Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 2/2025-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 2/2025

Miðvikudaginn 5. mars 2025

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 2. janúar 2025, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að draga eldri bifreiðastyrk frá nýjum styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddan styrk til bifreiðakaupa að fjárhæð 1.440.000 kr. í janúar 2020. Með umsókn 5. júlí 2024 sótti kærandi um styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið. Með bréfi, dags. 19. september 2024, var umsóknin samþykkt. Þann 24. september 2024 var kæranda greiddur styrkur til kaupa á sérútbúinni bifreið að frádregnum 1.440.000 kr. Með bréfi til Tryggingastofnunar frá umboðsmanni kæranda, dags. 15. nóvember 2024, var óskað eftir upplýsingum um ástæðu þess að eldri styrkur hefði verið dreginn frá nýja styrknum. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 12. desember 2024, var kæranda tilkynnt um að þar sem ekki væru liðin fimm ár frá síðustu greiðslu myndi öll fjárhæð fyrri styrkst dragast frá nýja styrknum. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. janúar 2025. Með bréfi, dags. 8. janúar 2025, var óskað eftir greinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins ásamt gögnum málsins. Með greinargerð, dags. 31. janúar 2025, óskaði Tryggingastofnun eftir því að kæru yrði vísað frá með þeim rökstuðningi að ný ákvörðun hefði verið tekin í máli kæranda. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 11. febrúar 2025, og var beiðnin ítrekuð með tölvupósti 26. febrúar 2025. Engin svör bárust frá kæranda.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að heilsa kæranda fari versnandi með hverju árinu sem líði og nú þurfi hann snúningssæti fyrir bílstjóra og lyftu fyrir hólastól. Kærandi hafi fengið greiddan styrk að fjárhæð 1.440.000 í janúar 2020. Kærandi hafi rætt við starfsmann Tryggingastofnunar um að það væru þrír mánuðir þangað til fimm ár væru liðin frá veitingu síðasta styrks. Starfsmaðurinn hafi tjáð honum að það væri ekkert mál, þessir þrír mánuðir yrðu dregnir af styrknum. Með þessa vitneskju hafi kærandi sótt um styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið. Þegar styrkurinn hafi komið hafi þó vantað tæplega 1.500.000 kr. upp á og þá hafi komið í ljós að eldri styrkurinn hafi verið dreginn frá að fullu. Kærandi hafi því þurft að taka lán fyrir þeirri fjárhæð.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í kjölfar kæru hafi verið ákveðið að skoða ákvörðun stofnunarinnar.

Kærð hafi verið ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 19. september 2024, þar sem kærandi hafi fengið samþykktan styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið. Í ákvörðuninni komi fram að samþykktur hafi verið 60% styrkur af grunnverði bifreiðar án aukabúnaðar, þó ekki hærri en 7.400.000 kr. Ef um hreinan rafbíl væri að ræða væri samþykkt að veita 66% styrk af grunnverði bifreiðar án aukabúnaðar en þó ekki hærri en 8.140.000 kr.

Ákveðið hafi verið að endurskoða ákvörðun Tryggingastofnunar þar sem reiknað hafi verið með styrk sem kærandi hafi fengið greiddan í janúar 2020, að fjárhæð 1.440.000 kr., inn í samþykkta fjárhæð nýs styrks. Með þeirri ákvörðun hafi fjárhæð styrks til kaupa á sérútbúinni bifreið lækkað um 1.440.000 kr. Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sé heimilt að greiða uppbætur og styrki á fimm ára fresti. Í 9. gr. komi fram að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. eða styrk skv. 7. gr. og sjúkdómsástand hans versni þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 8. gr. sé á sama hátt heimilt að greiða mismun fjárhæðanna. Styrkur geti þó samtals aldrei verið hærri en 7.400.000 kr. eða 8.140.000 kr. á fimm ára fresti.

Ákveðið hafi verið að taka nýja ákvörðun í máli kæranda og greiða fullan styrk vegna kaupa á sérútbúinni bifreið þar sem fimm ár frá síðasta styrk hefðu verið liðin í janúar 2025, þremur mánuðum eftir samþykktarbréf, og það hafi láðst að taka fram í bréfi til kæranda að hann ætti ekki rétt á fullri fjárhæð styrks til kaupa á sérútbúinni bifreið. Tryggingastofnun ítreki þó að fimm ár verði að líða á milli uppbóta- eða styrkveitinga vegna bifreiða. Vakin sé athygli á því að full fjárhæð styrks eða uppbótar endurnýist ekki fyrr en að fullum fimm árum liðnum frá síðustu úthlutun. Ef sótt sé um nýja úthlutun áður en fimm ár séu liðin sé ekki reiknað út frá þeim mánuðum sem eftir séu frá síðustu úthlutun, heldur endurnýist öll fjárhæðin eftir fimm ár.

Þar sem ný ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda fari Tryggingastofnun fram á að kæru verði vísað frá.

 

IV.  Niðurstaða

Kærumál þetta varðaði upphaflega ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um draga eldri bifreiðastyrk að fjárhæð 1.440.000 kr. frá nýjum styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið. Eftir að kæra barst tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun þar sem fallið var frá þeirri ákvörðun að draga eldri bifreiðastyrkinn frá nýja styrknum og kæranda voru greiddar 1.440.000 kr. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2025, sem var ítrekað með tölvupósti 26. febrúar 2025, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til nýrrar ákvörðunar stofnunarinnar en engin svör bárust frá kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar eru á sem grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, m.a. um kærurétt til úrskurðarnefndar velferðarmála og um hækkun bóta. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur fallist á að greiða kæranda fullan styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið og hefur greitt honum þær 1.440.000 kr. sem voru upphaflega dregnar frá styrknum. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta