Hoppa yfir valmynd

2/2004

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2004, miðvikudaginn 27. október, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar í Ráðhúsi Reykjavíkur.   Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2004  Húsfélagið Miðhrauni 22 í Garðabæ, gegn Garðabæ.  

 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður

 

I.

Stjórnsýslukæra  Ragnars H. Hall f.h. húsfélagsins að Miðhrauni 22 í Garðabæ hér eftir nefndur kærandi er dags. 30. mars s.l. en barst nefndinni 6. apríl.  Gögn sem með fylgdu eru :

1)      Bréf lögmanns kæranda til bæjarstjóra Garðabæjar 24. október 2001 ásamt ljósriti lóðarleigusamnings og fylgiskjals.

2)      Bréf bæjarstjóra Garðabæjar til lögmanns kæranda dags. 13. nóvember 2001.

3)      Bréf lögmanns til bæjarstjóra Garðabæjar 15. janúar 2002.

4)      Bréf Vega ehf. til Hollustuverndar ríkisins 22. janúar 2002.

5)      Bréf bæjarritara Garðabæjar til lögmanns kæranda 23.janúar, 2002.

6)      Bréf lögmanns kæranda til bæjarritara Garðabæjar 27. mars, 2002.

7)      Bréf bæjarverkfræðings Garðabæjar til Rafal ehf. 24. maí 2002.

8)      Bréf byggingarfulltrúa Garðabæjar til Rafal ehf. 11. nóvember 2002.

9)      Bréf bæjarverkfræðings Garðabæjar til Rafal ehf. 3. febrúar 2003.

10)  Bréf bæjarverkfræðings Garðabæjar til Vega ehf. 3. febrúar 2003.

11)  Bréf kæranda til bæjarstjórnar Garðabæjar 26. febrúar 2003.

12)  Bréf bæjarverkfræðings Garðabæjar til kæranda 27. mars, 2003.

13)  Bréf Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til Kjarnavara ehf. 29. október, 2003.

14)  Samþykkt nr. 329/1991 um notkun og hreinsun rotþróa í Garðabæ, útg. af umhverfisráðuneytinu 19. júní, 1991.

15)  Leiðbeiningar UST-09/01 um rotþrær og siturlagnir, útg. í febrúar 2003.

 

Afrit af gögnum lögmanns kæranda var sent Garðabæ, hér eftir nefndur kærði, með bréfi dags. 28. apríl s.l. Ítrekun var send 25. maí s.l.    Svarbréf kærða dags 7. júní barst nefndinni  og var í því bréfi óskað eftir ótilgreindum fresti meðan unnið yrði að sáttum í málinu.  Bréf var sent kærða að nýju þar sem fram var tekið að ekki væri unnt að veita ótilgreindan frest.  Afrit af bréfi kærða var sent lögmanni kæranda sem greindi frá símtali frá kærða en að ekkert frekar hefði gerst í málinu.  Ítrekaði lögmaður kröfu um úrskurð. Þrátt fyrir ítrekaðar bréfaskriftir til kærða hafa engin gögn borist frá honum.  Með bréfi dags. 14. október, var enn á ný ítrekað við kærða að skila gögnum og honum gerð grein fyrir því að málið yrði ella úrskurðað á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

 

II.

Krafa kæranda er að því verði slegið föstu með úrskurði nefndarinnar að fráveitukerfi fyrir Molduhraun í Garðabæ sé ósamþýðanlegt ákvæðum reglugerðar nr. 798/1999 og að bæjaryfirvöldum í Garðabæ sé skylt að koma þar upp sameiginlegu fráveitukerfi án ástæðulausrar tafar.

Kveður lögmaður kæranda grunnleigusamning hafa verið gerðan milli kæranda og byggingarfyrirtækis sem hafði fengið útlhlutað lóðinni nr. 22 við Miðhraun í Garðabæ, en umrædd lóð sé í svokölluðu Molduhverfi þar í bæ.  Í 7. gr. samningsins sé svohljóðandi ákvæði :

“Hin leigða lóð er í iðnaðarhverfi og er sem slík eingöngu ætlað fyrir iðnaðar- og þjónustustarfsemi.  Aðrar kvaðir :  Kvöð er um rotþró þar til holræsakerfi kemur í hverfið, einnig er kvöð um trjágróður og lagnir eins og sýnt er á viðfestum uppdrætti”

Kveður lögmaður kæranda byggingarfélagið hafa komið fyrir rotþró samkvæmt teikningum og tengt frárennslislagnir frá húsinu við hana.  Siðan hafi félagið selt einstaka húshluta .  Núverandi eigendur húshlutanna hafi stofnað með sér húsfélag sem fram komi fyrir þeirra hönd í máli þessu, en þessir eigendur hafi allir fengið lóðarréttindi sín framseld um leið og þeir festu kaup á eignarhlutum í húsinu.

Lögmaður kæranda kveður að þegar liðið hafi á árið 2001 og komið hafi verið í ljós að rotþróarkerfið í hverfinu hafi hvergi nærri annað hlutverki sínu, hafi bæjarstjóra Garðabæjar verið ritað bréf og bent á að búið væri að leggja holræsakerfi í hverfið í Molduhraun, en frárennsli frá Miðhrauni 22 hafi þó ekki verið tengt við það.  Óskað hafi verið eftir svörum um það hvernig bæjaryfirvöld hygðust standa að tengingu hússins við holræsakerfið og hvenær þess mætti vænta að því lyki.

 

Lögmaður kæranda bendir á að allnokkrar bréfaskriftir hafi orðið milli einstakra eigenda eignarhluta í Miðhrauni 22 og kærða og fylgi nokkur skjöl erindi þessu til að varpa ljósi á hvað farið hafi milli aðila og hvernig haldið hafi verið á málinu af hálfu kærða.  Vísar lögmaður til bréfs bæjarverkfræðings kærða til Rafals ehf. í Kópavogi 24. maí 2002, ( fylgiskjal nr. 7) en þar komi t.d. fram : að vegna kvartana um “tregðu hraunsins við að taka við frárennsli frá rotþróm” hafi bæjaryfirvöld ákveðið að fá óháðan aðila til að gera úttekt á stöðu “þessara mála” í hverfinu.  Verkfræðistofan Línuhönnun hafi verið fengin til þessa verkefnis.  Niðurstöður þeirrar athugunar séu ekki einhlítar, en þó sé ljóst að víðar séu vandamál með frárennsli en frá því eina húsi, sem hafi verið tilefni athugunarinnar.  Síðan komi fram :” Með hliðsjón af framangreindri skýrslu og því ástandi sem hún lýsir hyggjast bæjaryfirvöld bregðast við á þann hátt að flýta undirbúningi byggingar dælustöðvar fyrir hverfið og tengingar skolplagnakerfisins við Hafnarfjörð í samræmi við samning við Hafnarfjarðarbæ þar um “.

Lögmaður kæranda greinir frá því að bæjarverkfræðingur kærða hafi svo ritað eigendum eignarhluta í Miðhrauni 22 bréf 3. febrúar 2003 og kveði þar við nýjan tón.  Komi þar fram að í kjölfar bréfs sem ritað hafi verið 11. nóvember 2002 hafi heilbrigðiseftirlit og þjónustumiðstöð kærða látið gera lauslega úttekt á frárennsliskerfi hússins að Miðhrauni 22.  Niðurstaða þeirrar athugunar hafi verið sú að frárennsliskerfið sé “ í megnasta ólagi og hefur væntanlega aldrei verið lagt í samræmi við reglur þar um.”.  Kveður lögmaður kæranda að í bréfinu séu tiltekin ýmis atriði sem talin séu vera í ólagi og því síðan slegið fram að öll ábyrgð á þessu ástandi sé á ábyrgð kæranda og að þeim beri skylda til að hlutast til um að fundin verði lausn á því sem í ólagi sé.  Meðan ástand rotþróar sé með þessum hætti geti bæjarfélagið ekki réttlætt kostnað við hreinsun rotþróar umfram það sem venjulegt geti talist eða u.þ.b. einu sinni á ári. 

Kveður lögmaður kæranda að fulltrúar kæranda hafi eftir þetta beint skriflegum fyrirspurnum til kærða um hvernig stjórnendur kærða skýri ákvæði reglugerðar um fráveitur og skólp nr. 798/1999 sem virðist eiga við í þessu mál.  Kærendur hafi ekki fengið viðhlítandi svör við þeim spurningum.

Það er skoðun eigenda Miðhrauns 22 að svör kærða við erindum þeirra um þetta mál einkennist af staðföstum ásetningi bæjaryfirvalda um að hundsa ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og hafa að engu fyrirmæli áðurnefndrar reglugerðar, sem sett sé með stoð í þeim reglum .  Hafi þetta valdið eigendum fasteignarinnar umtalsverðum kostnaði og rýri stórlega möguleika þeirra á nýtingu eignarinnar og þar með verðgildi hennar.  Telur kærandi að fullreynt sé að hægt sé að ná nokkru samkomulagi við kærða um lausn á málinu, en fram sé komið að kærði hafi engin áform um aðgerðir í fráveitumálium í fyrirsjáanlegri framtíð, sem leyst geti það vandamál sem þarna sé til staðar. 

Um lagarök vísar lögmaður kæranda til reglugerðar nr. 798/1999 sem sett sé skv. heimild í 5. gr. l. nr. 7/1998.  Telji lögmaður kæranda að eftirtalin ákvæði rgl. komi hér einkum til skoðunar :

1)      Skilgreiningar í 3. grein :

2)      3.10 Fráveita er leiðslukerfi þ..m.t. safnræsi , og búnaður til meðhöndlunar og hreinsunar skólps.

3)      3.16  Iðnaðarskólp er skólp annað en húsaskólp og ofanvatn sem losað er frá húsnæði eða annarri aðstöðu sem notuð ser til atvinnurekstrar.

4)      3.25  Rotþró er tankur til botnfellingar og hreinsunar á föstu sviflægu efni úr skólpi.

5)      Í grein 13.1 er sett sú meginregla, að á öllum þéttbýlisstöðum, þéttbýilissvæðum og eftir atvikum þyrpingu frístundahúsa, skóla og ferðaþjónustumiðstöðva, skuli vera fráveita.  Frá þeirri reglu séu síðan í sömu grein nokkur undantekningarákvæði þar sem hiemilað sé að notast við rotþró og siturleiðslur.  Dæmi um slíkt séu íbúðarhús lögbýla, frístundahús og fjallaskálar.  Ljóst megi vera að stórhýsi í sérstökum iðnaðar- og atinnuhverfjum í stærstu sveitarfélögum landsins falli ekki undir slíkar undantekningar.

6)      Lögmaður kæranda bendir á að ákvæði um fráveitur séu í V. kafla reglugerðarinnar.  Þar komi fram í 16.1:

7)      “Í hverfi íbúðarhúsa, frístundahúsa, atvinnuhúsnæðis og þar sem fram fer umfangsmikið tómstundastarf skal komið á sameiginlegu fráveitukerfi, sbr. þó 3. mgr. 18. gr.  Þar sem skólpi frá einstökum húsum verður ekki veitt í sameiginlega fráveitu skuli veita því eftir vatnsheldum lögnum í rotþrær og siturlög eða sansíu eða annan sambærilegan búnað. 

 

                  

III.

Í máli þessu gerir lögmaður kæranda þær kröfur að úrskurðað verði að fráveitukerfi fyrir Molduhraun í Garðabæ sé ósamþýðanlegt ákvæðum reglugerðar nr. 789/1999 og kærða sé skylt að koma þar upp sameiginlegu fráveitukerfi án ástæðulausrar tafar.  Eins og áður er fram komið hefur kærði engum gögnum skilað þrátt fyrir ítrekanir.

Af gögnum málsins er ljóst að ástand fráveitukerfis í Molduhrauni í Garðabæ er

ekki viðunandi.  Kemur m.a. fram í bréfi kærða dags. 24. maí, 2004 að ljóst sé að víðar séu vandamál með frárennsli en í því eina húsi sem verið hafi tilefni til athugunarinnar.  Þá er greint frá því að við hönnun rotþróa hafi ekki alltaf verið tekið tillit til nauðsynlegrar stærðar miðað við þá starfsemi sem síðar hafi orðið í húsunum, þannig séu siturbeð líklega of stutt og ekki hafi verið losað um hraunklöppina undir siturbeðunum í því skyni að auka lekt hraunsins.

Sú krafa er sett fram í reglugerð nr. 798/1999 að á öllum þéttbýlisstöðum, þéttbýlissvæðum og eftir atvikum þyrpingu frístundahúsa, skóla og ferðaþjónustumiðstöðva skuli vera fráveita.  Í sömu reglugerð kemur fram að þar sem skólpi verði ekki veitt í sameiginlega fráveitu skuli veita því í rotþrær.  Í samþykkt nr. 329/1991 um notkun og hreinsun rotþróa í Garðabæ kemur fram skylda bæjarins til þess að hreinsa og tæma rotþrær. Ennfremur kemur þar fram heimild kærða til þess að innheimta viðbótargjald fyrir óvenjumikinn kostnað við hreinsun og tæmingu.  Af framansögðu er ljóst að kærði ber ábyrgð á hreinsun rotþróa.   Með vísun til framangreinds er fallist á þá kröfu kæranda að fráveitukerfi og hreinsun rotþróa við Molduhraun í Garðabæ sé ekki í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 798/1999.  Vísað er frá kröfu kæranda um að kærða sé skylt að koma upp sameiginlegu fráveitukerfi.  Ekki er á verksviði nefndarinnar að kveða á um slíkt.

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á kröfu kæranda um að fráveitukerfi við Molduhraun í Garðabæ sé ekki í samræmi við ákvæði rgl. nr. 798/1999.  Kröfu kæranda um að kærða sé skylt að koma upp sameiginlegu fráveitukerfi er vísað frá.

 

 

 

                                                   

 

___________________________________

       Lára G. Hansdóttir

 

 

_________________________         ___________________________

              Gunnar Eydal                                Guðrún Helga Brynleifsdóttir
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira