Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 507/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. maí 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 507/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU24040142

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 22. apríl 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kína (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2024, um að synja henni um vegabréfsáritun til Íslands.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og fallist verði á beiðni hennar um vegabréfsáritun til Íslands.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 3. apríl 2024, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands og Schengen-svæðisins fyrir sjö daga dvöl frá 8. til 14. júní 2024. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2024. Hinn 22. apríl 2024 barst kærunefnd kæra frá kæranda ásamt fylgigögnum. Frekari gögn voru lögð fram með tölvubréfi, dags. 23. apríl 2024.

III.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda, dags. 22. apríl 2024, er vísað til ákvörðunar Útlendingastofnunar og forsendna hennar. Kærandi kveðst ósammála niðurstöðunni og kveðst aldrei hafa sótt um dvalarleyfi í Portúgal vegna fjölskyldusameiningar og því sé ómögulegt að henni hafi verið synjað um slíkt leyfi. Þvert á móti kveðst kærandi hafa sótt um staðbundna vegabréfsáritun í Portúgal fyrir einstaklinga sem fylgja fjölskyldumeðlimum þangað til lands. Kærandi hafi þó dregið umsókn sína til baka sjálfviljug. Kærandi vísar til tölvubréfasamskipta hennar við fulltrúa portúgölsku utanríkisþjónustunnar sem hafi leitt í ljós að henni stæði til boða að sækja um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar eða vegabréfsáritun fyrir ferðamenn. Kærandi hafi þó ekki viljað hætta í vinnu sinni og því hafi fyrirætlun hennar um dvöl í Portúgal eingöngu verið til skamms tíma. Henni hafi hins vegar verið synjað um útgáfu vegabréfsáritunar vegna hættu á umframdvöl (e. overstay) með hliðsjón af dvalarheimild maka hennar.

Kærandi vísar til þess að hún hafi ekki, samhliða fyrri umsókn um vegabréfsáritun, lagt fram rekstrarleyfi vinnuveitanda þar sem hún starfi fyrir fyrirtæki í ríkiseigu og afhending slíkra gagna sæti takmörkunum. Kærandi hafi hins vegar bætt úr því fyrir framlagningu umsóknar sinnar um vegabréfsáritun hjá íslenska sendiráðinu. Enn fremur telur kærandi að málsmeðferð portúgalskra stjórnvalda feli í sér mismunun gagnvart konum. Kærandi kveðst vera femínisti og líti til Íslands sem paradísar fyrir konur enda ríki þar launajafnrétti, hátt hlutfall þingmanna séu konur, fyrsti kjörni kvenforseti í heiminum hafi verið á Íslandi auk annarra atriða. Kærandi vilji fá aukinn skilning á þessum afrekum íslenskra kvenna svo hún geti fært þá þekkingu aftur til heimaborgar sinnar.

Maki kæranda sé [...] í [...] en eðli starfa hans valda tíðum ferðum á milli Kína og Evrópu. Þau ætli sér að ferðast saman til Kína að lokinni fyrirhugaðri dvöl á Íslandi og Schengen-svæðinu. Kærandi vísar til atvinnu sinnar, launa, og tilvonandi stöðuhækkunar og vísar til þess að laun hennar séu mun hærri en meðallaun í Portúgal. Enn fremur tali kærandi ekki portúgölsku og vilji ekki hætta á ólögmæta umframdvöl þar í landi. Vildi kærandi flytja til Portúgals myndi hún gera það eftir lögmætum leiðum. Vegna Covid-19 faraldursins hafi kæranda og maka hennar ekki gefist tækifæri á ferðalögum að lokinni hjónavígslu en síðan þá hafi fjárhagur þeirra farið verulega batnandi sem geri þeim kleift að ferðast til Íslands. Með hliðsjón af framangreindu óskar kærandi eftir því að kærunefnd endurskoði ákvörðun Útlendingastofnun svo að kærandi geti ferðast til Íslands.

Með viðbótargreinargerð, dags. 23. apríl 2024, vísaði kærandi til þess að framlögð fylgigögn kynnu ekki að sýna fram á fyrirætlun hennar um ferðalag til Íslands með óyggjandi hætti. Því hafi kærandi lagt fram nýja flugáætlun en umrædd gögn eru meðal fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi. Því til viðbótar lagði kærandi fram tölvubréfasamskipti hennar við fulltrúa portúgölsku utanríkisþjónustunnar ásamt atvinnuréttindum maka hennar.

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Kína þurfa vegabréfsáritun til Íslands, sbr. viðauka 8 við reglugerð um vegabréfsáritanir. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er samkvæmt fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a - h liða sömu greinar er fullnægt.

Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt. Með aðild að Schengen-samstarfinu tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen-samningsins. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.

Samkvæmt 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í tilteknum tilvikum. Meðal þeirra tilvika sem tilgreind eru í ákvæðinu er ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi eða skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar, sbr. ii.-lið a-liðar ákvæðisins, eða ef rökstudd ástæða sé til að draga í efa að fylgiskjöl, sem umsækjandi leggur fram, séu ósvikin eða að innihald þeirra sé rétt, eða áreiðanleika framburðar umsækjanda eða ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út, sbr. b-lið ákvæðisins.

Í 21. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er fjallað um könnun á því hvort komuskilyrði umsækjenda séu uppfyllt og áhættumat. Í 8. mgr. ákvæðisins kemur fram að á meðan á meðferð umsóknar stendur er sendiskrifstofum eða miðlægum yfirvöldum heimild, þegar ástæða þykir til, að taka viðtal við umsækjanda og fara fram á að hann leggi fram viðbótargögn. Samkvæmt málayfirliti Útlendingastofnunar tók fulltrúi utanríkisþjónustunnar símaviðtal við kæranda 15. apríl 2024 en megintilgangur viðtalsins var að fá frekari skýringar kæranda vegna synjunar Portúgalskra yfirvalda á umsókn hennar um vegabréfsáritun.

Synjunarform Útlendingastofnunar er staðlað form sem öll þátttökuríki Schengen-samstarfsins notast við, sbr. viðauki 6 við reglugerð um vegabréfsáritanir. Í forminu er hægt að merkja við reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsóknum sé synjað. Í ákvörðun í máli kæranda er merkt í reiti 10, 11 og 13. Í því felst að upplýsingar sem veittar voru um tilgang og skilyrði fyrirhugaðrar dvalar voru ekki áreiðanlegar. Auk þess væri rökstudd ástæða til að draga í efa að yfirlýsingar varðandi ætlun um að ferðast til Íslands væru áreiðanlegar ásamt því að rökstudd ástæða væri til að draga í efa ásetning um að fara frá yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritun rennur út. Ákvörðuninni fylgdu viðbótarathugasemdir, þar sem fram kemur að kæranda hefði nýlega verið synjað um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og vegabréfsáritun til Portúgal. Þá væru alvarlegar áhyggjur um að kærandi hygðist ferðast til Portúgal þar sem maki hennar byggi. Uppfyllti kærandi þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga var kæranda jafnframt leiðbeint um að hún gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir skriflegur rökstuðningur vegna ákvörðunar í máli kæranda.

Meðferð umsóknar kæranda fór fram hjá íslenska sendiráðinu í Peking, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.

Kærunefnd hefur yfirfarið hina kærðu ákvörðun og málatilbúnað kæranda, þ. á m. tölvubréfasamskipti kæranda við portúgölsku utanríkisþjónustuna. Af umræddum samskiptum má ráða að portúgalska utanríkisþjónustan hafi sent kæranda sent tölvubréf, dags. 18. janúar 2024, þar sem fram kæmi að, að óbreyttu yrði umsókn hennar um staðbundna vegabréfsáritun í Portúgal synjað þar sem maki kæranda væri enn með dvalarstað í Portúgal. Með tölvubréfinu var kæranda veittur tíu daga frestur til þess að koma á framfæri andmælum vegna hinnar fyrirhuguðu ákvörðunar. Með tölvubréfi kæranda til portúgölsku utanríkisþjónustunnar, dags. 18. janúar 2024, kvaðst kærandi vera verulega sorgmædd eftir móttöku synjunarbréfsins. Eini tilgangur kæranda með umsókn um vegabréfsáritun væri að heimsækja maka sinn. Þá spurði kærandi hvort hún gæti lagt fram viðbótargögn vegna málsins og breytt umsókninni í vegabréfsáritun vegna heimsóknar til fjölskyldumeðlims í Portúgal. Hinn 24. janúar 2024 sendi kærandi fulltrúa portúgölsku utanríkisþjónustunnar tölvubréf að nýju og vísaði til þess að vegna breytinga á áætlun vilji hún afturkalla umsókn sína um vegabréfsáritun og fá öll framlögð gögn afhent að nýju. Með tölvubréfi, dags. 24. janúar 2024, staðfesti fulltrúi portúgölsku utanríkisþjónustunnar að umsóknin hefði verið dregin til baka og að vegabréf kæranda yrði afhent henni.

Af gögnum málsins verður ráðið að íslenska sendiráðið í Peking hafi ákveðið að taka viðtal við kæranda til að afla frekari upplýsinga um synjun portúgalskra stjórnvalda á fyrri umsókn hennar um vegabréfsáritun vegna hættu á ólögmætri dvöl. Að teknu tilliti til viðtalsins var það tillaga utanríkisþjónustunnar að synja umsókn kæranda þar sem ástæða væri til að efast um að hún hygðist ferðast til Íslands og að hún yfirgæfi Schengen-svæðið áður en áritunin rynni út. Fram kemur í gögnum málsins að maki kæranda sé með dvalarleyfi í Portúgal sem gildi frá 23. mars 2023 til 23. mars 2025.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndar að málatilbúnaður kæranda hnekki ekki fyrra mati Útlendingastofnunar. Það er niðurstaða kærunefndar að rökstudd ástæða sé til að draga í efa áreiðanleika yfirlýsinga varðandi ætlun um að ferðast til Íslands ásamt því að rökstudd ástæða sé til að draga í efa ásetning kæranda um að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkja Schengen-samstarfsins áður en vegabréfsáritun rynni út, sbr. b-lið 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Hafi þannig verið ástæða til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar kæranda hingað til lands, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um vegabréfsáritun til landsins því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum