Hoppa yfir valmynd

Nr. 452/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 3. nóvember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 452/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22100025 og KNU22100026

 

Beiðni um endurupptöku og frestun framkvæmdar í máli [...]

 1. Málsatvik

  Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 200/2022, dags. 23. júní 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. mars 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 27. júní 2022. Hinn 4. júlí 2022 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd 15. júlí 2022. Hinn 9. október 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku og frestun framkvæmdar.

  Beiðni kæranda um endurupptöku og frestun á framkvæmd á máli hans er reist á grundvelli á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

 2. Málsástæður og rök kæranda

  Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga um að aðili máls eigi rétt á því að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný þegar íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggir á atvikum sem hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Kærandi vísar til þess að umsóknir systur og systurdóttur hans um alþjóðlega vernd hafi verið teknar til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun og fullvíst sé að umsóknir þeirra muni hljóta jákvæða niðurstöðu. Þá telur kærandi ljóst að tengsl hans við systur og systurdóttur sína, uppfylli skilyrði sérstakra tengsla í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sérstaklega í ljósi þess að systir hans sé einstæð móðir og kærandi hafi gengið dóttur hennar í föðurstað. Þá hafi þau verið saman bæði í viðtökuríki og hér á landi.

  Kærandi reisir kröfu sína jafnframt á því að réttarstöðu nátengdrar fjölskyldu sé best borgið þegar réttur fjölskyldunnar til að vera saman sé tryggður. Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála leggi að jafnaði áherslu á að fjölskyldur séu ekki aðskildar þegar ákvarðanir snerta börn. Kærandi byggir á því að hagsmunum hans og systurdóttur hans sé best borgið verði mál hans endurupptekið og tekið til efnismeðferðar. Í því samhengi vísar kærandi til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 og þess að líta megi á kæranda sem föður barnsins þar sem hann hafi gengið henni í föðurstað. Þá vísar kærandi til 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992.

  Kærandi gerir jafnframt kröfu um að framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar verði frestað á meðan endurupptökubeiðni hans sé til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála með vísan til lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Ljóst sé að breyttar aðstæður hafi skapast frá því endanleg ákvörðun var tekin í máli hans.

 3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku og frestun framkvæmdar stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 23. júní 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að niðurstaða í máli hans hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun í máli hans hafi verið tekin. Vísar kærandi einkum til þess að mál fóstursystur og dóttur hennar hafi verið tekin til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun og því hafi hann sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vegna endurupptökubeiðni kæranda sendi kærunefnd tölvubréf til Útlendingastofnunar 25. október 2022 þar sem spurt var út í stöðu umsókna þeirra um alþjóðlega vernd. Samkvæmt svari frá Útlendingastofnun þann sama dag eru umsóknir þeirra enn til meðferðar hjá stofnuninni.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. skuli túlkað í framkvæmd. Við túlkun ákvæðisins hefur kærunefnd litið til athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og lagt til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríkið, svo sem vegna fyrri dvalar. Þá gera athugasemdir í frumvarpi og ákvæði 32. gr. b reglugerðar um útlendinga ráð fyrir því að fyrri dvöl umsækjanda hér á landi geti leitt til þess að um sérstök tengsl séu að ræða.

Samkvæmt framansögðu getur komið til skoðunar hvort kærandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þegar hann á ættingja hér á landi. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að það mælir fyrir um tengsl við landið en ekki aðeins tengsl við einstaklinga sem hér kunna að dvelja á einhverjum tíma. Kærunefnd telur ljóst að byggist málsástæða um sérstök tengsl við landið á tengslum við tiltekinn eða tiltekna einstaklinga þurfi þeir einstaklingar almennt að hafa heimild til dvalar hér á landi og að sú heimild þurfi að hafa tiltekinn varanleika. Af þessu leiðir að tengsl við einstakling sem dvelst hér á landi á meðan umsókn hans um alþjóðlega vernd er til umfjöllunar myndi almennt ekki teljast þess eðlis að það leiði til þess að umsækjandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þrátt fyrir að fóstursystir kæranda og dóttir hennar séu staddar hér á landi og séu með umsóknir um alþjóðlega vernd til meðferðar hjá Útlendingastofnun er það mat kærunefndar að tengsl kæranda við landið séu ekki slík að hægt sé að fallast á að skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt. Kærunefnd áréttar í því sambandi að fóstursystir  kæranda og dóttir hennar séu nú einungis staddar hér á landi í tengslum við umsóknir sínar um alþjóðlega vernd, umsóknir þeirra eru enn til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og endanleg ákvörðun hefur því ekki verið tekin í máli þeirra. Auk þess hafa engin gögn verið lögð fram um skyldleika þeirra á milli eða gögn sem sýna fram á að kærandi hafi gengið dóttur hennar í föðurstað. Þrátt fyrir að kærunefnd hafi lagt til grundvallar í úrskurði í máli kæranda nr. 200/2022 frá 23. júní 2022 að kærandi og fóstursystir hans njóti stuðnings hvors annars telur kærunefnd að synjun á beiðni kæranda um endurupptöku sé ekki andstæð hagsmunum barns fóstursystur kæranda. Litið er til þess að barnið sem er með umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar hjá Útlendingastofnun er í umsjá móður sinnar og forsjáraðila.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 23. júní 2022, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þá liggur fyrir að kærandi var fluttur úr landi af stoðdeild ríkislögreglustjóra 10. október 2022. Kærandi kom aftur til landsins 13. október 2022 og sótti um alþjóðlega vernd öðru sinni og er sú umsókn til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Þar sem flutningur kæranda samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar 24. mars 2022 hefur þegar verið framkvæmdur er kröfu kæranda um frestun á framkvæmd vísað frá.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku hafnað og kröfu um frestun framkvæmdar málsins vísað frá.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað. Kröfu kæranda um frestun framkvæmdar er vísað frá.

 

The appellant’s request to re-examine the case is denied. The appellant’s request to suspend the implementation of the decision of Immigration Appeals Board is dismissed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                            Sandra Hlíf Ocares


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum