi Útlendingastofnun svo sent tilkynningu á sænsk stjórnvöld um að kærandi hafi hlaupist á brott, sbr. 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Framangreindur dómur Evrópudómstólsins í máli Jawo ber með sér að upplýsingagjöf og leiðbeiningar til umsækjenda um alþjóðlega vernd hafi vægi við mat á því hvort talið verði að viðkomandi einstaklingur hafi hlaupist á brott. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kæranda hafi verið leiðbeint með fullnægjandi hætti við meðferð málsins um skyldur sínar gagnvart stjórnvöldum og hvaða afleiðingar það hefði í för með sér ef hann sinnti ekki umræddum skyldum sínum. Af þeim sökum telur kærunefnd að það að kærandi hafi ekki mætt á boðaðan fund og að ekki hafi náðst í hann í kjölfarið geti ekki eitt og sér leitt ekki til þess að kærandi verði talinn hafa hlaupist á brott í skilningi 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Af þessum sökum og á grundvelli heildarmats á aðstæðum öllum telur kærunefnd að ekki sé hægt að leggja til grundvallar að kærandi hafi hlaupist á brott í skilningi 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar á þann hátt að frestur til flutnings hafi framlengst umfram þá sex mánuði sem ákvæðið mælir fyrir um. Af því leiðir að ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd fluttist yfir á íslensk stjórnvöld þegar umræddur frestur leið og ekki er því lengur hægt að krefja viðtökuríkið um að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd fellst því á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp og því sé rétt að mál kæranda verði endurupptekið, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

Samantekt

Það er niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kæranda. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.


 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                              Sindri M. Stephensen


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira