Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 282/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 282/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030029

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 6. mars 2023 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Íran (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. febrúar 2023, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, aðallega á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, en til vara á grundvelli 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 8. október 2022. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum 9. október 2022 kom í ljós að fingraför hans höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Hinn 28. október 2022 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá sænskum yfirvöldum, dags. 2. nóvember 2022, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 16. nóvember 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 27. febrúar 2023 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 27. febrúar 2023 og kærði hann ákvörðunina 6. mars 2023 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 22. mars 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að sænsk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn hans til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Svíþjóðar.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi mátt þola ofsóknir í heimaríki og hafi flúið til Svíþjóðar árið 2016. Kæranda hafi verið synjað um dvalarleyfi í Svíþjóð og gert að yfirgefa landið. Ástæða synjunarinnar sé á reiki en að því er virðist hafi sænsk yfirvöld ekki talið að kæranda sé hætta búin í heimaríki. Sænsk yfirvöld hafi synjað umsækjendum frá Íran um alþjóðlega vernd í auknum mæli, þrátt fyrir ástandið þar í landi. Kærandi hafi reynt að aðlagast sænsku samfélagi og m.a. starfað þar í landi um tíma. Samskipti hans við sænsk stjórnvöld hafi reynt mikið á hann og honum hafi ekki verið sýndur skilningur á stöðu sinni. Kærandi hafi ekki hlotið alþjóðlega vernd eða lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í öðru ríki á Schengen-svæðinu. Ljóst sé að fái kærandi ekki efnismeðferð á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi muni hann þurfa að snúa aftur til heimaríkis. Ástandið í heimaríki kæranda sé viðkvæmt og mótmæli gegn yfirvöldum hafi átt sér stað undanfarnar vikur þar sem nokkur hundruð manns hafi látist. Kærandi sé kristinnar trúar og hafi mátt þola ofsóknir í heimaríki, einkum vegna afstöðu sinnar til stjórnvalda og trúar sinnar. Þá hafi tvíburabróðir hans verið myrtur vegna mótmæla hans gagnvart stjórnvöldum. Kærandi hafi jafnframt verið handtekinn í heimaríki fyrir um fimmtán árum síðan án nokkurs tilefnis og beittur pyndingum og barsmíðum. Kærandi telji að líf hans sé í hættu snúi hann aftur til heimaríkis þar sem ekki ríki trú- og skoðunarfrelsi. Skýrslur mannréttindasamtaka staðfesti jafnframt að aftökur stjórnarandstæðinga séu algengar.

Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun sé heimilt og skylt að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða á grundvelli 3. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda hafi verið meinuð dvöl í Svíþjóð og gert að yfirgefa landið. Fari kærandi til heimaríkis sé öruggt að hann verði handtekinn, pyntaður og jafnvel tekinn af lífi. Þá byggir kærandi á því að undantekningarreglur í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við þar sem kærandi sé ekki með vernd í öðru ríki eða óafgreidda umsókn í kerfinu. Því sé ekki hægt að afgreiða málið á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og hafna að taka það til efnismeðferðar hér á landi. Niðurstaða Útlendingastofnunar sé röng og kærandi hafi engin úrræði til að fá umsókn sína tekna fyrir aftur í Svíþjóð. Auk þess yrði niðurstaðan líklega sú sama og áður. Þá skuli túlka undantekningarregluna þröngt, einkum þegar vafi sé uppi um það hvort kærandi geti notið verndar í öðru ríki.

Kærandi vísar jafnframt til 42. gr. laga um útlendinga og grundvallarreglunnar um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu. Kæranda hafi verið synjað um vernd og dvöl í Svíþjóð og eigi yfir höfði sér brottvísun. Mikilvægt sé að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér landi svo kærandi geti varpað ljósi á stöðu sína í Íran. Þá sé kæranda jafnframt hætta búinn í Svíþjóð vegna starfsemi leyniþjónustu íranskra stjórnvalda í landinu. Kærandi sé í viðkvæmri stöðu og í raunverulegri hættu á að vera sendur aftur til lands eða svæðis þar sem honum sé mikil hætta búinn.

Þá vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun beri að rækja rannsóknarskyldu sína og kanna ástæður þess að kæranda hafi ekki verið veitt alþjóðleg vernd í Svíþjóð og hvert sænsk stjórnvöld hyggist senda hann. Ef sýnt sé að kærandi fái ekki vernd í Svíþjóð, líkt og fyrirliggjandi gögn bendi til, beri íslenskum stjórnvöldum skylda til að kanna aðstæður kæranda í heimaríki hans sjálfstætt og taka umsókn hans til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi einstæður karlmaður á [...]. Við meðferð málsins hefur kærandi greint frá því að hann hafi flúið frá heimaríki til Svíþjóðar árið 2016. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi jafnframt lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Noregi árið 2019. Kærandi hafi dvalið í Svíþjóð í um sjö ár eða þar til hann hafi lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 8. október 2022. Kæranda hafi verið synjað um alþjóðlega vernd í Svíþjóð árið 2018 og gert að yfirgefa landið. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi fengið þrjár neikvæðar niðurstöður frá sænskum stjórnvöldum. Kærandi hafi fengið húsnæði og fæði á meðan á umsóknarferli hans stóð. Þá hafi kærandi fengið mánaðarlega framfærslu og haft aðgang að heilbrigðisþjónustu. Kærandi hafi haft aðgang að gjaldfrjálsri lögfræðiaðstoð en það hafi aðeins verið að nafninu til. Kærandi hafi aðeins hitt lögfræðing í viðtali hjá útlendingayfirvöldum í Svíþjóð. Þá greindi kærandi frá því að hann óttist fyrirvaralausar árásir sem tíðkist í Svíþjóð. Svíþjóð sé hættulegt land þar sem fíkniefni, þjófnaður og vopn viðgangist. Kærandi greindi frá því að hann hafi mátt þola pyndingar í heimaríki og hlotið áverka á höfði sem valdi því að hann fái höfuðverk.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Svíþjóðar á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hefur fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja sænsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Svíþjóð

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices: Sweden (United States Department of State, 20. mars 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23 – Sweden (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Asylum Information Database. National Country Report – Sweden (European Council on Refugees and Exiles, 19. apríl 2023);
  • EASO Asylum Report 2021. Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union (European Asylum Support Office, 28. júní 2022);
  • Freedom in the World 2023 – Sweden (Freedom House, mars 2023);
  • Good Advice for Asylum seekers in Sweden (The Swedish Network of Refugee Support Group, ágúst 2019);
  • Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden (The UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016) og
  • Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Svíþjóð er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins og því bundið af reglum sambandsins við málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.a.m. tilskipunum sambandsins um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd nr. 2013/32/EU, um móttökuaðstæður nr. 2013/33/EU og um lágmarksviðmið til þess að teljast flóttamaður nr. 2011/95/EU. Þá hefur Svíþjóð verið aðili að Evrópuráðinu frá 5. maí 1949 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu 3. september 1953. Svíþjóð gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð 8. janúar 1986 og fullgilti samninga Sameinuðu þjóðanna um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971 og barnasáttmálann árið 1990. Þá gerðist ríkið aðili að Flóttamannasamningnum 26. október 1954.

Samkvæmt framangreindri skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) tekur sænska útlendingastofnunin (s. Migrationsverket) ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á þess kost að bera synjun útlendingastofnunarinnar á umsókn sinni undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni hjá sænsku útlendingastofnuninni og framangreindum dómstólum, eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn hjá sænsku útlendingastofnuninni, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst verulega eða verulegir annmarkar hafa verið á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt. Samkvæmt sænskum lögum þurfa að vera gildar ástæður fyrir því að upplýsingar eða gögn hafi ekki verið fyrr lögð fram í málsmeðferðinni. Ef réttmæt ástæða er til að telja að útlendingur sé í hættu, þ. á m. á að láta lífið, líkamsrefsingu, pyndingum eða annarri vanvirðandi meðferð við endurkomu sína til viðtökuríkis, þurfi þó ekki að sýna fram á að gildar ástæður séu fyrir því eða ný gögn eða nýjar upplýsingar komi svo seint fram. Synji sænska útlendingastofnunin að taka viðbótarumsókn til skoðunar má kæra þá ákvörðun og engin takmörk eru á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Þá eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, samkvæmt 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framangreindum skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Svíþjóð eiga þeir rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Þá kemur fram á áðurnefndri heimasíðu sænsku útlendingastofnunarinnar og í skýrslu ECRE að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð sé tryggður aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu. Sveitarfélagið sem umsækjandi um alþjóðlega vernd dvelst í hafi milligöngu um að útvega umsækjanda lækni og aðra heilbrigðisþjónustu við hæfi. Eigi umsækjandi við andlega vanlíðan að stríða á hann rétt á því að óska eftir viðeigandi þjónustu frá heilsugæslunni sem staðsett er í sveitarfélaginu sem hann dvelst í. Þá er tekið tillit til þarfa einstaklinga sem teljast vera í viðkvæmri stöðu, þ. á m. að því er varðar sérfræðiaðstoð. Greiða þarf vægt komugjald vegna heimsóknar á heilsugæslu en innlögn á spítala er umsækjanda að kostnaðarlausu. Fari kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu fram úr ákveðinni upphæð er hægt að óska eftir fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Þá eiga umsækjendur rétt á takmarkaðri félagslegri aðstoð á meðan viðbótarumsókn er til meðferðar. Umsækjandi um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, sem fengið hefur neikvæða niðurstöðu í máli sínu, hefur aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, fram að brottför en nýtur hins vegar ekki fjárhagsstuðnings til að greiða fyrir slíka þjónustu eða lyf. Þá missa umsækjendur rétt sinn til húsnæðis og framfærslu en geta þó leitað til hjálparsamtaka. Þó séu veittar undanþágur ef um er að ræða einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu og ósanngjarnt teljist að svipta þá réttar til húsnæðis.

Af framangreindum skýrslum má ráða að sænsk stjórnvöld uppfylli skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd leggja fram umsókn um vernd í Svíþjóð í fyrsta skipti eigi þeir rétt á lögfræði- og túlkaþjónustu án endurgjalds þegar umsókn er til meðferðar hjá sænsku útlendingastofnuninni og á kærustigum málsins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi hins vegar ekki rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds við að leggja fram viðbótarumsókn en þeir geta átt rétt á að fá tilnefndan lögmann ef sænska útlendingastofnunin samþykkir að taka viðbótarumsóknina til skoðunar. Endurgjaldslaus túlkaþjónusta sé ekki í boði við málsmeðferð viðbótarumsókna. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geti einnig leitað til frjálsra félagasamtaka sem veita lögfræðiaðstoð og ráðgjöf.

Samkvæmt framangreindri skýrslu ECRE eru ákvarðanir um varðhald umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð almennt teknar af sænsku útlendingastofnuninni, stjórnsýsludómstólunum eða af lögreglunni. Í 10. kafla sænsku útlendingalaganna (s. Utlänningslagen 2005:716) eru talin upp skilyrði þess að setja megi einstaklinga í varðhald, þ.m.t. þá sem hafa verið umsækjendur um alþjóðlega vernd. Meðal annars má setja umsækjendur í varðhald ef þeim hefur verið vísað brott frá landinu á tilteknum grundvelli eða að líklegt sé að þeim verði synjað um inngöngu í landið. Slíkt sé þó ekki gert nema á grundvelli almannaöryggis eða að hætta sé talin á að umsækjandi muni reyna að koma sér undan brottvísun. Ákvarðanir um varðhald eru almennt endurskoðaðar af dómstólum og við meðferð slíka mála hjá dómstólnum eiga einstaklingar rétt á lögfræðiaðstoð.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar eftir því sem við á, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með „aðild Íslands að Dyflinnarsamstarfinu hefur ríkið skuldbundið sig til að fylgja og virða þær reglur sem felast í Dyflinnarreglugerðinni“ og að „íslensk stjórnvöld sem starfa að útlendingamálum [beiti] ákvæðum reglugerðarinnar við mat á því hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem lagðar eru fram hér á landi.“ Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. byggir á heimild í 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og felur í sér frávik frá þeirri meginreglu reglugerðarinnar um að ákvarða skuli hvaða ríki beri ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd á grundvelli þeirra viðmiða sem fram koma í reglugerðinni.

Á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga setti ráðherra reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en með henni bættust tvær greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, við reglugerðina. Í 32. gr. a reglugerðarinnar kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í ákvæðinu jafnframt talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar sem tilvikin eru talin upp í dæmaskyni geta aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu alvarleikastigi, haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður séu ekki sérstaklega undanskildar, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að orðalagið „muni eiga“ feli ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið gerir þó kröfu um að tilteknar líkur verði að vera á alvarlegri mismunun, þ.e. að sýna verður fram á að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir en að ekki sé nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og umsækjandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst umsækjandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram að verulegar ástæður séu til að ætla að umsækjandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og umsækjandi, verði fyrir slíkri meðferð.

Þá skal líta til þess hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Í reglugerðinni kemur fram að meðferð teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en umsækjanda muni ekki standa hún til boða. Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi lítur kærunefnd m.a. til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi umfram það sem leiðir af 2. mgr. 32. gr. a, nema það teljist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið. Þá tekur 3. mgr. 32. gr. a af tvímæli um það að efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Slíkar aðstæður gætu þó fallið undir 3. mgr. 36. gr. nái þær því alvarleikastigi sem við á, sbr. umfjöllun hér í framhaldinu.

Kærandi er einstæður karlmaður á [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa verið handtekinn í heimaríki fyrir um átján árum og hafa mátt þola pyndingar og barsmíðar. Kærandi hafi hlotið áverka á höfði og fái reglulega höfuðverk. Kærandi kvaðst vera heilsuhraustur að öðru leyti. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð frá Göngudeild sóttvarna, dags. 1. desember 2022, þar sem fram kemur að læknisskoðun hafi farið fram í samræmi við ákvæði sóttvarnalaga.

Kærunefnd tekur fram að kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun 16. nóvember 2022, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi teldi hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda jafnframt leiðbeint með tölvubréfi kærunefndar, dags. 20. mars 2023, um framlagningu frekari gagna í málinu. Engin frekari heilsufarsgögn bárust. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að mál kæranda sé nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hans. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar hans geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Kærunefnd telur ljóst að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Af framangreindum gögnum má ráða að umsækjendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Svíþjóð eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, en fá þó ekki fjárhagsstuðning ríkisins til þess að greiða fyrir slíka þjónustu. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kæranda komi til með að standa til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta þar í landi, en hann muni e.t.v. þurfa að greiða fyrir slíka þjónustu sjálfur. Kærunefnd áréttar það sem kemur fram í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar, þ.e. að meðferð við veikindum teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana. Telur kærunefnd því að aðstæður kæranda tengdar heilsufari séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kæranda geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Kærandi hefur jafnframt greint frá því við meðferð málsins að hann hafi haft aðgang að heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð en hann hafi ekki þurft að nýta sér hana.

Kærandi hefur greint frá því að hann óttist starfsemi leyniþjónustu íranskra stjórnvalda í Svíþjóð. Auk þess óttist hann fyrirvaralausar árásir, sem tíðkist þar í landi. Af fyrirliggjandi gögnum má ráða löggæslan sé virk í Svíþjóð og óttist kærandi um öryggi sitt geti hann leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. áðurnefnd viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda m.a. til þess að telji kærandi sér mismunað eða óttist hann um öryggi sitt að einhverju leyti geti þau leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum.

Kærandi hefur greint frá því að hann hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Kærunefnd vísar til þess sem áður hefur komið fram að fái umsækjandi um alþjóðlega vernd endanlega synjun á umsókn sinni hjá sænskum yfirvöldum eigi hann þess kost að leggja fram viðbótarumsókn, svo sem ef nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans. Engin takmörk séu á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Þá eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd einnig kost á því að bera synjunina undir dómstóla. Þá geti hann lagt fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun samkvæmt 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji hann endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Kærunefnd vísar til þess að heimildir og gögn málsins benda til þess að kærandi geti nýtt sér þau úrræði sem til staðar eru samkvæmt sænskum lögum til að leggja fram viðbótarumsókn og bera mál sitt undir dómstóla. Þá hafi kærandi notið allra grunnréttinda á meðan málsmeðferð hans stóð hjá sænskum stjórnvöldum.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæla með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun 16. nóvember 2022 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í málum kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína 8. október 2022.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga lítur kærunefnd til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. sáttmálans. Þá hefur kærunefnd talið að til að stuðla að einsleitinni framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar á meðal aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins sé rétt að líta til dóma Evrópudómstólsins í málum sem tengjast framkvæmd reglugerðarinnar.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er vísað til þeirrar meginreglu að með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar hafi ríki rétt til að stjórna hverjir ferðist yfir landamæri þeirra, hverjir dvelji á landsvæði þeirra og hvort útlendingi skuli vísað úr landi, sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli F.G. gegn Svíþjóð (nr. 43611/11) frá 23. mars 2016, 111. mgr., ákvörðun Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 65. mgr., og dóm Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) frá 18. október 2006, 54. mgr. Dómstóllinn hefur engu að síður talið að flutningur einstaklings til annars ríkis geti leitt til brots á 3. gr. mannréttindasáttmálans ef viðkomandi einstaklingur geti á viðhlítandi hátt sýnt fram á að veruleg ástæða sé til að ætla, verði hann fluttur úr landi, að hann sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð 3. gr. sáttmálans, sbr. m.a. F.G. gegn Svíþjóð, 111. - 113. mgr. Í dómaframkvæmd dómstólsins er jafnframt byggt á því að annmarkar á meðferð viðtökuríkis á umsækjanda og aðbúnaði hans þurfi að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi (e. „must attain a minimum level of severity“ sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011, 219. mgr.) til að ákvörðun um brottvísun eða frávísun hans verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars, sbr. m.a. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 219. mgr. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 251. mgr., og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012, 97. mgr.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið ómannlega meðferð vera m.a. þá sem beitt er að yfirlögðu ráði, í margar klukkustundir í senn og veldur annað hvort líkamlegu tjóni eða alvarlegum andlegum eða líkamlegum þjáningum, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kudła gegn Póllandi (nr. 30210/96) frá 26. október 2000, 92. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Þá hefur dómstóllinn talið meðferð vera vanvirðandi í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans þegar meðferðin niðurlægir eða lítillækkar einstakling, sýnir skort á virðingu fyrir eða gerir lítið úr mannlegri reisn hans, eða skapar ótta, angist eða vanmátt, sem er til þess fallin að brjóta niður líkamlegt eða andlegt mótstöðuafl viðkomandi, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Pretty gegn Bretlandi (nr. 2346/02) frá 29. apríl 2002, 52. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Dómurinn hefur talið að þó að líta verði til þess hvort meðferðin sé veitt af ásetningi sé það ekki að öllu leyti útilokað að hún teljist brot á 3. gr. þó svo hafi ekki verið, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Peers gegn Grikklandi (nr. 28524/95) frá 19. apríl 2001, 74. mgr.

Dómstóllinn hefur talið að 3. gr. mannréttindasáttmálans verði ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 249. mgr.

Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins er vísað til þess að framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar verði að vera í samræmi við sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi og er þar fyrst og fremst vísað til 4. gr. sáttmálans sem, í þeim atriðum sem máli skipta, er sambærileg 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins eru lög Evrópusambandsins byggð á þeirri grundvallarforsendu að aðildarríki þess deila þeim sameiginlegu gildum sem Evrópusambandið byggist á. Sú forsenda leggur grunn að gagnkvæmu trausti um að þessi gildi séu viðurkennd, að lög Evrópusambandsins verði virt og að réttarkerfi aðildarríkjanna geti veitt sambærilega og virka vernd þeirra grundvallarréttinda sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi mælir fyrir um, sbr. t.d. dóma Evrópudómstólsins í Jawo, C-163/17, frá 19. mars 2019, 80. mgr., og Minister for Justice and Equality (Deficiencies in the system of justice), C-216/18 PPU, frá 25. júlí 2018, 35.-37. mgr. Dyflinnarreglugerðin er byggð á nefndri meginreglu um gagnkvæmt traust og miðar að því að hraða og straumlínulaga afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd til hagsbóta fyrir umsækjendur og aðildarríki samstarfsins. Því verði að gera ráð fyrir því að meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríkjum Dyflinnarsamstarfsins samrýmist þeim kröfum sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, flóttamannasáttmálinn og Mannréttindasáttmáli Evrópu gera, sbr. dóm Evrópudómstólsins í N. S. o.fl., C-411/10 og C-493/1021, frá 21. desember 2011, 78.-80. mgr. Það er hins vegar ekki útilokað að viðtökuríki kunni að glíma við meiriháttar erfiðleika við framkvæmd reglugerðarinnar sem gæti skapað verulega hættu á að umsækjandi sæti meðferð sem samrýmist ekki sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. áðurnefndan dóm í máli N. S. o.fl., 81. mgr. Af þeim sökum verður ekki byggt á því skilyrðislaust að aðildarríki Evrópusambandsins tryggi grundvallarmannréttindi, svo sem samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. N. S. o.fl., 99., 100. og 105. mgr., og Ibrahim o.fl., 87. mgr. Evrópudómstóllinn hefur talið, m.a. í Jawo, 85. mgr., að ekki megi flytja umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, verði hann fluttur til viðtökuríkis. Þeir annmarkar sem eru á meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd verða hins vegar að ná sérstaklega háu alvarleikastigi til að endursending á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar teljist andstæð 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmálans um grundvallarréttindi. Þessu alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda aðildarríkis Dyflinnarsamstarfsins hefur þær afleiðingar að einstaklingur sem að öllu leyti er háður stuðningi ríkisins, t.d. vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann geti ekki mætt grundvallarþörfum sínum, og sem grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 252.-263. mgr., og Jawo, 92. og 95. mgr., og Ibrahim o.fl., 90. mgr.

Hátt stig óöryggis eða veruleg hnignun lífsskilyrða viðkomandi umsækjanda myndi þar af leiðandi ekki ná þessu alvarleikastigi nema framangreindar aðstæður efnislegrar sárafátæktar séu fyrir hendi. Sama á við þó að umsækjanda skorti það félagslega stuðningsnet, eins og t.d. fjölskyldutengsl, sem vegur á móti afleiðingum ófullnægjandi félagslegs kerfis aðildarríkis, sbr. Jawo, 93. og 94. mgr. Ennfremur, það eitt að lífsskilyrði séu ákjósanlegri í endursendingarríki en í viðtökuríki getur heldur ekki leitt til þess að um brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé að ræða, sbr. til hliðsjónar Jawo, 97. mgr.

Eins og ráða má af ofangreindu þurfa annmarkar á meðferð viðtökuríkis á umsækjanda og aðbúnaði hans að ná mjög háu alvarleikastigi til að endursending teljist brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og tekur beiting 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga mið af því.

Til að endursending geti talist brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þarf að sýna fram á, með vísan til hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar, að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé ósamrýmanleg ákvæðinu, sbr. fyrri umfjöllun. Ekki er nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri meðferð, sbr. Vilvarajah o.fl. gegn Bretlandi (mál nr. 13163/87; 13164/87; 13165/87; 13447/87; 13448/87) frá 30. október 1991, 111. mgr., N. gegn Finnlandi (mál nr. 38885/02) frá 26. júlí 2005, 167. mgr., og NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008, 109.-110. mgr.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í viðtökuríki sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð stjórnvalda viðtökuríkis á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Telur kærunefnd að gögn málsins gefi ekki til kynna að endursending kæranda til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Áður hefur verið fjallað um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, þ.m.t. möguleika umsækjenda til að fá ákvarðanir um synjun verndar endurskoðaðar af sænskum yfirvöldum. Sænsk yfirvöld eru bundin af sambærilegum reglum og Ísland um vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til ríkis þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra eða frelsi ógnað (non-refoulement), sbr. IV. kafla sænsku útlendingalaganna (s. Utlänningslagen 2005:716). Að mati kærunefndar veitir málsmeðferð sænskra yfirvalda nægilega tryggingu fyrir því að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í því skyni að tryggja að enginn umsækjandi sé sendur þangað sem líf hans eða frelsi er í hættu. Vegna umfjöllunar í greinargerð leggur kærunefnd áherslu á að við túlkun á því hvaða skyldur hvíla á ríkjum sem senda einstaklinga til annarra ríkja þar sem þeir kunna að vera sendir áfram til þriðja ríkis (e. indirect refoulement) hefur nefndin horft á hvort ríkið, sem senda á einstaklinginn til, veiti raunhæfa vernd (e. effective guarentees) til að tryggja að einstaklingar verði ekki sendir áfram í ómannúðlegar og vanvirðandi aðstæður, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi. Kærunefnd telur gögn málsins bera með sér að í Svíþjóð sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem líf þess eða frelsi sé ógnað. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem benda til þess að meðferð á umsókn hans í Svíþjóð hafi verið óforsvaranleg. Samkvæmt framansögðu benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Svíþjóð, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Sambærileg aðferðarfræði er varðar mat á því hvort viðtökuríki tryggi raunhæfa vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða lífi þess eða frelsi er ógnað kemur fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 405/2013, dags. 24. október 2013.

Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd og flutningur hans til viðtökuríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framansögðu verður mál kæranda ekki tekið til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar og reglur stjórnsýsluréttar

Í greinargerð byggir kærandi á því að undantekningarreglur 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem hann sé ekki með vernd í öðru ríki eða óafgreidda umsókn í kerfinu og því sé ekki hægt að afgreiða umsókn hans á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá sé niðurstaða Útlendingastofnunar röng og hann hafi engin úrræði til að fá umsókn sína tekna aftur fyrir í Svíþjóð. Kærunefnd áréttar að ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar hér á landi og vísa honum til Svíþjóðar, er byggð á því að sænsk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ábyrgð Svíþjóðar á umsókn kæranda er byggð á d-lið 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en þar kemur fram að aðildarríki sem beri ábyrgð samkvæmt reglugerðinni skuli vera skuldbundið til að taka aftur við ríkisborgara þriðja lands sem fengið hefur synjun á umsókn sinni og hefur lagt fram umsókn í öðru aðildarríki. Kærandi hefur fengið synjun á umsókn sinni í Svíþjóð og hafa sænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar með bréfi, dags. 2. nóvember 2022. Þá vísar kærunefnd til þess, líkt og fram hefur komið, að engin takmörk séu á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd í Svíþjóð.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd jafnframt að Útlendingastofnun hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum og hafi ekki borið að kanna á hvaða grundvelli synjun sænskra stjórnvalda er byggð eða rannsaka aðstæður hans í heimaríki, enda byggir niðurstaða stofnunarinnar á því að senda kæranda til Svíþjóðar. Öll gögn benda til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Svíþjóð, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands 8. október 2022 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Svíþjóðar innan tilskilins frests nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa sænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda hann til Svíþjóðar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta