Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 364/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 364/2020

Miðvikudaginn 18. nóvember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 23. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. maí 2020 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2019 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 128.755 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. júlí 2020. Með bréfi, dags. 24. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. ágúst 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að vorið 2019 hafi kærandi komið í viðtal hjá Tryggingastofnun ásamt X sinni til að fá upplýsingar um hversu háar tekjur hún mætti hafa á árinu án þess að örorkulífeyrir hennar myndi skerðast. Tilefnið hafi verið það að kæranda hafi boðist að vinna verkefni og hún hafi ekki vitað hvernig það myndi ganga eða hvað hún gæti fengið greitt fyrir og vildi því kynna sér nákvæmlega reglurnar til þess að lenda ekki í ofgreiðslu. Kærandi hafi áætlað að tekjur hennar gætu orði 400.000 til 600.000 kr. á árinu.

Samkvæmt upplýsingum ráðgjafans mætti hún vera með um 109.000 kr. á mánuði eða um 1.300.000 kr. yfir árið. X kæranda sé til vitnis um það. Síðar um sumarið hafi kærandi haft aftur samband við Tryggingastofnun til að fullvissa sig um að hún væri að gera rétt og hafi fengið sömu svör. Kærandi hafi gert nákvæmlega eins og henni hafi verið ráðlagt.

Síðar hafi komið í ljós að upplýsingar ráðgjafans hafi ekki staðist. Tekjur kæranda hafi verið á því bili sem hún hafi sagt eða um 400.000 kr. en hún hafi fengið kröfu frá Tryggingastofnun upp á 128.755 kr. sem kærandi sé mjög ósátt við. Kærandi telji að hún hafi fengið rangar upplýsingar frá Tryggingastofnun og að hún hafi farið nákvæmlega eftir þeim leiðbeiningum sem henni hafi verið gefnar. Það sé mjög slæmt ef ráðgjafar stofnunarinnar hafi ekki betri skilning á almannatryggingakerfinu og gefi örorkubótaþegum rangar leiðbeiningar sem hafi svo skaðleg áhrif á þá. Kærandi fari fram á að Tryggingastofnun beri ábyrgð á rangri upplýsingagjöf og felli niður kröfuna. Framfærsla kæranda sé svo lág að hún geti ekki lifað á henni. Í X hafi hún þurft að frysta íbúðarlánin þar sem að hún hafi ekki náð endum saman. Kærandi megi ekki við frekari skerðingum á tryggingabótum sínum. Áhyggjur af afkomu hafi mjög slæm áhrif á viðkvæma heilsu hennar. Það sé þungt högg að þurfa að greiða þessa upphæð til baka og við það lækki tekjur hennar til langs tíma sem hún telji vera mjög ósanngjarnt.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2019 og einnig sé óskað eftir niðurfellingu ofgreiðslukröfunnar.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Í 9. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007 sé fjallað um sérstaka uppbót til framfærslu. Þar segi meðal annars að heimilt sé að greiða örorkulífeyrisþega sem fái greitt samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þeirrar uppbótar. Til tekna samkvæmt ákvæðinu teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki séu taldar fram hér á landi. Við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu skuli telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um almannatryggingar skuli þó teljast að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að ekki skuli telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar samkvæmt 21. gr. laga um almannatryggingar.

Á árinu 2019 hafi kærandi verið með örorkulífeyrisgreiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 128.755 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2020 vegna tekjuársins 2019 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun þann 18. janúar 2019. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að á árinu 2019 væru lífeyrissjóðstekjur kæranda 1.922.721 kr. og vextir og verðbætur 43.968 kr. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi henni verið greitt samkvæmt henni allt árið 2019.

Við bótauppgjör ársins 2019 hafi komið í ljós að kærandi hafði verið með 1.907.533 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 400.000 kr. í reiknað endurgjald, 102.789 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi og 17.312 kr. í vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi verið sú að kæranda hafi verið ofgreitt í bótaflokknum sérstök uppbót til framfærslu.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu 2.751.159 kr. en hafi átt að fá greitt 2.546.981 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 128.755 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu hafi verið send samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna og því sé óskað eftir frávísun á þeim lið kærunnar þar sem ekki hafi verið fjallað efnislega um beiðni kæranda um niðurfelllingu.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2019.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2019. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða örorkulífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án hennar. Til þess að eiga rétt á uppbót þurfa heildartekjur að vera undir ákveðinni fjárhæð sem hefur verið hækkuð árlega. Til tekna teljast allar skattskyldar tekjur, sbr. 3. mgr. sömu greinar, þar á meðal reiknað endurgjald og hagnaður af atvinnustarfsemi. Í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur fram að við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt 2. mgr. skuli telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar skuli þó teljast að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að ekki skuli telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar samkvæmt 21. gr. laga um almannatryggingar.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. janúar 2019, var kæranda send tekjuáætlun vegna ársins 2019 þar sem gert var ráð fyrir 1.922.721 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 43.968 kr. í vexti og verðbætur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út frá þessum tekjuforsendum. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2019 reyndist kærandi vera með 1.907.533 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 400.000 kr. í reiknað endurgjald, 102.789 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 15.996 kr. í frádrátt vegna iðgjalds í lífeyrissjóð og 17.312 kr. í fjármagnstekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós 128.755 kr. ofgreiðslu á árinu 2019.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2019 en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða reiknað endurgjald og hagnað af atvinnustarfsemi en lífeyrissjóðstekjur reyndust örlítið lægri á árinu. Reiknað endurgjald og hagnaður af atvinnustarfsemi teljast til tekna við útreikning sérstakrar uppbótar til framfærslu samkvæmt 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð var tekjuviðmið sérstakrar uppbótar á árinu 2019 þegar einstaklingur fær greidda heimilisuppbót 310.800 kr. á mánuði. Á árinu 2019 voru mánaðartekjur kæranda yfir þeirri fjárhæð og kærandi átti þar af leiðandi ekki rétt á sérstakri uppbót sökum tekna.

Ástæðu þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að rekja til þess að umræddir tekjustofnar voru vanáætlaður í tekjuáætlun. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Í kæru fer kærandi fram á niðurfellingu ofgreiddra bóta sökum lágrar framfærslu og byggir jafnframt á því að hún hafi fengið rangar leiðbeiningar hjá ráðgjafa Tryggingastofnunar. Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins er til skoðunar hjá stofnuninni hvort tilefni sé til að fella niður endurgreiðslukröfuna með vísan til framangreinds reglugerðarákvæðis en málið er enn í gagnaöflun. Úrskurðarnefnd velferðarmála vill benda kæranda á að þegar sú ákvörðun Tryggingastofnunar liggur fyrir getur hún kært hana til nefndarinnar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2019.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A á árinu 2019, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira