Hoppa yfir valmynd

10/2008

Mál 10/2008.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2008 Melaleiti, 301 Akranes, hér eftir nefndur kærandi, gegn Heilbrigðiseftirliti Vesturlands, Borgarbraut 14, 310 Borgarnes, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 21. ágúst 2008, kærðu landeigendur í Melaleitiúnbogason HH, (hér eftir nefndur kærandi) vegna brots á starfsleyfi þauleldisbús Stjörnugríss að Melum Hvalfjarðarsveit hvað varðar dreifingu á úrgangi á jörðinni Belgsholti. Þá leitaði kærandi eftir formlegri túlkun úrskuðarnefndarinnar varðandi tímamörk starfsleyfisins. Kærði er heilbrigðisnefnd Vesturlands.

Kærandi leitar eftir formlegri túlkun á því hvort tímamörk á dreifingu á úrgangi  samkvæmt starfsleyfi gildi einungis á jörð Mela. Krafa kæranda er byggð á því að  dreifing á seyru og svínaskít frá þauleldisbúinu á Melum hafi í för með sér loftmengun fyrir ábúendur í Melaleiti.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 21. 08. 08.  ásamt fylgiskjölum. 

2. Athugasemdir kærða dags. 08.09.08 ásamt fylgiskjölum. 

3.  Athugasemdir kærenda dags. 28.09.2008. 

4.  Afrit af tölvupóstum er varða samskipti framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og fulltrúa Melaleitis dags. 14.07/15.07 og 22.07 2008 . 

5.  Bréf frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands varðandi endurnýjun á starfsleyfi Stjörnugríss hf. dags. 8.02.08.

6. Starfsleyfi Stjörnugríss hf. dags. 29.10.03 ásamt fylgiskjölum.   

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 25. ágúst 2008.  Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. 

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna anna. 

III. Málsatvik

Með kæru dags. 21.08.2008 til úrskurðarnefndar um hollustuhætti og mengunarvarnir var kært vegna brota á starfsleyfi þauleldisbús Stjörnugríss að Melum í Hvalfjarðarsveit varðandi dreifingu svínaskíts frá búinu dagana 12. og 13. júlí 2008 þar sem dreifingin hafi átt sér stað utan leyfilegs dreifingartíma samkvæmt starfsleyfi frá 1997 og án þess að undanþága hefði verið veitt fyrir dreifingunni.

Óskaði kærandi eftir formlegri túlkun á því hvaða tímamörk gildi um dreifingu á úrgangi samkvæmt starfsleyfi.

Kærði svaraði erindi kæranda með bréfi dagsettu 08.09.2008.  Í svari kærða kemur m.a. fram sú ákvörðun að takmörkun á dreifingu úrgangs samkvæmt starfsleyfi Stjörnugríss hf. gildi aðeins um áburð á Melum, ekki áburðardreifingu á öðrum jörðum. Því nái dreifing áburðar á jörðinni Belgsholti ekki undir þær takmarkanir sem settar eru fram í starfsleyfi Stjörnugríss hf. 

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 19.09.2008 og bárust athugasemdir þann 28.09.2008.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi er eigandi jarðar sem staðsett er nærri þauleldisbúi Stjörnugríss hf. að Melum í Hvalfjarðarsveit.  Kærandi krefst þess að dreifing á svínaskít, sem upprunninn er frá svínabúinu á Melum, á aðra jörð, verði látin falla undir þær takmarkanir sem er að finna í starfsleyfi Stjörnugríss hf.

Kærandi byggir kröfu sína á grein 2.9 í starfsleyfi Stjörnugríss hf.  Krafan er sett fram vegna  brots á útgefnu starfsleyfi fyrir svínabúið Stjörnugrís hf. og reglum um loftmengun.  Kærandi heldur því fram að dreifing á svínaskít frá búinu dagana 12. og 13. júlí 2008 hafi verið utan leyfilegs dreifingartíma skv. starfsleyfi Stjörnugríss hf. frá 1997 án þess að undanþága hafi verið veitt frá starfsleyfinu. Kærandi byggir kæru sína á því að þauleldi sé starfsleyfisskyld starfsemi vegna mengunarhættu þar sem dreifing á úrgangi sé þar stór þáttur. Kærandi byggir jafnframt á því að starfsleyfi Stjörnugríss hf. innihaldi ekki reglur sem kveða á um það að úrgangi sem dreift sé á aðra bæi falli utan við umrætt starfsleyfi. Kærandi heldur því fram að tímamörk um dreifingu úrgangsins eigi að gilda óháð dreifingarstað.

Kærandi kvartar einnig undan því að á undanförnum árum hafi, og á umræddum tíma, verið veittar undanþágur frá starfsleyfi svínabús Stjörnugríss hf. vegna dreifingar á seyru og svínaskít á Melum. Sú dreifing valdi ábúendum á Melaleiti miklum óþægindum þar sem loftmengun frá úrganginum gerir útivinnu erfiða, mengun berist inn um glugga og dyr sem skerði lífsgæði ábúenda og rýri notagildi þeirra af landareign sinni.

Kærandi vekur jafnframt athygli á því að dreifing svínaskíts á jörð Mela hafi átt sér stað innan við 100 metra frá vatnsbakka, miðað við efri fjörumörk sem er einnig brot gegn nefndu starfsleyfi Stjörnugríss hf.

V. Málsástæður og rök kærða.

Kærði, Heilbrigðisnefnd Vesturlands starfar á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kærði veitti þauleldisbúi Stjörnugríss hf. starfsleyfi dags. 29 október 2003 en leyfið er gefið út skv. 6. gr. laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. 9. gr.

Í bréfi kærða kemur fram að umrætt starfsleyfi gildi fyrir starfsemi svínabús Stjörnugríss hf. að Melum, ekki aðra bæi. Um dreifingu á úrgangi fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu gildir 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 (br. 592/2001) en þar segir að miða skuli við að dreifing búfjáráburðar fari að jafnaði fram á tímabilinu 15. mars til 1. nóvember ár hvert og að jafnaði sé ekki dreift á frosna jörð.

Í starfsleyfi svínabús Stjörnugríss hf. að Melum er þessi tímarammi hertur enn frekar en sbr. grein 2.9 í starfsleyfi svínabúsins. Þar segir að aðeins megi dreifa skít á tímabilinu 15. mars til 15. júní og 31. ágúst til 1. nóvember ár hvert. Aldrei megi dreifa áburði á frosna jörð eða gegnblauta. Í síðari málslið greinarinnar kemur svo fram að veita megi undanþágu frá þessu ákvæði í allt að viku ef nauðsyn ber til.

Kærði telur að starfsleyfi svínabús Stjörnugrís hf. að Melum gildi ekki fyrir aðra bæi sem hugsanlega kunna að nýta sér áburð frá Melum og telur kærði að ekki sé hægt að banna öðrum bæjum dreifingu á skít umrædda daga á grundvelli þeirra tímaskilyrða sem sett eru fram í starfsleyfi Stjörnugríss hf. og áburðardreifing á jörðinni Belgsholti brýtur því ekki í bága við umþrætt starfsleyfi þrátt fyrir að notast hafi verið við skít frá Melum.

Kærði telur einnig að umrætt svæði sé á aðalskipulagi skilgreint sem landbúnaðarsvæði og því verði íbúar á svæðinu, hvort sem þeir stunda landbúnað eða ekki, að una við þá lykt sem fylgir landbúnaðarstörfum.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar. 

Ágreiningur í máli þessu snýst um dreifingu á svínaskít dagana 12. og 13. júlí 2008 á jörðinni Belgsholti, hvort dreifingin hafi verið brot gegn starfsleyfi Stjörnugríss hf. Þá er einnig deilt um túlkun á tímamörkum starfsleyfisins, hvort dreifing á svínaskít á aðrar jarðir en Stjörnugríss hf. falli undir umrætt starfsleyfi. 

Í 3. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að hollustuhættir og mengunarvarnir taki í lögunum til hollustuverndar, mengunarvarnaeftirlits, vöktunar, tengdra rannsókna og fræðslu um þessi mál.  Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum, m.a. með tilliti til manneldismála. 

Mengunarvarnareftirlittekur til eftirlits með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits. 

 

Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Heilbrigðiseftirlit tekur til hollustuhátta og mengunarvarna. 

Í reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti sem sett var skv. 4. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram í 7. gr. að stofnanir, fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin er upp í fylgiskjali við nefnda reglugerð skuli hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd.

Stjörnugrís hf. var veitt starfsleyfi í samræmi við 6. gr. laga nr. 7/1998 sbr. einnig 9. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.  Þar í 3. gr. er hugtakið starfsleyfi skilgreint þannig að það sé ákvörðun viðkomandi heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins í formi skriflegs leyfis þar sem tilteknum rekstraraðila er heimilað að starfrækja tilgreindan atvinnurekstur að því tilskyldu að hann uppfylli viðeigandi ákvæði laga, reglugerða og starfsleyfisins.

Í grein 6.6 við viðauka I í reglugerð nr. 785/1999 kemur fram að þauleldisbú fyrir svín sé starfsleyfisskylt. Í samræmi við það var Stjörnugrís hf. veitt starfsleyfi, gefið út af heilbrigðisnefnd Vesturlands, dags. 29.10.2003.     

Almennar reglur fyrir dreifingu á skít fyrir starfsleyfisskylda búfjárframleiðslu er að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 þar sem kemur fram að almennt megi dreifa búfjáráburði frá 15. mars til 1. nóvember ár hvert. Þar sem dreifing á svínaskít er veigamikill þáttur í þauleldi svína og henni fylgi loftmengun, var slíkri dreifingu sett ströng skilyrði í starfsleyfi Stjörnugríss hf. þar sem dreifing er aðeins heimil 15. mars til 15. júní og 31. ágúst til 1. nóvember. 

Af gögnum málsins má ráða að dreifing á svínaskít að Melum valdi kæranda verulegum óþægindum vegna þeirrar loftmengunar sem af henni hlýst. Í málinu liggur fyrir stjórnsýslukæra frá kæranda þar sem þessum óþægindum er lýst.

Starfsleyfið sem um er deilt er gefið út á viðkomandi rekstraraðila en hvergi er að finna ákvæði sem segir að reglur starfsleyfisins gildi um aðra búfjárframleiðslu eða aðra rekstaraðila eða dreifingu þeirra á svínaskít og gildir því um þá almennar reglur 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999.

Með vísun til þess, sem að framan greinir, er það niðurstaða nefndarinnar að starfsleyfi Stjörnugríss hf. sé gefið út á rekstraraðilann Stjörnugrís hf. og eru skilyrði starfsleyfisins bindandi fyrir Stjörnugrís hf. ekki aðra. Áburður svínaskíts dagana 12. og 13. júlí 2008 á jörðina Belgsholt féll þar af leiðandi ekki undir umrætt starfsleyfi Stjörnugríss hf. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn í málinu sem sýna fram á að eigendur jarðarinnar Belgsholt hafi verið bundnir við samskonar skilyrði og Stjörnugrís hf. varðandi dreifingu á svínaskít.

Umrætt landsvæði er skilgreint sem landbúnaðarsvæði sem verður til þess að ábúendur svæðisins verða að una við þá lykt sem fylgir landbúnaðarstörfum en skv. 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999 er áburður heimill á jarðir frá 15. mars til 1. nóvember ár hvert. Dreifing sem hér er deilt um átti sér stað innan þessara tímamarka og því ekki brot á nefndu reglugerðarákvæði.

Dreifing á svínaskít dagana 12. og 13. júlí 2008 á jörðina í Belgsholti var ekki brot gegn starfsleyfi Stjörnugríss hf. né 7. gr. reglugerðar nr. 804/1999. Ekki verður fallist á að áburður frá Stjörnugrís hf. á aðra jörð falli undir starfsleyfi Stjörnugríss hf.   

                                                             Úrskurðarorð                                                            

Fallist er á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands frá 8. september 2008.   

 

Steinunn Guðbjartsdóttir

 

Gunnar Eydal                                   

 

Guðrún Helga Brynleifsdóttir
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira