Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 537/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 537/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23090096

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 484/2023, dags. 14. september 2023, var ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2023, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...]og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi og brottvísa honum frá landinu, vísað frá á grundvelli 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunefnd taldi ekki afsakanlegt að kæra kæranda hafi borist of seint, sbr. 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins og að veigamiklar ástæður mæltu ekki með því að kæran yrði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 19. september 2023. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku 20. september 2023.

    Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að hún byggi á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Í tölvubréfum frá talsmanni kæranda, dags. 19. og 20. september 2023, sem kærunefnd hefur álitið sem beiðni kæranda um endurupptöku, kemur fram að hann telji að tölvubréf með kæru hafi farið forgörðum. Kærandi hafi sent kærunefnd tölvubréf 15. júní 2023, þar sem fram hafi komið að talsmaður kæranda hafi talið sig hafa sent kæru í gegnum kæruform á vefsíðu kærunefndar í síðasta lagi 30. mars 2023. Tölvubréf til staðfestingar móttöku kærunnar hafi hins vegar ekki borist á netfang talsmanns og kæran því ekki borist kærunefnd. Kærandi byggir á því að hér hafi orðið afsakanleg mistök og að kærunefnd beri því að taka kæruna til meðferðar samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærandi að ekki hafi verið tekið tillit til málsástæðna hvað varði lagaskil í úrskurði nr. 484/2023. Kærandi vísar til þess að lög nr. 14/2023 um breytingu á lögum um útlendinga, hafi tekið gildi áður en kærufrestur rann út og því hafi talsmaður ekki þurft að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar, hún sætti sjálfkrafa kæru sbr. nýtt ákvæði útlendingalaga. Kærandi vísar til þess að í greinargerð með frumvarpi að framangreindum breytingarlögum komi fram að tilgangurinn með hinu nýja ákvæði um sjálfkrafa kæru sé m.a. að koma í veg fyrir mannleg mistök og bæta skilvirkni. Um sé að ræða nýtt ákvæði sem rýmki réttarstöðu og auki réttarvernd kærenda. Þá hafi fræðimenn talið að slík löggjöf kunni að vera afturvirk sé slíkt til hagsbóta fyrir þann sem byggi rétt sinn á slíku ákvæði. Þá komi fram í gildistökuákvæði 23. gr. að 10. gr. breytingarlaganna eigi ekki við um umsóknir sem hafi borist fyrir gildistöku laganna, en ekkert slíkt sé tekið fram um 3. gr. sem feli í sér umrædda breytingu á þágildandi 7. gr. laga um útlendinga. Með einfaldri gagnályktun megi því ráða að þessi lagabreyting hafi átt við um umsóknir sem borist hafi fyrir gildistöku laganna, enda hafi kærufrestur ekki verið liðinn þegar þau hafi tekið gildi. Kærandi fer fram á að kærunefnd taki afstöðu til kærunnar og úrskurði í málinu byggt á þeim gögnum og greinargerð sem legið hafi til grundvallar ákvörðun Útlendingastofnunar, annars frestist efnisleg niðurstaða málsins enn frekar.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

    Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Kærandi byggir á því að úrskurður kærunefndar nr. 484/2023 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik enda ljóst að afsakanlegt hafi verið að kæra hans hafi borist of seint þar sem að hin nýju lög hafi tekið gildi áður en kærufrestur rann út og því hafi talsmaður látið undir höfuð leggjast að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar þar sem ákvæði um sjálfvirka kæru hafi verið komið í lögin. Þá vísar kærandi að auki til þess að hann hafi talið sig hafa sent kæru í gegnum kæruform á vefsíðu kærunefndar í síðasta lagi 30. mars 2023, en staðfestingapóstur um móttöku kærunnar hafi ekki borist á netfang talsmanns og kæran því ekki borist kærunefnd.

    Í úrskurði kærunefndar nr. 484/2023 kemur fram að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið birt kæranda 15. mars 2023. Því liggi fyrir að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið birt fyrir kæranda fyrir gildistöku breytingarlaga nr. 14/2023 en þau tóku gildi við undirritun forseta Íslands 27. mars 2023. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var, í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, gerð grein fyrir kæruheimild, kærufresti og hvert kærandi skyldi beina kæru. Ekki verði séð að þær upplýsingar sem kæranda hafi verið veittar í ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varði kæru til kærunefndar útlendingamála hafi verið ófullnægjandi eða að leiðbeiningarskyldu hafi ekki verið gætt. Þá tók kærunefnd fram í úrskurðinum að fyrrgreind breytingarlög nr. 14/2023 hefðu ekki tekið gildi þegar kæranda var birt ákvörðun Útlendingastofnunar með fullnægjandi leiðbeiningum um kæruheimild og kærufrest líkt og að framan greinir. Kærunefnd taldi að fyrrgreind breytingarlög hafi aðeins átt við um ákvarðanir Útlendingastofnunar sem birtar hafi verið eftir gildistöku laganna og því hafi ákvæði laganna um sjálfkrafa kæru ekki átt við í máli kæranda.

    Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað nr. 15/2005 má eigi beita fyrirmælum er felast í lögum fyrr en við birtingu í Stjórnartíðindum, en umrædd lög um útlendinga voru birt þar 5. apríl 2023. Þrátt fyrir framangreint binda óbirt fyrirmæli í lögum stjórnvöld frá gildistöku þeirra og er því óumdeilt að umrætt lagaákvæði tók gildi fyrir íslensk stjórnvöld þremur dögum áður en kærufrestur rann út í máli kæranda.

    Réttaráhrif ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda hófust með birtingu hennar fyrir kæranda en óumdeilt er að það tímamark hafi verið 15. mars 2023. Við það tímamark hófst 15 daga kærufrestur kæranda. Hefði kærandi kosið að una niðurstöðu Útlendingastofnunar hefðu réttaráhrif ákvörðunarinnar stofnast á sama tíma. Að mati kærunefndar verður að ganga út frá því að þær upplýsingar sem fólust í ákvörðun stofnunarinnar, um synjun á umsókn hans, frávísun frá landinu, kærufrest o.s.fv. hafi því tekið gildi að öllu leyti við birtingu ákvörðunarinnar 15. mars 2023. Af þeim sökum koma umræddar málsástæður kæranda um ívilnandi lagabreytingar ekki til skoðunar í málinu. Þá hafnar kærunefnd jafnframt þeirri málsástæðu kæranda að gagnálykta megi frá ákvæði 23. gr. breytingarlaganna. Umrætt ákvæði snýr að útreikningi á tímafresti til hagsbóta fyrir umsækjendur og var það vilji löggjafans að kveðið yrði skýrlega á um það að um umsóknir einstaklinga, sem bárust fyrir gildistöku laganna, skyldi 12 mánaða frestur þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga gilda. Löggjafinn er hljóður þegar kemur að lagaskilum varðandi sjálfkrafa kæru samkvæmt 3. gr. breytingarlaganna enda að mati kærunefndar ljóst að sjálfkrafa kæra eigi einungis við um þær ákvarðanir sem voru óbirtar eftir að lögin tóku gildi.

    Talsmaður kæranda hefur í annan stað fært fram þær skýringar að hann hafi talið sig hafa sent kæru í gegnum kæruform á vefsíðu kærunefndar í síðasta lagi 30. mars 2023, nánar tiltekið innan kærufrests, en tölvubréf til staðfestingar móttöku kærunnar hafi ekki borist á netfang talsmanns. Telur kærunefnd að þessar skýringar talsmanns kæranda gefi til kynna að honum hafi verið ljóst að mál kæranda hafi ekki sætt sjálfkrafa kæru til kærunefndar. Þá liggur fyrir að honum hafi ekki borist tölvubréf um að kæran hafi borist kærunefnd og þ.a.l. hafi hvorki verið sent tölvubréf til staðfestingar á móttöku kæru né beiðni um greinargerð. Talsmanni kæranda hafi því mátt vera ljóst að mál kæranda hafi ekki verið kært til nefndarinnar. Er umræddri málsástæðu kæranda af þeim sökum hafnað.

    Að mati kærunefndar leiddu þær skýringar sem kærandi setti fram í umræddum tölvubréfum og í kæruformi því sem hann skilaði til nefndarinnar við vinnslu úrskurðar nr. 484/2023 ekki til þess að afsakanlegt yrði talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá kom jafnframt fram í úrskurðinum að veigamiklar ástæður mæltu að mati nefndarinnar ekki með því að kæran yrði tekin til meðferðar. Af öllu framangreindu virtu hefur kærandi ekki sýnt fram á að úrskurður kærunefndar sé haldinn slíkum annmörkum að endurupptöku varði.

    Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli sínu, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.

     

     

    Úrskurðarorð:

     

    Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

     

    The appellant’s request to re-examine the case is denied.

     

    Þorsteinn Gunnarsson

     

    Bjarnveig Eiríksdóttir                                                           Gunnar Páll Baldvinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta