Hoppa yfir valmynd

Nr. 333/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 16. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 333/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22060054

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 28. júní 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela og Líbanon (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. júní 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að lokum er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi til meðferðar á ný á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 24 nóvember 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun, m.a. 4 janúar 2022, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 7. júní 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 28. júní 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum 12. júlí 2022.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í Líbanon vegna þess að hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi þar og vegna almenns ástands þar í landi. Þá byggi kærandi umsókn sína á því að hann sé í hættu í Venesúela vegna almenns ástands þar í landi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkja ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að flótta kæranda frá heimaríki sínu, Venesúela, megi rekja til vopnaðra rána og árásar sem hann hafi orðið fyrir á veitingarstaðnum sínum. Kærandi hafi ekki leitað til lögreglu vegna framangreinds þar sem lögreglan í Venesúela krefjist mútugreiðslna og aðhafist ekkert í svona málum. Þá hafi frændi kæranda verið drepinn eftir að hann leitaði til lögreglu vegna ráns. Í kjölfar framangreinds hafi kærandi ákveðið að selja veitingarstaðinn sinn og flýja til Líbanon til að hitta eiginkonu sína og börn. Kærandi hafi heimild til dvalar í Líbanon og réttindi þar í landi sem líkja megi við ríkisborgararétt. Sé það vegna þess að afi kæranda hafi skráð fæðingarstað hans í Líbanon en raunverulegur fæðingarstaður hans sé í Venesúela. Þá hafi afi kæranda skráð rangan fæðingardag og hafi kærandi lent í vandræðum af þeim sökum, t.a.m. hafi kærandi ekki getað fengið hjúskaparvottorð sitt staðfest fyrir yfirvöldum í Venesúela.

Fram kemur að aðstæður kæranda og fjölskyldu hans í Líbanon séu ekki góðar. Kærandi hafi ekki getað fundið sér vinnu og erfiðlega hafi gengið að sjá þeim farborða. Þá hafi hann ekki mikla tengingu við landið og tali ekki arabísku. Fjölskylda kæranda sé einungis búsett í Líbanon vegna slæms ástands í Venesúela og vegna þess að hann hafi ekki getað fengið hjúskap þeirra skráðan gildan í Venesúela. Aðgengi að rafmagni í Líbanon sé af skornum skammti, engin heilbrigðisþjónusta í boði og börn hans hafi ekki getað sótt skóla. Þá hafi kærandi orðið fyrir fordómum í Líbanon vegna venesúelsks uppruna síns auk þess sem hann óttist að búa í landinu vegna trúarbragða sinna, en hann sé drúsi og tilheyri því minnihlutahópi. Um heimildir er varða ástand öryggis- og mannréttinda í Venesúela og Líbanon vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar.

Kærandi gerir margvíslegar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Til að mynda gerir kærandi athugasemd við niðurstöðu trúverðugleikamats Útlendingastofnunar um að framburður kæranda um stöðu hans í Líbanon hafi verið metinn ótrúverðugur. Þá gerir kærandi athugasemd við umfjöllun Útlendingastofnunar og túlkun á líbönskum lögum um ríkisborgarétt. Kærandi telur að heimildir og líbönsk lög styðji framburð kæranda um að hann sé ekki með líbanskan ríkisborgararétt. Þá áréttar kærandi að ekki hafi tekist að staðfesta líbanskt ríkisfang hans hjá líbönskum yfirvöldum.

Aðalkrafa kæranda er byggð á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í Líbanon. Annars vegar vegna trúarbragða, en hann tilheyri minnihlutahópi Drúsa, og hins vegar vegna venesúelsks uppruna hans. Þá er krafan byggð á því að kærandi tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi í Venesúela sem stafi ógn af glæpagengjum og geti ekki leitað verndar lögregluyfirvalda.

Varakrafa kæranda er byggð á því að kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð bæði í Venesúela og Líbanon. Útlendingastofnun hafi réttilega komist að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi rétt á viðbótarvernd vegna almenns ástands í Venesúela. Þá beri landaupplýsingar með sér að ástandið í Líbanon sé mjög óöruggt og að miklar óeirðir hafi brotist út í kjölfar gríðarlega íþyngjandi takmarkana vegna Covid-19 faraldursins.

Þrautavarakrafa kæranda er, með vísan til framangreinds, byggð á því að kærandi hafi ríka þörf fyrir vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vegna erfiðra félagslegra aðstæðna hans og erfiðra almennra aðstæðna í Venesúela og Líbanon.

Þrautaþrautavarakrafa kæranda er byggð á því að mál hans hafi ekki verið upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og að Útlendingastofnun hafi ekki aflað nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Alþjóðadeild lögreglunnar á Íslandi hafi tjáð Útlendingastofnun að þeim væri ekki heimilt að hafa samband við líbönsk yfirvöld í gegnum Interpol nema grunur léki á um að saknæmt athæfi tengdist kæranda. Af þeirri ástæðu hafi Útlendingastofnun ákveðið að leysa yrði úr ríkisfangi kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Kærandi gerir athugasemdir við framangreinda málsmeðferð og telur að Útlendingastofnun hafi verið fleiri vegir færir til að hafa samband við líbönsk yfirvöld og kanna réttarstöðu kæranda þar í landi.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Samkvæmt gögnum málsins sóttu foreldrar kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi 9. nóvember 2021. Með tölvubréfi, dags. 25. ágúst 2022, óskaði kærunefnd eftir gögnum í málum þeirra, þ. á m. viðtölum og ákvörðunum Útlendingastofnunar, og bárust umbeðin gögn sama dag. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum þeirra, dags. 30. mars 2022, kemur fram að stofnunin hafi lagt til grundvallar frásögn föður kæranda um að hann sé einungis með venesúelskt ríkisfang. Þá hafi stofnunin lagt til grundvallar að móðir kæranda sé með tvöfalt ríkisfang, þ.e. frá Venesúela og Sýrlandi.

Eftir skoðun umbeðinna gagna var það mat kærunefndar að mál kæranda væri sambærilegt málum foreldra sinna. Óskaði kærunefnd því eftir skýringum á því frá Útlendingastofnun hvaða ástæður lægju að baki annarri niðurstöðu í máli kæranda, þ. á m. hvað varðar ríkisfang, og hvernig stofnunin telji að að sú niðurstaða samræmist 11. gr. stjórnsýslulaga. Í svörum Útlendingastofnunar, dags. 26. ágúst 2022, kemur fram að stofnunin telji að ekki sé um sambærileg mál að ræða og samræmist niðurstaðan í máli kæranda því 11. gr. stjórnsýslulaga. Litið hafi verið til frásagnar kæranda og framlagðra gagna sem hafi verið gefin út af innanríkisráðuneyti Líbanon. Að öðru leyti vísaði Útlendingastofnun til rökstuðnings í ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda, dags. 7. júní 2022, kemur fram að kærandi hafi greint frá því að hann væri með dvalarleyfi í Líbanon og réttindi sem jafngiltu ríkisborgararétti. Kærandi hafi veitt samþykki fyrir því að Útlendingastofnun hefði samband við líbönsk stjórnvöld til þess að kanna réttarstöðu hans í Líbanon. Fulltrúi Útlendingastofnunar hafi haft samband við alþjóðadeild lögreglu og hafi honum verið tjáð að lögregla hefði ekki heimild til þess að hafa samband við líbönsk yfirvöld í gegnum Interpol nema grunur væri um að saknæmt athæfi tengdist kæranda. Af þeirri ástæðu hafi Útlendingastofnun leyst úr ríkisfangi kæranda í gegnum trúverðugleikamat. Að mati Útlendingastofnunar hafi framburður kæranda um stöðu hans í Líbanon verið óskýr og misvísandi. Þá hafi misræmis gætt í frásögn kæranda á milli viðtala og innan þeirra. Framburður kæranda um að hann njóti ekki ríkisborgararéttar eða viti ekki rétt sinn í Líbanon hafi því verið metinn ótrúverðugur.

Fram kemur að kærandi hafi lagt fram tvö vottorð, útgefin af innanríkisráðuneyti Líbanon, sem hafi, að mati Útlendingastofnunar, leitt að því líkur að hann hafi heimild til dvalar í Líbanon og sé með ríkisborgararétt þar í landi. Þá hafi skoðun Útlendingastofnunar á löggjöf um líbanskan ríkisborgararétt leitt það í ljós að hver sá einstaklingur sem á föður með líbanskt ríkisfang teljist vera Líbani. Kærandi hafi greint frá því að synir hans séu líbanskir ríkisborgarar og framvísað skírteinum því til stuðnings. Þegar af þeirri ástæðu þyki ljóst að kærandi sé með líbanskt ríkisfang. Með hliðsjón af framangreindu hafi Útlendingastofnun lagt til grundvallar að kærandi væri með tvöfalt ríkisfang, þ.e. frá Venesúela og Líbanon.

Að virtum gögnum málsins, þ. á m. niðurstöðu Útlendingastofnunar um ríkisfang föður kæranda og umfjöllun stofnunarinnar um að í Líbanon erfist ríkisborgararéttur frá föður til barns, telur kærunefnd að vafi sé uppi um hvort kærandi sé með líbanskt ríkisfang. Þar sem að í umsókn um alþjóðlega vernd felst fyrst og fremst ósk um vernd vegna aðstæðna í heimaríki aðila er ljóst að mál telst ekki fyllilega rannsakað sé enn óljóst hvort að umsækjandi sé með ríkisfang í einu eða fleiri ríkjum. Útlendingastofnun var ekki fært að komast að niðurstöðu í máli kæranda þegar ákvörðun hennar var tekin í ljósi takmarkaðrar rannsóknar. Stofnuninni bar að rannsaka ríkisfang kæranda með ítarlegri hætti, t.a.m. með því að hafa samband við líbönsk yfirvöld. Mögulegt er að senda slíkar upplýsingabeiðnir með öðrum hætti en í gegnum alþjóðadeild lögreglu, þ. á m. með aðstoð utanríkisþjónustunnar, og hefur kærandi veitt samþykki sitt fyrir því.

Markmið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga er að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda verði bæði löglegar og réttar. Kærunefnd telur að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                              Sindri M. Stephensen

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum