Hoppa yfir valmynd

Nr. 376/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 22. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 376/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22080007

 

Beiðni um endurupptöku í máli [...]

 

 1. Málsatvik

  Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í nr. 645/2021, dags. 9. desember 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. október 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 13. desember 2021. Hinn 20. desember 2021 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 4. janúar 2022, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa synjað.

  Hinn 5. ágúst 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun 10. ágúst 2022. Þá bárust athugasemdir frá kæranda 16. ágúst 2022.

  Beiðni kæranda um endurupptöku er reist á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 2. Málsástæður og rök kæranda

  Beiðni kæranda um endurupptöku málsins byggir á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á hans ábyrgð. Með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli umsókn kæranda því tekin til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar til þess að samkvæmt stjórnsýsluframkvæmd hafi afgreiðsla umsókna í skilningi framangreinds ákvæðis miðast við umsóknardag annars vegar og hins vegar þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda sé framkvæmd með flutningi til viðtökuríkis. Þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir og kærandi sé enn á landinu telur hann að stjórnvöldum sé skylt að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar hér á landi.

 3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi 30. júlí 2021 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 30. júlí 2022. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Hinn 9. ágúst 2022 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í svari Útlendingastofnunar, dags. 10. ágúst 2022, kemur fram að kærandi hafi ekkert aðhafst sem væri til þess var fallið að tefja mál hans hjá stofnuninni.

Í svari stoðdeildar, dags. 10. ágúst 2022, kemur fram að fyrstu afskipti stoðdeildar af kæranda hafi verið 28. janúar 2022 en þá hafi stoðdeild reynt að ná í hann í síma en hann hafi ekki svarað. Ætlun stoðdeildar hafi verið að kynna fyrir honum samvinnuskjal stoðdeildar. Hinn 1. febrúar 2022 hafi stoðdeild farið í búsetuúrræði kæranda og birt fyrir honum skjal varðandi tilkynningu um frávísun frá Íslandi. Skjalið hafi innihaldið afstöðumöguleika fyrir kæranda gagnvart ákvörðuninni. Kærandi hafi neitað að skrifa undir og merkja við viðeigandi reit en hann hafi greint frá því að skilja innihald skjalsins. Kærandi hafi óskað eftir að fá að ræða við lögmann sinn varðandi þessa ákvörðun. Kærandi hafi tekið upp síma og hringt í lögmann sinn á meðan stoðdeild var í búsetuúrræði hans. Kæranda hafi verið afhent afrit af skjalinu sem hann hafi ætlað að færa lögmanni sínum. Aðspurður um hvort kærandi vildi tjá sig um vilja sinn um að yfirgefa landið þá hafi hann greint frá því að hann ætlaði ekki að fara af landinu. Frekari afskipti hefði stoðdeild ekki haft af kæranda.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 11. ágúst 2022, var kærandi upplýstur um afstöðu stoðdeildar og honum gefinn frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Andmæli kæranda bárust kærunefnd 16. ágúst 2022. Þar kemur fram að í svari stoðdeildar sé engin umfjöllun um raunverulegar aðgerðir eða undirbúning fyrir flutning kæranda. Allt að einu virðist stoðdeild byggja á því að kærandi hafi tafið mál sitt og ekki sýnt samstarfsvilja, án þess að það sé rökstutt sérstaklega hvenær og með hvaða hætti. Margir mánuðir hafi liðið frá fundi stoðdeildar með kæranda þar til hann var tekinn úr framkvæmd hjá stoðdeild. Af svörum stoðdeildar sé ekki hægt að greina hvers vegna það hafi ekki verið hægt að undirbúa flutning í millitíðinni. Kærandi mótmæli því að hann hafi með einhverjum hætti tafið mál sitt. Þá hafi alltaf verið hægt að ná sambandi við kæranda. Kærandi eigi að baki langa áfallasögu og af þeim sökum hafi hann beðið stoðdeild um að beina öllum samskiptum vegna málsins til lögmanns hans. Allt að einu hafi beiðni hans verið virt að vettugi þrátt fyrir að stoðdeild hafi mátt vita af hagsmunagæslu hans. Þá vísar kærandi til þess að í svari stoðdeildar hafi komið fram að síðast hafi verið reynt að hafa samband við kæranda 1. febrúar 2022, þ.e. 55 dögum eftir dagsetningu úrskurðar kærunefndar. Kærandi vísar til þess að engin gögn liggi fyrir um hvort stoðdeild hafi verið búin að undirbúa flutning, t.d. með því að bóka flugmiða eða útbúa ferðaskilríki. Þannig virðist eina tilraun stoðdeildar felast í því að ræða með almennum hætti við kæranda um hugsanlega brottvísun, en af gögnum málsins megi ráða að engar frekari aðgerðir hafi verið fyrirhugaðar til þess að undirbúa flutning, þrátt fyrir að nú séu 197 dagar liðnir síðan stoðdeild reyndi síðast að ræða við kæranda. Aðgerðir stoðdeildar og framkvæmdin sé því ómarkviss. Að mati kæranda standist það ekki skoðun að fresta framkvæmd ákvörðunar úr hófi enda sé það verulega íþyngjandi fyrir kæranda að bíða alla þessa mánuði eftir skilaboðum frá lögreglu um framkvæmd og flutning. Ekkert í málinu gefi til kynna að kærandi hafi tafið málið með nokkrum hætti en hann hafi aldrei falið sig eða reynt að koma sér undan stjórnvöldum. Þá hafi kærandi ávallt svarað öllum skilaboðum frá stoðdeild með tímanlegum hætti. Þannig standist það ekki skoðun að líta svo á að kærandi hafi tafið mál sitt með því að óska eftir aðstoð lögmanns í samskiptum við stoðdeild. Þá sé heldur ekki búið að leggja fram undirritað tilkynningarblað í tengslum við hinn fyrirhugaða brottflutning. Kærandi telur að stoðdeild beri skylda til að tryggja sönnun um slíka tilkynningu og að það brjóti gegn góðum stjórnsýsluháttum að treysta eingöngu á frásögn stoðdeildar um birtingu. Í þessu sambandi vísar kærandi til þess að kærunefnd hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að yfirlýsing þess efnis að vilja ekki undirgangast Covid-19 sýnatöku eða snúa aftur til viðtökuríkis geti ekki eitt og sér talist vera töf á afgreiðslu málsins. Kærandi vísar til úrskurða kærunefndar málum nr. KNU21070020 frá 26. ágúst 2021 og KNU21080008 frá 22. september 2021 og telur málin sambærileg.

Líkt og að framan greinir sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 30. júlí 2021. Þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra hitti kæranda 1. febrúar 2022 var því fullnægjandi tími til þess að framkvæma flutning á kæranda til viðtökuríkis áður en 12 mánaða fresturinn sem áskilinn er í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga rann út. Stoðdeild hitti kæranda til þess að kanna afstöðu hans til flutnings til viðtökuríkis. Á umræddum fundi var birt fyrir kæranda skjal varðandi tilkynningu um frávísun frá Íslandi. Kærandi hafi neitað að skrifa undir skjalið og merkja í viðeigandi reiti. Kærandi hafi greint frá því að skilja innihald skjalsins. Kærandi hafi hringt í lögmann sinn á umræddum fundi og stoðdeild svo afhent honum afrit skjalsins. Kærandi hafi greint frá því að hann ætlaði ekki að fara af landinu. Að mati kærunefndar er því ljóst að það sem komið hafi í veg fyrir framkvæmd á flutningi kæranda til viðtökuríkis innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, hafi verið skortur á samstarfsvilja hans en stoðdeild veitti kæranda kost á að ráðfæra sig við lögmann sinn á umræddum fundi.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurða kærunefndar í stjórnsýslumálum nr. KNU21070020 frá 26. ágúst 2021 og KNU21080008 frá 22. september 2021 tekur kærunefnd fram að í umræddum úrskurðum hafi kærunefnd metið framkvæmd stoðdeildar ómarkvissa, m.a. varðandi boðun í Covid-19 sýnatöku og skort á fullnægjandi sönnun á afstöðu kæranda til umræddrar sýnatöku, auk þess sem að í úrskurði kærunefndar í stjórnsýslumáli nr. KNU21070020 hafi kærandi borið fyrir sig sérstakar persónulegar aðstæður sem hafi valdið töf í máli hans. Verður málsatvikum í málunum því ekki jafnað við málsatvik í þessu máli.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að kærandi hafi tafið afgreiðslu umsóknar hans og það hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.

Í ljósi framangreinds er því ekki fallist á að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku á máli hans, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Endurupptöku á máli hans er þar með hafnað.


 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda er hafnað.

The appellant‘s request for re-examination of the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                              Sandra Hlíf Ocares


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum