Hoppa yfir valmynd

Nr. 274/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 274/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21050001

 

Kæra […]

á ákvörðun

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. apríl 2021 kærði […], fd. […], ríkisborgari Noregs (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 28. apríl 2021, um frávísun frá Íslandi.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 8. mgr. 13. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til Íslands með flugi Icelandair nr. FI205 frá Kaupmannahöfn hinn 28. apríl 2021. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum þann 28. apríl 2021 var kæranda frávísað frá landinu. Samkvæmt gögnum málsins var kæranda fylgt úr landi til Noregs í fylgd stoðdeildar ríkislögreglustjóra þann 2. maí 2021. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 29. apríl 2021 en meðfylgjandi voru athugasemdir kæranda.

III.          Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda sé vísað frá landinu á grundvelli 8. mgr. 13. gr. sóttvarnarlaga. Í lögregluskýrslu, dags. 8. maí 2021, kemur fram að hinn 28. apríl 2021 hafi starfsmaður Aviör í flugstöð Leifs Eiríkssonar óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem kærandi hafi ekki verið með gilt PCR- vottorð. Hafi kærandi verið færður í biðherbergi lögreglu þar sem lögregla hafi útskýrt fyrir honum málavexti, þ.e. að hann hefði ekki framvísað gildu PCR-vottorði. Kærandi hafi talað nokkuð samhengislaust en þó útskýrt að hann hefði ekki samastað á Íslandi og ætlað að hitta ónefndan vin sinn en kærandi hefði komið síðast til Íslands árið 2008. Kemur fram í skýrslunni að lögreglu hafi grunað að kærandi glími við andleg veikindi, hann hafi sagst þiggja bætur í Noregi og tæki ýmis lyf vegna sjúkdóms síns. Þá hafi hann framvísað lyfseðli sem við nánari skoðun virtist tengjast m.a. meðferð vegna þunglyndis og geðhvarfasýki. Hafi kæranda verið gerð grein fyrir því af lögreglu að hann fengi ekki inngöngu í landið og verið færður í úrræði fyrir fólk í frávísunarferli, hótel Aurora, þar sem hann hafi verið undir eftirliti starfsfólks Aviör.

 

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann sé búsettur í Osló en vegna samkomutakmarkana sé lífið orðið mjög erfitt þar. Kærandi skilji ekki grundvöll hinnar kærðu ákvörðunar en Ísland og Noregur séu svipuð lönd auk þess sem hann eigi eftir að fara í síðari sýnatöku vegna Covid-19.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. sóttvarnalaga getur ráðherra með reglugerð, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, kveðið á um að gripið skuli til sóttvarnaráðstafana vegna hættu á að farsóttir berist til eða frá Íslandi. Í reglugerðinni er ráðherra heimilt að kveða á um að við komu eða brottför og af ástæðum er varða lýðheilsu megi krefjast þess að ferðamenn upplýsi um áfangastaði og samskiptaupplýsingar svo unnt sé að ná sambandi við þá og fylli út spurningarlista um heilsu sína, sbr. 1. tl. 2. mgr., upplýsi um ferðaslóð sína fyrir komu og framvísi heilbrigðisskjölum, sbr. 2. tl. 2. mgr., tilkynni sig til íslenskra stjórnvalda, enda hafi þeir verið settir undir vöktun vegna lýðheilsu í öðru ríki, sbr. 3. tl. 2. mgr., undirgangist heilbrigðisskoðun sem er eins lítið ífarandi og unnt er til að ná settu lýðheilsumarkmiði. Ekki skuli beina inngripum nema gagnvart þeim sem grunur leiki á að gæti hafa smitast, sbr. 4. tl. 2. mgr. ákvæðisins. Þá er mælt fyrir um frekari heimildir í 3. til 5. mgr. ákvæðisins.

Samkvæmt 8. mgr. 13. gr. sóttvarnalaga er lögreglustjóra heimilt að vísa útlendingi, sem ekki er búsettur hér á landi, úr landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef hann neitar að verða við fyrirmælum um ráðstafanir sem ráðherra hefur heimilað skv. 2. - 5. mgr. eða í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim. Sé ákvörðun um frávísun kæranleg til kærunefndar útlendingamála, en kæra fresti ekki framkvæmd ákvörðunar. Að öðru leyti fari um málsmeðferð samkvæmt lögum um útlendinga.

Þann 27. apríl 2021 tók gildi reglugerð nr. 435/2021 um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19. Reglugerðinni hefur tvívegis verið breytt, sbr. breytingarreglugerðir nr. 486/2021 og 555/2021. Í 4. gr. reglugerðar nr. 435/2021 kemur m.a. fram að ferðamönnum sem koma til Íslands og dvalið hafa meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum í löndum sem skilgreind eru af sóttvarnalækni sem áhættusvæði sé skylt að framvísa vottorði á landamærastöð og við byrðingu sem sýnir fram á neikvætt PCR-próf sem er ekki eldra en 72 klst. við byrðingu. Með breytingarreglugerð nr. 555/2021 var bætt við ákvæði sem heimilar sóttvarnalækni að veita undanþágu frá sóttvarnaráðstöfunum samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 435/2021, að hluta eða öllu leyti, svo sem framvísun neikvæðs PCR-prófs, gagnvart flugáhöfnum sem dvelja hér á landi í takmarkaðan tíma, enda sé tryggt að það komi ekki niður á smitvörnum. Reglugerð nr. 555/2021 tók gildi 14. maí 2021 en hin kærða ákvörðun var tekin hinn 28. apríl 2021. Kemur umrædd undanþáguheimild sóttvarnalæknis því ekki til frekari skoðunar í málinu.

Frá og með 19. ágúst 2020 hafa öll lönd og svæði heims verið skilgreind af sóttvarnalækni sem áhættusvæði, að undanskildu Grænlandi, frá og með 24. febrúar 2021, og Færeyjum, frá og með 10. maí 2021. Þann 26. maí 2021 voru Færeyjar aftur færðar á lista yfir áhættusvæði. Samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 435/2021, með síðari breytingum, er lögreglustjóra heimilt að vísa útlendingi, sem ekki er búsettur hér á landi, úr landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef hann neitar að verða við fyrirmælum um ráðstafanir samkvæmt reglugerðinni eða í ljós kemur að hann hefur ekki fylgt þeim, s.s. að framvísa vottorði, gangast undir sýnatöku eða halda sóttkví.

Almennar leiðbeiningar til ferðamanna sem hyggja á ferðalög hingað til lands er að finna á vefsíðu þeirra aðila er selja ferðir hingað til lands, m.a. Icelandair. Á vefsíðu flugfélagsins Icelandair (www.icelandair.com/blog/iceland-is-open-faq) er að finna ítarlegar Covid-19 ferðaupplýsingar, m.a. um að farþegar sem ekki hafi verið bólusettir fyrir Covid-19 og hafi ekki fengið sýkingu þurfi að framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi áður gengið er um borð í flugvél á leið til Íslands og að sýnatakan verði að fara fram innan 72 klst. fyrir brottför. Þá er einnig að finna þar hlekki á vef íslenskra stjórnvalda með frekari upplýsingum um sóttvarnaraðgerðir hér á landi og þær kröfur sem einstaklingar þurfa að uppfylla og fylgja ætli þeir að koma hingað til lands. Við bókun flugs á heimasíðu flugfélagsins fá einstaklingar upplýsingar um að kynna sér þær reglur og takmarkanir sem í gildi eru varðandi innritun í flug hjá flugfélaginu sjálfu sem og í því landi sem þeir hyggjast ferðast til. Má því ætla að kæranda hafi haft tækifæri til þess að kynna sér framangreint og verið ljóst að til þess að hafa rétt á inngöngu inn í landið hefði hann þurft að uppfylla framangreind skilyrði.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi norskur ríkisborgari, búsettur í Osló. Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli þess að hann hefði ekki framvísað gildu PCR-prófi við komuna til landsins. Á þeim tíma var ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar fortakslaust um það skilyrði að ferðamaður sem kæmi til Íslands og dvalið hefði meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum í löndum sem skilgreind væru af sóttvarnalækni sem áhættusvæði, væri skylt að framvísa vottorði á landamærastöð sem sýndi fram á neikvætt PCR-próf sem væri ekki eldra en 72 klst. við byrðingu. Kærandi hefur við meðferð málsins hjá kærunefnd ekki mótmælt staðhæfingu lögreglunnar þess efnis að hann hafi ekki framvísað neikvæðu PCR-prófi við komuna til landsins. Var lögreglustjóra við töku hinnar kærðu ákvörðunar því skylt í samræmi við 8. mgr. 13. gr. sóttvarnalaga, sbr. framangreind ákvæði reglugerðar nr. 435/2021, að vísa kæranda frá landinu.

Að framansögðu virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er staðfest.

The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira