Hoppa yfir valmynd

Nr. 349/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. ágúst 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 349/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050019

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. maí 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. apríl 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt eiginkonu sinni.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37 .gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 31. júlí 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 20. febrúar 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 18. apríl 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 8. maí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 29. maí 2018 ásamt fylgigögnum. Þann 31. maí 2018 barst kærunefnd viðbót við greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Kærunefnd sendi gögn til þýðingar dags. 27. júní 2018 og bárust þýðingar þann 11. júlí s.á. Þá lagði kærandi fram frekari gögn þann 6. júlí 2018 sem kærunefnd sendi til þýðingar þann 20. júlí 2018 og bárust þýðingar þann 23. júlí s.á. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 19. júlí 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki og var beiðni um frekari gögn send talsmanni kæranda sama dag. Þann 23. og 26. júlí 2018 bárust kærunefnd læknisfræðileg gögn ásamt afriti af kenniskírteini kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna ofsókna [...] stjórnvalda sökum [...] uppruna og trúar sinnar en kærandi sé [...].

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð, sem var lögð fram fyrir hönd kæranda og eiginkonu hans, kemur fram að í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun hafi hann greint frá því að hann tilheyri minnihlutahópi í heimaríki á grundvelli þjóðernis og trúar þar sem meirihluti landsmanna séu [...] en hann sem [...] sé [...]. Í greinargerð kæranda kemur fram að á hátíðardegi [...] hafi stjórnvöld mætt á viðburðinn og beitt þátttakendur ofbeldi. Þegar kærandi hugðist flýja hafi hann fallið til jarðar og aðilar sem tilheyri leyniþjónustunni [...] hafi komið og sparkað í kæranda og höfuð hans. [...] stjórnvöld hafi sakað þátttakendur trúarhátíðarinnar um glæpi, m.a. á þeim grundvelli að um óeirðir eða mótmæli hafi verið að ræða. Þá hafi stjórnvöld fangelsað eða líflátið þá einstaklinga sem þeir hafi náð. Kæranda hafi borist fregnir frá bróður sínum um að fulltrúar leyniþjónustunnar og lögreglunnar hafi komið á heimili hans að leita að honum og hafi kæranda þá orðið ljóst að hann þyrfti að flýja land. Það sé alþekkt í heimaríki kæranda að þegar stjórnvöld leiti að manni á heimili manns sé hætta á ferðum. Fjölskylda kæranda sé undir stöðugu eftirliti vegna hvarfs hans. Kærandi hafi dvalið ár í höfuðborg ríkisins, [...], en flúið þaðan til [...] eftir að til hans hafi spurst. Telji kæranda sér því ekki unnt að dvelja annarsstaðar í heimaríki. Kærandi hafi kynnst konu sinni í [...] og hafi þau gengið í hjónaband þar í landi. Kærandi hafi lagt fram ný gögn í máli sínu eftir að Útlendingastofnun hafi synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd. Um sé að ræða gögn vegna mótmæla sem kærandi hafi tekið þátt í hér á landi.

Kærandi gerir í greinargerð sinni athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn í því skyni að sanna á sér deili við komuna hingað til lands og því hafi verið leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Kærandi hafi ekki verið boðaður í tungumála- og staðháttarpróf líkt og vaninn sé. Þá sé trúverðugleiki kæranda dreginn í efa í ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. varðandi það að leyniþjónustan í [...] hafi beitt hann ofbeldi fyrir þær sakir einar að hafa verið viðstaddur [...] hátíðarhöld. Þá sé dregið í efa að stjórnvöld séu að leita að honum og hafi komið á heimili hans vegna framangreindrar þátttöku. Sú frásögn kæranda sé því ekki lögð til grundvallar ákvörðun Útlendingastofnunar. Þó komi fram að heimildir beri með sér að stjórnvöld í [...] hafi tekið fjölmarga af lífi fyrir mótmæli og aðgerðir gegn stjórnvöldum og grunur um slíkt sé oft nóg til að stjórnvöld handtaki og myrði [...] einstaklinga. Þá komi fram í ákvörðuninni að frásögn kæranda um að leynilögreglan haldi utan um lista með nöfnum [...] sem safnist saman á hátíðarhöldum, leiti þá uppi og handtaki eigi sér ekki stoð í fyrirliggjandi heimildum og verði sú frásögn því ekki lögð til grundvallar. Einnig hafi frásögn kæranda um skothríð af hálfu leynilögreglunnar á hóp almennra [...] borgara á hátíðarhöldunum ekki verið tekin trúanleg. Kærandi lýsir yfir ákveðnum efasemdum um að slíkar upplýsingar lægju fyrir og væru opinberar af hálfu [...] yfirvalda og því sé varhugavert að staðhæfa að slíkt eigi sér ekki stað í heimaríki hans. Kærandi hafi upplýst talsmann sinn í samtölum að umfjöllun um [...] hátíðarhöld í skýrslum og fjölmiðlum sé ekki í samræmi við raunveruleikann. Samkomur af þessum toga séu ekki leyfilegar og allt gert til að sporna við þeim. Kærandi tók fram að fjöldi manns hafi verið tekinn af lífi í [...] fyrir minni sakir en að taka þátt í stjórnmálum. Kærandi kvaðst sjálfur hafa tekið þátt í lýðræðislegri hreyfingu í [...], [...]), auk þess sem hann hafi tekið þátt í menningartengdum viðburðum á borð við framangreind hátíðarhöld. Kærandi hafi lagt fram ljósmyndir af áverkum sem hann hafi hlotið í umrætt sinn. Kærandi hafi þurft að gangast undir aðgerð [...]vegna afleiðinga ofbeldisins. Útlendingastofnun hafi lagt til grundvallar að kærandi hafi orðið fyrir árás og ofbeldi en ekki af hálfu leynilögreglu í heimaríki kæranda. Séu gerðar alvarlegar athugasemdir við þessa túlkun Útlendingastofnunar á frásögn kæranda þar sem stofnunin geri lítið úr upplifun hans og þeim ótta sem hann búi við gagnvart [...] stjórnvöldum. Þá sé trúverðugleikamat Útlendingastofnunar á auðkenni kæranda grundvallað á því að hann tali [...]. Við úrlausn málsins hjá stofnuninni hafi jafnframt verið byggt á því að kærandi búi við mismunun og samfélagslegt áreiti vegna [...] uppruna síns og trúarskoðana. Hann hafi orðið fyrir áreiti vegna þessa ásamt því að búa við lakari kjör en [...] íbúar landsins. Að öðru leyti hafi kærandi ekki verið talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðstæður í [...], legu landsins er lýst, uppruni ríkisins rakinn og stuttlega fjallað um þjóðréttarleg málefni ríkisins. Þar kemur fram að 99,4 % íbúar ríkisins aðhyllist [...] en af þeim séu u.þ.b. 5-10 % [...]. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins séu helstu mannréttindabrot í [...] tengd alvarlegum brotum á borgaralegum réttindum, s.s. funda- og félagafrelsi, tjáningarfrelsi, trúfrelsi og frelsi fjölmiðla. Þá snúi önnur mannréttindabrot að skorti á réttlátri málsmeðferð, dauðarefsingu, grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu ásamt skeytingarleysi gagnvart lífi og limum einstaklinga sem stjórnvöld handtaki fyrir litlar sem engar sakir, haldi án laga, pyndi og jafnvel myrði. Þá sé spilling innan réttarkerfisins og stjórnvalda vandamál auk lagalegrar og félagslegrar mismununar gegn þjóðfélagslegum og trúarlegum minnihlutahópum. Framangreind umfjöllun um mannréttindavandamál í heimaríki kæranda fái stuðning í skýrslum mannréttindasamtaka. Þá komi fram að í [...] séu kerfisbundin og alvarleg brot framin gegn trúfrelsi fólks, þ. á m. gagnvart [...]. Stjórnvöld beiti einstaklinga sem tilheyri trúarminnihlutahópum m.a. löngu varðhaldi, pyndingum og dauðarefsingum að ósekju. Síðustu ár hafi fjöldi þeirra sem sitji í fangelsi trúar sinnar vegna aukist. Þá sé ríkið eitt af þeim spilltustu í heimi samkvæmt úttekt Transparency International.

Kærandi fjallar í greinargerð einnig um aðstæður [...]. Þá séu [...] u.þ.b. 10% [...] þjóðarinnar. [...] hafi átt við mikið ofurefli að etja í [...] í gegnum tíðina og sitji undir stöðugri kröfu um aðlögun að [...] siðum og venjum en [...] séu [...] á meðan yfirgnæfandi meirihluti íbúa ríkisins séu [...]. [...] hafi háð hernaðarlega baráttu í gegnum tíðina en árangurinn hafi verið takmarkaður. [...] í [...] hafi barist fyrir frekari sjálfsstjórn í langan tíma en til að brjóta baráttuna á bak aftur hafi [...] stjórnvöld beitt lögum í því skyni að handtaka og ákæra [...] sem vilji nýta sér rétt til félaga- og málfrelsis. Stjórnvöld hafi bannað [...] blöð, tímarit og bækur að viðlagðri refsingu þeirra sem gefi slíkt út. Þá hafi [...] félagasamtökum verið meinað að skrásetja samtökin og hafi þeir sem starfi fyrir slík samtök verið lögsóttir. Þrátt fyrir að stjórnarskrá ríkisins kveði á um jafnan rétt allra sé það ekki í takt við raunveruleikann. Minnihlutahópum sé mismunað og banni stjórnvöld iðulega tungumál þeirra, t.a.m. sé bannað í nær öllum skólum að kenna [...]. Þá beiti öryggissveitir ríkisins sér sérstaklega gegn [...], m.a. með handahófskenndum handtökum, löngu varðhaldi, aftökum, pyndingum, ofbeldi og mismunun gagnvart börnum sem tilheyri þjóðernisminnihlutahópum. Þá kemur fram í greinargerð að [...] búi við pólitíska, félagslega og efnahagslega mismunun í [...] og sé m.a. gert ómögulegt að sinna opinberum störfum [...]. Þá sé dauðarefsingum og pyndingum í varðhaldi beitt í ríkara mæli gagnvart þjóðernislegum minnihlutahópum. Þá eigi þeir sem tali gegn stefnu stjórnvalda eða bættum lífskjörum ofbeldi á hættu og séu sömu aðilar oft sakaðir um að vera ógn gegn [...] ríkinu. [...]. Kærandi hafi tekið þátt í nokkrum mótmælum hérlendis m.a. gegn [...] stjórnvöldum þar sem hann hafi borið mótmælaskilti með áletruninni [...]. Kærandi óttist að myndir og upplýsingar varðandi þessa þátttöku hans í mótmælum muni berast til heimaríkis og eigi hann þá á hættu að vera líflátinn af stjórnvöldum. Í greinargerð kæranda er jafnframt fjallað um ástand mannréttindamála í [...], þ.m.t. um stöðu [...] í ríkinu og trúarofsóknir.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til aðildar kæranda að tilteknum þjóðfélagshópi. Þá vísar kærandi til handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem segi um 33. gr. flóttamannasamningsins að draga megi þá ályktun að sé lífi eða frelsi ógnað vegna kynþáttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða fyrir að tilheyra ákveðnum félagsmálaflokki séu ávallt um að ræða ofsóknir. Kærandi byggir á því að vegna stöðu sinnar sem [...] í [...] sæti hann ofsóknum á grundvelli þjóðernis og trúarskoðana, sbr. b og c-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Ljóst sé að kærandi sé í miklum minnihluta í heimaríki þar sem hann sé [...] en flestir landsmenn [...]. Með hliðsjón af framangreindu byggi kærandi á því að hann sé þolandi ofsókna og eigi hættu á ofsóknum trúar sinnar vegna verði hann sendur til heimaríkis. Þá vísar kærandi til c-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að með hugtakinu þjóðerni skv. 37. gr. sömu laga sé m.a. átt við þá sem tilheyri tilteknum kynþætti eða tilteknum hópi fólks sem tali sama tungumál eða hafi sameiginlega menningarlega sjálfsmynd, sameiginlegan uppruna, bæði landfræðilegan eða pólitískan, eða hóp sem skilgreindur sé út frá tengslum við hóp fólks á landsvæði annars ríkis. Kærandi sé af [...] uppruna og byggi á því að hann falli innan skilgreiningarinnar á ofsóknum vegna þjóðernis. Þá hafi hann mótmælt framkomu [...] stjórnvalda við [...] borgara opinberlega og sé þ.a.l. berskjaldaður gagnvart stjórnvöldum. Þá hafi hann lýst ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir af hálfu [...] stjórnvalda eða aðila á þeirra vegum sem hafi leitt til þess að hann hafi slasast og hafi þurft að undirgangast [...]. Með vísan til frásagnar kæranda og framangreindra heimilda um ástand mannréttindamála í [...] telji kærandi sannað að ótti hans við ofsóknir sé ástæðuríkur. Því sé kærandi flóttamaður samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og beri að veita honum alþjóðlega vernd á Íslandi. Þá beri að veita eiginkonu hans vernd á grundvelli 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.

Fyrir liggi að aðilar sem hafi ofsótt kæranda séu lögreglumenn, aðilar leyniþjónustunnar og handhafar opinbers valds sem falli undir a-lið 37. gr. laga um útlendinga. Enn fremur geti kærandi ekki leitað aðstoðar annarra stjórnvalda þar sem [...] stjórnvöld hafi horn í síðu [...] og hafi lengi reynt að koma í veg fyrir að þeir geti haldið trúarhátíð sína hátíðlega. Yfirvöld noti hátíðina sem átyllu til að saka hópinn um óeirðir og mótmæli. Kærandi hafi fengið upplýsingar um að lögreglan og leyniþjónustan hafi leitað hans á heimili hans og sé því ljóst að hann sé á lista stjórnvalda og eigi af þeim sökum ekki afturkvæmt. Enn síður eigi hann afturkvæmt ef upplýsingar og myndir frá framangreindum mótmælum berist til heimaríkis hans. Eigi hann á hættu að verða tekinn af lífi vegna aðildar hans að slíkum friðsælum mótmælum þrátt fyrir að tilgangur þeirra sé einungis að vekja athygli á mannréttindabrotum sem [...] verði fyrir í [...]. Beri því að leggja til grundvallar að ríkið geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd og beri íslenskum stjórnvöldum að veita honum alþjóðlega vernd og eiginkonu hans dvalarleyfi í samræmi við framkomnar kröfur.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda er fjallað um sögu ákvæðisins í íslenskum lögum og vísar kærandi til lögskýringargagna máli sínu til stuðnings. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Þá fjallar kærandi jafnframt um hugtökin ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð. Kærandi hafi sætt ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í samræmi við þær skilgreiningar. Samkvæmt því uppfylli hann 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og beri íslenskum stjórnvöldum því að veita honum vernd í samræmi við framangreint ákvæði.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli ef útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða landi sem honum yrði vísað til. Í þeim tilvikum megi líta til almennra mannúðarsjónarmiða þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. laga um útlendinga séu ekki uppfyllt. Í athugasemdum við 74. gr. laga um útlendinga í frumvarpi því sem varð að lögunum komi fram að með alvarlegum aðstæðum í heimaríki sé oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi hafi ítrekað sætt meðferð sem talist geti til ómannúðlegrar og vanvirðandi af hálfu opinberra aðila og eigi ekki afturkvæmt til heimaríkis þar sem hann sé á svörtum lista [...] yfirvalda. Þá hafi kærandi verið þolandi viðvarandi mannréttinda- og ofbeldisbrota sem yfirvöld verndi hann ekki gegn. Kærandi sé enn að glíma við afleiðingar misþyrminganna sem hann hafi orðið fyrir af hálfu leyniþjónustunnar og hafi þurft að undirgangast aðgerð. Enn fremur hafi hann tekið þátt í mótmælum og óttist þær afleiðingar sem þátttakan gæti haft í för með sér verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Að sögn kæranda séu [...] sem taki þátt í mótmælum eða stjórnmálaumræðu hengdir í [...] öðrum til viðvörunar. Samkvæmt framangreindu uppfylli kærandi skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð fjallar kærandi um möguleika á flutningi innanlands en þar kemur fram að við slíkt mat verði annars vegar að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hins vegar hvort slík krafa sé sanngjörn. Almennt séu ekki forsendur til að skoða möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti getu eða vilja til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Þá fjallar kærandi um athugasemdir með 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga máli sínu til stuðnings. Kærandi sé eins og áður segir ofsóttur af yfirvöldum í [...]. Stjórnvöld séu því völd að ofsóknunum og skuli því gengið út frá því að kærandi eigi ekki möguleika á raunverulegri vernd í neinum hluta [...]. Krafa um flutning innanlands sé því hvorki viðeigandi né sanngjörn krafa á hendur kæranda og beri íslenskum stjórnvöldum að veita honum alþjóðlega vernd.

Kærandi lagði fram viðbót við greinargerð þann 31. maí 2018 ásamt fylgigögnum sem hann kveðst hafa fengið send frá lögfræðingi í [...]. Gögnin séu annars vegar persónuskilríki hans frá heimaríki og dómkvaðning sem hafi borist á heimili hans. Kvaðst kærandi ekki vita nákvæmlega hvers eðlis hún sé en hún sé vegna þátttöku hans í ætluðum mótmælum á [...] hátíðarhöldunum [...]. Kærandi hafi fengið þrjár til fjórar slíkar kvaðningar vegna sama máls. Þá hafi hann fengið fangelsisdóm í heimaríki sem hann telji vera vegna aðildar hans að hátíðarhöldunum eða stjórnmálaþátttöku. Kærandi kvað hátíðarhöldin ekki hafa verið mótmæli en ýmis slagorð [...] hafi verið kölluð á samkomunni. Kærandi kvað erfitt að nálgast gögn varðandi mál hans en lögfræðingur í heimaríki hans hafi tjáð honum að ekki sé hægt að senda gögnin með pósti þar sem allur póstur sé skoðaður og einnig hvert sendingar fari sem geti skapað hættu. Þá vilji enginn annar aðstoða hann við að afla framangreindra gagna vegna ótta við yfirvöld. Kemur fram að þetta snúi einkum að þátttöku kæranda í [...], en kærandi sé að reyna að afla gagna vegna aðildar hans að [...]. Kærandi kvað þessar upplýsingar ekki hafa komið fram við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun þar sem hann hafi ekki treyst túlkinum sem hafi verið viðstaddur. Kvað hann fólk sem búi hér á landi ekki skilja vel þann menningarheim sem [...] búi í en þar séu allir á móti öllum og ekki hægt að treysta neinum. Hann kvaðst hafa óttast mjög að upplýsingar um stjórnmálaþátttöku hans í [...] færu lengra og fréttust ef hann hefði tjáð sig um hana í nefndu viðtali. Hann hafi því ekki þorað að segja allt sem hann vildi segja.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna á sér deili og hafi því verið leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Var það mat Útlendingastofnunar að teknu tilliti til trúverðugs framburðar kæranda og þess að hann tali [...] að kærandi hefði leitt líkur að því að hann sé frá [...]. Þann 31. maí 2018 skilaði kærandi inn afriti af kenniskírteini til kærunefndar. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að taka undir mat Útlendingastofnunar og leggur því til grundvallar að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]

[...]

Í ofangreindum gögnum kemur fram að í [...] séu margir þjóðernishópar sem séu þó ekki viðurkenndir sem slíkir í [...] lögum. Margir minnihlutahópanna hafi aðlagast vel og séu hluti af [...] samfélagi. [...] verði fyrir mismunun vegna þjóðernis, trúar og tungumáls í [...]. Í ofangreindri skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins frá [...] kemur fram að [...] telji sig verða fyrir mismunun á vinnumarkaði og séu sífellt að berjast fyrir því að tungumál þeirra fái stærri sess í [...]. Þá kemur fram í skýrslu Amnesty International frá febrúar 2018 að meðlimir minnihlutahópa sem hafi vakið athygli á mannréttindabrotum í sinn garð hafi orðið fyrir handahófskenndum handtökum, pyndingum, illri meðferð, ósanngjörnum réttarhöldum, verið fangelsaðir og dæmdir til dauða. Leyniþjónustan og öryggissveitir ríkisins saki aðgerðarsinna úr minnihlutahópum oft um að styðja [...]sem sé ógn við ríkið og landsvæði þess. Þá hafi nokkrir [...] verið líflátnir fyrir brot gegn þjóðaröryggi og séu fjöldi [...] samtaka bönnuð í [...].

Í skýrslunum kemur jafnframt fram að stærstu stjórnmálahreyfingar [...] séu [...] en þær geti ekki starfað í ríkinu vegna framangreinds banns stjórnvalda. Nærri ómögulegt sé fyrir [...] stjórnmálahreyfingar að taka þátt í stjórnmálum í [...] þar sem flestir [...] flokkanna séu taldir vera aðskilnaðar- eða hryðjuverkasamtök og þ.a.l. bannaðir af [...] yfirvöldum. Það eitt að vera grunaður um að vera meðlimur þessara flokka geti leitt til langra fangelsisdóma. Margir [...] séu þolendur pólitískra ofsókna og þurfi að sæta ítrekuðum ásökunum um hryðjuverk, þá sérstaklega ætlaðir stuðningsmenn [...], og fái síðan oft óhóflegar refsingar.

Í ofangreindum skýrslum, m.a. skýrslu Amnesty International, kemur fram að [...] verði oft fyrir ofbeldi af hálfu landamæravarða á landamærum [...]. [...] landamæraverðir skjóti óvopnaða [...] menn sem [...]. Í [...] hafi brotist út mótmæli á tveimur stöðum í [...] vegna morða landamæravarða á [...]. Hafi mótmælin verið brotin á bak aftur af öryggissveitum með ofbeldi og leitt til handtöku á rúmlega tylft mótmælenda. Þá hafi verið mikill viðbúnaður lögreglu í [...] á sama tíma í fyrra vegna samkomu meðlima [...] minnihlutans í [...] til stuðnings þjóðaratkvæðagreiðslu [...]. Fjöldi manns hafi verið handtekinn. Jafnframt kemur fram í gögnum að í [...] hafi [...] á [...] horfið og liggi stjórnvöld undir grun. Þá hafi óeinkennisklæddir starfsmenn [...] ríkisins handsamað fjölmiðlamenn og aðgerðasinna og hafi ríkið neitað að gefa upp upplýsingar um varðhald þeirra eða hagi þeirra að öðru leyti.

Í ofangreindri skýrslu danskra útlendingayfirvalda frá árinu [...] kemur fram að yfirvöld skipti sér af menningarviðburðum á [...] en það sé erfitt að meta hvenær yfirvöld fari yfir línuna og grípi til beinna aðgerða en það fari eftir tímasetningu og eðli viðburðarins. Aðrir viðburðir sem séu sagðir [...] mæti tortryggni yfirvalda. Þó sé [...] heimilt að fagna menningarviðburðum á borð við hátíðarhöld vegna [...] en það geti verið vandkvæðum bundið ef viðburðirnir verði pólitískir. Sem dæmi megi nefna að yfirvöld hafi oft afskipti af hátíðarhöldum ef þátttakendur beri pólitísk tákn eða hrópi [...] slagorð.

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku leyniþjónustunni séu um 99,4 % [...] þjóðarinnar [...] og séu þar af um [...]. Þá komi líkt og áður segir fram að flestir [...] séu [...]. Í stjórnarskránni séu aðeins viðurkenndir [...] trúarlegir minnihlutahópar, þ.e. [...] og sé þessum trúfélögum nokkurn veginn frjálst að iðka trú sína. Ríkið áreiti [...] sem þeir telji vera á skjön við hugmyndafræði ríkisins og túlkun þess á [...]. [...] hafi kvartað yfir því að þeim hafi verið meinað að byggja [...] í stærri borgum landsins og eigi í vandræðum með að fá störf hjá ríkinu. Þeim sé ekki beinlínis bannað að starfa fyrir ríkið en lögin geri ráð fyrir að starfsmenn [...] og þeim sé þar af leiðandi gert erfitt fyrir að starfa á ákveðnum sviðum.

Samkvæmt skýrslu Freedom House frá maí 2018 standi [...] ríkisborgarar frammi fyrir hömlum á opinni og frjálsri umræðu þar sem skilgreiningar laga um takmarkanir á tjáningarfrelsinu séu óljósar, refsingar þungar og ríkið hafi eftirlit með rafrænum samskiptum auk annarra þátta. Þrátt fyrir áhættuna og framangreindar takmarkanir tjái margir íbúar sig á samfélagsmiðlum sem geti haft í för með sér að ríkið loki ákveðnum umræðuvettvangi. Samkvæmt skýrslu danskra útlendingayfirvalda geta pólitískar aðgerðir [...] í Evrópu, t.a.m. gagnrýni á takmarkanir á stjórnmálalegu frelsi í [...] á vefmiðlum eða öðrum vettvangi, haft afleiðingar í för með sér fyrir viðkomandi við endurkomu til [...] en að afleiðingarnar séu misalvarlegar eftir eðli og efni aðgerðanna. Í stjórnarskrá [...] kemur fram að það megi halda almenn mótmæli ef þau ógni ekki [...] grunngildum. Samkvæmt gögnum sé raunveruleikinn þó sá að mótmæli sem ekki eru samþykkt fyrir fram af ríkinu hafi á undanförnum árum verið leyst upp með valdi af öryggissveitum ríkisins sem handtaki mótmælendur og setji þá í varðhald. Sem dæmi hafi stór mótmæli átt sér stað [...] þar sem þegnar landsins hafi krafist frelsis og fullnægjandi lífskjara og hafi fjöldi fólks verið sett í varðhald, tugir mótmælenda látið lífið og hafi yfirvöld takmarkað aðgang að samfélagsmiðlum sem notaðir hafi verið til þess að dreifa upplýsingum um mótmælin. Hins vegar hafi átt sér stað skipulögð samkoma til stuðnings ríkisstjórninni [...] og hafi ríkisfjölmiðlar verið með beina útsendingu frá þeirri samkomu.

Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hvöttu þann [...] til að virða mannréttindi íbúa landsins í tengslum við mótmælin gegn yfirvöldum. Í tilkynningunni frá stofnuninni kemur fram að fjórir fulltrúar Sameinuðu þjóðanna á svæðinu hafi lýst yfir miklum áhyggjum vegna mannfalls í mótmælunum en rúmlega 20 manns, þ.m.t. börn, hafi látið lífið og fjöldi manns verið handteknir um land allt. [...] stjórnvöld hafi tekið harkalega á mótmælendum og hafi innlend mannréttindasamtök lýst yfir áhyggjum af örlögum þeirra sem hafi verið handteknir. Þá hafi [...] yfirvöld verið hvött til að gefa út lista með nöfnum þeirra sem hafi verið hnepptir í varðhald og leyfa þeim að hafa samband við fjölskyldur sínar og leita sér lögfræðiaðstoðar. Þá hafi stjórnvöld lokað fyrir farsímanet og þar með fyrir spjallforrit og samfélagsmiðla á borð við Instagram í þeim tilgangi að kæfa niður mótmælin. Á sumum svæðum hafi verið lokað fyrir allt internet. Þá hafi [...] stjórnvöld ekki sýnt neina viðleitni til þess að mæta kröfum mótmælenda. Að lokum beindi stofnunin því til [...] stjórnvalda að grípa til aðgerða til þess að tryggja rétt allra íbúa landsins til friðsamlegra mótmæla og tjáningarfrelsis og sjá til þess að íbúar landsins geti nýtt þessi réttindi sín auk annarra grundvallarmannréttinda án þess að mæta ofbeldi og koma þannig í veg fyrir frekara mannfall.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kæranda er byggð á því að hann verði fyrir ofsóknum af hálfu yfirvalda í heimaríki vegna stjórnmálaskoðana sinna, þátttöku í stjórnmálastarfi og á grundvelli þess að hann tilheyri minnihlutahópi [...]. Þá eigi hann yfir höfði sér fangelsisdóm í heimaríki vegna þátttöku í mótmælum gegn yfirvöldum.

Í viðtali hjá kærunefnd og í viðbótargreinargerð sem kærandi lagði fram við meðferð málsins kom fram að kærandi sé meðlimur [...]. Kærandi hafi verið [...] á [...]og hafi hlutverk hans innan flokksins verið að aðstoða meðlimi flokksins m.a. með því að fæða þá og sýna þeim [...]. Kærandi kvaðst ekki hafa treyst sér til þess að greina frá hollustu sinni við flokkinn í viðtali hjá Útlendingastofnun þar sem hann hafi ekki treyst túlknum sem hafi verið viðstaddur en hann hafi greint talsmanni sínum frá þátttökunni að viðtali loknu. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi tekið þátt í [...] hátíðinni [...] þar sem hann hafi m.a. hrópað [...] slagorð. Yfirvöld hafi talið viðburðinn vera mótmæli gagnvart stjórnvöldum og leyst samkomuna upp með valdi. Kærandi hafi orðið fyrir árás af hálfu lögreglunnar sem hafi veitt honum [...]. Í kjölfar árásarinnar hafi kærandi farið í felur og hafi honum borist fregnir af því frá ættingjum sínum að hans væri leitað af yfirvöldum. Kærandi hafi flúið til höfuðborgar [...] og þaðan til [...] þar sem hann hafi þurft að undirgangast [...] vegna framangreindrar árásar. Kæranda hafi síðan borist, í gegnum lögfræðing sinn í heimaríki, dómkvaðningar vegna ásakana um þátttöku í mótmælum og áróður gegn yfirvöldum. Á meðan flótta kæranda stóð hafi hann verið dæmdur til 30 ára fangelsisvistar í heimaríki fyrir að brjóta gegn þjóðaröryggi ríkisins með þátttöku í mótmælum og samkomum gegn [...] stjórnvöldum. Þá hafi kærandi verið virkur við að mótmæla [...] yfirvöldum ásamt eiginkonu sinni eftir komuna hingað til lands. Við meðferð málsins lagði kærandi fram myndir af sér á sjúkrahúsi [...] og samskiptaseðla og læknisvottorð frá Göngudeild sóttvarna, dags. 24. ágúst 2017 til 26. júlí 2018. Kærandi lagði einnig fram myndir ásamt myndskeiði af sér og eiginkonu sinni að mótmæla á [...], t.a.m. [...] stjórnvöldum. Þá lagði kærandi jafnframt fram mynd af [...] kenniskírteini ásamt afritum af dómkvaðningum og dómi frá [...] yfirvöldum þess efnis að hann eigi yfir höfði sér 30 ára fangelsisdóm þar í landi.

Kærandi hefur lýst ástæðum flótta í viðtölum hjá stjórnvöldum, bæði Útlendingastofnun og hjá kærunefnd útlendingamála. Frásögn kæranda hjá kærunefnd var stöðug og í samræmi við það sem fram kom í greinargerð og viðbótargreinargerð kæranda auk þess sem kom fram í viðtali hjá Útlendingastofnun, að frásögn hans um þátttöku sína í [...] undanskilinni. Er það mat kærunefndar að skýringar kæranda á framangreindu misræmi séu trúverðugar. Hann hefur jafnframt lagt fram ýmis gögn til stuðnings frásögn sinni, m.a. læknisvottorð dags. 26. júlí sl. um að hann hafi [...] sem samræmist [...]. Frásögn kæranda fær stoð í þeim gögnum sem hann hefur lagt fram, svo sem afritum af dómskjölum frá heimaríki þar sem kærandi er sakaður um og dæmdur fyrir þátttöku í mótmælum gegn stjórnvöldum. Þá er frásögnin samrýmanleg þeim gögnum sem kærunefndin hefur farið yfir og varða aðstæður í heimaríki kæranda, svo sem takmarkanir [...] stjórnvalda á tjáningar- og fundafrelsi og stöðu [...] í ríkinu. Þá telur kærunefnd að gögnin sýni fram á að þeir sem taki þátt í opinberri gagnrýni á stjórnvöld eða jafnvel í samkomum sem geti verið túlkaðar sem slíkar geti átt á hættu ofsóknir í [...]. Kærunefnd telur þó að mótmæli kæranda á [...] hafi ekki þýðingu fyrir þetta mál enda hefur ekki verið sýnt fram á að líkur séu á að [...] yfirvöld fái fregnir af þessum mótmælum og hlut kæranda í þeim.

Kærunefnd telur, með hliðsjón af framburði kæranda sem fær stuðning í gögnum málsins, að kærandi hafi á rökstuddan hátt leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana í heimaríki sínu, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Þó svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi sýnt fram á ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum á því landsvæði sem hann býr, er heimilt að synja umsókn um alþjóðlega vernd ef umsækjandi getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um slíkan innri flutning, Guidelines on International Protection: “Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context of Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees (UNHCR, 23. júlí 2003) er almennt ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingur flytji sig um set innan síns heimaríkis til að draga úr hættu á ofsóknum þegar aðilinn sem valdur er að ofsóknum er á vegum stjórnvalda. Í athugasemdum við 4. mgr. 37. gr. frumvarps til laga um útlendinga koma fram sambærileg sjónarmið. Kærunefnd telur því að flutningur innan [...] sé ekki raunhæf lausn á máli kæranda þar sem það séu aðgerðir og afstaða stjórnvalda sem valdi því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður hér á landi.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi þess að kærunefnd útlendingamála hefur fallist á aðalkröfu kæranda verða varakrafa og þrautavarakrafa kæranda ekki teknar til umfjöllunar í máli þessu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                 Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira