Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 3/2020, úrskurður 26. október 2020

Mánudaginn 26. október 2020 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 3/2020

 

Rarik ohf.

gegn

Bjarna Sigjónssyni

og Akurnesbúinu ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 2. júní 2020 fór Rarik ohf., kt. 520269-2669, Dvergshöfða 2, 110 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á spildu í landi jarðarinnar Fornustekka 1, landnúmer 159476, og spildu í landi jarðarinnar Akurness, landnúmer 159452, í þágu lagningar hitaveitu fyrir Höfn í Hornafirði og nærliggjandi landsvæði. Með matsbeiðninni var þess einnig farið á leit við matsnefndina að nefndin heimilaði eignarnema að taka umráð þess verðmætis sem taka ætti eignarnámi gegn tryggingu fyrir væntanlegum bótum, sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973.

 

Eignarnámsheimild er í 34. gr. orkulaga nr. 58/1967 og 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

Eignarnámsþolar eru annars vegar Bjarni Sigjónsson, kt. […], Fornustekkum 1, 781 Höfn í Hornafirði, þinglýstur eigandi jarðarinnar Fornustekka 1. Hins vegar Akurnesbúið ehf., kt. […], Akurnesi 2, 781 Höfn í Hornafirði, þinglýstur eigandi jarðarinnar Akurness, en fyrirsvarsmaður eignarnámsþolans er Sveinn Rúnar Ragnarsson, stjórnarformaður, kt. […], Akurnesi 3, 781 Höfn í Hornafirði.

Matsandlagið samkvæmt matsbeiðni 2. júní 2020 og upplýsingum eignarnema 1. júlí sama ár er nánar tiltekið:

1.         Landspilda í vegöxl í landi Fornustekka 1, einn meter á breidd og 273 metrar á lengd, ásamt tímabundnum afnotum af samtals 0,5460 hektara spildu (samtals 20 metra breiðri spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð).

2.         Landspilda í vegöxl í landi Akurness, einn meter á breidd og 573 metrar á lengd, ásamt tímabundnum afnotum af samtals 1,146 hektara spildu (samtals 20 metra breiðri spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð).

 

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 16. júní 2020. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt sjö tölusettum fylgiskjölum, auk drónamynda af vettvangi á tölvutæku formi. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfs. Ákveðið var að bíða með ákvörðun um hvort þörf væri vettvangsathugunar í málinu, þá eftir atvikum að teknu tilliti til drónamynda af vettvangi sem lagðar voru fram af hálfu eignarnema, en eignarnemi taldi ekki sérstaka þörf á vettvangsathugun. Eignarnámsþola var veittur frestur til að taka afstöðu til þessa. Þá var þess farið á leit við málsaðila að þeir skiluðu til matsnefndarinnar athugasemdum um hvort skilyrði stæðu til umráðatöku samkvæmt fyrsta málslið 1. mgr. 14. gr. laga nr 11/1973 á grundvelli fram kominnar beiðni eignarnema þar að lútandi. Loks vakti eignarnámsþoli athygli á því að hann hefði í hyggju að höfða dómsmál til ógildingar ákvörðunar ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 27. maí 2020 um eignarnám.

Með tölvubréfi 18. júní 2020 fór eignarnámsþoli þess á leit við matsnefndina að gengið yrði á vettvang.

Fimmtudaginn 25. júní 2020 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

Með tölvubréfi 30. júní 2020 var þess farið á leit við eignarnema að hann veitti matsnefnd nánari skýringar á matsandlaginu eins og það er afmarkað í matsbeiðni eignarnema 2. júní 2020. Með tölvubréfi 1. júlí sama ár bárust nefndinni umbeðnar upplýsingar.

Fimmtudaginn 2. júlí 2020 var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Nefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna fyrirtöku 16. júní 2020 og vettvangsgöngu 26. sama mánaðar. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar athugasemdir eignarnema 29. júní 2020 og athugasemdir eignarnámsþola sama dag ásamt einu tölusettu fylgiskjali. Voru skjöl þessi lögð fram. Þá var málið tekið til úrskurðar að því er varðar kröfu eignarnema um undanfarandi umráðatöku.

Með úrskurði matsnefndar 2. júlí 2020 var eignarnema heimiluð umráðataka í landi Fornustekka 1 í Hornafirði, í eigu eignarnámsþolans Bjarna Sigjónssonar, á spildu undir metersbreiða og 273 metra langa hitaveitulögn, ásamt háspennulínu og jarðstreng, í þágu framkvæmdar um lagningu hitaveitu frá Hoffelli til Hafnar í Hornafirði. Þá var eignarnema heimiluð umráðataka í þágu tímabundinna afnota af landi eignarnámsþolans á 0,5460 hektara spildu (samtals 20 metra spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð). Með sama úrskurði var eignarnema heimiluð umráðataka í landi Akurness í Hornafirði, í eigu eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf., á spildu undir metersbreiða og 573 metra langa hitaveitulögn, ásamt háspennulínu og jarðstreng, í þágu sömu framkvæmdar. Þá var eignarnema heimiluð umráðataka í þágu tímabundinna afnota af landi eignarnámsþolans á 1,146 hektara spildu (samtals 20 metra spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð).

Föstudaginn 4. september 2020 var málið tekið fyrir af matsnefndinni. Nefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna fyrirtöku 2. júlí 2020. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar tölvubréf eignarnámsþola 6. ágúst 2020 til matsnefndar, greinargerð eignarnema 17. ágúst sama ár og greinargerð eignarnámsþola sama dag ásamt sjö tölusettum fylgiskjölum. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola voru lögð fram þrjú ný skjöl; vinnuskýrsla lögmanns eignarnámsþola og tvær myndir. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og eftir lögmönnum bókað að þeir teldu sig ekki þurfa að tjá sig frekar um málið en í munnlegum málflutningi. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

Með tölvubréfi lögmanns eignarnámsþola 7. september 2020 til matsnefndar bárust upplýsingar um helgunarsvæði jarðstrengja. Með tölvubréfi lögmanns eignarnema degi síðar til nefndarinnar bárust athugasemdir eignarnema við áðurgreindum upplýsingum eignarnámsþola.

Matsnefnd eignarnámsbóta aflaði eftir þetta svofelldra upplýsinga í málinu:

Með tölvubréfi 25. september 2020 fór matsnefnd þess á leit við málsaðila að þeir upplýstu nefndina um hvernig Vegagerðin hefði staðið að greiðslu bóta til handa eignarnámsþolum þegar þjóðvegur var lagður um hinar eignarnumdu spildur í landi Fornustekka 1 og Akurness, þar sem stofnpípa hitaveitu verður lögð í vegöxl þjóðvegarins, þ. á m. fyrir hvað bætur hefðu komið umrætt sinn. Með tölvubréfum eignarnema 28. og 30. þess mánaðar bárust þau svör að ekki lægi fyrir aðgengilegar upplýsingar um hvort greiddar hefðu verið bætur fyrir vegstæðið á sínum tíma þótt ekki væri útilokað að það hefði verið gert. Frekari leitar í skjalasafni væri þörf til að varpa ljósi á það og óvíst væri hvort slík leit myndi skila árangri sökum þess að ekki myndi á þessum tíma hafa tíðkast að gera skriflega samninga um bætur fyrir land undir vegstæði þótt greiddar væru bætur fyrir. Með tölvubréfum eignarnámsþola 27. og 28. sama mánaðar bárust svör við fyrirspurn matsnefndar, þar sem upplýst var að fyrirsvarsmönnum eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf. ræki ekki minni til þess að bætur hefðu verið greiddar við tilfærslu þjóðvegar 1971-1974 og að engin skjöl hefðu fundist um slíkt, en þjóðvegur hefði farið í gegnum jörðina á svipuðum stað frá því brú yfir Laxá í Nesjum hefði verið byggð um 1911. Eignarnámsþolinn Bjarna Sigjónsson kannaðist heldur ekki við bótagreiðslur frá Vegagerðinni á sínum tíma.

IV

Sjónarmið eignarnema:

Um andlag eignarnámsins tilgreinir eignarnemi að um sé að ræða nánar skilgreint svæði í vegöxl í landi eignarnámsþolans Bjarna Sigjónssonar, Fornustekka 1, og eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf., Akurness, þar sem gert sé ráð fyrir að lögð verði stofnpípa hitaveitu ásamt nauðsynlegum samskiptalögnum. Markmið eignarnámsins sé lagning hitaveitu fyrir Höfn í Hornafirði og nærliggjandi svæði. Samhliða lagningu hitaveitupípu verði lagður rafmagnsjarðstrengur til hagræðis fyrir íbúa sveitarfélagsins. Sé fyrirhuguð lengd stofnpípu 273 metrar og flatarmál hennar 0,5437 hektara í landi Fornustekka 1 en 573 metrar og 1,1380 hektarar að flatarmáli í landi Akurness. Nánar tiltekið verði svæðið þar sem stofnpípan og jarðstrengurinn liggi innan við meter á breidd en flatarmál skírskoti til áætlaðs vinnusvæðis eignarnema.

Að því er varðar kröfu eignarnema þess efnis að matsnefnd eignarnámsbóta ákveði fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum samkvæmt lögum nr. 11/1973 skírskotar eignarnemi til þess að fyrirmæli 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sem tryggi eignarnámsþolum fullar bætur vegna eignarnáms, hafi verið túlkuð með þeim hætti að eignarnámsþolar skuli vera eins fjárhagslega settir og ef eignarnám hefði ekki farið fram. Skuli bætur til eignarnámsþola aldrei nema hærri fjárhæð en það fjárhagslega tjón sem þeir verða fyrir. Áréttar eignarnemi að málið einskorðist við ákvörðun bótafjárhæðir.

Bendir eignarnemi á að í réttarframkvæmd hafi verið byggt á þeirri meginreglu að við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta skuli miða við sölu- eða markaðsvirði eignar, sbr. dóm Hæstaréttar 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með því sé átt við það verð sem ætla megi að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Leiði útreikningur á grundvelli notagildis eignar til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð skuli ákveða bætur á grundvelli notagildis. Sé þá leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eign geti gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta.

Eignarnemi telur eðlilegt að miðað sé við söluverð (markaðsverð). Standi engar röksemdir til þess að reikna bætur á öðrum grundvelli, með tilliti til notagildis eða enduröflunarverðs, enda sé söluverð meginreglan.

Eignarnemi vísar til þess að samið hafi verið með sambærilegum hætti við aðra landeigendur á því svæði sem í hlut eigi í tengslum við framkvæmdina. Þar sé um að ræða landeigendur í sömu stöðu og eignarnámsþolar og landsvæði sambærilegt hinu eignarnumda landsvæði. Telur eignarnemi að það verð hljóti jafnframt að teljast söluverð hins eignarnumda, enda megi ætla að slíkt söluverð gefi hvað réttasta mynd af raunverulegu verðmæti. Telur eignarnemi eðlilegt að miða við það verð sem um hafi verið samið í þessum samningum. Í þeim samningum hafi verið miðað við eingreiðslu að fjárhæð 260.000 krónur auk þess sem greiddar hafi verið 130 krónur á hvern meter vegna landsvæðis innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar, svo sem við eigi í tilviki eignarnámsþola. Fyrir landsvæði meðfram veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar hafi verið greitt 390 krónur á hvern meter en 650 krónur á hvern meter fyrir land fjarri þjóðvegi. Hafi samningarnir allir verið staðlaðir hvað fjárhæðir varðar. Á þessum grundvelli hafi verið samið við 20 af 22 landeigendum á svæðinu sem eitt og sér gefi sterkar vísbendingar um að viðmiðið endurspegli sölu- og markaðsverð sambærilegra eigna á svæðinu. Telur eignarnemi þetta viðmið sanngjarnt og málefnalegt. Um sambærilegar eignir sé að ræða með tilliti til staðsetningar og gæða, innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar, þær hafi sömu nýtingarmöguleika og séu háðar sömu takmörkunum. Tilboð eignarnema til eignarnámsþola sé því í tilviki Fornustekka 1 295.490 krónur (260.000 + 130 kr./m x 273 m) og Akurness 334.490 krónur (260.000 kr. + 130 kr./m x 573 m).

Þá telur eignarnemi að ekki verði séð að notagildismælikvarði leiði til hærri niðurstöðu enda hljóti að fara fjarri að landsvæði í vegöxl, innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar, sé líklegt til að skila eignarnámsþola miklum arði. Sé landsvæðið þar með sem slíkt háð takmörkunum meðal annars lögum samkvæmt. Megi því ætla að hér sé söluverð hagstæðara en notagildi.

Við mat á bótum telur eignarnemi mikilvægt að litið sé til legu hinna eignarnumdu spildna, því lega stofnpípu í þágu hitaveitu liggi um landsvæði eignarnámsþola utan girðingar í vegöxl innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar. Sé staðsetningin þannig að óhjákvæmilegt sé að hafa eðli hennar til hliðsjónar við matið. Þar séu takmarkaðir hagnýtingar- og ráðstöfunarmöguleikar fyrir hendi, meðal annars vegna takmarkana til nýtingar sem leiði af ákvæðum vegalaga, og því megi gera ráð fyrir að verðmæti landsins sé ekki mikið í kaupum og sölu. Sé fyrirsjáanleg nýting landsins því takmörkuð, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta 26. október 2009 í máli nr. 12/2008 þar sem sérstaklega hafi verið vísað til þess í niðurstöðu matsnefndar að hið eignarnumda land hefði legið allt að mjög fjölförnum vegi auk þess sem verulegar takmarkanir hefðu verið taldar vera á nýtingu landsins vegna ákvæða í vegalögum. Telur eignarnemi aðstæður hér um margt sambærilegar og rétt að líta til þessara sjónarmiða við matið. Af hálfu eignarnema er áréttað að sú staðreynd, að matsandlagið sé innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar, hafi óhjákvæmilega í för með sér að miklar takmarkanir hvíli á því og að við ákvörðun bóta verði horft til þeirrar skerðingar og skipti í því samhengi ekki máli hvað kunni að hafa verið greitt vegna veghelgunarsvæðisins í fortíðinni. Leggja þurfi mat á tjón eignarnámsþola með hliðsjón af áðurgreindu og snúist málið þannig um að meta viðbótartjón eignarnámsþola vegna þeirrar framkvæmdar sem hér sé um að ræða, óháð fyrri greiðslum til handa eignarnámsþolum.

Er það álit eignarnema að áðurgreint tilboð hans tryggi fullar bætur fyrir fjárhagslegt tjón eignarnámsþola og þar með hæfilegt endurgjald. Sé það í samræmi við þær greiðslur sem aðrir landeigendur, í sambærilegri stöðu og eignarnámsþolar, hafi fengið greitt. Myndi heildstætt mat meðal annars byggt á úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta í öðrum málum og aðstæðum að öðru leyti jafnframt leiða til sömu niðurstöðu. Þannig hafnar eignarnemi því að greiða beri sérstakar bætur fyrir ætluð fjárhagsleg áhrif sem kynnu að hljótast af framkvæmdinni. Vísar hann í því samhengi til þess, sem einnig hafi komið fram við vettvangsathugun í málinu, að gætt sé að því við framkvæmdirnar að jarðrask sé sem minnst og að gengið sé eins vel um svæðið og kostur sé meðan á þeim stendur. Við frágang að verki loknu sé sáð í sárið í því skyni að tryggja að jarðvegur grói eins fljótt og hægt sé. Hvorki megi búast við aukinni umferð eða öðrum óþægindum vegna framkvæmdanna, né því að verðrýrnun verði á því landi eignarnámsþola sem þeir halda eftir. Helgist það af legu stofnpípu í vegöxl utan girðingar og aðstæðum að öðru leyti. Eignarnemi telur að rask, ónæði og tímabundin óþægindi vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma verði afar lítið enda liggi fyrir að verkið muni að líkindum taka eina til tvær vikur á hvorri spildu, ef ekkert óvænt komi upp á, eins og raunin hafi verið á öðrum stöðum þar sem verkið hafi verið unnið. Stórum hluta verksins sé þegar lokið, reynsla sé komin á lagningu stofnpípunnar um sambærilegt land og verkið geti því gengið hratt fyrir sig og án mikils rasks fyrir eignarnámsþola. Séu því engin önnur tilvik sem leitt geti til þess að ákvarða beri sérstakar bætur til handa eignarnámsþolum að öðru leyti en því sem tilboð eignarnema hljóðar upp á.

Kveður eignarnemi tilboð sitt fela í sér hæfilegt endurgjald og að með því sé uppfylltur áskilnaður 72. gr. stjórnarskrár, orkulaga og raforkulaga.

Hvað málatilbúnaði eignarnámsþola viðvíkur mótmælir eignarnemi sérstaklega kröfugerð þeirra og bendir á að fasteignamat beggja jarða nemi um 107.000 krónum á hektara. Hafnar eignarnemi skírskotun eignarnámsþola til jarðarinnar Grundar, sem sé í eigu eignarnámsþolans Bjarna Sigjónssonar, því hér hafi aðeins spildur í landi jarðanna Akurness og Fornustekka 1 verið teknar eignarnámi.

Eignarnemi hafnar þeirri fullyrðingu eignarnámsþola að tekist hafi samkomulag milli aðila um bótagreiðslur. Fyrir liggi að eignarnámsþolum hafi vorið 2019 verið boðin greiðsla vegna vinnu við girðingar tengdar framkvæmdinni og að samningar hafi ekki tekist en þeim hafi á hinn bóginn ekki verið boðin hærri greiðsla fyrir lagningu stofnæðar hitaveitu fyrir landi sínu en sem nemi upphaflegu tilboði eignarnema, það er 260.000 krónum auk 130 krónum á hektara. Sé því ekki rétt að líta til þeirra fjárhæða sem komið hafi til umræðu 2019 vegna girðingavinnu. Áréttar eignarnemi að fjárhæðir bóta í samningum við aðra landeigendur á svæðinu hafi verið staðlaðar.

Eignarnemi hafnar einnig sjónarmiði eignarnámsþola um háspennustreng og ætluð áhrif hans á umfang framkvæmdasvæðis eða stærð skurðsvæðis, enda séu jarðir Akurness og Fornustekka 1 þegar umkringdar háspennulínum í lofti og jörðu. Þá mótmælir eignarnemi því að hann hafi óskað eftir heimild til að leggja tvær samhliða stofnæðar fyrir hitaveitu, háspennustreng og ljósleiðara, enda hafi hann aðeins áformað að leggja eina stofnæð hitaveitu frá Hoffelli að Höfn.

Þá mótmælir eignarnemi því að framkvæmdinni beri sérstakt helgunarsvæði, öryggissvæði eða athafnasvæði og kveður tilvísanir til slíkra helgunarsvæða í framkvæmdum annarra rekstraraðila á landinu þýðingarlausar. Hafi eignarnemi ekki lagt neinar kvaðir í þessa veru á eignarnámsþola. Það eina sem þeir megi ekki viðhafa eftirleiðis sé að raska jarðvegi á metersbreiðu svæði ofan stofnpípunnar. Eignarnemi bendir á að af hálfu eignarnámsþola hafi verið vísað til helgunarsvæða jarðstrengja af mun hærri spennu en þeir jarðstrengir sem dreifikerfi eignarnema samanstandi af. Með háspennustrengjum sé átt við spennu yfir 1 kV og snúi röksemdir eignarnámsþola einkum að flutningskerfi Landsnets þar sem flutningsvirki hafi 66 kV spennu, að undanskyldu því sem tengir Vestmannaeyjar og Húsavík við hærri spennur en það hafi 33 kV. Á hinn bóginn hafi dreifikerfi eignmarnema flutningsvirki með 66 kV eða lægri spennu og sé sá strengur sem fyrirhugað sé að leggja í landi eignarnámsþola 11 kV. Vekur eignarnemi athygli á að mikill munur sé á umfangi 11 kV strengs og 220-400 kV strengs. Bendir eignarnemi og á þann grundvallarmun sem sé á annars vegar flutningskerfi Landsnets fyrir raforku, en það fyrirtæki sjái eitt um rekstur flutningskerfisins á Íslandi, og hins vegar dreifikerfi þar sem eignarnemi sé ein af nokkrum dreifiveitum á Íslandi sem allar séu fyrirtæki í opinberri eigu sem dreifi raforku á afmörkuðum svæði og hafi til þess sérleyfi. Nái dreifikerfi eignarnema til Vestur-, Norður-, Austur- og Suðurlands og 43 þéttbýliskjarna víðsvegar um landið, sé lengd þess um 9.000 km, þar af um 65% jarðstrengir, og hafi hvergi verið gerð krafa um 12 metra helgunarsvæði. Hafi eignarnemi ekki óskað eftir sérstöku helgunarsvæði fyrir þann rafstreng sem hér um ræði, hvorki í tilviki landspildna eignarnámsþola né annarra landeigenda á svæðinu. Krafa um sérstakt helgunarsvæði geti aðeins komið fram af hálfu eignarnema, ekki landeigenda sjálfra, og ekki sé líku saman að jafna þar sem í hlut eigi tilvísanir eignarnámsþola til helgunarsvæða annarra fyrirtækja, sem ekki starfi í sambærilegum rekstri og eignarnemi. Þá hafi eignarnámsþolar skírskotað til nefndar iðnaðarráðherra 2013 til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð, og bendir eignarnemi meðal annars á að þar komi fram að umhverfisáhrif jarðstrengja vaxi með hækkandi spennustigi og að helgunarsvæði séu ekki af staðlaðri breidd heldur ákvörðuð í hverju tilviki eftir gerð mannvirkis. Telur eignarnemi að í kröfu eignarnámsþola um bætur sem að þessi lúti felist í reynd krafa um bætur vegna skertra afnota á landi sem liggi að stórum hluta undir núverandi þjóðvegi.

Að síðustu bendir eignarnemi á að samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 beri eignarnámsþolum aðeins greiðsla fyrir kostnað sem þeir hafi haft af rekstri málsins fyrir matsnefndinni og hæfilegur verði talinn, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 2. október 2008 í máli nr. 619/2007. Nauðsynlegt sé að líta til þessa við ákvörðun um málskostnað.

 

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolinn Bjarni Sigjónsson krefst þess að eignarnema verði gert að greiða sér bætur aðallega að fjárhæð 1.425.880 krónur, til vara 1.196.560 krónur en að því frágengnu að bótafjárhæð verði aldrei ákveðin lægri en 550.000 krónur.

Eignarnámsþolinn Akurnesbúið ehf. krefst þess að eignarnema verði gert að greiða sér bætur aðallega að fjárhæð 1.893.880 krónur, til vara 1.412.560 krónur en að því frágengnu að bótafjárhæð verði aldrei ákveðin lægri en 934.490 krónur.

Í öllum tilvikum krefjast eignarnámsþolar málskostnaðar úr hendi eignarnema í samræmi við málskostnaðaryfirlit. Vekja eignarnámsþolar athygli á að aðeins sé krafist greiðslu kostnaðar sem fallið hefur til vegna málsmeðferðar þessa máls.

Aðalkrafa eignarnámsþola byggir á að þeim beri 130 krónur á hvern fermeter að teknu tilliti til 12 metra helgunarsvæðis, það er 3.276 fermetrar í tilviki eignarnámsþolans Bjarna Sigjónssonar (273 m x 12 m) og 6.876 metrar í tilviki eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf. (573 m x 12 m), auk greiðslu að fjárhæð 1.000.000 til hvors eignarnámsþola fyrir rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma, sbr. úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta 10. október 2019 í máli nr. 8/2019 sem varðaði afnot af landi á sama svæði og hér sé undir. Nemi krafan 1.425.880 krónum (130 kr./m2 x 3.276 m2 + 1.000.000 kr.) í tilviki eignarnámsþolans Bjarna Sigjónssonar og 1.893.880 krónum í tilviki eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf. (130 kr./m2 x 6.876 m2 + 1.000.000 kr.).

Varakrafa eignarnámsþola byggir á að þeim beri 60 krónur á hvern fermeter, að teknu tilliti til sama fermetrafjölda og í aðalkröfu, auk greiðslu að fjárhæð 1.000.000 til hvors eignarnámsþola fyrir rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Sé þetta í samræmi við niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta um bótafjárhæð í úrskurði nefndarinnar 10. október 2019 í máli nr. 8/2019 sem varðaði sama landsvæði og hér sé undir. Nemi krafan 1.196.560 krónum í tilviki eignarnámsþolans Bjarna Sigjónssonar og 1.412.560 krónum í tilviki eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf.

Miðar síðari varakrafa eignarnámsþola við að bótafjárhæð geti aldrei orðið lægri en eignarnemi hafi boðið við samningaviðræður. Í tilviki eignarnámsþolans Bjarna Sigjónssonar hafi eignarnemi boðið 500.000 krónur 11. maí 2020 vegna Fornustekka 1 og Grundar. Í tilviki eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf. hafi eignarnemi boðið 934.490 krónur, það er 600.000 krónur fyrir girðingar og 334.490 krónur samkvæmt samningi sem eignarnemi hafi kveðið vera staðlaðan samning.

Eignarnámsþolar telja óhjákvæmilegt að við ákvörðun um bótafjárhæðir verði tekið mið af þeim fjárhæðum sem legið hafi til grundvallar í samningaviðræðum aðila vorið 2019. Kveða eignarnámsþolar aðila hafa komist að samkomulagi um fjárhæð bóta eins og samskipti lögmanna aðila beri með sér. Ekki verði betur séð en að þær fjárhæðir, sem þar hafi legið til grundvallar, gefi til kynna að eignarnemi hafi verið reiðubúinn að greiða fyrir afnot af hinu eignarnumda landi.

Eignarnámsþolar hafna því að samningar eignarnema við eigendur lands á svæðinu, þar sem stofnpípa hitaveitu muni liggja, séu að fullu staðlaðir því í þeim séu frávik að því er ákvæði um lögn fyrir niðurdælingarvatn sem eignarnemi hyggist leggja í framtíðinni og ákvæði um að bótafjárhæð kunni að breytast ef annar semji um hærri bætur. Að þessu virtu telja eignarnámsþolar að frávik frá stöðluðum samningi brjóti ekki gegn jafnræði landeigenda líkt og eignarnemi hafi haldið fram. Því sé og ótækt að leggja fjárhæðir í þegar gerðum samningum eigarnema til grundvallar ákvörðun um bótafjárhæðir.

Eignarnámsþolar telja að eignarnemi geti ekki samið um að greiða endurgjald fyrir stofnpípu hitaveitu og fengið að leggja háspennustreng eða ljósleiðara í kaupbæti án þess að upplýsa landeigendur um áform sín og greiða fyrir afnotin. Vísa eignarnámsþolar til þess að af stöðluðum samningum eignarnema við landeigendur á svæðinu yrði ekki séð að ráðgert væri að leggja jarðstreng samhliða stofnpípu hitaveitu. Nauðsynlegt sé að bótafjárhæð taki mið af þeirri staðreynd að annars vegar verði lögð stofnpípa hitaveitu og hins vegar háspennustrengur og það sem eignarnemi kalli nauðsynlegar samskiptalagningir. Vanreifað sé af hálfu eignarnema hvernig hið síðargreinda eigi að hafa áhrif á ákvörðun bóta í málinu. Af hálfu eignarnámsþola er á það bent að greiddar hafi verið bætur að fjárhæð 5.000.000 krónur vegna lagningar háspennustrengs um nánar tilgreinda jörð, sbr. úrskurð matsnefndar 9. ágúst 2010 í máli nr. 12/2009. Þá sé rétt að matsnefnd taki tillit til allra mögulegra afleiðinga sem kunni að stafa frá háspennustrengjum, sbr. til hliðsjónar úrskurð matsnefndar 1. júlí 1999 í máli nr. 19/1997 þar sem meðal annars hafi fram komið það álit nefndarinnar að fólk forðist almennt að vera nærri háspennumannvirkjum jafnvel þótt skaðleg áhrif þeirra hafi ekki verið sönnuð. Eignarnámsþolar hafi ekki fengið sérstaka kynningu á þeim jarðstrengjum sem eignarnemi hyggist leggja um land þeirra og því hversu nálægt strengirnir muni liggja frá íbúðarhúsum. Landsvæðið sem um ræði sé t.d. í 120 metra fjarlægð frá íbúðarhúsum að Akurnesi 1 og 2 og í 230 metra fjarlægð frá Akurnesi 3 í tilviki eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf.

Eignarnámsþolar telja nauðsynlegt að sérstakt helgunarsvæði lagnarinnar, sem framkvæmd eignarnema lýtur að, verði skilgreint og gefið upp, því lögnin muni hafi í för með sér frekari kvaðir á hlutaðeigandi landsvæði en fyrir séu. Í því samhengi vísa þeir einkum til þess að ekki megi raska landi yfir lagnaskurðinum, að eignarnemi þurfi svæði til að geta þjónustað lagnirnar (t.d. undir uppgröft og til að koma tækjum að), að viðbúið sé að viðhald á lögnum geti staðið yfir í nokkurn tíma og af því stafað ónæði, svo og að taka þurfi tillit til mögulegs tjóns sem orsakast geti af því ef stofnæð hitaveitunnar bresti og komist í námunda við nytjaplöntur og aðrar eignir eignarnámsþola. Í matsbeiðni sé tilgreint að matsandlagið sé í vegöxl í landi eignarnámsþola og samkvæmt aðalskipulagi Sveitarfélagsins Hornafjarðar sé veghelgunarsvæði þjóðvegar áætlað 30 metrar frá miðlínu í samræmi við ákvæði vegalaga nr. 80/2007. Eignarnámsþolar telja að þótt fyrirhuguð framkvæmd sé innan veghelgunarsvæðis sé rétt að benda á að starfsemi eignarnámsþola fari einnig fram innan sama svæðis. Eignarnámsþolar vísa til þess að af hálfu eignarnema, meðal annars í vettvangsgöngu í máli þessu, hafi því verið haldið fram að framkvæmdinni fylgdi ekki sérstakt helgunarsvæði heldur þurfi eignarnámsþolar í hverju og einu tilviki að leita samráðs við eignarnema þegar þeir hugi að framkvæmdum. Eignarnámsþolar sætta sig ekki við þetta því um sé að ræða land í þeirra eigu og eðlilegt sé að það svæði þar sem eignarnámsþolar þurfi að hafa samráð við eignarnema sé skilgreint og afmarkað sérstaklega sem helgunarsvæði. Benda eignarnámsþolar og á að lögnin liggi mjög nálægt girðingum þeirra. Eignarnámsþolar telja eðlilegt að miða helgunarsvæði, með þeim fjölda lagna sem áformað sé að leggja, við að lágmarki samtals 12 metra svæði breitt svæði. Eignarnámsþolar benda á að í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lagningar stofnæðar frá Hoffelli að Höfn í Hornafirði 15. nóvember 2018 hafi verið ráðgert að athafnasvæði vegna skurðgerðar og lagningar pípu yrði 15 metrar. Þá benda eignarámsþolar á að samkvæmt lokaskýrslu nefndar iðnaðarráðherra 2013 til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð, hafi 12 metra helgunarsvæði verið áætlað fyrir 220 kV jarðstrengjasett, auk þess sem gera þyrfti ráð fyrir akstursleið meðfram strengnum og svæði fyrir uppgröft, og væru strengjasettin tvö stækkaði svæðið í 14 metra o.s.frv. Þar kæmi einnig fram að á helgunarsvæði jarðstrengja mætti ekki byggja og flestur trjágróður væri þar bannaður því rótarkerfið gæti valdið skaða á strengjunum auk þess sem landrými þyrfti undir launaflsútjöfnunarstöðvar með jöfnu millibili á strengleið þegar um lengri strengi væri að ræða. Þess utan vísa eignarnámsþolar til dæma um helgunarsvæði stofnlagnar hitaveitu, jarðstrengja og ljósleiðara á bilinu þrír til tíu metrar hjá öðrum fyrirtækjum vegna framkvæmda víðsvegar um landið. Telja eignarnámsþolar eðlilegt að eignarnemi, sem sé hinn sérfróði aðili á þessu sviði, skilgreini sérstakt helgunarsvæði með rökstuddum hætti. Jafnframt að eignarnemi upplýsi um hve nálægt hlutaðeigandi lagnasvæði eignarnámsþolar geti farið með sína starfsemi og að eignarnema verði gert að greiða bætur fyrir afnot af öllu helgunarsvæði. Eignarnámsþolar hafa einnig skorað á matsnefnd að rannsaka þetta atriði meðal annars með hliðsjón af þeim upplýsingum sem eignarnámsþolar hafa lagt fram um þetta samkvæmt áðurgreindu.

Eignarnámsþolar kveða eftirspurn vera eftir nýtingu lands sem liggi innan veghelgunarsvæðis fyrir landi þeirra. Þannig henti landið innan þess svæðis vel þegar komi að því að halda við og þjónusta hvers kyns lagnir og innviðakerfi. Benda eignarnámsþolar á að á síðasta ári hafi þrír aðilar, þ. á m. eignarnemi, óskað eftir heimild þeirra til að leggja samtals tvær hitaveituæðar, þrjá ljósleiðara og einn háspennustreng. Eignarnámsþolar hafna því að greiða beri lægsta verðið fyrir land sem liggi innan veghelgunarsvæðis, svo sem miðað hafi verið við í fyrirliggjandi samningum sem eignarnemi hafi gert við landeigendur á svæðinu, og að greiða skuli jafnhátt eða hærra verð fyrir hlutaðeigandi landsvæði og land þar sem innviðir séu góðir, líkt og tíðkist á almennum fasteignamarkaði. Ósanngjarnt sé að eignarnámsþolar beri hallann af því að eiga land innan veghelgunarsvæðis sem hentugt sé til framkvæmda og eftirspurn sé eftir að fá að nýta, þ. á m. á lagnamarkaði. Benda þeir á að ef ekki hefði komið til eignarnámsins af hálfu eignarnema hefðu þeir getað samið við þann framkvæmdaraðila sem boðið hefði best fyrir notkun landsins. Þar fyrir utan benda eignarnámsþolar á að samkvæmt úrskurðarframkvæmd matsnefndarinnar, sbr. t.d. úrskurði hennar 29. júní 2009 í máli nr. 3/2009 og 28. júlí 2009 í máli nr. 2/2009, verði ráðið að Vegagerðin bæti veghelgunarsvæði á nýjan leik þegar til kemur ákvörðun um bætur fyrir nýja vegi í stað þeirra sem fyrir voru, svo og að bættar séu stækkanir á vegstæðum, jafnvel þótt stækkanirnar séu innan veghelgunarsvæðis. Það sé einungis gamla vegstæðið sem komi til frádráttar bótum.

Eignarnámsþolinn Akurnesbúið ehf. áréttar að framkvæmdir muni fara fram í námunda við íbúðarhús í landi hans og að þær verði í öllum tilvikum í sjónlínu frá húsunum. Á framkvæmdatíma muni verða talsvert rask og hafi eignarnemi farið fram á afnot af rúmlega eins hektara spildu sem nái frá þjóðvegi og inn fyrir tún-, garð- og beitilandagirðingar jarða eignarnámsþola, það er tímabundin afnot af samtals 20 metra breiðri spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu komi í jörð. Þá kveða eignarnámsþolar framkvæmdatíma óljósan og fyrirséð að í framtíðinni muni falla til viðhald og þjónusta við lagnirnar sem valdi þeim ónæði. Til marks um þetta benda eignarnámsþolar á ýmis íþyngjandi ákvæði í þeim stöðluðu samningum, sem eignarnemi hafi gert við landeigendur á svæðinu, sem áskilji þeim umferðarrétt og önnur not af landi í þágu hitaveitulagnanna. Krefjast eignarnámsþolar þess að við ákvörðun bóta verði tekið tillit til ónæðis sem muni fylgja þessum ráðstöfunum og athöfnum eignarnema. Vísa eignarnámsþolar til úrskurða matsnefndar 10. október 2019 í málum nr. 8/2019 og 9/2019 því til stuðnings, þar sem ákveðnar hafi verið bætur vegna óþæginda á framkvæmdatíma þótt eignarnámsþolar í þeim málum hafi aðeins sætt efnistöku. Benda þeir einnig á að hér sé aðstaðan sú að rask verði viðvarandi, þvert á það sem við eigi þegar vegalagning eigi í hlut og rask og ónæði felist aðeins í tímabundnum afnotum eignarnema á framkvæmdatíma.

Samandregið hafa eignarnámsþolar uppi kröfu um bætur vegna rasks og ónæðis sem stafi af framkvæmd eignarnema á framkvæmdatíma og í framtíðinni, bætur vegna þess lands sem sætir eignarnámi, þ. á m. sérstaks helgunarsvæðis, svo og bætur vegna fjárhagslegra áhrifa af völdum eignarnámsins sökum skertra afnota eignarnámsþola innan veghelgunarsvæðis þjóðvegar og áhrifa af völdum því að eignarnemi hyggist ekki aðeins leggja stofnpípu hitaveitu um land eignarnámsþola heldur einnig jarðstreng.

Að síðustu vísa eignarnámsþolar til 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn, svo og eftir því sem við eigi til ákvæða orkulaga, raforkulaga og laga nr. 11/1973.

 

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildum eignarnámsþola er til komið á grundvelli 34. gr. orkulaga og 23. gr. raforkulaga í þágu framkvæmda við lagningu hitaveitu fyrir Höfn í Hornafirði og nærliggjandi landsvæði. Tekur framkvæmdin nánar tiltekið til lagningar stofnpípu hitaveitu og nauðsynlegra samskiptalagna milli dælustöðva, samhliða lagningu jarðstrengs fyrir rafmagn (háspennulínu). Þar er farið um land 22 jarða, þ. á m. jarðir eignarnámsþola, frá Hoffelli allt til dælustöðvar í þéttbýli á Höfn. Jarðir eignarnámsþola, Fornustekkar 1 og Akurnes, liggja austan Hornafjarðarfljóts í þessari röð frá norðvestri til suðausturs samsíða þjóðvegi, Hringvegi. Samningar munu hafa tekist við aðra landeigendur en eignarnámsþola. Framkvæmdin varðar lagningu 250 millimetra málmpípu, sem er 400 millimetrar í þvermál með einangrun, og lögð er neðanjarðar yfirleitt á um 1,1 metra dýpt nema sérstakar aðstæður krefjist þess að farið sé dýpra. Eignarnámið beinist nánar tiltekið að tveimur spildum fyrir landi eignarnámsþola sem liggja samsíða þjóðvegi, í jaðri vegaxlar vegarins, fjóra metra frá girðingum eignarnámsþola. Á framkvæmdatíma áskilur eignarnemi sér tímabundin afnot af samtals 20 metra breiðri spildu, beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð, þó þannig að áréttað er af hálfu eignarnema að hér sé um áætlað vinnusvæði að ræða og að svæðið þar sem stofnpípa ásamt jarðstreng muni liggja verði innan við meter á breidd. Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdinni sé ætlað að tryggja íbúum á svæðinu aðgang að heitu vatni og að þeir hafi til þessa ekki getað reitt sig á hefðbundna hitaveitu (jarðvarmaveitu), heldur hafi fjarvarmaveita verið til staðar í þéttbýli á Höfn og kyndistöð fyrir dreifbýli Hornafjarðar, en kyndistöðin nýtir ótryggða raforku til upphitunar á vatni og olíu til vara. Þá kemur fram í gögnunum að leið stofnpípunnar um landsvæðið hafi verið valin á þann veg að þar sem kostur er fari hún um veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar milli vegaxlar og girðingar landeigenda, og háttar svo til þar sem í hlut eiga spildur eignarnámsþola í landi Fornustekka 1 og Akurness sem sæta eignarnámi. Frávik frá þessu á lagnaleiðinni verði rakin til þeirrar viðleitni eignarnema að sem flestir íbúar á lagnaleið geti fengið notið tengingar við hina nýju hitaveitu.

Með tölvubréfi eignarnámsþola 6. ágúst 2020 til matsnefndar vöktu þeir athygli nefndarinnar á því að eignarnámsþolinn Akurnesbúið ehf. hefði tekið ákvörðun um að höfða mál til ógildingar á eignarnáminu og óskað eftir flýtimeðferð þess fyrir dómstólum. Með úrskurði Landsréttar 16. júlí 2020 í máli nr. 437/2020 hefði þeirri beiðni eignarnámsþolans verið hafnað. Af þeirri úrlausn kveða eignarnámsþolar að reyna muni á lögmæti eignarnámsákvörðunar ráðherra í aðfararmáli eignarnema á hendur eignarnámsþolum, til að fylgja eftir úrskurði matsnefndar 2. júlí 2020, þar sem eignarnema var heimiluð umráðataka matsandlagsins. Telja eignarnámsþolar að niðurstaða þess máls, sem liggja muni fyrir innan skamms tíma, kunni að verða sú að eignarnámsákvörðunin sé ógildanleg og að málinu fyrir nefndinni yrði við það sjálfhætt. Fóru eignarnámsþolar fram á að meðferð málsins fyrir matsnefnd yrði frestað af áðurgreindum sökum þar til niðurstaða lægi fyrir í aðfararmálinu.

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 er matsnefnd eignarnámsbóta falið að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum, en eignarnámsþolum ber réttur til fulls verðs í tilefni eignarnáms samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrsta málslið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 11/1973 segir að matsnefnd skuli kveða upp úrskurð um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola. Er matsnefndin sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem bundin er af skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar, þ. á m. málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem segir í 1. mgr. að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Áðurgreindar röksemdir eignarnámsþola, fyrir því að fresta skuli meðferð málsins fyrir nefndinni, lúta að lögmæti ákvörðunar ráðherra um eignarnáms. Það fellur utan valdsviðs matsnefndar að taka afstöðu til þess álitaefnis, því eins og áður greinir einskorðast hlutverk nefndarinnar við að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta sem henni ber að leysa af hendi innan hæfilegs tíma. Fyrir nefndinni liggur ákvörðun stjórnvalds sem er til þess bært að lögum. Matsnefndin hefur fallist á að lagaheimild sé til eignarnámsins, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973, og ekki eru slíkir annmarkar á eignarnámsákvörðuninni að frestun valdi á meðferð nefndarinnar í máli þessu.

Í þessum þætti málsins kemur þá til úrlausnar matsnefndar ákvörðun um bætur úr hendi eignarnema vegna eignarnáms á matsandlaginu, tveimur spildum eignarnámsþola í landi jarðanna Fornustekka 1 og Akurness.

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 25. júní 2019 ásamt lögmönnum aðila, eignarnámsþolanum Bjarna Sigjónssyni og fyrirsvarsmanni eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf. og kynnti sér aðstæður. Samkvæmt matsbeiðni tekur eignarnámið til áðurgreindra tveggja landspildna, þar sem um er að ræða 273 fermetra landspildu í landi Fornustekka 1 og 573 fermetra landspildu í landi Árnaness, sem samkvæmt gögnum málsins er í báðum tilvikum land í jaðri vegaxlar þjóðvegar í Hornafirði, fjóra metra frá girðingum eignarnámsþola. Vettvangsathugun á landi Akurness leiddi í ljós að matsandlagið afmarkast af landi á milli þjóðvegar/veglínu og búfjárgirðingar og nær frá brú yfir Laxá og að framræstiskurði á landamerkjum. Er matsandlagið vel gróið en óræktað land. Þá leiddi vettvangsathugun á landi Fornustekka 1 í ljós að matsandlag þar er svipað og í landi Akurnes fyrir utan að gamall malarborin reiðvegur liggur eftir endilöngu matsandlaginu meðfram búfjárgirðingu.

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu, að undanskildum kröfum eignarnámsþola um bætur vegna ætlaðs tjóns af völdum eignarnámsins sökum skertra afnota eignarnámsþola innan veghelgunarsvæðis þjóðvegar og áhrifa af völdum því að eignarnemi hyggist ekki aðeins leggja stofnpípu hitaveitu um land eignarnámsþola heldur einnig jarðstreng. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Það er álit nefndarinnar að ekki sé fyrir að fara virkum markaði um kaup og sölu lands á svæðinu, sbr. t.d. úrskurð matsnefndar 10. október 2019 í máli nr. 8/2019. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins því reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþolum fyrir þær landspildur sem fara undir stofnpípu hitaveitu. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 130 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Það geri á hinn bóginn það viðmiðunarverð sem varakrafa eignarnámsþola byggi á. Matsnefndin telur þannig rétt að miða við að verðmæti landsvæðisins sem um er að ræða, sem staðsett er í Hornafirði austan Hornafjarðarfljóts, nemi 60 krónum á fermetra eða 600.000 krónum á hektara, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar 10. október 2019 í máli nr. 8/2019, og það þótt matsandlagið sé staðsett í jaðri veghelgunarsvæðis þjóðvegar. Þá telur nefndin rök ekki standa til þess að gera greinarmun á verðmæti landspildna eignarnámsþolans Bjarna Sigjónssonar og eignarnámsþolans Akurnesbúsins ehf. Þótt af hálfu eignarnema sé upplýst að landsvæðið þar sem stofnpípan og jarðstrengurinn liggi sé innan við meter á breidd er að áliti matsnefndar óforsvaranlegt að miða við annað en að eignarnámið taki til tveggja metra breiðrar spildu yfir því svæði. Fallist er á það með eignarnámsþolum að mannvirkjum eignarnema, sem lögð verða í jörðu fyrir landi eignarnámsþola, fylgi viðhald og eftirlit til framtíðar sem áhrif hafi á land eignarnámsþola í námunda við lagnaleiðina. Þá er það álit matsnefndar að staða mannvirkja tengdum dreifikerfi eignarnema sé í reynd tryggari fari hann með bein eignarráð yfir landinu í stað afnotaréttar. Beri eignarnámsþolum samkvæmt þessu bætur fyrir sérstakt helgunarsvæði sem þannig kemur í hlut eignarnema og matsnefnd telur hæfilega ákveðið sjö metrar í eina stefnu frá lagnaleið í átt að girðingum eignarnámsþola (ekki í átt að þjóðvegi), þar af þrjá metra inn fyrir girðingar þeirra. Landspildur eignarnámsþola sem sæta eignarnámi í þágu framkvæmdar eignarnema eru þannig eins og áður greinir 273 metrar að lengd í landi Fornustekka 1 og 573 metrar að lengd í landi Akurness og eru spildurnar í báðum tilvikum níu metra breiðar. Fyrir 2.457 fermetra landspildu í landi Fornustekka 1 þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 147.420 krónur (273x9x60) og fyrir 5.157 fermetra landspildu í landi Akurness þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 309.420 krónur (573x9x60).

Í öðru lagi er það álit matsnefndarinnar að eignarnámsþola beri bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem lagning jarðstrengs í dreifbýli um land eignarnámsþola hafi fyrir hagsmuni hans. Felist slík fjárhagsleg áhrif annars vegar í því að eignarnema beri að greiða sérstaklega fyrir heimild til að leggja jarðstreng um land eignarnámsþola, samhliða lagningu stofnpípu hitaveitu, og hins vegar í öðrum áhrifum sem stafi af háspennustrengjum, sbr. til hliðsjónar úrskurð matsnefndar 1. júlí 1999 í máli nr. 19/1997. Með vísan til þeirrar niðurstöðu matsnefndar, í tilvitnuðum úrskurði hennar, að fólk forðist að vera nærri háspennulínum jafnvel þótt skaðleg áhrif þess hafi ekki verið sönnuð, er það niðurstaða nefndarinnar að bætur vegna þessa séu hæfilega ákveðnar 150.000 krónur til hvors eignarnámsþola. Matsnefndin hafnar á hinn bóginn kröfu eignarnámsþola um bætur fyrir ætluð fjárhagsleg áhrif á það land sem þeir halda eftir og felist í skertum afnotum þeirra innan veghelgunarsvæðis þjóðvegar, enda hefur nefndin þegar komist að niðurstöðu um að eignarnámsþolum beri bætur vegna eignarnáms sem tekur ekki aðeins til þeirra landspildna þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð heldur einnig lands sem fer undir sérstakt helgunarsvæði.

Í þriðja lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Er þá til þess að líta að samkvæmt matsbeiðni fær eignarnemi með eignarnáminu tímabundin afnot af samtals 0,5460 hektara spildu í landi Fornustekka 1 og 1,146 hektara spildu í landi Akurness (í báðum tilvikum samtals 20 metra breiðri spildu beggja vegna þess staðar þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð). Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 375.000 krónur til hvors eignarnámsþola og hefur þá verið tekið tillit til þess að rask og ónæði af framkvæmdinni er hér sýnilega minna en við á t.d. í tilviki vegalagningar. Að áliti matsnefndar getur ekki komið til greiðslu frekari bóta af hálfu eignarnema fyrir ætlað tjón af völdum rasks og ónæðis vegna umsvifa eignarnema í framtíðinni, svo sem eignarnámsþolar hafa krafist, og er þá meðal annars til þess að líta að nefndin hefur þegar komist að niðurstöðu um að eignarnámsþolum beri bætur vegna eignarnáms sem tekur ekki aðeins til þeirra landspildna þar sem stofnpípa hitaveitu kemur í jörð heldur einnig lands sem fer undir sérstakt helgunarsvæði, svo og því að eignarnemi hefur að óbreyttu nokkuð greiðan aðgang að lögninni frá þjóðvegi.

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur til handa eignarnámsþolanum Bjarna Sigjónssyni vera 672.420 krónur (147.420+150.000+375.000) og til handa eignarnámsþolanum Akurnesbúinu ehf. vera 834.420 krónur (309.420+150.000+375.000).

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum óskipt 1.325.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði. Hefur þá verið tekið tillit til meðferðar málsins fyrir matsnefnd, þ. á m. vettvangsathugunar í málinu 25. júní 2020, þeirrar kröfu eignarnema að nefndin heimilaði honum að taka umráð matsandlagsins samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973 sbr. úrskurð nefndarinnar 2. júlí 2020, og kröfu eignarnema um ákvörðun bóta vegna eignarnámsins. Eins og greinir í úrskurðinum 2. júlí 2020 höfðu eignarnámsþolar ekki uppi kröfu um að málskostnaður yrði ákveðinn í þeim þætti málsins heldur kröfðust þess að tekið yrði tillit til þess hluta málsins við endanlega ákvörðun um málskostnað þeim til handa. Taldi matsnefndin að ákvörðun um málskostnað til handa eignarnámsþolum og kostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni skyldi bíða úrskurðar hennar um fjárhæð eignarnámsbóta til eignarnámsþola. Lögmaður eignarnámsþola hefur gætt hagsmuna þeirra sameiginlega og er málskostnaðaryfirlit sem hann hefur lagt fram í málinu ósundurgreint að því er vinnu í þágu beggja eignarnámsþola varðar. Verður málskostnaður þeim til handa ákveðinn í einu lagi.

Þá skal eignarnemi greiða 2.000.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu eignarnámsþola, Bjarna Sigjónssonar og Akurnesbúsins ehf., um frestun málsmeðferðar.

Eignarnemi, Rarik ohf., skal greiða eignarnámsþolanum Bjarna Sigjónssyni 672.420 krónur og eignarnámsþolanum Akurnesbúinu ehf. 834.420 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu og eignarnámsþolum samtals 1.325.000 krónur í málskostnað.

Þá skal eignarnemi greiða 2.000.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

Valgerður Sólnes

 

            Gústaf Vífilsson                                                         Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira