Mál nr. 602/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 602/2024
Miðvikudaginn 22. janúar 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 23. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. nóvember 2023, um stöðvun greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða og uppbótar vegna reksturs bifreiðar frá og með 1. febrúar 2021, endurreikning bótaáranna 2021 til 2023 og innheimtu ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi, dags. 6. október 2023, var kærandi upplýstur um að við eftirlit Tryggingastofnunar ríkisins hafi vaknað grunur um að búseta hans hefði verið í Póllandi síðan á árinu 2021. Kærandi var boðaður til fundar hjá Tryggingastofnun fimmtudaginn 19. október 2023 til þess að fara yfir málið. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 20. október 2023, var greint frá því að kærandi hefði ekki mætt í boðað viðtal og ekki boðað forföll. Kæranda var veittur frestur til 3. nóvember 2023 til þess að koma að rökstuddum andmælum ef grunur Tryggingastofnunar væri ekki á rökum reistur. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. nóvember 2023, var greint frá því að engar athugasemdir hefðu borist frá kæranda. Kæranda var tilkynnt um stöðvun félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða og uppbótar vegna reksturs bifreiðar frá og með 1. febrúar 2021, endurreikning bótaáranna 2021 til 2023 og að fyrir lægi krafa að fjárhæð 3.870.165 kr.
Kærandi óskaði eftir niðurfellingu á ofgreiðslukröfu með umsókn, dags. 7. febrúar 2024, þar sem fram kom meðal annars að hann hafi misskilið reglur varðandi dvöl á Íslandi í tengslum við félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Kæranda var synjað um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. mars 2024. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með tölvupósti 20. mars 2024 og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 30. apríl 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 19. desember 2024, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 27. desember 2024.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að á árinu 2023 hafi kærandi fengið bréf frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem hann sé krafinn um endurgreiðslu að fjárhæð 3.870.165 kr. Tryggingastofnun hafi byggt á því að kærandi hefði ekki búið á Íslandi í þrjú ár. Kærandi hafi búið á Íslandi og verið með lögheimili skráð hjá leigusala. Leigukostnaðurinn sé hærri en tekjur kæranda. Kærandi búi nú hjá fjölskyldu sinni og hafi verið skráður síðan í nóvember 2023. Þegar kærandi hafi breytt heimilisfangi sínu hafi vandamál komið upp þar sem Tryggingastofnun hafi afskráð kæranda án hans vitundar og samþykkis, sem hafi leitt til þess að viðbótarstuðningur við aldraða hafi verið felldur niður. Kærandi hafi ekki nein skjöl sem staðfesti að hann sé að greiða skuldina af frjálsum vilja. Tryggingastofnun innheimti skuld að fjárhæð 60.000 kr. og kærandi sé einnig að greiða skuld að fjárhæð 200.000 kr. til Tryggingastofnunar frá október 2023.
Pólskumælandi starfsmaður, sem hafi aðstoðað kæranda varðandi félagslegan viðbótarstuðning við aldraða, hafi ekki sagt honum frá reglunum heldur hafi einungis fyllt út umsóknina og sagt honum að skrifa undir. Kærandi spyr hvernig hann geti leigt eitthvað og lifað á 150.000 kr. á mánuði. Kærandi sé nú á bið eftir félagslegu húsnæði. Óskað sé endurskoðunar á málinu.
Í athugasemdum kæranda frá 27. desember 2024 segir að kærandi leggi áherslu á að hann sé lífeyrisþegi með varanlega fötlun eftir vinnuslys á byggingasvæði á Íslandi. Þess vegna eigi hann að hans mati rétt á viðbót við ellilífeyri frá Tryggingastofnun.
Í tengslum við vandamál tengd dvöl hans utan Íslands vilji kærandi benda á að lífeyrisþegi eins og hann megi dveljast utan landsins í allt að sex mánuði en ellilífeyrisþegi einungis í þrjá mánuði. Kærandi hafi fyrst fengið skriflegar opinberar upplýsingar um þessar reglur, þýddar á pólsku, í nóvember 2024.
III. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. nóvember 2023, um stöðvun greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða og uppbótar vegna reksturs bifreiðar frá og með 1. febrúar 2021, endurreikning bótaáranna 2021 til 2023 og innheimtu ofgreiddra bóta.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Samkvæmt gögnum málsins leið tæplega ár frá því kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 27. nóvember 2023, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. nóvember 2024. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 27. nóvember 2023 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í kæru er ekki að finna útskýringu á því hvers vegna kæran barst ekki til úrskurðarnefndarinnar innan kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. desember 2024, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Í athugasemdum kæranda frá 27. desember 2024 kemur meðal annars fram að kærandi hafi fyrst fengið skriflegar opinberar upplýsingar um reglur varðandi dvöl á Íslandi, þýddar á pólsku, í nóvember 2024.
Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur talið að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda verður ekki ráðið af gögnum málsins að ágalli sé á hinni kærðu ákvörðun sem leitt gæti til ógildingar hennar. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir