Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 407/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 11. júlí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 407/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23050124 og KNU23050123

Kæra […],

[…]

og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. maí 2023 kærðu […], fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir M) og […], fd. […], ríkisborgari Albaníu (hér eftir K) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2023, um að synja kærendum og börnum þeirra, […], fd. […], ríkisborgara Albaníu (hér eftir A), […], fd. […], ríkisborgara Albaníu (hér eftir B) og […], fd. […], ríkisborgara Albaníu (hér eftir C) um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af greinargerð verður ráðið að kærendur krefjist þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að fjölskyldunni verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að fjölskyldunni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að fjölskyldunni verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur lögðu fyrst fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi 10. maí 2018. Við leit að fingraförum þeirra í Eurodac gagnagrunninum sama dag kom í ljós að fingraför þeirra höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi og Frakklandi. Hinn 14. maí 2018 var beiðni um viðtöku kærenda og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Hinn 18. maí 2018 barst svar frá frönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kærenda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað 2. og 7. ágúst 2018 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að vísa þeim frá landinu. Kærendur og börn þeirra voru flutt til Frakklands 12. febrúar 2019.

Kærendur sóttu á ný um alþjóðlega vernd hér á landi 9. maí 2023 fyrir sig og börn þeirra. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun 16. maí 2023 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 16. maí 2023, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærendum var jafnframt brottvísað frá landinu og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála 19. maí 2023. Kærunefnd barst greinargerð kærenda 1. júní 2023.

III.    Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar er vísað til viðtala kærenda hjá stofnuninni varðandi ástæður flótta þeirra frá heimaríki.

Niðurstaða ákvarðana Útlendingastofnunar var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og að þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda kom fram að kærendur hefðu óskað eftir því við fyrstu málsmeðferð þeirra hér á landi að ekki yrði tekið viðtal við börn þeirra. Í ljósi þess og að einungis væri verið að skoða hvort aðstæður fjölskyldunnar hefðu breyst eftir að þau höfðu verið flutt af landi brott í febrúar 2019 var ekki talið tilefni til að taka viðtal við börnin. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra myndi ekki fresta réttaráhrifum ákvarðananna, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kærendum var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Börnum kærenda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr., sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Var kærendum ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV.    Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að kærendur hafi fyrst komið til Íslands 10. maí 2018 og sótt um alþjóðlega vernd. Þeim hafi verið synjað um efnismeðferð hér á landi og verið endursend til Frakklands 12. febrúar 2019. Þau hafi verið búsett í Frakklandi í eitt og hálft til tvö ár, en þá hafi þau farið til Albaníu og þaðan til Grikklands. Kærendur hafi ferðast nokkrum sinnum á milli Albaníu og Grikklands áður en þau hafi ákveðið að flýja aftur til Íslands. M greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun 16. maí 2023 að vandamál fjölskyldu hans hafi haldið áfram eftir að þau hafi snúið aftur til Albaníu. Þau hafi þurft að sæta hótunum og ofbeldi af hálfu annarra Albana vegna kynþáttar þeirra. M hafi orðið fyrir árás af hálfu tveggja manna í Albaníu þar sem hann hafi verið sleginn í jörðina og hönd hans brotin. Enginn hafi viljað hjálpað þeim, hvorki lögregla né heilbrigðisyfirvöld. Þau hafi því engan annan kost haft en að flýja landið að nýju.

Í greinargerð kærenda er fjallað um stöðu mannréttindamála í Albaníu, m.a. stöðu Rómafólks og egypskra barna. Vísa kærendur m.a. til skýrslna alþjóðlegra stofnana máli sínu til stuðnings.

Kærendur krefjast þess aðallega að fjölskyldunni verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þau eigi á hættu ofsóknir vegna kynþáttar þeirra. Kærendur og börn þeirra séu Balkanskaga-Egyptar sem oftast nær séu flokkaðir sem þjóðernishópur sem tilheyri Rómafólki. Kærendur og börn þeirra hafi sætt hótunum, ofbeldi og útskúfun vegna kynþáttar síns. Í bréfi lögmanns kærenda í heimaríki sem kærendur hafi lagt fram komi fram að lögmaðurinn hafi starfað fyrir þau í nokkrum málum sem snúið hafi að ofbeldi og mismunun gagnvart börnum þeirra. Þá komi einnig fram í bréfinu að albanska ríkið hafi enga sérstaka innviði til að takast á við rasisma og mismunun á grundvelli kynþáttar í landinu. Í umsögn samtaka innfluttra Egypta í Albaníu komi fram að í heimabæ fjölskyldunnar, […], sé þjóðernishópur þeirra í miklum minnihluta. Þar sæti hópurinn mismunun og neyðist þau jafnvel til að tína dósir til að eiga ofan í sig og á. Þá séu börn sem tilheyri minnihlutahópnum oft misnotuð af fullorðnu fólki og öðrum börnum. Kærendur og börn þeirra hafi ekki fengið viðeigandi vernd stjórnvalda gegn þeim ofsóknum og því ofbeldi sem þau hafi þurft að sæta í heimaríki þeirra og því uppfylli þau skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr., a-lið 2. mgr. og c-lið 4. mgr. 38. gr. sömu laga.

Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefjast kærendur þess til vara að fjölskyldunni verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærendur og börn þeirra búi við ómannúðlegar aðstæður í Albaníu og sæti þar ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð af hálfu íbúa heimabæjar þeirra og yfirvalda. Þau eigi erfitt með að draga fram lífið í Albaníu og börn þeirra eigi erfitt uppdráttar í skólum og muni að öllum líkindum ekki fá þá menntun sem þau eigi rétt á þar í landi. Fjölskyldan hafi því ástæðu til að ætla að þau eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð verði þau send aftur til Albaníu.

Til þrautavara krefjast kærendur þess að fjölskyldunni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærendur vísa m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærendur og börn þeirra hafi þurft að sæta hótunum, líkamsmeiðingum og mismunun í Albaníu á grundvelli kynþáttar þeirra og yfirvöld í Albaníu neiti þeim um aðstoð. Spilling sé landlægt vandamál í Albaníu og því sé sérstaklega erfitt fyrir fólk sem tilheyri minnihlutahópum að njóta aðstoðar og verndar yfirvalda. Verði fjölskyldan send aftur til Albaníu þurfi hún að verjast refsilausu ofbeldi íbúa heimabæ þeirra og annarra almennra borgara ein sín liðs ásamt því að þurfa að betla og skrimta til að eiga í sig og á. Þá beri að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, og telja kærendur að framkvæma hefði þurft sérstakt hagsmunamat vegna barna þeirra áður en ákvarðanir Útlendingastofnunar hafi verið teknar.

Kærendur telja að með endursendingu fjölskyldunnar til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telja kærendur að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað albönskum vegabréfum fyrir sig og börn sín. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og börn þeirra séu albanskir ríkisborgarar.

Réttarstaða barna kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Albaníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Albania (U.S. Department of State, 20. mars 2023);
  • Advancing Children‘s Rights – Albania 2022 (Unicef, mars 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23 – Albania (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Albania 2022 Report (European Commission, 12. október 2022);
  • Child Protection Program 2022-2024 (https://albania.savethechildren.net/what-we-do/child-protection-program-2022-2024, sótt 17. október 2022);
  • Child Protection System (https://www.unicef.org/albania/child-protection-system, sótt 17. október 2022);
  • Country Policy and Information Note. Albania: Actors of Protection (UK Home Office, desember 2022);
  • Country Information Note. Albania: Medical and healthcare provision (UK Home Office, maí 2023);
  • Early childhood development and learning (https://www.unicef.org/albania/early-childhood-development-and-learning, sótt 17. október 2022);
  • Financing Social Protection. Albania (European Social Policy Network, ESPN, 2019);
  • Freedom in the World 2022 - Albania (Freedom House, 24. febrúar 2022);
  • Healthcare Technologies Resource Guide (https://www.trade.gov/healthcare-resource-guide-albania, skoðað 6. júlí 2023);
  • OECD Reviews of Evaluation and Assessment in Education: Albania (OECD, 7. maí 2020);
  • Review of social protection system in Albania (International Labour Organization, 4. júní 2021);
  • Stjórnarskrá Albaníu (https://www.osce.org/files/f/documents/3/2/41888.pdf);

  • The National Action Plan for Equality, Inclusion and Participation of Roma and Egyptians in Albania (2021-2025) (Albanian Ministry of Health and Social Protection, nóvember 2021);
  • The World Factbook – Albania (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 21. júní 2023) og
  • Vefsíða umboðsmanns í Albaníu (https://www.avokatipopullit.gov.al/en/).

Albanía er lýðræðisríki með rúmlega þrjár milljónir íbúa. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1991, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1994 og sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006. Þá gerðist ríkið aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu ári síðar. Albanía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og fékk stöðu sem umsóknarríki í júní 2014. Þá er Albanía á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki.

Í framangreindum gögnum, þ. á m. skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2022, kemur fram að í Albaníu sé til staðar kerfi sem borgarar landsins geti leitað til telji þeir á sér brotið. Eftirfylgni brota gegn refsilöggjöf landsins sé góð og hafi albönsk yfirvöld skilvirka stjórn yfir löggæslu í landinu. Þá hafi góður árangur náðst undanfarin ár í baráttu gegn spillingu og refsileysi sem hafi verið viðvarandi vandamál í Albaníu, þ. á m. innan löggæslu- og réttarkerfisins. Lögreglu- og embættismenn hafi verið sóttir til saka fyrir brot í starfi og embætti sérstaks saksóknara (e. Special Anti-Corruption Structure, SPAK) hafi verið komið á fót. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 og á vefsíðu starfandi umboðsmanns í Albaníu (a. Avokati i popullit) kemur fram að umboðsmaður hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna. Umboðsmaðurinn geti, á grundvelli kvartana eða að eigin frumkvæði, tekið til skoðunar ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins. Aftur á móti falli ákvarðanir og athafnir embættis forseta landsins og formanns ráðherranefndar (e. Chairman of the Council of Ministers), skipanir hersveita og einkaréttarlegir samningar utan starfssviðs umboðsmanns. Þá hefur frá árinu 2010 verið starfrækt sérstakt embætti til verndar frá mismunun (e. Commissioner for Protection from Discrimination). Hlutverk embættisins sé að efla jafnrétti í landinu, m.a. með vitundarvakningu á meðal almennings, tillögum til yfirvalda og reglulegum skýrslum um málefnið. Þá tekur embættið jafnframt við kvörtunum frá almenningi er varða meinta mismunun, bæði af hálfu opinberra aðila og einkaaðila, og úrskurði um kvörtunarefnið.

Í framangreindum gögnum, m.a. skýrslu Amnesty International frá 2023 kemur fram að minnihlutahópar, þ. á m. rómafólk og fólk af egypskum uppruna sæti mismunun í samfélaginu, s.s. varðandi húsnæði, atvinnu, heilbrigðisþjónustu og menntun. Í maí 2022 hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið á réttindum rómafjölskyldna og egypskra fjölskyldna þegar börn þeirra hafi orðið fyrir óbeinni mismunun og aðskilnaði í tilteknum grunnskóla í Korçë í Albaníu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 eru Balkan-Egyptar með stöðu þjóðernisminnihluta ásamt öðrum minnihlutahópum samkvæmt albönskum lögum. Lögin tryggi m.a. að minnihlutahópar hljóti menntun á sínu tungumáli og að tungumál hópanna sé eitt af opinberu tungumálunum á þeim svæðum sem þeir hafi jafnan búsetu eða þar sem þeir myndi a.m.k. 20% hlutfall af heildarfjölda íbúa. Albönsk yfirvöld hafi almennt framfylgt ákvæðum laganna með virkum hætti. Þá hafi yfirvöld útbúið aðgerðaáætlun fyrir jafnrétti og þátttöku rómafólks og Egypta í Albaníu fyrir tímabilið 2021-2025 (e. The National Action Plan for Equality, Inclusion and Participation of Roma and Egyptians in Albania). Aðgerðaáætlunin hafi m.a. verið unnin í samstarfi við fulltrúa úr samfélagi rómafólks og Egypta í Albaníu. Í áætluninni sé mismunun og útskúfun rómafólks og Egypta í Albaníu viðurkennd og ýmis skref kynnt til að bregðast við þeim vandamálum sem hóparnir búi við. Útgangspunktur aðgerðaáætlunarinnar sé að bæta aðgengi framangreindra hópa að menntun, atvinnu, húsnæði og heilbrigðis- og félagsþjónustu í Albaníu, bæta lífsgæði og vellíðan þeirra, sem og að draga úr félags-, efnahag- og menningarlegri skiptingu milli rómafólks og Egypta annars vegar og albanska samfélagsins í heild hins vegar.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslu Evrópuráðsins, kemur fram að mikið atvinnuleysi hafi verið viðvarandi vandamál í Albaníu. Yfirvöld hafi unnið að úrbótum í atvinnumálum og hafi atvinnuleysi farið minnkandi undanfarin ár og staðið í stað frá árinu 2019. Efnahagur landsins hafi tekið vel við sér árið 2021 og hafi hagvöxtur verið jákvæður, atvinna aukist og laun hækkað. Þá hafi verið unnið að því að bæta aðgengi að ódýru húsnæði fyrir efnalitla einstaklinga og aðra viðkvæma hópa. Með það að markmiði hafi lög nr. 22/2018 (e. Law on social housing) verið innleidd. Auk þess sé öllum sem séu án atvinnu og hafi ekki önnur úrræði til framfærslu tryggður réttur til aðstoðar samkvæmt 52. gr. stjórnarskrá landsins. Lög nr. 9355 (e. Law on social assistance and services) kveða á um að fjölskyldur í neyð eigi rétt á fjárhagsaðstoð. Ákvörðunarvald um hverjir eigi tilkall til aðstoðar sé í höndum sveitafélaga og sé styrkjum úthlutað mánaðarlega. Samkvæmt skýrslu UNICEF frá 2019 geti fjölskyldur í neyð fengið ýmsan kostnað niðurgreiddan frá sveitafélögum, s.s. rafmagns- og vatnskostnað og kostnað vegna skólabóka. Þá geti foreldrar sótt um eingreiðslu vegna barnatengdra útgjalda.

Í skýrslu alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 2020 kemur fram að stjórnarskrá Albaníu kveði á um að stjórnvöld landsins séu ábyrg fyrir því að tryggja að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Yfirvöld hafi innleitt ríkisrekið tryggingarkerfi árið 1995 (The Mandatory Health Insurance Fund, MHIF) sem atvinnulausir, bótaþegar, nemendur yngri en 25 ára og ellilífeyrisþegar geti leitað til. Þá hafi lög um lögboðnar heilbrigðistryggingar tekið gildi árið 2013. Frá árinu 2013 hafi ótryggðum einstaklingum jafnframt verið tryggður endurgjaldslaus aðgangur að bráðaþjónustu, þjónustu heimilislækna og árlegri læknisskoðun. Þá kemur fram í skýrslu bresku utanríkisþjónustunnar frá 2023 að ríkisborgarar hafi aðgang að geðheilbrigðisþjónustu í Albaníu.

Í framangreindum gögnum, þ. á m. vefsvæði framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins (e. European Commission), kemur fram að skólaskylda í Albaníu sé lögbundin frá sex til sextán ára aldurs og sé menntun gjaldfrjáls samkvæmt lögum. Dagvistarheimili (a. Çerdhet) séu í boði fyrir börn yngri en þriggja ára og leikskólar (a. Kopshtet) fyrir börn frá þriggja til sex ára aldurs. Albönsk yfirvöld hafi ráðist í umfangsmiklar úrbætur á menntakerfinu sem hafi skilað sér í aukinni skólasókn og bættum árangri nemanda. Samkvæmt skýrslum framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins frá 2016, 2018 og 2022 og upplýsingum á heimasíðu UNICEF Albania hafi yfirvöld einnig lagt áherslu á að styrkja barnaverndarkerfið. Með það að markmiði hafi lög nr. 18/2017 (e. Law on the rights and protection of the child) og lög nr. 37/2017 (e. Criminal Justice for Children Code) verið innleidd. Árið 2021 hafi lögum um félagslega aðstoð verið breytt til að ná enn betur til fátækra fjölskyldna og barna og hafi fjárhæð aðstoðarinnar einnig verið hækkuð. Þá hafi barnaverndarstofnun (e. State Agency for Protection of Child Rights, SAPCR) og barnaverndareiningum (e. Child Protection Units, CPUs) verið komið á fót. Fræðslunámskeið séu í boði fyrir foreldra en meta þurfi hagkvæmni þeirra. Þá kemur fram í skýrslu alþjóðabankans (e. World Bank) frá 2015 að stjórnvöld hafi komið á fót nýju kerfi sem tryggja eigi aðgang að grunnþjónustu fyrir foreldra og börn þeirra, s.s. bólusetningu, næringarráðgjöf og eftirlitsheimsóknir.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur byggja umsóknir sínar á því að þau eigi á hættu ofsóknir á grundvelli kynþáttar þar sem þau séu af egypskum uppruna. Kærendur og börn þeirra hafi sætt hótunum, ofbeldi og mismunun vegna kynþáttar síns. M hafi orðið fyrir árás af hálfu tveggja manna í Albaníu og m.a. handleggsbrotnað. Yfirvöld hafi ekki vilja til að veita þeim vernd og því hafi þau ákveðið að flýja heimaríki sitt.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað sæta minnihlutahópar í Albaníu, þ. á m. Albanir af egypskum uppruna, mismunun s.s. á húsnæðismarkaði, atvinnumarkaði, í menntakerfinu og í tengslum við heilbrigðisþjónustu. Löggjöf sem samþykkt var árið 2017 er ætlað að bæta stöðu minnihlutahópa í landinu, m.a. með opinberri viðurkenningu á stöðu þeirra sem þjóðernisminnihluta. Þá hafi aðgerðaráætlun verið innleidd sem miði að því að draga úr mismunun gegn einstaklingum af egypskum uppruna. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að sú mismunun sé hvorki þess eðlis að hún feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum kærenda og barna þeirra né að hún hafi eða geti haft sömu eða sambærileg áhrif á kærendur og slík brot, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þó svo að kærunefnd fallist á að kærendur kunni að eiga á hættu mismunun í heimaríki er það mat nefndarinnar, með hliðsjón af gögnum um heimaríki kærenda og framburði þeirra, að sú mismunun nái ekki því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Kærendur hafa ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu albanskra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærendur eigi þær á hættu.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að þeir ríkisborgarar Albaníu sem telja að á réttindum sínum sé brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Þá er til staðar kerfi í Albaníu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til stofnunar sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og embættis umboðsmanns í ríkinu. Af þeim gögnum sem kærunefndin hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík og að uppruni kærenda takmarki ekki aðgengi þeirra að viðeigandi vernd stjórnvalda að því marki að það hafi áhrif á niðurstöðu þessa máls. Er það mat kærunefndar að bréf frá lögmanni kærenda og fulltrúa samtaka egypska þjóðfélagshópsins séu ekki til þess fallin að sýna fram á hið gagnstæða. Að mati kærunefndar hefur því ekki verið sýnt fram á að aðstæður kærenda og barna þeirra séu með þeim hætti að stjórnvöld í heimaríki þeirra skorti vilja eða getu til að veita þeim viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda kemur fram að kærendum hafi við fyrstu málsmeðferð þeirra hér á landi verið boðið að viðtal yrði tekið við börn þeirra sem þau hafi óskað eftir að yrði ekki gert. Úrlausn um rétt barna kærenda hafi með tilliti til þess verið grundvölluð á framburði kærenda. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barnanna nægilega komið á framfæri með framburði kærenda og hagsmunagæslu talsmanns. Leggur kærunefnd því mat á hagsmuni þeirra samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og aðstæðum í heimaríki þeirra. Við það mat horfir kærunefnd m.a. til þess að börn þau sem um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og njóta stuðnings þeirra. Af gögnum málsins er ljóst að þurfi kærendur að fá aðstoð til að framfæra sér og börnum sínum, sé til staðar velferðarkerfi í heimaríki þeirra sem geti veitt þeim stuðning, þá hafi börnin aðgengi að skóla- og heilbrigðiskerfi landsins. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barna kærenda, að það sé þeim fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau og börn þeirra hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Er því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda er það mat kærunefndar að aðstæður kærenda og barna þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Er því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærendur og börn þeirra byggja á því að þau hafi þurft að sæta hótunum, líkamsmeiðingum og mismunun í Albaníu á grundvelli kynþáttar þeirra.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Líkt og að framan er rakið gefa þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kærenda til kynna að ríkisborgarar Albaníu geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærendur og börn þeirra séu almennt við góða heilsu og að börnin hafi aðgang að menntakerfi landsins. Þá séu til staðar úrræði í Albaníu sem foreldrar geti leitað til þurfi þau aðstoð við framfærslu eða uppeldi barna sinna. Auk þess geti kærendur sótt um fjárhagslega aðstoð frá yfirvöldum og sveitarfélagi, þ. á m. niðurgreiðslu kostnaðar vegna skólagöngu barna sinna. Þá kemur fram í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað að allir ríkisborgarar Albaníu hafi rétt á heilbrigðisþjónustu. Kærendum og börnum þeirra stendur til boða endurgjaldslaus aðgangur að bráðaþjónustu auk þjónustu heimilislækna, sálfræðiþjónustu og árlegri læknisskoðun. Þá sé einnig til staðar mæðra- og ungbarnavernd.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Ekkert bendir til annars en að börn kærenda séu hraust. Kærunefnd horfir til þess að börnin eru í fylgd foreldra sinna og njóta stuðnings þeirra. Ekkert hefur þá komið fram sem bendir til annars en að kærendur séu vinnufærir og færir um að tryggja framfærslu og velferð barna sinna.

Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda og barna þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau og börn þeirra hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna barna kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. sömu laga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda og barna þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda og barna þeirra þangað.

Frávísun, brottvísun og endurkomubann

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar var kærendum vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Fram kemur í ákvörðununum að umsóknir kærenda hefðu verið metnar bersýnilega tilhæfulausar og því yrði þeim ekki veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar með vísan til b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þá var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærendum skyldi vera brottvísað og ákvarðað endurkomubann með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda ætti 102. gr. laganna ekki við.

Hinn 15. desember 2022 voru samþykkt lög um landamæri nr. 136/2022 á Alþingi þar sem m.a. voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga. Var a-liður 1. mgr. 98. gr. felldur brott og orðalagi 2. mgr. ákvæðisins breytt á þann veg að svo framarlega sem 102. gr. laga um útlendinga eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem dveljist ólöglega í landinu eða þegar tekin hafi verið ákvörðun sem bindi enda á heimild útlendings til dvalar í landinu. Í frumvarpi því er síðar varð að lögum um landamæri kemur fram að lagt sé til í 2. tölul. e-liðar 25. gr. laga um landamæri að 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga verði breytt þannig að lögin verði í samræmi við brottvísunartilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB  og kveði skýrt á um að stjórnvöld skuli vísa brott útlendingum sem dveljist hér á landi án heimildar. Þannig skuli útlendingum sem dveljast hér á landi án heimildar vísað brott og í kjölfarið veittur frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugir. Þannig verði breyting á ákvörðunum er lúta að ákvörðun um umsóknir um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hér á landi.

Ekki var tekin afstaða til framangreindra lagabreytinga og sjónarmiða í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda varðandi frávísun, brottvísun og endurkomubann þeirra. Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru m.a. byggðar á ákvæðum sem felld voru brott með lögum um landamæri nr. 136/2022 og skorti ákvarðanirnar þ.a.l. viðeigandi lagastoð. Með vísan til þess er það niðurstaða kærunefndar að sá þáttur ákvarðana Útlendingastofnunar er varðar frávísun kærenda og barna þeirra og brottvísun og endurkomubann kærenda verði felldur úr gildi og er lagt fyrir stofnunina að taka þann þátt til nýrrar meðferðar.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar er varðar umsóknir kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvarðanir Útlendingastofnunar um frávísun, brottvísun og endurkomubann kærenda eru felldar úr gildi. Útlendingastofnun skal taka þann hluta ákvarðana sinna til meðferðará ný .

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra að því er varðar umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eru staðfestar. Felldar eru úr gildi ákvarðanir um frávísun, brottvísun og endurkomubann. Útlendingastofnun skal taka þann hluta ákvarðana sinna til meðferðar á ný.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their children regarding international protection and residence permit on humanitarian grounds are affirmed. The decisions of the Directorate of Immigration on refusal of entry, expulsion and re-entry ban are vacated. The Directorate of Immigration shall re-examine those elements of the case.

 

 

f.h. kærunefndar útlendingamála,

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir, settur varaformaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta