Hoppa yfir valmynd

Nr. 55/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 2. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 55/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22110007

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.             Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 3. nóvember 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja honum um fjölskyldusameiningu við [...], fd. [...], ríkisborgari Íraks, (hér eftir K) á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu er dagsett 9. september 2021 en móttekin hjá Útlendingastofnun 5. nóvember 2021. Umsóknin er byggð á því að hann vilji sameinast börnum sínum, [...], fd. [...], (hér eftir A), og [...], fd. [...], (hér eftir B), ríkisborgurum Íraks, og fyrrverandi eiginkonu, K. Njóti K, A og B alþjóðlegrar verndar hér á landi en K hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns hér á landi 26. febrúar 2020.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. október 2022, var umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar 3. nóvember 2022. Þá bárust kærunefnd frekari upplýsingar frá K 16. janúar 2023.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að K hafi verið veitt alþjóðleg vernd hér á landi 26. febrúar 2020. Útlendingastofnun hafi sent K tilkynningu þess efnis að ekki væri hægt að afgreiða umsókn kæranda þar sem mikið af gögnum með umsókninni vantaði, meðal annars frumrit af hjúskaparvottorði og hjúskaparstöðuvottorði kæranda þar sem samkvæmt umsókn hans hefðu hann og K skilið að lögum tveimur árum fyrr. Þá kemur fram að 3. febrúar 2022 hafi kærandi lagt fram hjúskaparvottorð dagssett 26. apríl 1995 og greinargerð frá K. Í greinargerðinni kæmi fram að kærandi og K hafi skilið samkvæmt lögum 10. ágúst 2020 og því væri hjúskaparstaða þeirra beggja flokkuð sem skilin. Kærandi og K gætu því ekki lagt fram hjúskaparstöðuvottorð líkt og stofnunin hefði farið fram á en það væri ætlun þeirra að gifta sig á ný þegar kærandi kæmi til Íslands.

Í niðurstöðukafla Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt greinargerð kæranda sem hafi verið lögð fram 5. maí 2022 hafi hann yfirgefið heimaríki sitt Írak árið 2017. Kærandi og K hafi ekki verið í sambúð frá því að hann hafi farið til Kanada árið 2017. Þá hafi kærandi sótt um lögskilnað hér á Íslandi sem hafi gengið í gegn 10. ágúst 2020. Með vísan til þess var það niðurstaða Útlendingastofnunar að synja umsókn kæranda um fjölskyldusameiningu þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lagði ekki fram greinargerð við meðferð málsins hjá kærunefnd.

Í tölvubréfi K sem sent var til kærunefndar 3. nóvember 2022 er ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kærð. Í tölvubréfinu kemur fram að það sé mat K að við málsmeðferð hafi Útlendingastofnun ekki horft til stöðu fjölskyldunnar hér á landi en dóttir þeirra, A, sé með sjúkdóm sem nefnist [...]. A þurfi mikla aðstoð frá kæranda, á meðan K sé í vinnu þurfi A aðstoð og geti ekki verið ein. Kærandi sem faðir A sé því rétta manneskjan til að deila ábyrgð á umönnun A.

V.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér á landi, hafi samkvæmt umsókn rétt til að fá hér alþjóðlega vernd. Mælt er fyrir um réttaráhrif alþjóðlegrar verndar í 45. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. á maki eða sambúðarmaki einstaklings sem nýtur alþjóðlegrar verndar og börn hans yngri en 18 ára án maka eða sambúðarmaka einnig rétt á alþjóðlegri vernd nema sérstakar ástæður mæli því í mót.

Kærandi byggir umsókn um fjölskyldusameiningu við K á því að K og uppkomin börn þeirra séu með alþjóðlega vernd hér á landi. Í bréfi, dags. 10. september 2021, sem kærandi lagði fram til Útlendingastofnunar kemur fram að vegna persónulegra vandamála hafi hann yfirgefið heimaríki sitt árið 2017. Þegar kærandi hafi frétt af því að K og börn þeirra væru örugg á Íslandi hafi hann viljað sameinast þeim og búa með þeim á ný. Kærandi vildi einnig vera nálægt dóttur sinni sem sé fötluð.

Í gögnum málsins liggur fyrir svar K, dags. 29. mars 2022, til Útlendingastofnunar vegna beiðni stofnunarinnar um gögn. Í svarinu kemur meðal annars fram að kærandi og K geti ekki skilað inn vottorði um hjúskaparstöðu. Kærandi og K hafi skilið vegna fjárhagsvandræða og félagslegrar stöðu K og barna hennar hér á landi en hún hafi ekki getað fengið aðstoð frá félagsþjónustunni vegna þess að K væri skráð gift. Til þess að geta veitt börnum sínum það sem þurfti og fá aðstoð frá félagsþjónustunni hafi K ákveðið að skilja við kæranda á pappír. K hafi sótt um skilnað árið 2020 og hafi skilnaðurinn gengið í gegn 10. ágúst 2020. K og kærandi hafi bæði séð mikið eftir því að hafa látið skilnaðinn ganga í gegn og stefni á að gifta sig á ný þegar þau sameinist hér á landi. Þá kom fram í svarinu að kærandi hefði verið búsettur í Kanada síðan 2017. Einnig kemur fram að K og börn hennar hafi komið til Íslands 31. desember 2018. Frá árinu 2018 hafi samband við kæranda verið mjög stöðugt og hafi kærandi og K tekið upp sitt persónulega samband á ný árið 2021.

Vegna tengsla K við mál kæranda kallaði kærunefnd eftir gögnum frá Útlengingastofnun vegna málsmeðferðar K hjá stofnuninni. Í þeim gögnum er að finna endurrit viðtals sem tekið var við K 22. janúar 2020. Í því kvaðst kærandi aðspurð hafa gifst kæranda árið 1995. Kærandi hafi yfirgefið hana um tíma árið 2016. Árið 2017 hafi kærandi svo yfirgefið hana að fullu. Þau hafi ekki gengið í gengum formlegan skilnað fyrir dómstólum þar sem þau hafi ekki viljað að fólk vissi af því. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls kæranda og gögnum máls K yfirgaf kærandi K og börn þeirra um tíma árið 2016 en yfirgaf þau svo alveg í janúar árið 2017. Kærandi kveðst hafa búið í Kanada frá árinu 2017. K og börn hennar komu hingað til lands 31. desember 2018 og lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd. Var þeim veitt alþjóðleg vernd hér á landi með ákvörðunum Útlendingastofnunar 26. febrúar 2020. Í skriflegu svari K til Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2022, greindi hún frá því að hún hefði beðið um skilnað við kæranda og hafi hann verið veittur 10. ágúst 2020. Með fyrirspurn kærunefndar til K 16. janúar 2023 var hún meðal annars spurð að því hvers vegna hún hefði ekki sótt um fjölskyldusameiningu við kæranda eftir að hún og börn þeirra hefðu fengið vernd hér á landi. K svaraði því að þegar þau hefðu fengið vernd hér landi hefði hún og kærandi ennþá verið gift en þau hefðu hins vegar ekki talast við á þeim tíma og hefði samband þeirra ekki verið gott. Í svari K til kærunefndar greindi K frá því aðspurð að kærandi væri ekki með dvalarleyfi í Kanada og því hefði hann ekki óskað eftir fjölskyldusameiningu við K og börn þeirra eftir að hann flutti þangað.

Ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga fjallar ekki um hvað felist í hugtökunum maki eða sambúðarmaki. Jafnframt er ekki að finna nánari skýringu á hugtökunum í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi laganna eða hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að geta talist vera maki eða sambúðarmaki í skilningi laganna. Í ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga um lögheimili og aðsetur er fjallað um skilyrði til skráningar á sambúð. Segir þar m.a. að tveir einstaklingar sem séu í samvistum og uppfylli hjónavígsluskilyrði hjúskaparlaga geti skráð sambúð sína í þjóðskrá. Skulu þeir hafa sama lögheimili og skal upphaf sambúðar miðað við þann dag þegar beiðni er lögð fram um skráningu. Í hugtakið sambúðarmaki leggur kærunefnd þann skilning að um sé að ræða einstakling sem sé í samvistum með öðrum einstaklingi, uppfylli hjónavígsluskilyrði hjúskaparlaga og hafi sama lögheimili.

Í máli kæranda liggur fyrir að hann og K hafa ekki verið í sambúð síðan árið 2017. Síðast hafi kærandi og K verið í sambúð í heimaríki beggja, Írak. Má af frásögn K ráða að samband hennar og K hafi lokið árið 2017 þegar hann hafi yfirgefið fjölskylduna. Þá hafi það verið vilji K að skilja við kæranda að lögum árið 2020 eftir að hafa fengið alþjóðlega vernd hér á landi.

Samkvæmt framangreindu hafa kærandi og K ekki verið í sambúð síðastliðin fimm ár og fengu lögskilnað í ágúst 2020. Verður því lagt til grundvallar að sambandi og fjölskyldutengslum kæranda og K hafi formlega lokið í ágúst 2020. Þrátt fyrir að það sé ætlun kæranda og K að taka upp fyrri sambúð og gifta sig þá er að mati kærunefndar ekki hægt að fella þær ætlanir undir ákvæði 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar gerir ákvæðið kröfu um að umsækjandi um fjölskyldusameiningu við einstakling með alþjóðleg vernd sé þegar maki eða sambúðarmaki þess sem er handhafi verndarinnar. Að virtum gögnum málsins er það mat kærunefndar að kærandi sé ekki maki eða sambúðarmaki K í skilningi 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt öllu framangreindu verður staðfest sú ákvörðun Útlendingastofnunar að synja kæranda um fjölskyldusameiningu við K, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

 


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                                                    Sindri M. Stephensen

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum